145. löggjafarþing — 93. fundur, 7. apríl 2016

Óundirbúinn fyrirspurnatími

Þorlákur Eysteinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf lagt mig fram um að uppfylla þá fyrstu kröfu sem gerð er til handhafa ríkisvaldsins að þeir láti út úr sér orð og að orðin hafi á sér ákveðið yfirbragð merkingar. Þetta held ég að enginn efist um og hefur í það minnsta ekki borist mér til eyrna. Í samfélaginu og meðal kjósenda minna heyri ég ekki annað en sátt við orð mín. Að standa frammi fyrir ávæningi í þingsal um að bregðast þá einhverjum allt öðrum skyldum sem ekki er vinnandi vegur að sjá að komi þessu máli við, herra forseti, að standa frammi fyrir því, hlusta á fólk halda því fram að þetta sé svona og hitt sé hinsegin, sem enginn maður með viti fær séð að komi málinu yfirleitt nokkurn skapaðan hlut við, það er einkennileg upplifun svo ekki sé meira sagt. Er ekki tími til kominn að auka virðingu þingsins, spyr ég. Er ekki tími til kominn, erum við ekki öll sammála um það? Og er þetta, er umræða af þessum toga, til þess fallin, telja háttvirtir þingmenn að umræða af þessum toga, þar sem rýnt er í orð manna eftir hentugleik og bent á hvað þau þýða eða þýða ekki og svo framvegis, efast um merkingu og inntak eða ég veit ekki hvað og hvað, ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað mönnum gengur til með þessari umræðu. En það hvernig hún fer fram, hvaða aðferðum menn beita í henni og hversu langt er seilst, það er það sem almenningi í landinu ofbýður. Og spyrja má til hvers er þá unnið?

Hvert er markmiðið með þessari aðför? Hvað gengur fólki til að finna að því hvernig aðrir raða saman orðunum sem þeir láta frá sér? Afsakið orðbragðið, herra forseti, en hvað kemur háttvirtum þingmönnum það við hvað ég segi? Hef ég ekki alltaf staðið hér tilskyldan ræðutíma? Hef ég ekki alltaf stuðst við þau setningafræðilegu grunnatriði sem þörf er á svo orð manns hljómi sem svar við spurningu þegar svo ber við? Sem fyrirspurn ef því er að skipta eða gagnrýni og röksemdafærsla eftir tilefni? Ég hef engan heyrt efast um það. Ég hef engan heyrt þora að efast um að svo sé.

Nei, herra forseti, öll þessi umræða er fyrir neðan allar hellur. Allt og sumt sem hún kemur upp um er málefnaþrot þeirra sem að henni standa. Kemur upp um málefnaþrot, herra forseti. Þetta eru þung orð en þung orð eru gerð til að falla. Eða hvað stæði eftir ef við færum að stunda þetta á báða bóga, hvað stæði eftir af orðum minnihlutans, ég segi af þinginu, hvað stæði eftir af þinginu, ef við grisjuðum frá þau sem er kannski ekki ljóst hvað þýða eða hvert eiga að leiða? Hvað stæði eftir?

Nei, nú verður fátt um svör og talinu vikið að öðru. Enda engum til góðs. Þegar fíflið bendir á tunglið fara þingmenn minnihlutans að tala um fingurinn. Nei, hér verður að ríkja starfsfriður. Eða á hverjum bitnar það öðrum en landsmönnum, almenningi í landinu okkar fagra, þeim sem veittu okkur umboð til að halda áfram að tala, ef síðan gefst engum friður til að tala.

Hér fóru fram kosningar. Og að tilskildum tíma liðnum munu enn og aftur fara fram kosningar. Þá verður tal okkar og starf lagt í dóm kjósenda. Það væri meiri sæmd að því að spyrja að leikslokum en standa í vegi orðanna á meðan. Og hvaða orða? Hvaða orð eru það sem minnihlutinn vill hér vera að rýna í, taka sundur og setja saman upp á nýtt? Það eru auðvitað annarra manna orð. Það þarf ekki að spyrja að því. Annarra manna orð eins og háttvirtir þingmenn minnihlutans eru vanir að fara með annarra manna peninga.

Ég geri mér fulla grein fyrir því það eru og verða skiptar skoðanir um mín orð eins og annarra. Til hvers myndi annars nokkur maður fást við pólitík, mér er spurn. Mér dettur í hug vísa við þetta tilefni. Og þetta er eins og brandari sem ég heyrði um daginn. Hvað sagði ekki Jón Hreggviðsson? Eins og skáldið kvað, hvað? Ha? Virðið lýðræðið í landinu, háttvirtir þingmenn, og unið mér þess, í guðs bænum, að halda áfram að tala.

Like what you read? Give Þorlákur Eysteinsson a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.