121. löggjafarþing — 112. fundur, 16. apríl 1997

Aðgengi að leitarvélum

711. mál

Þorlákur Eysteinsson

Herra forseti. Ég bið nú eiginlega forláts á því að mér er ekki alveg ljóst hvað háttvirtum sjötta þingmanni Norðurlands eystra gengur til með þessu frumvarpi. Ég verð, eins og ég geri ráð fyrir að eigi við um flestalla viðstadda, að lýsa yfir undrun minni, með leyfi forseta, ekki bara á frumvarpinu heldur hugsuninni, þó er líklega nær að segja hugsunarleysinu, sem virðist búa þar að baki. Í núverandi mynd er tillagan ekki bara óásættanleg heldur beinlínis fáránleg. Með leyfi virðulegi forseti, þá virðist mér rétt og brýnt að tala tæpitungulaust i þessu máli: mér virðist tillagan beinlínis út í hött. Ef það er satt að þessi tækni sé á annað borð til staðar, að þróaðar hafi verið eftirgrennslanavélar eða leitarvélar l líkingu við það sem hér er lýst, séu slíkar vélar yfir höfuð mögulegar, og um það eru aðrir dómbærari en sá sem hér stendur, þá liggur í augum uppi, þá liggur í augum uppi virðulegi forseti, að nauðsyn ber til að stíga afar varlega til móts við þá tækni, við notkunarmöguleika þeirrar tækni, og velta upp hér á þingi, en líka í samráði við sérfræðinga, við stjórnsýsluna og loks við almenning, öllum hliðum hugsanlegra afleiðinga slíkrar tækni, áður en nokkur ákvörðun er tekin um framhaldið.

Í sjálfu sér held ég að það sé öllum ljóst að það er engin brýn þörf á þessum búnaði. Þessi tillaga svarar ekki nokkurri eftirspurn, það eru engar háværar raddir þarna úti sem hafa gert kröfu um nokkuð þessu líkt, og það blasir ekki við okkur nokkur vandi sem þessi svokallaða leitarvél myndi leysa. Eða hvað er það svosem sem fólki liggur svona á að leita að? Með frumvarpinu fylgir engin hugmynd um það. Ekkert dæmi um nokkurn vanda sem tæknin leysir.

Í tæknilýsingu sem fylgir tillögunni segir að búnaðurinn myndi gera fólki kleift að grisja gegnum mikið magn upplýsinga í leit að tilteknum orðum á örskotsstundu, og er þá einkum um að ræða upplýsingar sem hýstar eru á nettengdum tölvum eða netþjónum svokölluðum. Hvaða upplýsingar eru þetta? Ég spyr: hvaða upplýsingar eru það sem, í fyrsta lagi, liggja á öllum þessum netþjónum, og sem, í öðru lagi, fólki bráðliggur svona á að finna? Ég held að það sé varlegt að halda því fram að mjög lítið af upplýsingum sé skráð rafrænt með þeim hætti að þessi búnaður þjónaði nokkru gagni, hér á landi. Það er mikil vinna að skrá slíkar upplýsingar, og fæli í sér mikinn kostnað. Bókasaöfnin hafa sín kerfi sem hafa nýst þeim vel og virðist lítil ástæða til að breyta. Ég man ekki eftir öðrum upplýsingum á Íslandi sem almenningur hefur mikla þörf á að nálgast og ekki rúmast í dagblöðunum. Ekki nema þá helst það fólk sem er komið á aldur og á það til að gleyma, til dæmis kennitölu sinni. Ég er ekki viss um að sá hópur myndi hafa mikið gagn af þessari tækni enda er hún óneitanlega flókin. Er það þá símaskráin? Er það símaskráin sem allt í einu er ekki lengur nógu góð fyrir okkur? Verður þægilegra að fletta símanúmerum upp í tölvu? Ég veit hvernig tölvur virka, ég held að við gerum það öll hér inni. Maður þarf að kveikja á þeim og bíða á meðan þær hlaða svokallað stýrikerfi. Það tekur nokkrar mínútur. Þá byrja þær að suða. Eftir dúk og disk er loks hægt að ræsa hvaða forrit sem maður ætlar að nota. Segjum að það sé þessi leitarvél. Enginn veit hversu langan tíma það tekur þennan búnað raunverulega að grisja gegnum allar upplýsingarnar sem honum er ætlað. Mér er stórlega til efs að tímaraminn sem fylgir í tæknilýsingu eigi við raun að styðjast. En þó svo sé. Þó svo sé, herra forseti, hversu mörgum símanúmerum hefði vanur maður getað flett upp í einfaldri stafrófsröð í símaskránni, eins og við þekkjum hana, á meðan? Síðast þegar mér bráðlá á að finna eitthvað, virðulegur forseti, og mátti engan tíma missa, þá voru það bíllyklarnir mínir, nú í morgun. Mér er stórlega til efs, virðulegur forseti, að ég hefði fundið þá í amerískri gagnageymslu. Jafnvel ekki þó um væri að ræða ameríska bifreið, sem er nú reyndar ekki, var nú reyndar ekki tilfellið. Nei, ég fæ ekki séð að almenningur í litlu landi eins og Íslandi hafi mikla þörf fyrir þennan búnað. Eða er ætlunin að Íslendingar hafi svona margs að leita í erlendum gagnageymslum?

Það liggur í augum uppi að stærri lönd, með gríðarlegt efnahagslegt bolmagn, lönd á við Bandaríkin, Þýskaland og Sviss, hafa þegar fært nokkrar gagnageymslur á form sem hentar svona vélum. Hugmyndir eru sagðar vera uppi um að færa alfræðirit á slíkt form. Þá eru nokkur dæmi um að óbreyttir borgarar, um þetta má lesa víða í erlendum fjölmiðlum, að óbreyttir borgarar komi sér sjálfir upp gagnageymslum og miðli þar, án nokkurrar sérþekkingar, án nokkurs umboðs eða meðmæla raunar, hvaða þvættingi sem er. Segjum að ég byggi í Texas. Og segjum að ég hefði þartilbæra tölvuþekkingu. Þá gæti ég komið mér upp gagnagrunni, sennilega fyrir lokun skrifstofa í dag, skrifað þar inn að Alþingi Íslendinga sé hýst í timburhjalli hér við höfnina. Ég nefni bara svona sem dæmi. Ég gæti jafnvel falsað mynd og dreift henni með þessum lygum. Eða jafnvel að Ísland, segjum, væri hérað á Grænlandi. Áður en nokkur fengi neitt að gert væri fólk búið að fletta þessu upp og lygin væri á allra vitorði. Nú myndu Íslendingar vita betur, augljóslega. En hvaða gagn er þá að sliku kerfi? Ekkert. Ekki nokkurt. Um útgáfu prentmáls gilda ströng viðmið um ábyrgð á málflutningi. Greinar og bækur eru merktar höfundi, ritstjórn, útgefanda og loks prentsmiðju. Engu slíku virðist vera hér fyrir að fara. Ekkert kemur fram í tillögunni sem gefur til kynna að svona búnaður myndi gera greinarmun á sannleika eða lygi, ábyrgð og skorti á ábyrgð.

Ef, ef hins vegar, búnaðurinn skyldi virka eitthvað í líkingu við þann fagurgala sem þó má lesa í tæknilýsingu í fylgigögnum frumvarpsins, hvaða áhrif hefði slíkt á allan almenning? Hvaða áhrif hefði það á hugarfar í landinu, og siðgæðisþróun, ef almenningur kæmist upp á lagið með að geta sótt sér upplýsingar um hvaðeina með því að smella á nokkra hnappa í réttri röð? Leitið og þér munuð finna hefur verið sagt og þetta er ekki það sem var átt við heldur sú göfgandi iðja að leggja á sig nokkra fyrirhöfn í leit að hverju sem manni þykir þess vert. Og hvað ætti að rúmast, svo mikillar leitar vert, á þessum svonefndu netþjónum? Nú þegar reiknivélar rúmast í skyrtuvasa eiga menn það til að ofmetnast fyrir hönd hinnar nýju tækni. Flóknari tölvukerfi eru í grunninn nákvæmlega sami búnaður. Á þeim rúmast ekkert nema tölur og útreikningar. Sá sannleikur sem er nokkurs virði að nálgast hefur aldrei, aldrei nokkurn tíma, komist fyrir í stærðfræðijöfnu. Það sem ég legg höfuðáherslu á, og tel að hafi almennan hljómgrunn ekki bara hér í þinginu, heldur í íslensku samfélagi, er að það er engin ástæða; engin ástæða hefur komið fram og ég tel að engin ástæða muni koma fram, fyrir því sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að óbreyttu, að Pétur og Páll, að Pétur og Páll segi ég, hafi óskiptan aðgang að öflugasta hugsanlega tölvubúnaði, til að gera fyrirspurnir eftir upplýsingum um hvað sem er, milli himins og jarðar, milli himins og jarðar, án rökstudds tilefnis, án sýnilegrar ástæðu, án nokkurs eftirlits og á nokkurra hindrana. Í fyrsta lagi er ósennilegt að búnaðurinn muni virka gallalaust. Það kennir reynslan okkur. Í öðru lagi, ef og að því leyti sem hann á annað borð virkar, væri af honum aðeins skaði. Aðeins skaði. Eða hvaða upplýsingar myndu menn finna? Myndu þeir skilja hvað það þýðir fyrir Íslending þegar lóan kemur að vori? Myndu þeir skilja það, ef þeir skyldu vera svo lánsamir að ramba á rétta enska heitið yfir lóu, fletta fuglinum upp, segjum í bandarískri alfræðigagnageymslu, og finna þó eitthvað lesefni honum tengt, sem mér er stórlega til efs að myndi yfirleitt heppnast; en myndi það auka skilning þeirra á dýrð vorsins, á merkingu þeirra stunda þegar sólin allt með kossi vekur?

Með leyfi herra forseti, og afsakið að ég skuli yfirleitt vekja máls á þessu, en við verðum að gera ráð fyrir að fólki geti dottið ýmis ósómi í hug. Íslendingar eru siðprúðir þegar þeir eru alsgáðir. Hins vegar gæti fólk, eins og frumvarpið lítur nú út, haft aðgang að þessum búnaði undir áhrifum áfengis, beinlínis ölvað. Eða fíkniefnasjúklingar í vímumóki. Hér er ekkert því til fyrirstöðu. Ég satt að segja vil ekki hugsa þá hugsun til enda hvað ofurölvi fólk ætti að gera heima hjá sér um miðjar nætur með aðgang að slíku kerfi. Hversu stöðugt sem nokkurt tölvukerfi er, má það heita ótrúverðugt, svo ég taki ekki sterkar til orða, að það standi af sér slíkan ágang. Tölvur eru ekki bara flókinn búnaður heldur viðkvæmur. Segjum að drukkinn maður helli úr glasi yfir lyklaborð á meðan hann slær inn leitarbeiðni. Hvað þá? Hvað verður þá um alla þessa fjárfestingu? Eða þá hitt: ef þessi búnaður finnur yfirleitt það sem leitað er að, með honum, hvað er því til fyrirstöðu að finna með honum fíkniefni? Væri búnaður sem þessi ekki kjörinn fyrir sölumenn dauðans til að setja sig í samband við fórnarlömb sín? Samræmist slík þróun þeim viðmiðum sem Íslendingar hafa sett sér um takmarkanir á aðgengi að áfengi og blátt bann við neyslu ólöglegra vímugjafa? Nei, hér er ástæða til að stíga varlega til jarðar.

Ég tel að við eigum gríðarlegra hagsmuna að gæta, sem einstaklingar, sem fjölskyldufólk, sem þátttakendur í atvinnulífi, en ekki síst sem þjóð, að stíga varlega í þessum efnum, rasa ekki um ráð fram, og ganga til móts við tækninýjungar á eigin forsendum, eftir eigin þörfum og eftir því sem tilefni er til. Á bakvið þessa tillögu, í óbreyttri mynd, sé ég ekkert tilefni.

Þetta er aðeins ágrip af því helsta sem ég sé athugavert við frumvarpið. Þá eru ónefndir fjölmargir ágallar sem hver og einn væri þó nægur til að veita hugmyndinni verulega viðspyrnu. Ég nefni, an þess að ætla að fara nánar út í þá sálma, að það virðist ekki vera að leitarvélar af þessum toga hafi verið forritaðar, eða geti einu sinni verið forritaðar, með beygingarkerfi íslenskrar tungu í huga. Það er því hreint ekki víst að þær kæmu að miklu gagni yfirleitt, nema fyrir fagfólk með sérstaka þjálfun í notkun þeirra.

Hins vegar, og það er þess vegna sem ég tel ráðlegt að frumvarpið fái nefndarafgreiðslu, fari í hendur hugaðrar nefndar með dirfsku og skilning til að gera á því verulegar breytingar, að þá tel ég að tæknin sjálf geti nýst með ýmsu móti, ekki síst innan stjórnsýslunnar. Þar er sannarlega tilefni, þar er sannarlega þörf, þar er sannarlega vettvangur þar sem oft hefur heyrst kvartað yfir því að aðgengi að upplýsingum sé bæði bágborið og óskilvirkt. Ég legg því til að gerðar verði þær breytingar á frumvarpinu að svokölluð leitarvél, eins og það er hér orðað, verði sett á laggirnar, en þá undir umsjá og ströngu eftirliti nýrrar þartilbærrar stofnunar eða deildar sem veita mætti fjármagn til. Starfsemi slíkrar deildar gæti fallið undir embætti ríkislögreglustjóra, nú eða Menntamálaráðuneytisins. Í sjálfu sér er það aukaatriði. Það sem mér finnst öllu varða er að séð verði til þess að tæknin nýtist sem best þar sem hennar er raunverulega þörf. Að aðilar í stjórnsýslunni geti sótt um eftirgrennslan, sótt um leit, um leitir, á einföldu eyðublaði með tilgreindum leitarorðum og leitarskilyrðum og gert ráð fyrir svari við umsókninni og leitarniðurstöðum með nógu skömmum fresti til að þær nýtist. Til þess þarf nokkra skilvirkni, til að umsóknir hlaðist ekki upp og skapi óþarfan biðtíma, eins og við þekkjum, og komið hefur til umræðu, á ýmsum vettvangi.

Ég tel líka að rökstuddar og þó nokkuð augljósar ástæður séu til að ætla fræðasamfélaginu nokkurn aðgang að slíkri vél. Hugsanlega væri rétt að athuga hvort setja skyldi upp sérstaka móttöku eða afgreiðslu fyrir leitarumsóknir á vettvangi Háskóla Íslands eða Landsbókasafns. Þar er þó sjaldgæft að afgreiðsla umsókna sé jafn brýn og í stjórnsýslunni og í sjálfu sér ekki vandamál þó að þær mæti afgangi, ef í flestum tilfellum má gera ráð fyrir leitarniðurstöðum innan sama misseris, það er fyrir annarlok, eða í samræmi við annan skilafrest verkefna á vettvangi háskólans. Þannig þyrfti ekki að verða af þeirri afgreiðslu neitt verulegt aukaálag eða kostnaður.

Í þriðja lagi getur vel hugsast, enn er það ósýnt en getur þó vel hugsast, að almenningur geri sér grein fyrir að hann hafi líka einhver not fyrir aðgang að búnaði sem þessum. Ég tel að það sé óþarft að gera ráð fyrir slíku að óreyndu, en þó má hafa þann möguleika í huga, að ekki sé loku skotið fyrir það, þegar nokkur reynsla hefur orðið til af notkun búnaðarins, að almenningur geti sótt um leitir með aðstoð hans. Þó liggur í augum uppi að gera mætti kröfur um ítarlegri rökstuðning fyrir leit frá óbreyttum borgurum, til að forðast megi að til verði kostnaður í rekstri hins opinbera, við afgreiðslu á óþörfum erindum. Einnig væri réttast, að ég tel, að gera ráð fyrir aldursmörkum af sömu ástæðum, enda má þá gera ráð fyrir að foreldrar eða aðrir forráðamenn barna og ungmenna séu færari um að meta gagnsemi leitar, og jafnvel siðferðilegar forsendur leitar, en ósjálfráða ungmenni væru, eða lítið eldra fólk. Sjálfur sting ég upp á að aldursmörkin verði miðuð við 25 ára og eldri, en í sjálfu sér er það útfærsluatriði sem ég mun ekki leggja höfuðáherslu á.

Mér verður seint legið það á hálsi, tel ég, að vera mótfallinn bandarískum fyrirtækjum, bandarískum stjórnvöldum, eða einkarekstri yfirleitt. Hér er hins vegar um stórmál að ræða sem augljóslega snýst um stefnumótun stjórnvalda, um leið og það er jafn augljóst að frumkvæðið að málinu er í höndum bandarískra auðjöfra eða þá hugsanlega tilvonandi auðjöfra, manna sem binda vonir sínar við að græða á tilteknum einkaleyfum eða uppfinningum. Það er auðvitað bara eins og það er. Ég geri engar athugasemdir við slíkt. En Alþingi Íslendinga ber skylda til að hlusta ekki á málflutning slíkra aðila nema að mjög takmörkuðu leyti. Okkur ber skylda til að hlýða samvisku okkar einni, með hagsmuni Íslendinga í fyrirrúmi: fyrirtækja, heimila og þjóðar.

Við Íslendingar höfum átt gæfu til að byggja upp samfélag sem, þrátt fyrir mannlega bresti, er nokkuð stöðugt, samfélag þar sem flestir hafa allt til alls, og flestir eru sammála um ákveðin grundvallarviðmið. Í landinu ríkir nú, eins og Þorgeir ljósvetningagoði kvað á um, einn siður. Ég tel að þetta frumvarp feli í sér miklu meiri hættu, miklu meiri ógn, en höfundar og flutningsmaður þess sáu í hendi sér, miklu alvarlegri ógn við stöðugleika og við sameiginlega fullvissu landsmanna. Ég segi: gerum þetta af ábyrgð, nýtum möguleika tækninnar en aðeins að því marki sem við höfum fullvissað okkur um að við nýtum hana til góðs.

Like what you read? Give Þorlákur Eysteinsson a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.