Eiga sérfræðingar samleið með VR?

Ólafur Nielsen
Feb 28, 2018 · 3 min read

Ég stend eiginlega á gati yfir fréttum af yfirlýsingu stjórnar VR sem vill segja upp kjarasamningum. Manni fallast hendur.

Ég er framkvæmdastjóri Kolibri en hjá okkur starfa 30 manns. Við erum nær öll sérfræðingar sem starfa við ráðgjöf og hugbúnaðarþróun. Þjónusta okkar gengur út að hjálpa fyrirtækjum að verða betri í nýsköpun.

Það er langalgengast að starfsmenn okkar séu félagsmenn VR. Einhverjir eru í félögum á borð við Verkfræðingafélagi Íslands eða Félagi tölvunarfræðinga. Margir kjósa að standa utan stéttarfélaga.

Hjá okkur felast verðmætin í fólkinu. Það er strategískt mál að búa til frábært starfsumhverfi og greiða fólki góð laun. Það höfum við gert og það munum við halda áfram að gera.

Þess vegna gerum við betur en kjarasamningar kveða á um á öllum vígstöðvum. Það er hluti af því að ná árangri.

Laun hjá okkur hafa hækkað langt umfram gildandi kjarasamninga á undanförnum þremur árum. Við höfum keypt launakannanir og sjáum að sama er uppi á teningnum hjá sérfræðingum í fyrirtækjunum í okkar geira.

Við höfum ofan á kjarasamninga upplifað launaskrið sem ríkið á stóran þátt í að hafa komið af stað en við erum líka á markaði þar sem fólk er eftirsótt. Við höfum einfaldlega þurft að laga reksturinn að þessu. Hjá fyrirtæki þar sem kostnaðurinn er nær allur launakostnaður er óumflýjanlegt að velta því út í verðið.

Hjá Kolibri eru laun opin. Þegar kemur að launum eru engin leyndarmál. Þú veist nákvæmlega hvar þú stendur í samanburði við samstarfsfélaga þína. Fjármál fyrirtækisins eru líka opin öllum starfsmönnum.

Þegar við höfum greitt út arð hefur honum verið deilt með starfsmönnum. Við greiðum fyrir yfirvinnu þó það sé ekki normið á markaðnum. Og við höfum greitt hærri desemberuppbót en okkur ber að gera af því það gengur vel hjá okkur. Og við greiðum að sjálfsögðu net, síma, líkamsræktarstyrk, og samgöngustyrk.

Við erum ráðgjafafyrirtæki sem hefur tekjur sínar af því að selja vinnu en við skilgreinum 2 daga í mánuði sem úrvalstíma þar sem starfsmenn geta þróað sig áfram, lesið sér til, sótt námskeið eða annað þess háttar.

Við gerum þetta af því það er skynsamlegt að tengja saman hag fyrirtækisins og hag starfsmanna. Fjárfesting í fólkinu okkar er fjárfesting til framtíðar.

Fyrir þremur árum ætlaði VR að fara í verkfall. Í einfeldni okkar héldum við að það gæti ekki verið að það myndi ná til okkar starfsmanna en þannig virka víst verkföllin. Starfsmenn Kolibri sem voru í VR stigu forviða fram og spurðu hvort ekki væri hægt að komast framhjá þessu því þeir hefðu engan áhuga á að fara í verkfall. Einhverjir sögðu sig úr félaginu eftir að kjarasamningar náðust en fólk heldur svo bara áfram að vinna og hættir að pæla í þessu.

En nú á aftur að draga fram fallbyssuna. Á sama tíma hefur kaupmáttur aldrei vaxið meira og við eygjum von um að hér myndist stöðugleiki til lengri tíma. Fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi. Samkeppnishæfara Ísland. Því verður að segjast að forysta VR gengur fram af ótrúlegu ábyrgðarleysi.

Margir hafa þann draum að að útflutningur á þekkingu verði ein af undirstöðum atvinnu hér á landi. Grundvallarforsenda fyrir því er að hér sé fyrirsjáanleiki í rekstri. Þetta er ekki leiðin að því markmiði.

VR hefur notið vinsælda í hópi sérfræðinga. Það hefur verið eins konar “go-to” félag þess hóps. En eiga sérfræðingar einhverja samleið með þessu félagi lengur?

  Ólafur Nielsen

  Written by

  Strategíuráðgjafi með áherslu á stafrænan árangur og nútímalega stjórnunarhætti.

  Welcome to a place where words matter. On Medium, smart voices and original ideas take center stage - with no ads in sight. Watch
  Follow all the topics you care about, and we’ll deliver the best stories for you to your homepage and inbox. Explore
  Get unlimited access to the best stories on Medium — and support writers while you’re at it. Just $5/month. Upgrade