Hljóðlát sókn alþjóðageirans

Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt á umliðnum árum líkt og landsmenn þekkja. Það sem minna er fjallað um er kröftugur vöxtur alþjóðageirans sem fallið hefur í skuggann af ferðaþjónustunni. Að stærstum hluta má rekja vöxt alþjóðageirans til vaxtar í tengiflugi samfara miklum ferðamannavexti. Meira er þó á seyði og ef kafað er ofan í þróun alþjóðageirans má jafnvel sjá að útflutningstekjur af einstaka greinum innan hans hafa vaxið hraðar en ferðaþjónustan á síðustu árum. Árangur er þó ekki sjálfgefinn og hlúa þarf sérstaklega að geiranum nú þegar hægja hefur tekið á vexti ferðaþjónustunnar og alþjóðageirans sjálfs. Sem dæmi þarf að örva rannsóknir og þróun, hlúa að menntun í viðeigandi námsgreinum, laða til landsins erlenda sérfræðinga, gæta þess að regluverk hér á landi sé ekki meira íþyngjandi heldur en í öðrum vestrænum ríkjum og tryggja stöðugt rekstrarumhverfi.

Lítið hagkerfi þarf öflugan útflutning

Árið 2012 gaf ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company út skýrslu um stöðu og framtíðarhorfur íslensks efnahagslífs. Í skýrslunni var efnahagslífinu skipt í fjóra geira eftir eðli starfseminnar:

· Opinberan geira sem telur þjónustu á vegum hins opinbera

· Innlendan þjónustugeira en þar eru fyrirtæki sem starfa einungis á Íslandsmarkaði

· Auðlindageira sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda til verðmætasköpunar

· Alþjóðageira sem byggir á hugviti og starfar í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum

Helstu niðurstöður skýrslunnar voru þær að Ísland þyrfti að takast á við tvö meginverkefni. Annars vegar að auka framleiðni, sem mældist nokkuð fyrir neðan önnur Norðurlönd en hins vegar að bæta úr greiðslujafnaðarvanda hagkerfisins eftir viðvarandi viðskiptahalla áratugina á undan. Til þess að tryggja jafnvægi þjóðarbúskapsins var því haft að leiðarljósi að útflutningur og landsframleiðsla þyrftu að haldast í hendur en því fylgdi að Ísland þyrfti að auka útflutning sinn um 1.000 milljarða á 20 árum til þess að standa undir 4% hagvexti til lengdar. Til lengri tíma er 4% þó nokkuð mikill vöxtur en Samráðsvettvangur um aukna hagsæld taldi 3% markmið raunhæfara en það þýðir að 1.000 milljarðarnir í útflutningi þurfa að falla til á 26 árum í stað 20 ef miðað er við árið 2010 sem grunnár.

Engan óraði fyrir þeim ótrúlega efnahagslega viðsnúningi sem átti eftir að eiga sér stað á svo skömmum tíma en Íslendingar hafa á örfáum árum náð sér upp úr dýpstu efnahagslægð sem þjóðin hefur lent í frá lýðveldisstofnun. Lykilþáttur í þeirri þróun, sem hefur aukið tekjur almennings, atvinnutækifæri o.s.frv., er hraður og mikill vöxtur útflutnings (mynd 1).

Alþjóðageirinn varðar leiðina til velsældar

Í McKinsey skýrslunni var talið að stærstu tækifærin til að ná markmiðum um aukin útflutning væru að finna í alþjóðageiranum þar sem náttúruauðlindir eru í eðli sínu takmarkaðar og setja því auðlindageiranum ákveðnar vaxtarskorður. Meiri kraftur reyndist þó í auðlindageiranum en flestir sáu fyrir þar sem ferðaþjónustan tók á stökk eins og landsmenn þekkja og því hefur auðlindageirinn staðið undir meirihluta útflutningsvaxtarins á síðustu árum. En hvað hefur þá orðið um alþjóðageirann?

Árangur fellur í skuggann af fordæmalausum ferðaþjónustuvexti

Alþjóðageirinn hefur þrátt fyrir allt verið í hljóðlátri en kröftugri sókn frá árinu 2010 og útflutningsverðmæti hans vaxið um 38% að raunvirði. Með þeim vexti hefur geirinn haldið merkilega vel í hlutfallslegan þátt sinn í hagkerfinu og jafnvel aukið hlut sinn í vergri landsframleiðslu og vinnuafli (mynd 2). Til að mynda er hlutdeild alþjóðageirans í útflutningi einungis þremur prósentustigum lægri heldur en hún var áður en ferðamannafjöldi á landinu meira en fjórfaldaðist.

Hvernig alþjóðageirinn hefur haldið tiltölulega vel í sinn hlut miðað við aðstæður birtist í því að hann hefur átt nokkurn þátt í efnahagsuppgangi síðustu ára (Mynd 3). Verg landsframleiðsla jókst til að mynda um 28% milli áranna 2010 og 2017 en beint framlag alþjóðageirans til þess vaxtar nam um 6 prósentustigum af 28 eða um fimmtungi.

Samanlagt jókst útflutningur um 50% prósent á árunum 2010–2017. Ef samsetning útflutningsvaxtar er skoðuð betur má jafnframt sjá að bróðurhluti vaxtarins hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á Íslandi þ.e. samtölu ferðalaga og farþegaflutninga þeirra sem sækja landið heim. Sjá má að tengiflug erlendra farþega er hér flokkað með alþjóðageiranum og skýrir að miklu leyti vöxt hans. Hins vegar má segja að það safnist þegar saman kemur hvað varðar alþjóðageirann að öðru leyti en tengiflugi og flutningum. Þannig hefur t.d. útflutningur á hátækniþjónustu þ.e.a.s. fjarskipta-, tölvu og upplýsingatækniþjónusta vaxið um 14 milljarða króna að raunvirði á undanförnum sjö árum og annar iðnaður um 17 ma.kr. (sjá mynd 4).

Ef kafað er enn dýpra má sjá að einstakar greinar hafa jafnvel vaxið hlutfallslega hraðar heldur en ferðaþjónustan þó áhrifin á heildarútflutningstekjur hafi verið minni. Þar má t.d. nefna tölvuþjónustu en útflutningur hennar jókst um 32,8% að raunvirði á ári frá 2010 til 2016 (mynd 5) — átta prósentustigum hraðar en ferðalög.

Alþjóðageirinn þarf að taka við keflinu

Alþjóðageirinn virðist því að einhverju leyti hafa verið laus við „hollensku veikina“[1] ef yfirstandandi áratugur er skoðaður í heild. Það eru gleðileg tíðindi hversu vel alþjóðageiranum hefur gengið á undanförnum árum einkum og sér í lagi nú þegar hægja hefur tekið á vexti ferðaþjónustunnar. Sú staðreynd að útflutningur alþjóðageirans án tengiflugs hafi að meðaltali vaxið um 2,5% á ári á sama tíma og ferðaþjónustan tók til sín sífellt meiri aðföng og almennt rými í efnahagslífinu gefur tilefni til bjartsýni.

Á hinn bóginn eru blikur á lofti. Áhrif af háu raungengi og sjúkdómseinkenni hollensku veikinnar gætu verið að birtast okkur nú því útflutningur alþjóðageirans, án tengiflugs, dróst saman um 2% í fyrra. Auk þess hefur samkeppnishæfni farið versnandi og horfur eru á hægari hagvexti svo vel má vera að áhrifin eigi eftir að koma að fullu fram. Það er góð áminning um að efnahagslegur árangur er og verður aldrei sjálfgefinn.

Svona styðjum við alþjóðageirann og bætum þar með lífskjör

Að mati Viðskiptaráðs þarf alþjóðageirinn að standa undir bróðurparti útflutningsvaxtar næstu áratugina þar sem hægt hefur á vexti ferðaþjónustunnar. Því er mikilvægara en nokkru sinni að hlúa vel að geiranum og skapa honum aðstæður þar sem hann getur haldið áfram að vaxa.

Í því samhengi eru nokkur lykilatriði sem huga þarf að. Í fyrsta lagi má hvergi hvika frá fyrirtætlunum um afnám þaks á endurgreiðslur ríkisins vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar en í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að afnám þaksins taki gildi fyrir rekstrarárið 2019. Með því skapast sterkur hvati til þess að skapa nýja þekkingu og þannig vörur og þjónustu sem geta staðið undir útflutningi og þar með hagsæld til framtíðar.

Í öðru lagi þarf að tryggja fyrirtækjum sem starfa í alþjóðageiranum aðgengi að viðeigandi sérfræðimenntuðum starfskröftum. Í þeirri umleitan þarf hvort tveggja að ná fram betri nýtingu á þeim ívilnunum sem bjóðast erlendum sérfræðingum og að almenna reglan verði sú að veiting dvalarleyfa til erlendra sérfræðinga taki sem stystan tíma en nýverið tilkynnti Útlendingastofnun að afgreiðslutími flýtimeðferðar hafi verið lengdur í 30 daga úr 10. Að mati Viðskiptaráðs ætti flýtimeðferð frekar að vera mæld í klukkustundum heldur en dögum. Sökum fámennis verður ákveðin sérfræðiþekking alltaf takmörkuð á Íslandi. Þess vegna er nauðsynlegt að leita allra leiða til að laða hana að erlendis frá. Ennfremur þarf að horfa inn á við og hækka hlutfall útskrifaðra úr raun- og tæknigreinum úr háskólum landsins.

Í þriðja lagi þarf að gæta þess að regluverk hér á landi sé ekki meira íþyngjandi heldur en í öðrum vestrænum ríkjum, m.a. vegna séríslenskrar innleiðingar á EES gerðum sem í þriðjungi tilfella eru innleiddar með meira íþyngjandi hætti en þörf er á og sektir oft hærri en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Eitt dæmi um slíkt er í lögum um ársreikninga en þar segir að örfélagi sé heimilt að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit byggt á skattframtali frekar en að skila ársreikningi. Evrópureglur gera ráð fyrir að örfélag sé með færri en tíu ársverk. Íslenska viðmiðið? Aðeins þrjú ársverk.

Á árunum 2013–2016 urðu ennfremur 35 frumvörp að lögum sem áhrif hafa á reglubyrði atvinnulífsins en 29 þeirra fólu í sér íþyngjandi ákvæði að því er kemur fram í skýrslu ráðgjafarnefndar um opinberberar eftirlitsreglur. Ofan af þessari þróun þarf að vinda.

Að lokum þarf almennt að gæta þess að rekstrarumhverfi sé sem stöðugast, skattaumhverfi sem hagfelldast og viðskipti sem frjálsust. Þannig getur alþjóðageirinn og atvinnulífið allt dafnað, sem skapar forsendur fyrir bættum lífskjörum.


[1] Hollenska veikin er hugtak sem lýsir því þegar þjóðir uppgötva náttúruauðlindir sem auka útflutning verulega en verða um leið til verulegra gengishækkana sem valda því að aðrar útflutningsgreinar líða fyrir vöxtinn og dragast saman.

Viðauki: Skilgreiningar á geirum

Skilgreiningar Viðskiptaráðs Íslands á geirum hagkerfisins byggja á skiptingu McKinsey & Co. í skýrslunni Charting a Growth Path for Iceland sem kom út árið 2012. Hins vegar hafa orðið breytingar á samsetningu hagkerfisins síðan þá og Viðskiptaráð því reynt eftir fremsta megni að láta þær breytingar koma fram í geiraskiptingunni en til hliðsjónar var notast við gögn um virðisaukaskattskylda veltu fyrirtækja eftir atvinnugreinaflokkum og ferðaþjónustureikninga. Oft á tíðum eru skil milli geira óljós og haggögn eru sífellt að batna sem endurspeglast í að geiraskipting hér er ekki sú nákvæmlega sama og var unnið eftir í skýrslu McKinsey & Co.

Geiraskiptingin miðast því við atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands sem aftur byggir á alþjóðlega flokkunarkerfinu NACE Rev. 2.

Geiraskipting 2010:

Alþjóðageirinn: CA — Önnur matvælaframleiðsla, C — Önnur framleiðsla, 20% H — Flutningar og geymsla, 40% J — Upplýsingar og fjarskipti, 50% M — Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi, 40% N — Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta, 50% S — Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi.

Opinberi geirinn: O — Opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar, P — Fræðslustarfsemi, Q — Heilbrigðis- og félagsþjónusta.

Innlendi þjónustugeirinn: F — Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, G — Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum, 50% H — Flutningar og geymsla, 50% I — Rekstur gististaða og veitingarekstur, 60% J — Upplýsingar og fjarskipti, K — Fjármála- og vátryggingastarfsemi, L — Fasteignaviðskipti, 50% M Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi, 30% N — Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta, R — Menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, 50% S — Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi.

Auðlindageirinn: A — Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar, B — Námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu, CA — Fiskvinnsla, CH — Framleiðsla á málmum, D — Rafmagns-, gas- og hitaveitur, E — Vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun, 30% H — Flutningar og geymsla, 50% I — Rekstur gististaða og veitingarekstur, 30% N — Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta.

Geiraskipting 2017

Alþjóðageirinn: CA — Önnur matvælaframleiðsla, C — Önnur framleiðsla, 40% H — Flutningar og geymsla, 40% J — Upplýsingar og fjarskipti, 50% M — Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi, 20% N — Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta, 20% S — Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi.

Opinberi geirinn: O — Opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar, P — Fræðslustarfsemi, Q — Heilbrigðis- og félagsþjónusta.

Innlendi þjónustugeirinn: F — Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 90% G — Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum, 20% H — Flutningar og geymsla, 20% I — Rekstur gististaða og veitingarekstur, 60% J — Upplýsingar og fjarskipti, K — Fjármála- og vátryggingastarfsemi, L — Fasteignaviðskipti, 50% M Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi, 20% N — Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta, 80% R — Menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, 50% S — Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi.

Auðlindageirinn: A — Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar, B — Námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu, CA — Fiskvinnsla, CH — Framleiðsla á málmum, D — Rafmagns-, gas- og hitaveitur, E — Vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun, 40% H — Flutningar og geymsla, 80% I — Rekstur gististaða og veitingarekstur, 60% N — Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta, 20% R — Menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi.

Framangreind skipting á við um fjármunaeign, vinnuaflsnotkun og hlutdeild í vergri landsframleiðslu en útflutningur skiptist með eftirfarandi hætti:

Auðlindageirinn: Sjávarútvegur, álframleiðsla, kísiljárnsframleiðsla, landbúnaður, ferðalög og 55% af farþegaflutningum með flugi fyrir árið 2010 en 45% af farþegaflutningum með flugi árið 2017.

Alþjóðageirinn: Allt annað