Forsendur fjárlagafrumvarps 2017: fjórar breytingatillögur

Viðskiptaráð
4 min readDec 14, 2016

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um forsendur frumvarps til fjárlaga 2017. Með frumvarpinu eru lagðar fram breytingar vegna fjárlaga fyrir árið 2017 sem snúa fyrst og fremst að skattkerfinu. Ráðið telur frumvarpið heilt yfir vera til bóta en leggur þó til fjórar breytingar á eftirtöldum einstökum ákvæðum þess: (1) lækkun tryggingagjalds, (2) horfið frá umframhækkun krónutöluskatta, (3) horfið frá skörpum hækkunum eftirlitsgjalda og (4) markvissari bótagreiðslur.

1. Lækka ætti tryggingagjald
Tryggingagjald var hækkað verulega í kjölfar efnahagshrunsins og fór úr 5,34% á árinu 2008 í 8,65% á árinu 2010. Tryggingagjaldið hefur farið stiglækkandi frá árinu 2012 og er nú 6,85%. Tryggingagjaldið var nýlega lækkað um 0,5% með lögum nr. 54/2016 en í greinargerð frumvarpsins sem síðar varð að framangreindum lögum kemur fram að stjórnvöld hyggist beita sér fyrir frekari lækkun tryggingagjalds á komandi árum. Jafnframt gerðu Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld með sér samkomulag um lækkun tryggingagjalds um 0,5% á árinu 2017 í tengslum við gerð kjarasamninga. Það vekur því furðu að ekki sé gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds í fyrirliggjandi frumvarpi og hvetur Viðskiptaráð til þess að því verði breytt.

2. Horfið verði frá umframhækkun krónutöluskatta
Í frumvarpinu eru lagðar til 2,2% hækkanir á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi á áfengi og tóbak vegna almennra verðlagsbreytinga 2017. Þess til viðbótar eru þessir krónutöluskattar hækkaðir um 2,5% umfram almennt verðlag. Samtals nemur hækkunin því 4,7% á milli ára.

Fram kemur í frumvarpinu að viðbótarhækkunin sé gerð í því skyni að slá á þau þensluáhrif sem látið hafa á sér kræla undanfarið. Að mati Viðskiptaráðs myndi hún hins vegar leiða til hækkunar verðlags sem skilar sér í aukinni verðbólgu og grefur þannig undan efnahagslegum stöðugleika. Því til viðbótar er ekki slegið á þenslu ef hið opinbera tekur fjármuni með sköttum og eyðir þeim aftur, en miðað við fjárlög 2017 færu fjármunirnir fyrst og fremst í aukin opinber útgjöld.

Viðskiptaráð leggst því gegn að framangreindir krónutöluskattar verði hækkaðir umfram almennar verðlagsbreytingar.

3. Horfið verði frá skörpum hækkunum eftirlitsgjalda
Viðskiptaráð gerir athugasemd við þær breytingar sem gerðar eru á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds sem kostar rekstur Fjármálaeftirlitsins. Fram kemur í frumvarpinu að breytingar þessar taki meðal annars mið af endurmati á kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins.

Kostnaður fjármálafyrirtækja vegna opinbers eftirlits hefur farið hækkandi á undanförnum árum. Rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins nam 1,1 milljarði árið 2010 en 1,9 milljörðum árið 2015. Viðskiptaráð telur athyglisvert að þrátt fyrir að íslenska bankakerfið hafi minnkað undanfarin ár hafi rekstrarkostnaður eftirlitsins á sama tíma hækkað. Þessi gjöld eru á endanum borin af viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna — fyrirtækjum og einstaklingum hérlendis — í formi hærri vaxtamunar og þjónustugjalda.

Viðskiptaráð hvetur til þess að horfið verði frá skörpum hækkunum eftirlitsgjaldanna og að fjárheimildir Fjármálaeftirlitsins verði minnkaðar til samræmis í fjárlögum 2017.

4. Markvissari bótagreiðslur
Með frumvarpinu er lagt til að barnabætur verði hækkaðar samhliða 12,5% hækkun á tekjuviðmiðunarmörkum. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að eignamörk vaxtabóta verði hækkuð um 12,5%. Viðskiptaráð leggur til að mörkin haldist óbreytt frá fyrra ári í stað framangreindrar hækkunar. Í framhaldinu ættu stjórnvöld að taka barna- og vaxtabótakerfið hér á landi til gagngerrar endurskoðunar.

Verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld lagði nýlega til verulega einföldun barnabótakerfisins þar sem að núverandi fyrirkomulag væri flókið, ógagnsætt og ómarkvisst.

Hvað vaxtabætur varðar þá hafa fjölmargir aðilar fjallað um að í stað þess að starfrækja nokkur ólík stuðningskerfi í húsnæðismálum ætti að taka upp almennan fjárhagsstuðning sem einskorðast við efnaminni heimili [1]. Með þeim hætti ná bæturnar tilgangi sínum að tryggja efnaminni fjölskyldum húsnæði. Þá lagði hópurinn til að vaxtabótakerfið yrði fellt niður í núverandi mynd og sparnaði beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónuafslætti.

Auk framangreinds gerði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn úttekt á skatt- og bótakerfinu hér á landi og fengu vaxtabætur þar falleinkunn. Sjóðurinn sagði bæturnar vera ákaflega flóknar og hvetja til of mikillar skuldsetningar heimila. Jafnframt taldi AGS að bæturnar hafi að öllum líkindum áhrif til hækkunar fasteignaverðs, sérstaklega verð á smærri íbúðum, vegna þess hversu almennar þær séu.

Bótagreiðslur eru hluti af því öryggisneti sem velferðarkerfinu er ætlað að skapa. Aukning kaupmáttar dregur aftur á móti úr þörf á bótagreiðslum. Í því ljósi skýtur skökku við að tekjuviðmiðunarmörk og eignamörk séu hækkuð verulega umfram verðlag. Með framangreint í huga telur Viðskiptaráð því skynsamlegra að halda mörkunum óbreyttum.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til ofangreindra athugasemda.

— — — —

[1] Sjá m.a. umsagnir Viðskiptaráðs um frumvörp um almennar íbúðir og húsnæðisbætur. Slóð: http://vi.is/malefnastarf/umsagnir/beinn-fjarhagsstudningur-fremur-en-haekkun-husnaedisbota/ og http://vi.is/malefnastarf/umsagnir/fjolgun-studningskerfa-ekki-til-bota/. Sjá einnig tilkynningu Viðskiptaráðs um úttekt AGS. Slóð: http://vi.is/malefnastarf/frettir/uttekt-ags-afellisdomur-yfir-husnaedisstefnu-stjornvalda/

--

--