Kæra næsta ríkisstjórn, mætti ég biðja um tækni- og hugvitsráðherra?

Mig langar að Íslendingar eignist tækni- og hugvitsráðherra. Sem sagt ráðherra sem hefur það hlutverk, í stórum dráttum, að halda utan um þann stóra hóp sem vinnur við að nýta hugvitið alla daga. 
 
 Ég er að tala um fólkið sem starfar hjá ýmsum tæknifyrirtækjum, fjarskiptafyrirtækjum, í kvikmyndaiðnaði, við tónlist, við leiklist, hjá sprotafyrirtækjum, við myndlist, vöruþróun, vöruhönnun, grafíska hönnun og ýmislegt fleira. 
 
 Þetta er ekki bara einhver óskhyggja hjá manneskju sem er með tækni á heilanum. Við erum að tala um alvöru tækifæri. Tækifæri til að auka verðmætasköpun hér. Nýlega kom í ljós að tækni- og hugvit er stærri iðnaður en ég áttaði mig á. Mun stærri. Samtök iðnaðarins tóku nýverið saman hversu stórt hlutfall tækni- og hugvitsgreinarnar eiga í landsframleiðslu og kom í ljós að hlutfall þessar greinar er 9,6% af landsframleiðslu árið 2015. Til samanburðar var hlutfall stóriðju 3,1% af landsframleiðslu (skv. Samtökum iðnaðarins), hlutfall ferðaþjónustu um 10% og sjávarútvegar um 12% (skv. greiningardeild Arion banka).

Ástæðan fyrir því að mig langar að fá tækni- og hugvitsráðherra er sú að ég tel að þessi atvinnugrein, ef við getum kallað tækni- og hugvit svo, byggir ekki á takmörkuðum náttúruauðlindum eins og hinar aðalatvinnugreinarnar sem við reiðum okkur svo mikið á. Þessi grein byggir á hugviti sem er takmarkalaust og ég trúi því við eigum virkilega séns. 
 
 Síðustu ár höfum við sé gríðarlegan vöxt hjá tæknifyrirtækjunum og þá er ég ekki bara að tala um það sem Össur, Marel og CCP eru að skila. Ég er að t.d. tala um þann aragrúa upplýsingatæknifyrirtækja sem við eigum, öll þau leikjafyrirtæki sem hér eru starfrækt og öll sprotafyrirtæki sem hafa orðið til og staðið sig vel. 
 
 Ef við ættum tækni- og hugvitsráðherrra gætum við sett mun stærri fókus á að hagnýta vísindastarfið og þær rannsóknir sem við erum að vinna að í háskólum landsins. Við gætum sinnt þessum málum betur á öllum skólastigum. Við gætum orðið alvöru þátttendur í þeirri gríðarlegu tæknibyltingu sem á sér stað, fjórðu iðnbyltingunni. Verið framarlega í stað þess að elta bara löndin í kringum okkur. Við gætum ýtt undir meiri nýsköpun bæði innan fyrirtækja og með því að skapa ný fyrirtæki. Við gætum hugsanlega verið að gera svo flotta hluti fyrir nýsköpun í landinu að fólk með þekkingu sem okkur vantar mundi vilja setjast hér að. 
 
 Ef við setjum fókus á tækni- og hugvit trúi ég því að við munum auka útflutniningstekjur okkar mun meira en ef við gerum það ekki. Við gætum gert tækni- og hugvit að alvöru útflutningsgrein. Grein sem byggir ekki á náttúruauðlindum. Fjórða stoðin er fundin. Það er alveg kominn tími á við setjum eggin okkar í fleiri körfur, ekki satt?
 
Kannski er þetta bara óskhyggja hjá manneskju sem trúir endalaust á það að tækni og listir sé blanda sem felur í sér galdra. Óskhyggja hjá manneskju sem heldur að Íslendingar hafi einstaklega mikla hæfileika þegar kemur að því að skapa og eru fáránlega snöggir að tileinka sér nýja hluti, nýja tækni. 
 
 Af hverju ekki nýta þetta betur? Ég er búin að reyna að finna rök á móti þessu, bara finn þau ekki.

A single golf clap? Or a long standing ovation?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.