Jákvæðar en ófjármagnaðar breytingar í almannatryggingafrumvarpi

Viðskiptaráð
5 min readSep 21, 2016

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til velferðarnefndar Alþingis um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar. Viðskiptaráð styður í meginatriðum þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Ber þar helst að nefna einföldun almannatryggingakerfisins, hækkun lífeyristökualdurs og aukinn sveigjanleika við starfslok.

Ráðið gagnrýnir hins vegar að fjármögnun breytinganna liggi ekki fyrir. Verði skattahækkunum beitt til að fjármagna þær mun það vinna gegn þeim jákvæðu efnahagslegu áhrifum sem þeim er ætlað að hafa.

Þá gerir Viðskiptaráð athugasemd við að ekki sé lengur kveðið á um samstarfsverkefni til að þróa leiðir til að innleiða starfsgetumat í stað örorkumats, líkt og gert var í drögum að frumvarpinu. Frumvarpsdrögin voru birt á heimasíðu velferðarráðuneytisins þann 24. júní síðastliðinn og skilaði Viðskiptaráð umsögn um þau. Í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki tekið tillit til athugasemda ráðsins.

Helstu breytingar jákvæðar

Helstu breytingar frumvarpsins eru jákvæðar að mati Viðskiptaráðs:

  1. Einföldun bótagreiðslna
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem fela í sér einföldun almannatryggingakerfisins. Áformað er að fækka bótaflokkum úr þremur í einn og afnema frítekjumörk. Viðskiptaráð styður þessar breytingar og telur þær til þess fallnar að gera fjárhagsstuðning hins opinbera við eldri borgara einfaldari, markvissari og gagnsærri en áður.
  2. Hækkun lífeyristökualdurs
    Viðskiptaráð styður jafnframt þá breytingu að lífeyristökualdur hækki úr 67 árum í 70 ár. Líkt og fram kemur í frumvarpinu eru margvíslegar röksemdir fyrir þessari breytingu, þar á meðal lengri meðalævi, hærri lífaldur, bætt heilsa og jákvæð áhrif virkni á efri árum á bæði andlega og líkamlega heilsu.
  3. Aukinn sveigjanleiki við starfslok
    Einnig eru lagðar til heimildir til að fresta lífeyristöku til 80 ára aldurs annars vegar og minnka starfshlutfall á efri árum hins vegar. Heimildir fyrir slíkum auknum sveigjanleika þegar kemur að starfslokum væru framfaraskref. Þeir sem komnir eru á lífeyristökualdur geta enn haft bæði vilja og getu til að starfa lengur. Að mati ráðsins er því eðlilegt að einstaklingnum sé heimilt að fresta starfslokum sínum eftir því sem hann telur henta sér best.

Brýnt að meta starfsgetu í stað örorku

Í drögum að frumvarpinu var kveðið á um að sett yrði af stað samstarfsverkefni um að þróa leiðir til að innleiða starfsgetumat í stað örorkumats. Nú þegar frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi er ekki lengur að finna ákvæði um að slíkt samstarfsverkefni skuli sett af stað. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ekki hafi náðst samstaða í nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga um tillögur er sneru að innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats. Því sé gert ráð fyrir að lagt verði fram sérstakt frumvarp síðar meir sem lýtur að þeim breytingum.

Örorka er umfangsmikið félagslegt og efnahagslegt vandamál hérlendis. Sífellt fleiri eru metnir til örorku ár hvert og hefur öryrkjum fjölgað um tæp 30% frá árinu 2005. Árið 2015 voru 1.471 einstaklingur jafnframt úrskurðaður með 75% örorkumat í fyrsta sinn en það er 19% fleiri en árið 2014. Einnig voru úrskurðir um 75% örorkumat tæplega 1.000 fyrstu 6 mánuði ársins árið 2016, sem er 50% aukning miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Af þessum tölum er ljóst að aðkallandi er að bregðast við þessari þróun sem fyrst.

Sú leið sem hefur verið talin líklegust til árangurs í þeim efnum hefur verið starfsgetumat í stað örorkumats. Til dæmis var slík breyting lykilhluti af tillögum verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld um aukna atvinnuþátttöku öryrkja.

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur hins vegar lagst gegn þeirri útfærslu sem finna mátti í frumvarpsdrögunum, meðal annars af ótta við að öryrkjar sem metnir væru með starfsgetu að hluta til gætu þurft að þiggja atvinnuleysisbætur til móts við lægri örorkulífeyri.

Að mati Viðskiptaráðs eiga bótakerfi hins opinbera að endurspegla aðstæður einstaklinga. Ef einstaklingar búa yfir starfsgetu að hluta til en fá ekki störf er einmitt eðlilegt að þeir þiggi atvinnuleysisbætur til móts við örorkubætur. Það skapar aukið gagnsæi um raunverulega stöðu þessara einstaklinga og heildarumfang atvinnuleysis hérlendis. Jafnframt hafa stjórnvöld þá aukin tækifæri til að aðstoða viðkomandi einstaklinga með þeim vinnumiðlunarúrræðum sem til staðar eru í dag.

Viðskiptaráð leggur því til að ákvæði það sem var í frumvarpsdrögunum verði bætt við frumvarpið á ný. Að mati ráðsins hafa ekki komið fram sjónarmið sem réttlæta það að hverfa frá þessari aðkallandi breytingu sem væri til bóta fyrir samfélagið í heild.

Ófjármagnaðar breytingar

Í kostnaðarumsögn um frumvarpið kemur fram að áætlaður kostnaður vegna breytinganna nemi samtals 33 ma. kr. fram til ársins 2027. Ekki er lögð til ákveðin leið til að fjármagna þessar breytingar en þó er lögð fram áætlun um að hækkun tryggingargjalds þyrfti að nema 0,45% til að þær skili ríkissjóði ekki tapi.

Verði breytingarnar fjármagnaðar með aukinni skattlagningu á vinnuframlag einstaklinga mun það vinna gegn jákvæðum áhrifum þeirra með því að draga úr verðmætasköpun allra einstaklinga — ekki einungis þeirra sem komnir eru á efri ár.

Unnið hefur verið að því á síðastliðnum árum að lækka tryggingagjald og hefur það farið stiglækkandi frá árinu 2012. Enn er þó nokkuð í að gjaldið lækki niður í það sem það var fyrir efnahagshrunið. Í greinargerð með stjórnarfrumvarpi sem varð að lögum nr. 54/2016 kom fram að stjórnvöld muni beita sér fyrir frekari lækkun tryggingagjalds á komandi árum. Yrði gjaldið hækkað á ný væri farið þvert á þá stefnu stjórnvalda.

Viðskiptaráð hvetur til þess að breytingarnar verði fjármagnaðar með niðurskurði opinberra útgjalda í stað hækkun tryggingagjalds. Þannig má tryggja að jákvæð efnahagsleg áhrif breytinganna þurrkist ekki út vegna neikvæðra áhrifa af aukinni skattlagningu á vinnu einstaklinga.

Í því samhengi bendir ráðið á að framlög hins opinbera til ýmiss konar samfélagsmótunar nema t.a.m. um 100 ma. kr. á ári. Dæmi um slíka starfsemi er rekstur eða fjármögnun á sviðum póstþjónustu, sorphirðu, steypuframleiðslu, trúariðkunar, fjölmiðlunar og annarra atvinnugreina. Ráðið hvetur stjórnvöld til að endurskoða útgjöld sín til þessara málefna með það að markmiði að fjármagna þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Viðskiptaráð telur einnig að draga mætti úr kostnaði við frumvarpið með því að flýta ferlinu við innleiðingu lágmarkslífeyristökualdurs úr 67 árum í 70 ár. Með þeim hætti væri fyrr byrjað að sporna við þeirri þróun að sífellt hærra hlutfall lífeyrisþega sé á vinnufærum aldri. Samkvæmt frumvarpinu mun hækkun lágmarkslífeyristökualdurs vera framkvæmd í þrepum yfir 24 ára tímabil. Fyrstu tólf árin hækkar hann um tvo mánuði á ári en næstu tólf ár á eftir hækkar hann um einn mánuð á ári. Verði frumvarpið að lögum mun ellilífeyrisaldurinn ná 68 árum árið 2023, 69 árum árið 2029 og 70 árum árið 2041. Að mati Viðskiptaráðs væri betra að hækka lágmark slífeyristökualdus um tvo mánuði næstu 18 árin og flýta þar með ferlinu um sex ár.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til framangreindra athugasemda.

--

--