Gjaldeyrismál: frelsi aukið verulega

Viðskiptaráð
4 min readSep 7, 2016

Með frumvarpi um lög um gjaldeyrismál er frelsi einstaklinga og fyrirtækja til fjármagnshreyfinga til og frá landinu og til gjaldeyrisviðskipta aukið verulega. Viðskiptaráð fagnar frumvarpinu sem markar tímamót í íslensku viðskiptaumhverfi. Ráðið hefur ítrekað bent á skaðsemi langvarandi fjármagnshafta og hvatt stjórnvöld til að ráðast í afnám þeirra.

Óbeinn kostnaður hafta er gríðarlegur

Kostnaði vegna gjaldeyrishaftanna má skipta í beinan kostnað vegna umsýslu annars vegar og óbeinan kostnað vegna efnahagslegra áhrifa hins vegar. Beini kostnaðurinn, í formi eftirlits, útboða, undanþágubeiðna, ráðgjafar og annarrar umsýslu vegna haftanna, er umtalsverður. Sá kostnaður er þó lágur í samanburði við þann óbeina kostnað sem hlýst af höftunum. Hægari vöxtur fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi er sá óbeini kostnaður sem vegur þyngst til lengri tíma.

Heimildir: Hagstofa Íslands; útreikningar Viðskiptaráðs Íslands

Það er erfitt að mæla töpuð tækifæri, en þróun síðustu ára gefur engu að síður vísbendingar um þann skaða sem höft á fjármagnsflutningum hafa valdið innan svokallaðs alþjóðageira.[1] Til að áætla umfang þessara óbeinu efnahagslegu áhrifa má líta til útflutnings þeirra fyrirtækja sem starfa innan geirans. Þegar flæði fjármagns til og frá landinu var frjálst jókst útflutningur geirans hratt, eða um 8% á ári að meðaltali yfir 15 ára tímabil. Bæði fyrir og eftir þann tíma, þegar höft voru á flæði fjármagns, varð aftur á móti stöðnun og jafnvel samdráttur í útflutningi alþjóðageirans.

Það er því ekki að ástæðulausu sem Viðskiptaráð hefur ítrekað kallað eftir því að afnám hafta eigi sér stað sem allra fyrst. Þar sem höftin takmarka vaxtarmöguleika fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi eykst fórnarkostnaður þeirra með hverju ári.

Þetta skiptir sköpum í ljósi þess að úflutningur Íslands þarf að aukast til muna til þess Íslendingar safni ekki erlendum skuldum á nýjan leik. Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company gaf út skýrslu um íslenska hagkerfið árið 2012. Í skýrslunni kom m.a. fram að útflutningur þyrfti að tvöfaldast á næstu 20 árum til að standa undir sjálfbærum, kröftugum hagvexti.[2] Þetta jafngildir ríflega 1.000 ma. kr. aukningu yfir umrætt tímabil. Í kjölfar skýrslunnar hefur þessi niðurstaða verið nefnd „þúsund milljarða áskorunin“.[3]

Til lengri tíma skiptir samsetning útflutningsvaxtarins ekki síður miklu máli. Í áðurnefndri skýrslu McKinsey kom fram að á næstu áratugum þyrfti stigvaxandi hlutfall útflutnings að koma frá alþjóðageiranum. Ef nýta á náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti eru takmörk fyrir því hversu mikið auðlindatengdur útflutningur getur vaxið. Vaxtarhraði alþjóðageirans er því lykilmælikvarði fyrir efnahagslega frammistöðu Íslands til lengri tíma.

Heimild: Hagstofa Íslands; Seðlabanki Íslands; Viðskiptaráð Íslands

Undanfarin ár hefur ferðaþjónustan vegið langþyngst í útflutningsvexti á sama tíma og aðrar útflutningsgreinar hafa staðið í stað eða dregist saman. Með öðrum orðum þá reiða Íslendingar sig í meiri mæli á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda en áður. Vöxtur innan ferðaþjónustunnar hefur reynst mikill búhnykkur en til lengri tíma er brýnt að útflutningsvöxtur komi frá fleiri atvinnugreinum líkt og McKinsey benti á.

Í þessu ljósi er frumvarp um losun hafta stórt og tímabært skref fyrir framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Heimild innlendra fyrirtækja til beinnar erlendrar fjárfestingar er þar sérstakt fagnaðarefni. Til að tryggja kröftugan útflutningsvöxt til lengri tíma, sem byggir jafnframt á fjölbreyttum grunni, er mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga og að fullt afnám hafta fylgi í náinni framtíð. Samhliða öðrum umbótum í rekstrarumhverfi innlendra fyrirtækja skapast þannig sterkari forsendur fyrir kröftugum og sjálfbærum hagvexti til lengri tíma.

Tíminn er núna

Viðskiptaráð fagnar því að loks glitti í fullt afnám hafta. Nú hafa þau verið við lýði í tæp átta ár og atvinnulífið því orðið langeygt eftir þeim skrefum sem frumvarpið kveður á um. Að mati ráðsins eru þau skref sem tekin eru með frumvarpinu afar jákvæð en á sama tíma eru þau varfærin. Ljóst er að aðstæður í hagkerfinu eru mjög hagfelldar og í raun grundvöllur fyrir fullu afnámi hafta. Vaxtamunur er umtalsverður, hagvöxtur er meiri en í viðskiptalöndum, verðbólga er lág og fjármagnsinnstreymi vegna þjónustuviðskipta þrýstir á hækkun gengis. Allt þetta dregur úr útflæðisáhættu. Með það í huga hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld til að ganga hratt til verks og ráðast í lokaskref þessa mikilvæga verkefnis við fyrsta tækifæri.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.

[1] Undir alþjóðageirann fellur allur útflutningur sem ekki krefst beins aðgengis að íslenskum náttúruauðlindum.

[2] Útreikningarnir miðuðust við u.þ.b. 4% árlegan raunvöxt hagkerfisins

[3] Áætlun um 4% árlegan hagvöxt má telja bjartsýna í ljósi sögulegs og alþjóðlegs samanburðar. Hvort sem umræddur vöxtur næst á 20 eða 30 árum er grundvallarverkefnið hins vegar það sama: útflutningstekjur Íslendinga þurfa að tvöfaldast á tímabilinu

--

--