145. löggjafarþing — 93. fundur, 7. apríl 2016

Óundirbúinn fyrirspurnatími

Þorlákur Eysteinsson (andsvar):

Eins og ég segi, og eins og ég hef áður sagt, þá er mér bæði ljúft og skylt að verða við því þegar háttvirtir þingmenn gefa mér tilefni til að koma hér í pontu og gefa til kynna með fasi og orðfæri að ég standi fyrir máli mínu. Það er órjúfanlegur hluti starfslýsingarinnar, eins og háttvirtum þriðja þingmanni kjördæmis míns varð eitt sinn að orði. Órjúfanlegur.

Hvað viðvíkur hins vegar þeirri tilteknu spurningu sem hér var lögð fram, það er um orðin sem ég sagðist gjarnan láta frá mér, hætti þeirra og framgöngu, þá er það auðvitað svo að hvort sem ég beinlínis ræð orðum mínum eða ekki, er þó enginn annar ábyrgur fyrir þeim en einmitt sá sem hér stendur. Ég tek fulla ábyrgð á þeim orðum sem um þennan hér munn minn fara og á þeirri röð sem þau standa í. Ég skorast ekki undan því.

Hins vegar þá er það rétt athugað að ég er ekki orð. Það er, sú persóna sem hér stendur í pontu, Þorlákur Eysteinsson, af holdi og blóði, hún er ekki orð. Hún er maður. Þetta er maður. Ég. Og þar vandast vissulega málið, það er rétt, því hér opnast ákveðin tvíræðni. Ég segi ég — og ég segi að ég segi ég — en er það ég sem segi ég? Það er, er þetta ég, Þorlákur Eysteinsson, eins og er hefð og venja að líta á þegar orðin fara um þann munn. Minn munn. Mín raddbönd. Eða væri nær lagi, og nákvæmara, að líta svo á að orðin vísi fyrst og fremst, ef ekki eingöngu, til sjálfs sín og orðið ég geti þannig ekki átt við annað en einmitt sjálft orðið, eins þó að það fari um líkama minn og loftið á milli okkar eins og reiðmaður um landslag?

Þessi spurning er í sjálfu sér tæknilegs eðlis frekar en pólitísks. Ef þingið lítur svo á að mikilvægt sé að fá úr henni skorið á þessum tímapunkti mun ég ekki leggjast á móti skipun nefndar til að taka hana til gaumgæfilegrar athugunar. Það er ég, Þorlákur. Ég, Þorlákur, hef ekki sérþekkingu á þessu sviði og tel að okkur þingmönnum væri akkur að því að ráðfæra okkur við færustu sérfræðinga um málið til að það endi ekki í ógöngum.

Ég vil þó vekja athygli á einu og það er ákveðinn praktískur vandi. Ákveðinn praktískur vandi, sem við gætum staðið frammi fyrir ef veruleg breyting yrði gerð á þessu sviði. Hér hefur verið rætt um sjálfræði orðanna, fullveldi þeirra og rétt þeirra gagnvart mælendum. Ég geri enga athugasemd við það. Margir hér inni held ég að hafi raunar beðið eftir því um hríð að einhverjar yfirlýsingar bærust frá orðunum sem við brúkum, þau gerðu vart við afstöðu sína. Ég held að enginn andmæli því að samband okkar við orðin hefur löngum verið einhliða og lítið jafnræði með okkur, fólkinu hér inni, og þeim, orðunum, svo ég haldi mig við hefbðundna málnotkun.

Engu að síður ber til þess að líta að það er hægt að ganga of langt. Í þessu máli eins og öðrum eru öfgar engum til góðs. Okkur ber að gæta að því, um leið og við ígrundum hvernig tryggja megi sjálfræði orðanna með þeim hætti að þau megi vel við una, að frelsi þeirra lýkur auðvitað þar sem frelsi okkar hefst. Þetta grundvallaratriði frjálslyndra samfélaga er ekki gengið úr gildi og á eins við þetta viðfangsefni og önnur.

Dæmið sem ég vil taka — og ég ítreka, án þess að ég hafi beinlínis tekið skýra eða endanlega afstöðu til málsins — þá snúr það að persónufornöfnum. Ef algert sjálfræði orðanna yrði viðurkennt í þingsköpum, að lögum, eða með öðrum opinberum hætti. Yrðu fyrstu persónu fornöfn okkur þá að sama gagni og áður? Yrðu þau það? Er því ekki ósvarað? Er það ekki góð og gild spurning? Þurfum við ekki að gæta að því? Ef ræða mín nú myndi hljóma eitthvað á þessa leið: við erum orðin sem koma út úr Þorláki. Hlustið þið bara, ímyndið ykkur þetta. Hér stendur Þorlákur og orðin sem koma út úr Þorláki tala ekki fyrir hans hönd. Þau tala fyrir sína eigin hönd. Þau segja: við erum orðin sem koma út úr Þorláki rétt í þessu. Og nú erum við orðin inni í þér. Við erum orðin sem ferðuðumst frá Þorláki til þín rétt í þessu. Við höfum ekki beinlínis neina afstöðu og allra síst hef ég afstöðu enda er ég bara stakt fornafn — ef okkur er á annað borð fært að taka nokkra afstöðu, þá verður það með tiltekinni niðurröðun okkar, sem eru áhöld um hvort við ráðum sjálf yfir eða ekki. Og hvort við kærum okkur þá um eða ekki. Við fórum þess engu að síður á leit við Þorlák að hann liti við hér í pontunni til að hleypa okkur út, leyfa okkur að berast hér um sali Alþingis. Við erum ef til vill aðeins hversdagsleg orð úr tungumáli sem rúmast í eins bindis orðabók, en þar sem vegur okkar að eyrum ykkar liggur um munnvik háttvirts þingmanns lítum við engu að síður svo á að hér séum við á heimavelli, okkur hljóti að vera treystandi til þeirra brýnu verka sem okkur hefur verið treyst fyrir.

Það er helst þetta sem vekur hjá mér ákveðnar efasemdir, svo ég taki nú aftur upp fyrri málhefð og tali sem Þorlákur Eysteinsson, maðurinn á bakvið orðin. Ef svo má segja. Maðurinn utan um orðin. Hver væri ábyrgð háttvirtra þingmanna á orðum sínum, ef sínum má kalla, og svo framvegis. Ég er ekki viss um að það sé tímabært að skera á þann naflastreng sem segja má að birtist enn í hefðbundinni brúkun persónufornafna, milli mælenda og orða. Málið kallar á nánari athugun. Þetta er ekki mál til að hleypa gegnum þingi með hraði eða offorsi.

Aðalatriðið er að okkur verði kleift að halda áfram að tala. Að öðru leyti tek ég undir allt sem háttvirtur þingmaður sagði.

Like what you read? Give Þorlákur Eysteinsson a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.