Árið 2017 á reykjavik.is

Rafræn þjónustumiðstöð
3 min readJan 8, 2018

Árið 2017 var ljómandi gott vefár á reykjavik.is. Vefurinn fékk nýtt viðmót í lok sumars þar sem áherslan var á að færa algenga þjónustu nær notanda og stytta leiðir að helsta efni. Nemar í vefmiðlun við Háskóla Íslands unnu þetta verkefni með okkur og gerðu þarfagreiningar og stýrðu notendasamráði sem gekk alveg frábærlega. Von er á frekari breytingum á þessu ári enda er stöðug þróun og breytingarvinna lykill að árangri þegar kemur að vef og þjónustu. Við fengum verðlaun fyrir vefinn í lok árs og erum þakklát fyrir það en líka meðvituð um að alltaf er rými til að gera betur.

Litirnir á vefnum eru sóttir í borgarumhverfið.

Árið 2017 voru notendur vefsins 833 002 í 2.127.944 heimsóknum og skoðuðu þeir 6.305.609 síður. 46.59% notenda skoða vefinn í tölvu. 44.92% í síma og 8.48% í spjaldtölvum. Vefurinn er hannaður til að virka jafn vel í öllum tækjum og þessar tölur sýna mikilvægi þess.

Flýtihnappar á frosíðu stytta leið að mest sótta efninu.

Vinsælustu síðurnar árið 2017

Forsíða
Laus störf
Leit
Enska
Laugardalslaug
Þjónusta
Vesturbæjarlaug
Stjórnkerfi
Borgarvefsjá
Sundlaugar

Mest notuðu leitarorðin

Laugardalslaug
Teikningar
Pool
Starfsmenn
Laus störf
Útboð
Fundargerðir
Vesturbæjarlaug
Sundlaugar

Fleiri tölur

45.92% notenda koma á vefinn í gegnum leitarvélar og þar af 98% í gegnum Google. 29.08% koma beint, slá inn slóð eða í gegnum bókamerki eða eru með reykjavik.is sem upphafssíðu. 13.32% koma í gegnum samfélagsmiðla, þar af 97% frá facebook og11.03% koma svo í gegnum tengla af öðrum vefjum.

Sundlaugar eru geysivinsælar.

Þjónusta Reykjavíkurborgar er víðfem og snertir flest svið mannlífsins og endurspeglast það ágætlega í þeim fjölda af síðum sem skoðaðar eru. Árið 2017 voru 412 síður skoðaðar meira en 1000 sinnum, 912 síður meira en 500 sinnum og heilar 3.232 síður meira en 100 sinnum.

Uppitími vefsins árið 2017 var 99,87% en markmiðið er að vera í 99,9%, rými til að bæta sig hér.

Þessar tölur sýna að miklar breytingar eru að verða á notendahegðun og hversu mikilvægt er að fylgjast vel með og bregðast við þeim þörfum sem eru að skapast. Það að notendur nota snjalltæki meira og meira skapar okkur það krefjandi verkefni að koma miklu magni upplýsinga til skila á litlum skjá og á miklum hraða. Það að helmingur notenda komi í gegnum leitarvélar gerir það svo að verkum að hver einasta síða á vefnum getur verið forsíða notandans og þarf að svara því erindi sem notandi á við okkur. Hinn venjulegi notandi gúglar, fær upp leitarniðurstöðu á reykjavik.is ogfer þangað. Á þeirri síðu á lausnin að vera og einnig leið að því sem gæti tengst erindinu eða hjálpað notanda áfram ef hann er ekki að fá það svar sem hann vænti.

Þetta er okkar kjarnaverkefni.

Gleðilegt nýtt ár!

Hreinn Hreinsson vefstjóri.

--

--

Rafræn þjónustumiðstöð

Rafræn þjónustumiðstöð stýrir vefþróun Reykjavíkurborgar og ber ábyrgð á rafrænni þjónustu borgarinnar.