Hærri fæðingarorlofsgreiðslur væru framfaraskref

Viðskiptaráð
5 min readAug 25, 2016

--

Þessi umsögn var send til velferðarráðuneytisins vegna draga að frumvarpi um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að fæðingarorlof foreldra verði lengt og hins vegar að mánaðarleg hámarksgreiðsla úr fæðingarorlofssjóði verði hækkuð. Að mati Viðskiptaráðs er hækkun hámarksgreiðslu til foreldra í fæðingarorlofi til mikilla bóta en samræma ætti skerðingarhlutföll fyrir ólíka tekjuhópa. Ráðið leggst hins vegar gegn lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf.

Hækkun hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði

Núgildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof kveða á um að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði skuli nema 370.000 kr. á mánuði. Að mati Viðskiptaráðs er þetta of lágt viðmið. Það veldur því að markmið fæðingarorlofskerfisins, að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera þeim kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, næst í mörgum tilfellum ekki. Margir foreldrar kjósa að nýta aðeins hluta þess orlofs sem lögin kveða á um vegna þeirrar tekjuröskunar sem heimilið verður fyrir við töku orlofsins.

Með frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæð greiðslu til foreldra í fæðingarorlofi verði hækkuð í 600.000 kr. á mánuði. Þannig verða fyrstu 300.000 kr. af viðmiðunartekjum foreldra óskertar og 20% skerðing verði á viðmiðunartekjum umfram 300.000 kr. að hámarksgreiðslu upp á 600.000 kr.

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksfjárhæðarinnar. Að mati ráðsins eru hærri greiðslur úr fæðingarorlofssjóði til þess fallnar að auka bæði jafnrétti og fæðingartíðni. Ráðið gerir þó athugasemd við að fyrstu 300.000 kr. viðmiðunartekna verði óskertar en að 20% skerðing verði á viðmiðunartekjum umfram þá upphæð. Að mati ráðsins er ekki heppilegt að blanda markmiðum um aukinn tekjujöfnuð inn í stuðningskerfi sem hefur þann tilgang að tryggja börnum samvistir við foreldra sína.

Fæðingarorlof er jafnréttismál

Í tillögum stafshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í desember 2014 og fyrirliggjandi frumvarp byggir á, er ljósi varpað á misræmi í fæðingarorlofstöku karla og kvenna. Slíkt misræmi hægir á þróun til fullkomins kynjajafnréttis á íslenskum vinnumarkaði.

Árið 2014 var launamunur kynjanna 18,3%. Að mati Viðskiptaráðs er ljóst að á meðan þessi munur er enn til staðar er lág hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til þess fallin að hægja á breytingum í átt að auknu jafnrétti á vinnumarkaði. Lág hámarksgreiðsla eykur líkur á því að það foreldri sem hefur hærri laun nýti ekki fæðingarorlof sitt til fulls og að tekjulægra foreldrið nýti sér þá orlofsmánuði sem foreldrar eiga rétt á að skipta með sér.

Þá kom einnig fram í skýrslu áðurnefnds starfshóps að fylgni væri á milli breytinga á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og nýtingu feðra á rétti til fæðingarorlofs. Til að mynda voru umsóknir feðra sem hlutfall af umsóknum mæðra 90% árið 2008 þegar hámarksgreiðslan var 535.700 kr. en hlutfallið var komið niður í 80% árið 2014 þegar hámarksgreiðslan nam 370.000 kr. Þá lækkaði meðaldagafjöldi feðra í fæðingarorlofi úr 101 í 81 á sama tímabili og um tvöfalt fleiri feður fullnýttu ekki rétt sinn til þriggja mánaða orlofs, en hlutfallið fór úr 22% í 40%.

Viðskiptaráð telur af þessum sökum framfaraskref að hækkuð verði lögbundin hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði. Slíkt er til þess fallið að draga úr röskun á tekjuinnkomu heimila vegna barneigna, tryggja barni samvistir við báða foreldra og að auka jafnrétti á vinnumarkaði. Að mati ráðsins ætti að fara fram endurmat að nokkrum árum liðnum á því hvort hækkunin sé nægjanleg til að vinda ofan af þeirri auknu skekkju sem myndast hefur í fæðingarorlofstöku feðra og mæðra á undanförnum árum.

Þjóðhagslega hagkvæmt að hækka fæðingartíðni

Viðskiptaráð telur auk sjónarmiða um jafnrétti á vinnumarkaði mikilvægt að stuðla að eðlilegri fólksfjölgun hér á landi. Fæðingartíðni á Íslandi er í sögulegu lágmarki og undir því sem sjálfbært telst til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið (Mynd 1). Lág fæðingartíðni er einn helsti orsakarvaldur öldrunar þjóða, sem er vandamál sem sækir að flestum vestrænum hagkerfum. Áætlað er að fjöldi fólks á starfsaldri á hvern lífeyrisþega í ríkjum OECD verði helmingi lægra árið 2050 en hann er í dag. Í dag er hlutfallið hér á landi 5,2 en samkvæmt spá OECD mun það verða 2,1 árið 2050. Því er þjóðhagslega hagkvæmt að stuðla að hærri fæðingartíðni hér á landi og mun lægri fórnarkostnaður barneigna með auknum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði styðja við það markmið.

Tekjujöfnun á ekki heima í lögum um fæðingarorlof

Viðskiptaráð er mótfallið því að fyrstu 300.000 kr. viðmiðunartekna verði óskertar en að 20% skerðing verði á viðmiðunartekjum umfram þá upphæð. Eðlilegra væri að skerðingarhlutfallið væri samræmt óháð tekjum einstaklingsins. Í frumvarpinu kemur fram að helstu markmið þess séu að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína, jafnframt því að gera foreldrum betur kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Sé jöfnunarsjónarmiðum jafnframt bætt inn sem viðbótarmarkmiði er flækjustig bóta- og skattkerfisins hérlendis aukið og jöfnunaráhrif verða óskýrari. Að mati ráðsins er eðlilegra að markmiðum löggjafans um aukna dreifingu ráðstöfunartekna sé náð fram í gegnum tekjuskattskerfið. Viðskiptaráð leggur því til að skerðingarhlutfallið verði samræmt óháð tekjum foreldris.

Lenging fæðingarorlofs ekki lausnin

Með frumvarpsdrögunum er lagt til að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf þannig að foreldrar fái fimm mánuði hvor um sig og tvo mánuði til viðbótar til skiptanna.

Viðskiptaráð tekur undir það að á undanförnum árum hafi það verið viðvarandi vandamál fyrir íslenska foreldra að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn fær leikskólavist. Að mati ráðsins felst lausnin þó ekki í lengingu fæðingarorlofsins líkt og kveðið er á um í frumvarpsdrögunum.

Í tillögum starfshóps félags- og húsnæðismálaráðherra, sem frumvarpsdrög þessi byggja á, kemur fram að þörf sé á að móta heildræna stefnu frá vöggu til leikskóla. Að öðrum kosti verði markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof ekki náð. Viðskiptaráð er sammála því að stjórnvöld ættu að móta slíka stefnu. Markmið hennar yrði að styrkja innviði og tryggja þannig dagvistunarúrræði fyrir börn frá níu mánaða aldri. Hefur meðal annars verið bent á að tækifæri felist í því að börn hefji skólagöngu ári fyrr, líkt og þekkist víða í Evrópu. Þannig megi skapa rými fyrir aukinn fjölda yngri barna í leikskólum landsins, til viðbótar við þann ávinning sem felst í því að einstaklingar ljúki námi fyrr.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til framangreindra athugasemda.

--

--