Hvað er til skiptanna?

10 atriði um rekstur á Íslandi

Viðskiptaráð
14 min readNov 14, 2018

Viðskiptaráð Íslands hefur töluverðar áhyggjur af því að ekki ríki sameiginlegur skilningur um þær forsendur sem yfirstandandi kjaraviðræður eiga að byggja á. Ýmsum fullyrðingum hefur verið varpað fram á undanförnum vikum og mánuðum til að styðja við málflutning þeirra sem beina aðild eiga að viðræðunum en þar sem þær virðast oftar en ekki stangast algjörlega á hver við aðra er ekki nokkur leið fyrir almenning að átta sig á hvað snýr upp og hvað niður.

Í ljósi þess hve hart er tekist á um staðreyndir virðist nokkuð ljóst að skortur er á aðgengilegu efni sem sýnir með skýrum hætti hver staðan í íslensku efnahagslífi raunverulega er, hvað sé til skiptanna og hvernig auka megi velferð allra landsmanna með sjálfbærum hætti til lengri tíma. Eftirfarandi tíu atriði sem byggja meðal annars á tölum Hagstofu Íslands um rekstur og efnahag fyrirtækja er tilraun okkar til að varpa ljósi á stöðu og þróun íslensks atvinnulífs á einfaldan hátt.

1. Sjö feit ár að baki

Undanfarin ár hafa verið hagfelld fyrir fólk, fyrirtæki og ríkissjóð. Hin raunverulega verðmætasköpun í atvinnulífinu, eða virðisaukinn sem skiptist milli launa og fjármagns, jókst til að mynda um 60% frá 2010 til 2017. Slík aukning í virðisauka hefur gefið rými til launahækkana, arðgreiðslna og aukins fjármagnskostnaðar sem er vel yfir því sem almennt gengur og gerist. Á sama tíma jókst virðisaukinn í hlutfalli við tekjur (mynd 1), sem þýðir að fyrirtækin hafa nýtt betur hverja krónu sem kemur í kassann. Ekki er ábyrgt að gera ráð fyrir að þessi þróun muni halda áfram með sama hætti næstu árin.

2. Góð ár að meðaltali — betri sums staðar, verri annars staðar

Þótt íslenskum fyrirtækjum hafi almennt vegnað vel síðustu ár og að hagnaður hafi almennt verið af rekstri atvinnugreina árið 2017 á það hvorki við um allar atvinnugreinar né öll fyrirtæki. Sveiflur í hagnaði og misjafn hagnaður atvinnugreina frá árinu 2002 (mynd 2) sýna glögglega þann fjölbreytileika í afkomu sem íslensk fyrirtæki búa við, en á Íslandi eru um 18.000 fyrirtæki sem greiða laun sem eru jafn misjöfn og þau eru mörg.

Sumar atvinnugreinar skila mun meiri hagnaði um þessar mundir en áður á meðan helmingur atvinnugreina skila hagnaði sem var 6% eða minna af tekjum. Margar atvinnugreinar sveiflast meira en aðrar og aðrar skila almennt minni hagnaði en aðrar. Því má gera sér í hugarlund þann breytileika sem finna má innan atvinnuvegaflokka og á aðra mælikvarða en hagnað í hlutfalli við tekjur, sem spila inn í getu fyrirtækja til að takast á við auknar launagreiðslur. Nauðsynlegt er að hafa þennan fjölbreytileika í huga þegar fjallað er um íslenskt atvinnulíf og rétt að forðast að draga almennar ályktanir af einstökum jaðardæmum í þeirri umræðu.

3. Hátt launahlutfall er sterk vísbending um takmarkað svigrúm til launahækkana

Í samhengi komandi kjaraviðræðna er það ekki bara verðmætasköpunin sem skiptir máli heldur einnig hversu hátt launahlutfallið er, þ.e. hversu miklu er varið í launakostnað á móti fjármagnskostnaði, leigu, tekjuskatti og hagnaði. Samhliða miklum launahækkunum síðustu ár hefur hlutfallið hækkað um 4,3 prósentustig frá 2015 til 2017 og ef marka má nýjustu spá Seðlabankans mun það hækka um 1,6 prósentustig til viðbótar í ár.

Launahlutfallið er nú komið um 5 prósentustigum yfir langtímameðaltal sem bendir sterklega til þess að svigrúm til launahækkana umfram það sem nemur verðmætasköpun í hagkerfinu sé lítið eða ekkert. Hlutfallið hefur þó farið hærra, t.d. fyrir hagkerfið í heild á árunum 2006–2007, en þá voru launin í raun að hluta til fengin að láni erlendis þar sem Ísland var með mikinn viðskiptahalla við útlönd á þeim tíma (mynd 3). Tilhneigingin er sú að með hærra launahlutfalli fylgja hærri ráðstöfunartekjur sem auka innflutning án samsvarandi útflutnings. Það leiðir til viðskiptahalla og gjarnan ósjálfbærrar erlendrar skuldsetningar sem er uppskrift að skakkaföllum síðar.

4. Í hávaxtalandi er ekki hægt að hækka hæsta launahlutfall innan OECD

Önnur og ekki síður sterk vísbending um að svigrúm til launahækkana sé lítið er launahlutfallið í alþjóðlegum samanburði. Árið 2016 var launahlutfallið á Íslandi það næsthæsta meðal OECD ríkja (mynd 4). OECD hefur ekki enn birt tölur fyrir Ísland árið 2017 en ef miðað er við tölurnar frá Hagstofunni fyrir árið 2017 eru allar líkur á því að það sé orðið það hæsta meðal OECD ríkja.

Lífskjör á Íslandi byggjast á viðskiptum við útlönd og er vanfundin sú vara eða þjónusta sem ekki byggir á innflutningi að einhverju eða öllu leyti. Til að flytja inn þurfum við gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar sem starfa í alþjóðlegri samkeppni. Sú samkeppni er afar hörð og það liggur í hlutarins eðli að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja skerðist ef launahlutfall hér er mikið hærra en annarsstaðar, því þá verða íslenskar vörur dýrari en erlendar. Hér með er ekki sagt að það sé keppikefli að laun eigi að vera lág, þvert á móti. Við viljum að allir fái sem hæst laun, en til þess að það gangi upp þurfa launin að vera í takt við verðmætasköpunina, sem endurspeglast í téðu launahlutfalli.

Íslensk fyrirtæki þurfa að greiða hærri vexti en samkeppnisaðilar í helstu samanburðarlöndum, sem ætti frekar að þýða að minna er til skiptanna í launagreiðslur og þar með lægra launahlutfall. Því liggur í augum uppi að hækkun launahlutfalls gæti orðið skaðleg samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þannig lífskjara á Íslandi.

5. Arðgreiðslur eru jafn eðlilegar og vaxtagreiðslur

Fjármögnun fyrirtækja er háttað með ýmsum hætti og fer m.a. eftir eðli starfsemi þeirra og hve hratt þau vaxa. Fyrir lánsfjármagn eru greiddir vextir, sem margir íbúða- og bílaeigendur þekkja vel. Hluti fjármögnunar er á hinn bóginn ætíð fjármagnaður með eigin fé, eða beinum eignarhlut, sem ekki ber vexti en er engu að síður ekki ókeypis fjármögnun. Sé fyrirtæki t.a.m. ekki að vaxa hratt og hafi það nægilegt eigið fé er eðlilegt að fyrirtækið greiði út arð til eigenda sinna. Einnig kunna að koma upp aðstæður þar sem arðgreiðslur eru hærri en hagnaður eitt árið, t.d. ef hagnaður ársins áður var ekki greiddur út sem arður það ár. Allt þetta er í eðli sínu jafn eðlilegt og að greiða vexti af íbúðaláni, enda um fjármögnun að ræða í báðum tilfellum.

Oft virðist þó sem í umræðu um arðgreiðslur fyrirtækja að þær séu af hinu neikvæða. Sé horft til þróunar arðgreiðslna og annarra sambærilegra úttekta úr rekstri hafa þær aukist talsvert á síðustu árum samfara aukinni verðmætasköpun (mynd 5). Í raun hafa þær aukist hraðar en launakostnaður og voru arðgreiðslur utan fjármála- og lyfjageirans meiri árið 2017 heldur en 2007 en hafa ber í huga að launakostnaður er þó ennþá meira en sexfalt hærri en arðgreiðslur sem sveiflast mun meira. Aukning arðgreiðslna er að hluta afleiðing af meiri eiginfjárfjármögnun atvinnulífsins. Það er jákvætt því það bendir til þess að íslensk fyrirtæki séu ekki jafn skuldsett og áður og því betur í stakk búin til að takast á við sveiflur í hagkerfinu.

6. Hægir á vexti i tækni- og hugverkaiðnaði þar sem tækifærin liggja

Viðskiptaráð hefur um árabil lagt áherslu á að hagsæld Íslands eigi í auknum mæli að byggja á alþjóðageiranum á komandi árum og áratugum. Undir alþjóðageirann falla þær atvinnugreinar sem byggja á hugviti og starfa í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Sá geiri hefur verið í hljóðlátri sókn síðustu ár (í skugga ferðaþjónustunnar — sjá nánari umfjöllun í nýlegri skoðun Viðskiptaráðs) og vaxið býsna hratt. Þó virðist sem veður séu að skipast í lofti sbr. niðurstöður síðasta árs en þá jókst virðisauki fyrirtækja í tækni- og hugverkaiðnaði, sem skarast að mestu leyti við alþjóðageirann, einungis um 6% sem er minna en árin þrjú þar á undan.

Hlutfall launakostnaðar af verðmætasköpun í þessum greinum hefur þó haldist nokkuð stöðugt en það er mjög hátt eða um 71% (mynd 6). Það gefur því augaleið að miklar launahækkanir bitna hvað harðast á þessum atvinnugreinum. Atvinnugreinum sem geta, ef rétt er haldið á spöðunum, staðið undir hagsæld Íslendinga til framtíðar.

Einnig má nefna að samkeppnishæfni Íslands minnkaði í ár skv. úttekt Viðskiptaráðs og IMD viðskiptaháskólans og er talsvert að baki hinum Norðurlöndunum. Það bendir til að geta alþjóðageirans til að vaxa og dafna hefur frekar minnkað heldur en hitt. Allt gefur þetta til kynna að huga þurfi betur að þessum hluta hagkerfisins ef markmiðið er að auka hagsæld í landinu og þar með auka kaupmátt launþega.

7. Ferðaþjónustan, driffjöður hagvaxtar, gefur verulega eftir

Stærsta einstaka ástæða lítils atvinnuleysis, sterkari krónu og uppgangs síðustu ára er fordæmalaus uppgangur ferðaþjónustu. Sú staðreynd að fleiri heimsóttu landið síðustu sjö ár heldur en 61 ár þar á undan segir allt sem segja þarf. Í fyrra urðu vatnaskil í ferðaþjónustunni þegar sterkt gengi tók að segja til sín og meðbyrinn fór dvínandi. Tölur úr rekstri ferðaþjónustunnar eru í góðu samræmi við þetta (mynd 7). Virðisaukningin í helstu greinum ferðaþjónustu árið 2017 var 7%, eða sú minnsta síðan árið 2011. Í ofanálag hækkaði launahlutfallið í 72% og hefur ekki verið hærra frá árinu 2008. Þetta gefur til kynna að án verulegs vaxtar eða mikillar hagræðingar þolir ferðaþjónustan litlar launahækkanir.

Flestum er kunnugt um þær áskoranir sem hafa verið í flugrekstri að undanförnu samhliða mikilli alþjóðlegri samkeppni og hækkun olíuverðs. Hagnaður íslenskra flugfélaga nam til að mynda um einum milljarði króna eða einungis um 0,5% af tekjum þeirra árið 2017 og ekki eru horfur á miklum bata þar á yfirstandandi ári. Þess vegna er tími aðlögunar með hægari vexti framundan í þeim iðnaði. Flugsamgöngur eru grunnforsenda íslenskrar ferðaþjónustu og af þessum sökum spáir greiningardeild Arion banka að ferðamönnum muni fjölga um innan við 3% á ári næstu þrjú ár. Verði það raunin er augljóst að ferðaþjónusta mun ekki drífa áfram verðmætasköpun með sama hraða og áður.

8. Fólk er almennt svartsýnna á stöðuna og framtíðarhorfurnar

Með framangreindar staðreyndir í huga þarf ekki að koma á óvart að mat almennings og stjórnenda fyrirtækja á núverandi stöðu og horfum í efnahagslífinu hafi þróast hratt til verri vegar á síðustu misserum (mynd 8a). Sérstaklega á það við um væntingar til næstu sex mánaða sem hafa sjaldan verið verri, hvorki hjá almenningi né stjórnendum fyrirtækja. Væntingavísitalan hefur ágætis spágildi um einkaneyslu heimila og fjárfestingar fyrirtækja svo að tölurnar bera með sér að í besta falli sé hægur vöxtur á þeim þáttum framundan.

Fyrir utan útlit um hægari vöxt í ferðaþjónustu og þverrandi væntingar eru fleiri vísbendingar um að miklum uppgangi síðustu ára, sem skilaði almennri kaupmáttaraukningu launa upp á 26% á fjórum árum, sé að mestu lokið og nú fari í hönd tími aðlögunar. Það kristallast í spám greiningaraðila sem eru allir á því máli að mun hægari gangur sé framundan í efnahagslífinu (mynd 8b). Má þá sérstaklega benda á nýjustu spárnar frá viðskiptabönkunum þremur og Seðlabankanum sem benda til innan við 3% hagvaxtar á næsta ári. Í slíku umhverfi er sígandi lukka best og ljóst að minni vöxtur verður á því sem er til skiptanna en verið hefur síðustu ár.

9. Ósjálfbærar launahækkanir hafa oftast leitt til verðbólgu — einfalt sýnidæmi

Þótt samband verðbólgu og launa sé margslungið og sumpart flókið þá er það engu að síður til staðar í einhverri mynd. Í það minnsta er augljóst að ef fyrirtæki stendur skyndilega frammi fyrir mikilli hækkun kostnaðar, hvort sem það er vegna launa eða annars, þurfa fyrirtæki að bregðast við með einum eða öðrum hætti, fyrr eða síðar. Viðbragðið á Íslandi og víðar hefur oftar en ekki verið hækkun verðlags. Á þetta hefur verið margoft bent, en engu að síður er því gagnstæða stundum haldið fram, að hækkun launa hafi engin áhrif á verðlag. Hér er sett fram einfalt sýnidæmi til útskýringar.

Ímyndum okkur eigandann Önnu sem á og rekur lítið þjónustufyrirtæki sem lýst er hér á mynd 9. Hjá fyrirtækinu starfa fjórir starfsmenn auk Önnu og eins og sjá má vegur launakostnaður þungt í rekstrinum eins og hjá svo mörgum fyrirtækjum. Ímyndum okkur að laun starfsmanna fyrirtækisins hækki um 25% vegna hækkana í kjarasamningum. Ef Anna grípur ekki til neinna ráðstafanna mun fyrirtæki hennar fara í 3 milljóna króna taprekstur. Slíkur rekstur gengur ekki til lengdar.

Anna þarf því að taka til sinna ráða. Hún getur reynt að hagræða í rekstrinum en svigrúm til slíks er takmarkað þar sem fyrirtækjarekendur leita yfirleitt leiða til að halda kostnaði í skefjum, sérstaklega í samkeppnisrekstri. Einnig skal haft í huga að ef Anna sker verulega niður annan kostnað getur það þýtt samdrátt hjá hennar birgjum og þjónustuaðilum. Helsta hagræðingaraðgerðin sem kæmi til greina væri að segja upp einum starfsmanni. Fyrir utan það mikla tjón sem það veldur starfsmanninum og fjölskyldu hans er það heldur ekki ávísun á árangur í rekstri þar sem geta fyrirtækisins til að veita góða þjónustu minnkar.

Anna gæti einnig farið út í banka og fengið lán og vonað að hagur hennar vænkist síðar. Í því er þó fólgin talsverð áhætta og í mörgum tilvikum er það ekki í boði. Þá er aðeins einn kostur eftir og það er að hækka verð sem á endanum birtist í meiri verðbólgu og minni kaupmætti. Þannig þarf ekki að segja upp starfsfólki eða taka óþarfa áhættu með skuldsetningu. Ef aðrir stjórnendur hugsa með svipuðum hætti hækkar annar kostnaður Önnu líka svo verðið þyrfti að hækka enn meira.

Þótt þetta sýnidæmi sé ekki byggt á rekstri raunverulegs fyrirtækis geta sjálfsagt margir tengt við það, enda er uppbygging rekstrarins áþekk því sem gerist í viðskiptalífinu. Flestir þekkja líka til einhverra sem standa í litlum atvinnurekstri, en árið 2014 voru ríflega 25 þúsund fyrirtæki á Íslandi með innan við 10 starfsmenn. Sama ár störfuðu 23% launþega á almennum markaði hjá fyrirtækjum þar sem eru 0–9 launþegar og það ár var velta slíkra fyrirtæki um fimmtungur af heildarveltu allra fyrirtækja. Hér er því ekki um jaðardæmi að ræða heldur raunsætt dæmi úr íslenskum atvinnurekstri.

10. Eigi of miklar launahækkanir að skila raunverulegri kjarabót kallar það á erlenda skuldsetningu

Stundum er því haldið fram að með hærri tekjum geti bæði launafólk og fyrirtæki notið góðs af hærri launum vegna meiri umsvifa í hagkerfinu. Það er fjarri lagi að málið sé svo einfalt því aukning verðmætasköpunar þarf að eiga sér stað til þess að einföld hækkun launa geti skapað betri lífskjör. Ef hækkun launa myndi ein og sér skapa verðmæti væri búið að finna upp eilífðaefnahagsvél og því óskynsamlegt að stoppa við 425.000 króna lágmarkslaun. Best væri þá að hækka laun allra landsmanna upp í mörg hundruð milljónir króna á mánuði. Eða ganga lengra og gera alla Íslendinga að milljarðamæringum? Augljóslega gengur það ekki upp.

Sýnidæmið hér að ofan og hagsaga Íslands sýnir svart á hvítu að of miklar launahækkanir leiða iðulega til verðbólgu. Til skamms tíma og við sérstakar aðstæður, t.d. eftir mikla niðursveiflu þegar launahlutfall er lágt, útflutningsgreinar standa vel og atvinnuleysi er lítið, getur hækkun launa þó stutt við endurreisn hagkerfisins upp að vissu marki. Það á ekki við hér á landi um þessar mundir þar sem launahlutfall er hátt, sumar útflutningsgreinar berjast í bökkum og atvinnuleysi er lítið.

Ímyndum okkur að laun hækki um tugi prósenta án verðbólgu og atvinnuleysis — hvað gerist?

Til að svara því skulum við skapa nokkurs konar draumasviðsmynd. Gerum ráð fyrir mun kröftugri hagvexti til ársins 2021 en spár gera ráð fyrir, eða 6–7%, sem byggist á 4,8% framleiðnivexti eða mesta vexti framleiðni sem hefur mælst yfir þriggja ára tímabil frá 1991. Hér er ekki sérstaklega gert ráð fyrir styttingu vinnutíma, en ef vinnutími styttist um t.d. 10% má nefna að framleiðni þarf að aukast um 10% til að viðhalda sömu verðmætasköpun. Við gerum einnig ráð fyrir að útflutningur vaxi um 5,6% eða það sama og að meðaltali síðustu 20 ár, sem hafa verið óvenju hagfelld.

Það er nokkuð matskennt að áætla hversu miklar launahækkanir skuli vera í þessari sviðsmynd. Samkvæmt ýtrustu kröfum verkalýðshreyfingarinnar nemur launahækkun á vinnustund meira en 20% á ári. Launahækkanir ákveðinna hópa hafa ætíð smitast yfir á aðra hópa að miklu leyti en aftur á móti er ekki víst að allir hópar hækki jafn mikið. Hér er því miðað við 15% almennar launahækkanir, ásamt stöðugu gengi og að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, sem tekið skal fram að þykir mjög ólíklegt við þessar aðstæður. Við skulum einnig gera ráð fyrir óbreyttum viðskiptakjörum og sparnaðarstigi þannig að 15% launahækkun á vinnustund þýði 15% meiri útgjöld og þannig að þjóðarútgjöld, eða innlend eftirspurn, á mann aukist um 15% á ári að nafnvirði eða rösklega 12% að raunvirði. Slíkt hefur ekki gerst síðustu áratugi nema til mjög skamms tíma á tímum stóriðjuframkvæmda.

Augljóst er að eitthvað þarf undan að láta þegar þjóðarútgjöld vaxa miklu hraðar en verðmætasköpunin í samfélaginu. Eina leiðin til að það gangi upp er að innflutningur vaxi gríðarlega og mun hraðar en útflutningur sem þýðir að viðskiptahalli myndast hratt og verður um 20% af landsframleiðslu árið 2021 (mynd 10a). Þannig væri lífskjarabatinn tekinn að láni frá útlöndum en eins og við þekkjum svo vel af eigin raun kemur alltaf að skuldadögum.

Efast má um að Íslendingar, almenningur, stjórnvöld, verkalýðsfélög og fyrirtæki, séu svo áhættusækin og vilji aftur ráðast í slíka tilraunastarfsemi. Þetta myndi ennfremur þýða að gengið þyrfti að gefa eftir, sem myndi leiða til verðbólgu, sem aftur er forsenda um að gerist ekki hér. Í því kristallast ómöguleiki þessarar sviðsmyndar sem er ekki draumasviðsmynd heldur frekar martraðasviðsmynd þegar upp er staðið.

Mikil óvissa er um ýmsa þætti hér, ekki síst hvað varðar framleiðni og launaþróun. Þess vegna má sjá á mynd 10b dæmi um hvernig viðskiptajöfnuðurinn þróast ef við hnikum til þeim forsendum að öðru óbreyttu. Ef launahækkanir og önnur þróun er í samræmi við framleiðnivöxt, má sjá að afgangi af viðskiptum við útlönd er viðhaldið. Ekki má þó mikið út af bregða og í sviðsmynd þar sem framleiðni vex á svipuðum hraða og má ætla til lengri tíma og laun allra hækka í samræmi við ýtrustu kröfur er niðurstaðan fordæmalaus viðskiptahalli. Hallinn yrði meiri en sem nemur helmingi af landsframleiðslu eða um 1.548 milljörðum króna árið 2021 á verðlagi 2017, sem er meira en tvöfaldur gjaldeyrisforði Seðlabankans.

Við erum öll á sama báti

Forsvarsmenn fyrirtækja vilja hag starfsfólks síns sem bestan. Til að tryggja að svo megi verða þarf samfélagið að skapa mælanleg og ómælanleg verðmæti og a.m.k. það fyrrnefnda verður ekki gert án öflugs atvinnulífs. Stöðugt og traust rekstrarumhverfi eflir atvinnulífið og skapar því betri aðstæður til að vaxa og dafna. Til þess þarf umgjörðin að vera traust og þar fellur vinnumarkaðurinn undir ásamt öðru.

Það er ósk allra að kaupmáttur landsmanna sé sem mestur og að hér séu greidd há laun. Ekkert verður þó til úr engu og launin þurfa að endurspegla íslenskan veruleika. Ef þau gera það ekki tapar meginþorri landsmanna, ekki síst þeir tekjulægstu sem rannsóknir benda til að verði verst úti í verðbólguskoti. Höfum ofangreint í huga — við erum öll á sama báti.

--

--