„Hvað ertu með í laun?“

Rakel Björt
2 min readApr 17, 2023

--

Photo by micheile henderson on Unsplash

Þetta er ekki spurning sem maður heyrir oft, ekki í fjölskylduboðum né vinahittingum, hvað þá í vinnunni. Það er eins og það sé óskrifuð regla að það sé launaleynd og maður ræðir ekki laun, sérstaklega ekki við samstarfsmenn.

Ég hef verið hjá einu fyrirtæki sem var með opnar launatölur en annars bara hjá fyrirtækjum sem eru með lokaðar launatölur. Það eru kostir og gallar við opnar launatölur en ég hef ekki enn fundið kostinn við lokaðar launatölur.

Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að lokaðar launatölur verndi engan nema fyrirtækið sjálft. Ég, sem kona, hef það alltaf á tilfinningunni að ég sé launaminni en karlkyns forritarar sem vinna með mér og hafa jafnvel minni reynslu en ég. Það er ömurleg tilfinning, að geta ekki treyst því að það sé komið sanngjarnlega fram við mig.

Það var ekki fyr en núna nýlega sem ég var að bera launin mín saman við vini mína, sem eru einnig í tæknigeiranum. Ég svitnaði þegar ég vissi hvert umræðurnar voru að fara. Ég er bara með þá reglu að tala ekki um laun, ekki við vini mína né ættingja. Held að það komi frá foreldrum mínum, það voru aldrei rædd laun heima og það var eiginlega bara dónalegt að spyrja.

En af hverju ætti ég að tala um þetta við vini mína? Svo spurði ég sjálfa mig… af hverju ekki? Er það hræðslan að heyra að ég sé launaminni en þau, að upplifa eins og fyrirtækið sem ég vinn hjá sé að koma illa fram við mig, að ég þurfi að fara í einhvern slag til að standa á mínu og fá þau laun sem ég á skilið, sem ég svo kannski fæ samt ekki? Þetta voru góðar samræður og mér fannst við öll hafa grætt á þessu.

Held að þetta sé klárlega eitthvað sem við þurfum að komast yfir. Er þetta ekki einn af hlutunum sem við þurfum að ræða opinskátt til að geta breytt okkar stöðu á vinnumarkaðinum? Hvernig eigum við að geta farið fram á sanngjörn laun ef við höfum ekkert viðmið?

Brjótum ísinn og ræðum laun!

--

--