Æskilegt að kanna möguleikann á lausasölulyfjum í almennum verslunum

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um tillögu til þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2022. Með tillögu þessari ályktar Alþingi að setja stefnu í lyfjamálum á Íslandi fram til ársins 2022 og skal meginmarkmið hennar vera tryggt aðgengi að lyfjum, gæði, virkni og öryggi lyfja og skynsamleg og hagkvæm notkun lyfja. Eitt af þeim atriðum sem nefnd eru til þess að ná framangreindu markmiði er að kanna hvort æskilegt sé að heimila að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum.

Viðskiptaráð hefur áður fjallað um sölu lausasölulyfja í verslunum og tekur því sérstaklega undir þetta atriði og vonast til að ráðist verði í þessa vinnu. Slík breyting myndi bæta aðgengi einstaklinga að lyfjum hérlendis og stuðla að aukinni samkeppni. Auk þess væri hún í samræmi við lagaumhverfið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Sala lausasölulyfja til samræmis við Norðurlöndin

Samanborið við önnur Evrópuríki stendur Ísland aftarlega hvað varðar sölu á lausasölulyfjum í almennum verslunum. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er slík sala heimil. Af Norðurlöndunum banna því einungis Ísland og Finnland sölu lausasölulyfja í almennum verslunum. Reynsla Norðurlandanna hefur sýnt að sala lausasölulyfja í almennum verslunum hefur ekki leitt til ofnotkunar lyfja eða haft slæm áhrif á lýðheilsu þarlendis. [1]

  • Í Svíþjóð var sala lausasölulyfja utan apóteka heimiluð með lögum árið 2009. Í kjölfar lagabreytingarinnar og til ársins 2013 jókst sala lausasölulyfja ekki heldur stóð í stað.
  • Í Noregi voru umbætur gerðar árið 2003. Meðal breytinga var að 6000 sölustaðir sem ekki voru apótek hófu að selja lausasölulyf. Norska lyfjastofnunin hefur sagt að breytingin hafi ekki haft nein neikvæð áhrif á lýðheilsu. Engar vísbendingar eru um að fjöldi eitrana eða aukaverkana hafi aukist.
  • Í Danmörku voru breytingar gerðar árið 2001. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum lyfjaiðnaðarins þar í landi hefur tilkynningum um eitranir eða aukaverkanir ekki fjölgað síðan.

Ef miðað er við reynslu nágrannalanda okkar er ástæðulaust að óttast að almenn sala lausasölulyfja muni leiða til ofnotkunar lausasölulyfja.

Jafnframt má ætla að ef litið er til eðli lausasölulyfja að hætta á ofnotkun þeirra sé lítil. Á vef Lyfjastofnunar segir eftirfarandi um lausasölulyf:

Þegar heilbrigðisyfirvöld ákveða að selja megi lyf án lyfseðils er tekið mið af þekkingu og reynslu af notkun lyfsins, tíðni aukaverkana og áhætta af ofskömmtun. Í ljósi þessarar þekkingar er einnig tekin ákvörðun um takmörkun á því magni sem selja má í hverri afgreiðslu. Í mörgum tilvikum er aðeins veikasti styrkur og minnsta pakkning lyfs í lausasölu.“

Hér kemur fram að einungis þau lyf eru seld í lausasölu þar sem þekking og reynsla á noktun lyfsins hefur sýnt að aðgengi að lyfinu þurfi ekki að takmarka, nema að magni til. Vænta má að ef heimild verslana til þess að selja slík lyf verði lögfest að jafnframt verði gerður áskilnaður um takmörkun á því magni sem heimilt er að selja í hverri afgreiðslu. Þannig er það neytendum og læknum til bóta að leyfilegt sé að selja lyfið án samráðs við lækni. Það stingur því í stúf að á sama tíma og ákveðið er að neytendum sé heimilað að kaupa lyfið án lyfseðils þá er ákveðnum aðilum ekki heimilt að selja lyfin.

Jákvæð hagræn áhrif möguleg

Sala lausasölulyfja í almennri verslun eykur einnig samkeppni og er til þess fallin að lækka verð á slíkum lyfjum neytendum til hagsbóta. Þá er einnig fólgið hagræði í því fyrir almenning að geta nálgast lausasölulyf á sem auðveldastan hátt. Flækjustig söluaðila við að sinna þeim takmörkunum á magni er óverulegt borið saman við heildarávinning almennings og söluaðila sem felur í sér breiðari vöruflóru og víðtækari þjónustu. Sala lausasölulyfja í almennum verslunum getur jafnframt haft jákvæð áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi, þar sem aukið aðgengi gerir einstaklingum kleift t.a.m. að meðhöndla eða komið í veg fyrir minni háttar veikindi án þess að hitta lækni.

Við leggjum til að ráðist verði í þá vinnu að kanna hvort æskilegt sé að heimila sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennum verslunum.

— — — —

[1] Gylfi Ólafsson, „Lausasölulyf, staðan á Íslandi og í nágrannalöndum“, bls. 8, 10 og 16.