Hæ 2018

Ég fer vongóð inn í árið 2018, eins og reyndar flest ár. Veit ekki almennilega af hverju en ég er samt almennt hrifnari af sléttum tölum en oddatölum þannig að kannski er ákveðinn léttir að við séum farin úr 17 í 18.

Árið hjá mér byrjar mjög skemmtilega því að um miðjan janúar er ég að fara til Lima, Perú vegna þátttöku minnar í verkefni sem kallast MIT REAP. En úr því að maður er að fara á svona spennandi stað fannst mér bara alveg upplagt að bjóða eiginmanninum með og lengja ferðina og fá tækifæri til að skoða Machu Picchu o.fl. sem verður örugglega ævintýri. Það mun líklega taka smá á fyrir okkur að fara frá einkadótturinni en ég veit að hún verður í öruggum og góðum höndum. Vonandi fáum við svo fleiri tækifæri til að ferðast á þessu ári og taka dóttur okkar með en eitt er víst að það verður að minnsta kosti ferðast um landið í sumar, eins og önnur sumur.

Ég hlakka til að fylgjast með hvað 2018 gefur okkur hvað varðar nýsköpun og tækni, bæði hérlendis og erlendis. Að minnsta kosti mætti segja mér að við eigum von á einhverju skemmtilegu þegar áherslan á hugvit og nýsköpun kemur svona skýrt fram í áramótaávörpum bæði Forseta Íslands og Forsætisráðherra.

Ég er sannfærð um að það hefur aldrei verið betra að vera frumkvöðull en núna. Því að aldrei hefur það verið auðveldara að læra eitthvað nýtt (í gegnum alla þá miðla sem internetið býður upp á) og aldrei verið eins auðvelt að eiga samskipti við annað fólk, hvar sem er í heiminum. Það á líka enn eftir að gerast umbylting (disruption) í svo mörgum atvinnugreinum á sama hátt og umbylting hefur orðið í neyslu tónlistar, kvikmynda, hvernig við pöntum okkur leigubíl, reddum okkur gistingu o.s.frv. Við eigum t.d. eftir að sjá gríðarlegar breytingar/umbyltingu í framleiðslugeiranum og í bankastarfsemi svo eitthvað sé nefnt. Svo er eiginlega geim-”bransinn” að verða hrikalega spennandi með tilkomu SpaceX, eitthvað á spennandi eftir að gerast þar á næsta ári.

Um vinnustaðinn sem ég starfa hjá, Marel.

Marel er orðið eins og stórt og öflugt flugmóðurskip og undir styrki stjórn Árna Odds Þórðarsonar hefur það náð gríðarlegum árangri síðustu ár.

Ég trúi því að á árinu 2018 verði vörustjórnun og vörumarkaðssetning gefinn meiri gaumur en áður, lyft upp á hærra plan til að við getum sem best þjónustað okkar viðskiptavini, og við munum nýta internetið mun betur til að ná til þeirra og þjónustu þá.

Ég reikna með að upplýsingatæknimálin munu verða sett í meiri fókus á árinu 2018. Það þarf mikið hugrekki til að henda út úreltum kerfum, innleiða ný, gefa starfsmönnum bestu mögulegu tól til að vinna með, efla samstarf sín á milli yfir netið (sem er aldrei mikilvægara en í alþjóðlegu fyrirtæki) og setja pening í sjálfvirknivæðingu til að stytta ferla og minnka bakvinnslu, en ef þetta verður gert þá verður okkur allir vegir færir og við tilbúin í slaginn á tímum fjórðu iðbyltingarinnar.

Nýsköpun er eitt af gildum Marel og að mínu mati það mikilvægasta af þremur. Þar sem nokkuð margar vörur Marels eru komnar á top líftímakúrfunnar á ég von á því að við hjá Marel séum að fara að gera skýrari skil á milli þróunar og reksturs á árinu 2018 og að við munum setja meira púður í þriðja stig nýsköpunar, þar sem fyrsta stigið eru endurbætur á vörum sem við seljum, annað stigið er þróun á nýrri tækni og þriðja stigið er þróun á einhverju algjörlega nýju fyrirbæri sem leyfir okkur að ýta núverandi tækni á hærra stig en áður.

Að einbeita sér að þriðja stiginu getur þó verið flókið fyrir fyrirtæki sem er eins stórt og Marel (um 5000 starfsmenn í 30 löndum). Því finnst mér það vera algjörlega borðleggjandi fyrir Marel að taka þátt í, eða hreinlega búa til sinn eigin, nýsköpunarhraðal. Þá mundi Marel slá nokkar flugur í einu höggi eins og mörg stórfyriræki víða um heim:

  1. Marel mundi þá hafa stað til að þróa nýjar vörur/þjónustu fyrir viðskiptavini sína sem ekki hefði hömlur hins hefðbundna skipulags stórfyrirtækis og nægt rými til að fara langt út fyrir boxið.
  2. Ímynd fyrirtækisins eflist því ef Marel vill hafa það að leiðarljósi og fjárfesta í að til verði ný nýsköpunarfyrirtæki hérlendis (eða erlendis) sem byggir á þeirri gríðarlegu þekkingu og hugmyndaauðgi sem til er innan Marel.
  3. Aðgangur að hæfileikaríku fólki sem er er sterkt í nýsköpunar- og frumkvöðlahugsun og getur/vill vinna hratt og óheflað.

Það að setja upp svona nýsköpunarhraðal með fókus á matvælavinnslu er kostnaðarsamt, en ef þakið fer af endurgreiðslunni af rannsóknar- og þróunarkostnaði og Marel fær 20% af endurgreiðslu af öllu því sem við þróum hérlendis (eins og ný ríkisstjórn lofar), þá veit ég hvað við gætum gert fyrir peninginn!

Og að lokum um Marel.

Ef ég ætti eina ósk fyrir Marel á næsta ári væri óskin sú að við gætum gefið þeim hæfu starfsmönnum sem starfa hjá Marel sterkari rödd, skýrar línur og hlutverk og frelsi til frumkvæðis og framkvæmda sem einstaklingar og sem hópar.

Hirarchy er að mínu mati dautt fyrirbæri og allt núna snýst um samvinnu í kringum verkefni. Allt sem við getum gert til að vinna hraðar saman að þeim mikilvægu verkefnum sem eru framundan er af hinu góða. Því að nú til dags skiptir það í raun mestu máli að vera sneggstur með lausnirnar, ekki stærstur.

Að öðru.

Nokkur orð um Sensa sem er fyrirtæki sem ég sit í stjórn hjá og hef miklar mætur á. Eftir sameiningar síðustu ára er Sensa á blússandi gangi og það er ekki efi í mínum huga að árið 2018 mun verða þeim gjöfult og gott. Hjá Sensa starfar samrýndur hópur með gríðarlega mikla og djúpa upplýsingatækni-þekkingu sem ég óska sem flestum að komast í tæri við. Það er líka nokkuð merkilegt að þessu fyrirtæki er (og hefur verið í langan tíma) stjórnað af kvenskörungnum Valgerði Hrund Skúladóttur og í stjórn Sensa sitja 3 konur og 2 karlar sem er ekki alvanalegt í upplýsingatæknifyrirtækjum þessa lands.

Það verða líka spennandi tímar í Vísinda- og tækniráði þar sem markmiðið er að Ísland skilgreini þær alþjóðlegu áskoranir sem við sem þjóð ætlum okkur að taka þátt í. Þetta er nokkuð sem þjóðirnar í kringum okkur hafa þegar gert og er algjörlega tímabært fyrir okkur að gera líka. Sjálfbærni, umhverfismál, málefni hafsins í kringum okkur og jafnvel friður og jafnrétti væri e.t.v. eitthvað sem lendir á okkar lista yfir þau mál sem við erum góð í og gætum beitt okkur fyrir á næstu árum, hafið fleiri vísindarannsóknir og þróað fleiri tækniundur sem hjálpa til við að gera heiminn að betri stað.

Ég hlakka líka til að vinna með áfram því hæfa fólki vinnur innan Samtaka iðnaðarins og hjá Tækniþróunarsjóði á næsta ári og hlakka til að sjá hvaða næstu nýsköpunarfyrirtæki verða að nýsköpunarstjörnum á árinu.

Að lokum hlakka ég til að sjá hvaða hugrökku ákvarðanir koma frá þeim hæfileikaríku konum sem stjórna ráðuneytum forsætis, nýsköpunar og menntamála á Íslandi. Þetta verður eitthvað.

Gleðilegt 2018.

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.