Áfengisfrumvarp: forvarnir ákjósanlegri en frelsisskerðing

Viðskiptaráð
5 min readMar 20, 2017

Viðskiptaráð hefur skilað umsögn til Alþingis um frumvarp sem leggur til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að auglýsa áfengi með nánar tilgreindum takmörkunum.

Viðskiptaráð tekur undir með efni frumvarpsins og leggur til að það nái fram að ganga. Ráðið hefur ávallt talað fyrir því að hið opinbera láti af rekstri sem einkaaðilar geta sinnt með hagkvæmari hætti. Þá telur ráðið að hægt sé að ná markmiðum um lágmörkun á skaðlegum áhrifum áfengisneyslu með öðrum leiðum en ríkiseinokun á smásölu áfengra drykkja. Viðskiptaráð telur jafnframt að breytingar þær sem boðaðar eru í frumvarpinu komi til með að auka hagkvæmni í smásölu áfengis án þess að skerða tekjur ríkissjóðs. Loks telur ráðið til bóta að bann við áfengisauglýsingum sé aflétt þar sem slíkt er til samræmis við flestar aðrar Norðurlandaþjóðir og jafnar samkeppnisstöðu innlendra og erlendra aðila á markaðinum.

Aukið atvinnufrelsi bætir lífskjör

Það hefur ávallt verið mat Viðskiptaráðs að einkaaðilar séu betur til þess fallnir að standa í atvinnurekstri en hið opinbera. Einkaaðilar þurfa að haga rekstri sínum með sem hagkvæmustum hætti til að verða ekki undir í samkeppnisumhverfi. Reynslan af íslenskum smásölumarkaði sýnir þetta svart á hvítu, en aukið frelsi í verslunarrekstri hefur stuðlað að verulegum kjarabótum fyrir neytendur hérlendis á undanförnum áratugum.

Smásala áfengis hefur hingað til verið undanþegin þessari þróun. ÁTVR hefur í dag einkaleyfi á smásölu með áfengi og þannig ríkir einokun á því sviði þrátt fyrir að um atvinnurekstur sé að ræða. Afleiðingin er sú að kraftar samkeppni leiða ekki til aukinnar hagkvæmni í rekstri líkt og raunin hefur verið í verslun með aðrar vörutegundir. Af þessum sökum má telja að afnám einkaleyfis ÁTVR á sölu áfengis muni leiða til bættrar þjónustu og lægra vöruverðs fyrir neytendur.

Forvarnir ákjósanlegri en frelsisskerðing

Af umsögnum þeim sem nú þegar hafa borist um lagafrumvarp þetta og umræðu í þjóðfélaginu má ráða að helstu rökin fyrir einokun ríkisvaldsins á smásölu með áfengi byggi á sjónarmiðum um lýðheilsu. Þar hefur m.a. verið nefnt að núverandi fyrirkomulag (1) takmarki aðgengi ungmenna að áfengi, (2) takmarki aðgengi allra einstaklinga að áfengi, (3) dragi úr neyslu vegna hærra vöruverðs í verslunum ÁTVR en hjá einkaaðilum. Það er mat Viðskiptaráðs að þessi sjónarmið eigi ekki við rök að styðjast:

  1. Aðgengi ungmenna að áfengi má takmarka án þess að draga úr atvinnufrelsi. Með því að setja skilyrði um slíkt fyrir veitingu áfengissöluleyfa og viðurlögum við brotum á viðkomandi lagaákvæðum má tryggja slíkt með fullnægjandi hætti. Þetta fyrirkomulag hefur gefið góða raun þegar kemur að smásölu á tóbaki.
  2. Að mati Viðskiptaráðs er ekki réttlætanlegt að takmarka aðgengi að áfengi almennt. Sú staðreynd að sumir einstaklingar eigi í vandræðum með neyslu þess hefur verið notuð sem réttlæting þess að neysluskattar á áfengi séu mun hærri en á aðrar vörutegundir. Það er mat Viðskiptaráðs að aðgangstakmarkanir umfram hærri skattlagningu séu óhófleg takmörkun á frelsi bæði smásala og neytenda.
  3. Getgátur hafa komið fram um að verð á áfengi muni annað hvort lækka eða hækka í kjölfar afnáms einokunar ríkisins. Slík áhrif eru ekki rök gegn afnámi einokunar á smásölu áfengis. Hið opinbera beitir sértækum sköttum til að hækka verð á áfengi og takmarka þannig aðgengi að því. Verði einokun ÁTVR afnumin munu þeir skattar enn vera við lýði. Sé það vilji löggjafans að takmarka aðgengi að áfengi enn frekar með hærra vöruverði ætti að breyta fyrirkomulagi neysluskatta, en ekki handstýra álagningu í gegnum opinberan rekstur.

Árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun á áfengi er í gegnum forvarnarstarf, en ekki takmarkanir á frelsi einstaklinga til neyslu þess. Þessu til stuðnings má benda á að áfengisneysla ungmenna hefur dregist verulega saman á undanförnum árum þrátt fyrir að aðgengi að áfengi hafi á sama tíma aukist vegna lengingar opnunartíma og fjölgunar verslana ÁTVR. Þetta er til marks um góðan árangur af forvarnarstarfi í skólum.

Heimild: Niðurstöður rannsókna meðal framhaldsskólanema á Íslandi. Slóð: http://www.mr.is/docs/skyrslur/rannsoknir/UngtFolk_2016.pdf

Óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs

Viðskiptaráð telur að afnám einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Samkvæmt áætlun í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að ÁTVR muni greiða ríkinu um einn milljarð króna í arð en gera má ráð fyrir að stærsti hluti þess arðs komi til vegna tóbakssölu. Í ársskýrslu ÁTVR árið 2014 kom fram að þegar vörunotkun tóbaks eru dregin frá tekjum af tóbakssölunni standa eftir 1,4 milljarðar króna sem er sama upphæð og greiddur arður til ríkissjóðs var það ár. Af því má ætla að greiddur arður komi að mestu frá tóbakssölunni en þar sem tóbaki er dreift í heildsölu en áfengið er selt í ótal verslunum er kostnaður ÁTVR af tóbakssölunni mun lægri en í áfengissölunni. Arðsemi ÁTVR af tóbakssölunni er því talsvert hærri.

Arður ÁTVR mun því líklega ekki lækka svo um muni en samkvæmt frumvarpinu er áætlað að rúmir 16 milljarðar renni áfram í ríkissjóð í gegnum áfengisgjaldið árið 2016. Megintekjustofn ríkisins af áfengissölu helst því óbreyttur. Við afnám einkaleyfis ÁTVR bætast einnig við þeir fjármunir sem myndu skapast við sölu eigna stofnunarinnar en samkvæmt efnahagsreikningi ÁTVR frá 31. desember 2015 námu eignir þess 5.943 m.kr.

Fyrirkomulag áfengisauglýsinga til samræmis við aðrar Norðurlandaþjóðir

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að auglýsa áfengi hér á landi með nánar tilgreindum takmörkunum. Er í því tilliti nefnt að tilgangur breytingarinnar sé að jafna út ósanngjarnan aðstöðumun erlendra og innlendra aðila. Viðskiptaráð tekur undir með breytingunni og telur til bóta að jafna samkeppnisaðstöðu innlendra og erlendra aðila á markaðnum.

Áfengisauglýsingar eru sýnilegar almenningi hér á landi þrátt fyrir bann á þeim á íslenskum miðlum. Þær er að finna á erlendum miðlum, undir formerkjum léttöls eða sem „duldar“ auglýsingar þannig að neytandi áttar sig ekki á að um auglýsingu sé að ræða.

Breyting þessi er jafnframt í samræmi við skýrslu starfshóps sem skipaður var af fjármálaráðuneytinu og falið var að framkvæma heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar. Í skýrslunni kom fram að óraunhæft væri að koma í veg fyrir auglýsingar áfengis og lagði starfshópurinn því til að heimila skyldi áfengisauglýsingar með ákveðnum takmörkunum. Samkvæmt hópnum er slíkt í samræmi við reglur flestra Norðurlandaþjóðanna og gerir að mati starfshópsins eftirlit skilvirkara og eyðir réttaróvissu sem nú ríkir.

Viðskiptaráð tekur undir markmið lagafrumvarps þessa og telur breytingarnar sem það kveður á um vera til bóta.

--

--