Ísland eina EES landið með einkarétt ríkis á póstþjónustu

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um drög að frumvarpi um póstþjónustu. Með frumvarpsdrögunum er lagt til að einkaréttur ríkisins á sviði póstþjónustu verði lagður niður og opnað verði fyrir samkeppni á póstmarkaði.

Viðskiptaráð fagnar því að loks standi til að stíga lokaskrefið í afnámi einkaréttar hins opinbera á sviði póstþjónustu og tekur heilshugar undir meginefni frumvarpsins. Ísland er eina landið innan EES sem ekki hefur afnumið framangreindan einkarétt og því tímabært að skrefið sé loks stigið til fulls.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld jafnframt til að huga samhliða að breyttu eignarhaldi á Íslandspósti hf. enda margvíslegar áskoranir sem fylgja því að starfrækja fyrirtæki í opinberri eigu á samkeppnismarkaði.

Viðskiptaráð skilaði umsögn um fyrri drög að frumvarpi þessu sem birt voru á heimasíðu innanríkisráðuneytisins í janúar 2016.

Afskipti hins opinbera á samkeppnismarkaði

Stefna Íslandspósts hf. er að skila árlegum hagnaði sem nemur 10% af eigin fé og samhliða auka verðmæti fyrirtækisins með því að stuðla að arðbærum vexti. Þessi markmið eru ósamræmanleg með hliðsjón af þróun á hefðbundnum póstþjónustumarkaði.

Unnt væri að ná umræddri arðsemi eigin fjár með gjaldskrárhækkunum en þá er um leið ýtt enn frekar undir minnkandi eftirspurn. Hraður vöxtur og ásættanleg arðsemi næst því seint á hnignandi markaði.

Stjórnendur Íslandspósts hafa mætt þessari áskorun með uppbyggingu starfsemi sinnar á samkeppnismörkuðum. Fyrir fyrirtæki í einkaeigu væri þetta eina rétta leiðin til að mæta breyttum rekstraraðstæðum. Fyrir fyrirtæki í opinberri eigu getur þetta skapað óæskilegar raskanir á samkeppnismörkuðum. Með það í huga ættu stjórnvöld að marka stefnu um framtíðarfyrirkomulag á eignarhaldi Íslandspósts samhliða afnámi einkaréttar.

Meginreglan um fimm daga þjónustu

Einkarétti í póstþjónustu hefur í sögulegu samhengi verið ætlað að standa undir kostnaði við að tryggja alþjónustu. Tækniframfarir hafa hins vegar valdið því að samfélagslegt mikilvægi hefðbundinnar póstþjónustu hefur dregist saman. Niðurstöður þeirra kannana sem innanríkisráðuneytið hefur gert á viðhorfum almennings til póstþjónustu endurspegla þessar breytingar. Árið 2012 töldu þá þegar 60% svarenda það óþarfa að dreifa pósti fimm daga í viku. Í sams konar könnun sem framkvæmd var árið 2015 var hlutfallið komið í 85,4% svarenda. Í greinargerð með frumvarpsdrögunum kemur enn fremur fram að bréfum innan einkaréttar hafi fækkað um 57% frá árinu 2000 á sama tíma og íbúðum hérlendis hefur fjölgað um 30%. Það eru því sífellt færri sem telja þörf á jafn umfangsmikilli póstþjónustu og hið opinbera hefur haldið úti hingað til og þróunin í þessum efnum er hröð. Samhliða minnkandi eftirspurn eftir hefðbundinni póstþjónustu dregur úr hagkvæmni þessa rekstrar. Að öðru óbreyttu leiða færri bréf og fleiri heimili til minni tekna og aukins kostnaðar.

Þrátt fyrir framangreint er í drögum að frumvarpi þessu gert ráð fyrir að póstur sé að jafnaði borinn út alla virka daga, þó með heimild til fækkunar m.a. að teknu tilliti til markaðskönnunar. Í fyrri drögum að frumvarpi þessu var meginreglan um fimm daga þjónustu ekki að finna í ákvæðum frumvarpsins. Viðskiptaráð hvetur til þess að frekar verði hafður sá háttur á sem hafður var í eldri drögum að frumvarpi þessu þar sem nú þegar liggur ljóst fyrir að þörf á fimm daga dreifingu fer síminnkandi.

Markmið til framtíðar

Rökin fyrir inngripum hins opinbera á póstmarkaði snúast um að öðruvísi sé ekki unnt að skapa grundvöll fyrir svokallaðri alþjónustu. Markmið alþjónustunnar eru fyrst og fremst samfélagsleg, þ.e. að fólk njóti aðgengis að grundvallarþjónustu óháð búsetu. Að því gefnu að sátt ríki um að hið opinbera sjái til þess að alþjónusta sé veitt telur Viðskiptaráð að skilgreina ætti grundvallarmarkmið til framtíðar með eftirfarandi hætti:

1. Umgjörð stuðli að gagnsæi á markaði og virku samkeppnisumhverfi

2. Umgjörð tryggi viðunandi alþjónustu með lágmarkskostnaði fyrir hið opinbera

3. Umgjörð stuðli að hagkvæmum rekstri og eignarhaldi á póstmarkaði

Afnám einkaréttar er fyrsta skrefið í átt að því að ofangreindum markmiðum sé náð. Með þeim hætti er stuðlað að auknu gagnsæi á markaði og virkari samkeppni. Þessar breytingar munu leiða til þess að leggja þurfi mat á þann beina kostnað sem alþjónustukvöðinni fylgir. Til að lágmarka umræddan kostnað þarf að skilgreina kvöðina út frá þörfum viðskiptavina með hagkvæmni að leiðarljósi. Líkt og fram hefur komið hefur tæknin gjörbreytt þessum þörfum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að alþjónustukvöðin verði endurmetin að undangenginni markaðskönnun sem framkvæmd verður af Póst- og fjarskiptastofnun. Það er mikilvægt að ekki verði gengið lengra við skilgreiningu kvaðarinnar en þörf krefur. Þá telur Viðskiptaráð rétt að útboð fari fram á alþjónustukvöðinni við fyrsta tækifæri, að því gefnu að alþjónustu verði ekki við komið á markaðsforsendum. Einkaréttur ríkisins og alþjónustukvöð hafa verið meginrök fyrir aðkomu ríkisins að póstdreifingarmarkaði. Að þessari endurskipulagningu lokinni væri því rétt að selja Íslandspóst til einkaaðila. Með þessu móti væri öllum þremur ofangreindum markmiðum náð.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.

Like what you read? Give Viðskiptaráð Íslands a round of applause.

From a quick cheer to a standing ovation, clap to show how much you enjoyed this story.