Hatur, hræðsla og stjórnmál.

Að geta haft mismunandi skoðanir er almennt séð jákvætt. Það telja að minnsta kostir flestir sem ég hef talað við. En það sem ég tel vera mikilvægt er að skoða hvernig þær skoðanir myndast og hvort þær eiga sér stoð í raunveruleikanum. Að leyfa sér að stjórnast af hræðslu, hatri eða þekkingarleysi er eitt af því versta sem ég gæti ímyndað mér. Það er margt í heiminum sem ég skil ekki; ég skil ekki hvernig fuglar fljúga, ég skil ekki hvernig flugvélar haldast á lofti og ég skil ekki nákvæmlega hvernig íslenski efnahagurinn virkar að öllu leyti. En það að ég væri alfarið á móti öllum þessum hlutum af þessum ástæðum, þ.e að ég skyldi þá ekki, væri gjörsamlega glatað.

Mér líður oft eins og fólk sé hrætt við myrkrið eða óvissuna og það er ég líka stundum. Hvað ef að Ísland myndi til dæmis taka við þúsundum flóttamanna? Yrðu „íslensk gildi“ og „íslensk þjóðmenning að engu“? Það er engin leið til að svara því með fullri vissu. En það þýðir samt ekki að leyfa svartsýnisröddum eða neikvæðni að ráða umræðunni. Það má leyfa sér að vera eins jákvæður eins og maður leyfir sér að vera svartsýnn. Kannski myndu allir flóttamenn aðlagast fullkomlega að íslensku samfélagi — þeir myndu læra fullkomna íslensku — jafnvel læra að syngja lagið „Ferðalok (ég er kominn heim“ í fyllerísástandi á óþekktum bar. En það er ólíklegt að það gerist.

Það þýðir þó ekki að allt færi fyrir bý, þó að fólk myndi ekki aðlagast fullkomlega. Það er enginn einn sannleikur. Það sem ég veit er að við vitum ekki hvað myndi gerast ef Ísland myndi taka við þúsundum flóttamanna. Ég tel það líklegt að sumir myndu aðlagast íslensku samfélagi býsna vel. Flestir myndu vilja vinna, flestir myndu vilja taka þátt og hjálpa, flestir myndu verða þakklátir fyrir að sleppa úr stríðsátaka og ömurðar heimalands síns.

Það yrði gjörsamlega katastrópískt að leyfa umræðu að stjórnast af hræðsluáróðri og skilningsleysi. Það að geta fundið til samkenndar og að vilja hjálpa öðrum er eins eftirsóknarverðasti hæfileiki sem fólk hefur að mínu mati — sama hvaða ríkisborgararétt manneskja hefur. En það er kannski bara ég að vera einfaldur. Ég veit að lífið er ekki svart og hvítt. En ég veit að við getum að minnsta kosti reynt að vera góð.