Óhóflega bjartsýn fjármálastefna

Viðskiptaráð Íslands þakkar fyrir tækifærið til að gera athugasemdir við fjármálastefnuna og fagnar þeirri langtímahugsun sem hún á að stuðla að. Í þingsályktunartillögunni má finna góða fyrirætlanir t.a.m. lækkandi skuldabyrði hins opinbera. Þrennt gerir ráðið þó sérstakar athugasemdir við: Minni afgangur af grunnrekstri (A-hluta) hins opinbera, bjartsýnar forsendur fjármálastefnunnar og vaxandi umsvif hins opinbera í efnahagslífinu.

Óútskýrð bætt afkoma fyrirtækja réttlætir ekki meiri slaka í grunnrekstri

Í fyrsta lagi vekur Viðskiptaráð athygli á því að heildarafkoma A-hluta hins opinbera er töluvert lakari en í fjármálastefnu þeirri sem samþykkt var fyrir tæpu ári síðan og skrifast það nær alfarið á afkomu ríkissjóðs. Heildarafkoman 2018–2022 er áætluð 1–1,4% af landsframleiðslu, sem samsvarar 8–13 ma.kr. minni afgangi á tímabilinu heldur en gert var ráð fyrir, fyrir ári síðan (sjá mynd 1). Seðlabanki Íslands hefur margoft bent á að aðhald í ríkisfjármálum hafi slaknað á síðustu árum þegar tekið hefur verið tillit til stöðu hagsveiflunnar og einskiptisliða. Í spá Hagstofunnar er hagvöxtur meiri árin 2018–2022 heldur en í spánni sem eldri fjármálastefna byggði á sem bendir til þess að afgangur ríkissjóðs ætti að aukast. Þannig má velta því upp hvort að slaknandi aðhald ríkisfjármála muni í nánustu framtíð kynda undir verðbólgu og þenslu, sem leiðir til hærra vaxtastigs en ella.

Afgangur af rekstri hins opinbera í heild er þó talsvert meiri en í síðustu fjármálastefnu sem skýrist nær alfarið af 25–40 ma.kr. betri afkomu opinberra fyrirtækja líkt og mynd 1 ber með sér. Nánast engin rök eru þó færð fyrir bættri afkomu opinberra fyrirtækja, hvorki í greinargerð þingsályktunartillögunnar né upplýsingaskjali frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Að mati Viðskiptaráðs er það óásættanlegt að ekki séu færð skýrari rök fyrir því hvaðan þessi bætta afkoma ætti að koma. Dregur þetta úr trausti á stefnunni og brýtur í bága við grunngildi stefnumörkunar í opinberum fjármálum um gagnsæi. Jafnframt er óábyrgt að treysta um of á afkomu fyrirtækja þegar kemur að rekstri hins opinbera. Einnig tekur Viðskiptaráð undir ábendingar Fjármálaráðs um að bætt afkoma fyrirtækja dragi ekki úr þörfinni á því að agi sé í grunnrekstri hins opinbera.

Heimild: Alþingi, Hagstofa Íslands, Útreikningar Viðskiptaráðs

Fjármálastefnan byggir á bjartsýnni spá sem nú þegar eru vísbendingar um að rætist ekki

Í öðru lagi bendum við á, líkt og fyrir ári síðan, að efnahagsspáin sem fjármálastefnan byggir á er afar bjartsýn og gerir ráð fyrir fordæmalausu hagvaxtarskeiði. Vafasamt er að byggja grunnstef opinberra fjármála á svo bjartri sviðsmynd og ábyrgara væri að hafa vaðið fyrir neðan sig. Sem dæmi er gert ráð fyrir talsverðum launahækkunum á sama tíma og verðbólga verður í samræmi við verðbólgumarkmið svo kaupmáttur launa vex um 2,3% á ári að jafnaði. Til lengri tíma ræður framleiðni vinnuafls kaupmætti, en framleiðni hefur vaxið um 1,8% á ári frá 1992 og um rúmlega 1% frá fjármálakreppu, sem bendir til þess að kaupmáttarspáin sé heldur bjartsýn.

Þessi launaþróun felur enn fremur í sér að kaupmáttur íslenskra launa erlendis muni vaxa um 17% næstu fimm ár, eftir að hafa vaxið um 86% síðustu fimm ár eða samtals um 118% á einum áratug (sjá mynd 2). Þetta þýðir að íslenskur launamaður getur árið 2022 flutt inn rúmlega tvöfalt dýrari bíl fyrir sama hlutfall af laununum sínum og hann gat árið 2012. Þetta er þróun sem flest ríki geta einungis látið sig dreyma um þar sem kaupmáttarhækkun hleypur yfirleitt á 1–2% á ári. Hér á landi byggir stefna í opinberum fjármálum á slíkri fordæmalausri hagspá og er það varasamt.

1 Launavísitala reiknuð á fast gengi með gengisvísitölu. Leiðrétt fyrir verðbólgu í viðskiptalöndum. Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands

Hækkun launa í erlendri mynt er ekki eingöngu vegna launahækkana heldur er áfram gert ráð fyrir sterkri krónu og hækkandi raungengi. Eins og sést á mynd 3 hefur raungengi krónunnar og viðskiptajöfnuður ætíð fylgst vel að eins og ætla má. Ef krónan er veik er að jafnaði meira flutt út og minna inn sem eykur viðskiptaafgang eða dregur úr halla. Hið gagnstæða gildir ef krónan er sterk. Í spá Hagstofunnar er þó nánast gert ráð fyrir því að þessi sögulegu tengsl hafi rofnað. Með bættri erlendri stöðu hagkerfisins og hröðum vexti ferðaþjónustunnar hafa tengslin án efa breyst. Ólíklegt er þó að þau hafi breyst jafn mikið og Hagstofan gerir ráð fyrir. Að mati Viðskiptaráðs er hættan sú að gengi krónunnar geti ekki staðið undir viðskiptajöfnuðinum, sem þýðir að eitthvað þarf undan að láta. Hugsanlega væru það viðskiptaafgangur og krónan í senn, sem getur haft umtalsverð og neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Nú þegar virðist sem Hagstofan hafi ofmetið viðskiptaafgang. Árið 2017 er gert ráð fyrir tæplega 142 ma.kr. viðskiptaafgangi, en á fyrstu 9 mánuðum ársins var afgangurinn 91 ma.kr. Enn á eftir að birta tölur um viðskiptaafgang á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, en við vitum t.d. hver vöruskiptahallinn var (43,7 ma.kr.) og að ferðamönnum fjölgaði mun hægar en síðustu ár eða um 11%. Engu að síður þyrfti þjónustuafgangur að meira en tvöfaldast milli ára og vera rúmir 90 ma.kr. til að spá Hagstofunnar gangi eftir. Þannig virðist sem hætta sé á að Hagstofan ofmeti kraftinn í utanríkisverslun, svo að hagvöxtur gæti reynst minni.

Hið opinbera tekur til sín enn meira af kökunni

Að lokum lýsir Viðskiptaráð yfir vonbrigðum með að hið opinbera taki enn stærra hlutfall til sín af verðmætasköpun landsmanna. Í fjármálastefnunni verða tekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu tæp 43% á tímabilinu og hækkar hlutfallið um ca. eitt prósentustig frá 2016. Sökum mikils hagvaxtar samsvarar það nærri 20% raunaukningar tekna hins opinbera á aðeins þremur árum. Hafa ber í huga að umsvif hins opinbera hér á landi eru með því allra mesta sem þekkist í heiminum. Þar að auki hefur skattbyrði fyrirtækja aukist á síðustu árum líkt og sést á mynd 4. Hvort tveggja getur verið dragbítur á samkeppnishæfni þjóðarinnar, sem er varhugavert þar sem framtíð íslensks efnahagslífs byggist á þekkingarfyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.

1 Árin 2014 og 2015 eru áhrif þrotabúa bankanna inni
Heimildir: Fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptaráð kallar eftir meira gagnsæi á forsendum fjármálastefnunnar og að hún byggi á varfærnari mati á efnahagsþróuninni. Einnig ætti hið opinbera að taka til sín minna af þjóðarkökunni — sérstaklega í ljósi þess að hún stækkar nú hægar. Að teknu tilliti til þessara athugasemda styður Viðskiptaráð Íslands tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022.

    Viðskiptaráð Íslands

    Written by

    vi.is