Mynd: http://cdn.mbl.is/tncache/frimg/dimg_cache/e730x487/9/34/934470.jpg

Bílastæðagjöld fýsilegt form gjaldtöku

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til Alþingis vegna frumvarps um bílastæðagjöld. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði gjaldtökuheimild í umferðarlög fyrir notkun bílastæða og þjónustu sem henni tengist. Gert er ráð fyrir að ráðherra útfæri gjaldtöku nánar í reglugerð í þeim tilvikum sem land er í umráðum ríkis. Sveitarstjórn útfærir gjaldtökuna þegar land er í þeirra umráðum.

Viðskiptaráð fagnar því að stjórnvöld láti sig þetta mál varða enda er ljóst að margar af náttúruperlum landsins liggja undir skemmdum ef ekki verður ráðist í breytingar á umgjörð ferðamannastaða á Íslandi.

Viðskiptaráð telur frumvarpið til mikilla bóta og hefur lengi talað fyrir því að gjaldtaka á ferðamannastöðum sé rétta leiðin til tekjuöflunar. Slík gjaldtaka aflar tekna fyrir uppbyggingu innviða, leggst með beinum hætti á notendur þjónustunnar, getur dregið úr átroðningi á vinsælustu áfangastaðina og skapar hvata fyrir aðila innan greinarinnar til að koma á fót nýjum áfangastöðum.

Bílastæðagjald fýsilegt form gjaldtöku
Í því frumvarpi sem nú er til umsagnar er lagt til að ríki og sveitarfélögum verði heimilt að taka gjald af þeim sem leggja bifreiðum sínum við ferðamannastaði. Að mati ráðsins eru bílastæðagjöld fýsilegt form gjaldtöku, þau leggjast beint á þá sem á staðina sækja og hafa takmörkuð neikvæð áhrif á upplifun gesta af ferðamannastaðnum. Þá er sambærilegt gjald alþekkt víða um heim.

Ýmsir aðilar hafa mælt fyrir um kost bílastæðagjalda sem form gjaldtöku. Bílastæðagjöld voru t.d. ein af fimm tillögum að bættum umhverfis og auðlindagjöldum sem sjálfstæð verkefnisstjórn samráðsvettvangs um aukna hagsæld skilaði af sér. Einnig voru bílastæðagjöld lögð til sem leið til að sinna betur ferðamannastöðum í skýrslu starfshóps um auknar tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum.

Hætta er á að náttúruperlur Íslands liggi undir skemmdum ef ekki verður ráðist í breytingar á umgjörð ferðamannastaða hérlendis. Viðskiptaráð telur fyrirliggjandi frumvarp skref í rétta átt að aukinni sjálfbærni í ferðamennsku á Íslandi og til þess fallið að styðja við áframhaldandi uppbyggingu innan atvinnugreinarinnar.