Í hvaða sveitarfélagi er best að búa?

Hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur verið talsvert til umræðu að undanförnu. Í kjölfar fasteignaverðshækkana hefur fasteignamat húsnæðis hækkað um nánast allt land. Á sama tíma hafa álagningarprósentur fasteignagjalda að mestu leyti staðið í stað. Því hafa fasteignagjöld heimila og fyrirtækja hækkað mikið undanfarin þrjú ár. Sökum þessa hefur Viðskiptaráð uppfært reiknivél um „Hvar er best að búa“ sem fyrst var kynnt til leiks árið 2015. Reiknivélin tekur nú tillit til nýjustu talna um álagningarprósentur og skólagjöld sérhvers sveitarfélags á landinu. Fasteignagjöld miðast við nýjasta fasteignamatið, sem tekur gildi áramótin 2017/2018. Þannig má sjá í hvaða sveitarfélagi er hagkvæmast að búa miðað við tekjur, stærð húsnæðis og fjölda barna í skóla. Þá sýnir reiknivélin fjárhagslega stöðu viðkomandi sveitarfélags.

Þú getur nálgast reiknivélina hér.

Miklar hækkanir fasteignaverðs

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað hratt undanfarin ár að nafnvirði. Sé horft til þróuninar frá árinu 2011, þegar húsnæðisverð byrjaði að taka við sér eftir lækkanir árin áður, nemur hækkunin yfir 88%. Nafnverðshækkanir segja þó einungis hálfa söguna. Að jafnaði er leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum hér á landi til þess að skoða raunverðshækkanir. Sé leiðrétt fyrir vísitölu neysluverðs sést að raunhækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu er 54% á tímabilinu. Ef tekið er mið af launahækkunum á tímabilinu og leiðrétt fyrir auknum kaupmætti sökum þessa nemur hækkunin tæpum 17%.

Heimild: Þjóðskrá Íslands, Hagstofa Íslands, útreikningar Viðskiptaráðs

Ef litið er á landið allt má sjá svipaða þróun á fasteignamarkaðnum yfir sama tímabil. Á síðustu 6 árum, eða frá ársbyrjun 2011 til mars 2017 hækkaði nafnverð fjölbýlis um tæp 79% og nafnverð sérbýlis um 43%.

Heimild: Þjóðskrá Íslands, útreikningar Viðskiptaráðs

Verðhækkanir skila sér í hækkandi fasteignagjöldum

Kaupendur á fasteignamarkaði eru þó ekki þeir einu sem finna fyrir hækkandi verði því fasteignamat húsnæðis um allt land hefur hækkað í takt við markaðshækkanir. Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands er mismunur á meðalfasteignamati húsnæðis á Íslandi árið 2015 og því mati sem tekur gildi um næstu áramót 34%. Fasteignamat húsnæðis í Reykjavík hefur hækkað um 42% og 37% í Kópavogi svo dæmi séu tekin. Mest hefur hækkunin verið á Borgarfirði Eystri og Vopnafirði, eða 45%.

Fasteignagjöld heimila skiptast í fasteignaskatta, lóðaleigu, sorphirðugjöld, vatnsveitugjöld og frárennslisgjöld. Hjá langflestum sveitarfélögum leggjast þessi gjöld á sem föst prósenta af fasteignamati. Þessar álagningarprósentur hafa að mestu leyti staðið í stað að undanförnu og hafa fasteignagjöld því fylgt hækkandi fasteignamati að miklu leyti.

Í hvaða sveitarfélagi er hagkvæmast að búa? Smelltu hér og settu inn þínar forsendur.

Like what you read? Give Viðskiptaráð Íslands a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.