Einföldun regluverks atvinnulífsins fagnaðarefni

Með frumvarpi um hlutafélög eru lagðar til ýmsar lagabreytingar sem miða að því að einfalda lagaum­hverfi vegna stofnunar, skráningar og starfrækslu fyrirtækja. Einnig eru lagðar til breytingar sem er ætlað að sporna við kennitöluflakki. Viðskiptaráð tekur í meginatriðum undir markmið frumvarpsins.

Hagræði fólgið í rafrænni fyrirtækjaskrá

Viðskiptaráð fagnar því að til standi að einfalda regluverk atvinnulífsins og vonast til að stjórnvöld haldi áfram á sömu braut. Til að mynda telur ráðið mjög til bóta að breyta eigi því fyrirkomulagi að sækja þurfi um undanþágu frá skilyrðum laganna um búsetu stofnenda. Hið sama á við um undanþágu til að skráð félagasamtök og lífeyrissjóðir geti stofnað félög. Líkt og fram kemur í frumvarpinu voru undanþágur vegna framangreinds almennt veittar. Felur breyting þessi því í sér töluverða einföldun fyrir alla aðila, eykur skilvirkni innan stjórnsýslunnar og minnkar óþarfa kostnað.

Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar vegna undirbúnings rafrænnar fyrirtækjaskrár sem gera mun einstaklingum og lögaðilum kleift að skrá félög með rafrænum hætti. Áður hefur verið lagt fram frumvarp vegna undirbúnings skráarinnar og skilaði Viðskiptaráð inn jákvæðri umsögn um frumvarpið. Rafræn fyrirtækjaskrá felur í sér töluverða einföldun og hagræði við stofnun og skráningu fyrirtækja. Fram kemur í frumvarpinu að með innleiðingu skráarinnar verði hægt að skrá félög og breytingar samdægurs í stað þess að það taki sjö til tíu virka daga. Jafnframt er tekið sem dæmi að þegar einkahlutafélag er stofnað þar sem notuð eru stofnskjöl ríkisskattstjóra þarf sérfræðingur ríkisskattstjóra ein­göngu að lesa yfir tvö atriði í stað 160 atriða sem skoða þarf í dag. Augljóst er því að bæði mun atvinnulífið hagnast af skránni og einnig mun hún skila aukinni skilvirkni innan stjórnsýslunnar.

Greint er frá því í frumvarpinu að gert sé ráð fyrir að rafræn fyrirtækjaskrá verði tekin í gagnið á þessu ári. Vonast Viðskiptaráð til að sú fyrirætlun stjórnvalda gangi eftir svo að það hagræði sem af skránni hlýst muni koma til nota sem allra fyrst.

Mikilvægt að gæta hófs í aðgerðum gegn kennitöluflakki

Í frumvarpinu eru lagðar fram breytingar sem miða að því að sporna við kennitöluflakki. Viðskiptaráð telur þær breytingar sem lagðar eru til hóflegar og leggst því ekki gegn samþykkt þeirra. Þó telur ráðið mikilvægt að árétta að lagabreytingar sem eiga að stemma stigu við kennitöluflakki séu ekki óþarflega íþyngjandi. Aðgerðir gegn kennitöluflakki mega ekki verða til þess að skerða athafnafrelsi og viðskiptamöguleika þeirra sem stunda eðlilega viðskiptahætti. Slíkar aðgerðir kunna að draga úr vexti íslensks atvinnulífs, hamla nýsköpun og koma niður á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Kennitöluflakk er einungis talið liggja að baki 4–6% gjaldþrota en samt sem áður virðist sem almenningur tengi gjaldþrot fyrirtækja almennt við sviksamlega háttsemi. Í könnun sem framkvæmd var af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kom fram að tæplega 50% þeirra sem stofna fyrirtæki óttast það mest að fyrirtækið verði gjaldþrota. Færri töldu áhættuna á því að missa heimili sitt vera stærsta áhyggjuefnið. Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að umræða um gjaldþrot og kennitöluflakk sé yfirveguð og skynsöm. Of mikil og neikvæð umræða getur orðið til þess að einstaklingar sitji á viðskiptahugmyndum sínum í ótta við að þær gangi ekki upp í stað þess að fara af stað af krafti og skapa verðmæti til að skila út í samfélagið.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.