Hvernig má bregðast við styrkingu krónunnar?

Styrking krónunnar hefur breytt aðstæðum í íslensku efnahagslífi. Kaupmáttur hefur aukist umtalsvert en á sama tíma hefur staða útflutningsfyrirtækja veikst.

Hætta á ofrisi krónunnar og falli í kjölfarið hefur nú myndast. Veikari samkeppnisstaða útflutningsfyrirtækja skapar jafnframt hættu á stöðnun útflutningstekna og uppsöfnun erlendra skulda líkt og fyrir hrun. Slík útkoma myndi valda umtalsverðum búsifjum fyrir innlenda aðila þegar uppi væri staðið.

Stjórnvöld hafa látið vinna greiningu á áhrifum sterkari krónu á þjóðarbúskapinn og mögulegum viðbrögðum. Við tókum þátt í þeirri vinnu og komumst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld þurfi að bregðast við. Við mælum með þrenns konar aðgerðum:

 1. Koma í veg fyrir ofris gjaldmiðilsins. Setja lágmark á erlendar eignir lífeyrissjóða, afnema fjármagnshöft á útflæði og endurskoða peningastefnuna.
 2. Tryggja sjálfbærar nafnlaunahækkanir. Tryggja að opinberir starfsmenn leiði ekki frekari nafnlaunahækkanir, draga úr áhrifum af úrskurðum kjararáðs og lækka tryggingagjald.
 3. Bæta samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja með afnámi þaks á R&Þ-endurgreiðslur, lækkun fjármagnstekjuskatts og einföldun regluverks.

Með því að ráðast í þessar aðgerðir geta stjórnvöld stuðlað að varanleika þess lífskjarabata sem íslenskur almenningur hefur upplifað á síðustu misserum.

Gengið segir ekki alla söguna

Íslenska krónan hefur styrkst umtalsvert síðustu misseri. Frá ársbyrjun 2015 hefur breska pundið lækkað úr 198 niður í 139 kr., evran úr 154 kr. niður í 119 kr. og bandaríkjadalur úr 128 kr. niður í 112 kr. þegar þetta er ritað.

Heimild: Seðlabanki Íslands. Notast er við miðgengi hér að ofan og nær tímabilið frá 1. janúar 2015 til 15. febrúar 2017.

Gengi krónunnar segir hins vegar ekki alla söguna. Til viðbótar við þessa styrkingu hafa nafnlaun hækkað á sama tíma. Saman hefur þessi þróun valdið því að raunlaun (laun að teknu tilliti til gengisbreytinga) hafa hækkað meira en sem gengisstyrkingunni nemur.

Eðlilegast er að horfa til raunlauna, en ekki gengis krónunnar, þegar rætt er um samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja. Hröð styrking raunlauna veldur búsifjum fyrir fyrirtæki með tekjur í erlendri mynt en kostnað í krónum á innlendum launakjörum.

Þá er jafnframt ein af grundvallarkenningum hagfræðinnar að raunlaunahækkanir takmarkast til lengri tíma af framleiðnivexti. Síðustu ár hafa raunlaun hins vegar hækkað talsvert umfram framleiðni, sem vekur spurningar um sjálfbærni þessarar þróunar.

Heimildir: Seðlabanki Íslands og efnahagssvið SA

Æskilegar aðgerðir stjórnvalda

Í ljósi þessa leggjum við fram níu tillögur að aðgerðum fyrir stjórnvöld. Tillögunum er skipt í þrjá flokka: (1) tryggja að gengisþróun krónunnar sé sjálfbær, (2) tryggja að nafnlaunahækkanir séu sjálfbærar, (3) bæta samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja.

1. Sjálfbær gengisþróun

Gengi krónunnar gegnir lykilhlutverki þegar kemur að samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Styrking gjaldmiðilsins hækkar raunlaun og hefur þannig sambærileg áhrif á samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja og nafnlaunahækkanir.

Við teljum óæskilegt að stjórnvöld grípi handvirkt inn í gengi krónunnar við núverandi umgjörð peningastefnunnar. Þess í stað ættu stjórnvöld að leitast við að tryggja að viðskipti á gjaldeyrismarkaði séu frjáls og að löggjöf ýti undir hegðun á gjaldeyrismarkaði sem styður við efnahagslegan stöðugleika. Á þessum sviðum má nefna þrjár æskilegar aðgerðir:

 • Lágmark á erlendar eignir lífeyrissjóða.
  Í lögum um lífeyrissjóði er sett 50% þak á erlendar eignir lífeyrissjóða. Markmið löggjafans með ákvæðinu er að draga úr áhættu á áföllum í ávöxtun sjóðanna. Að okkar mati ætti frekar að setja ákvæði um gólf í stað þaks á erlendar eignir sjóðanna. Slíkt ákvæði væri betur til þess fallið að ná því markmiði löggjafans. Dæmi um það má finna hjá norska olíusjóðnum, sem fjárfestir einvörðungu í eignum utan Noregs. Þá lagði nýleg úttekt til 40–50% lágmark á erlendar eignir fyrir lífeyrissjóði hérlendis.
 • Afnám hafta á útflæði.
  Að mati okkar er augljós aðgerð til að koma í veg fyrir ósjálfbæra styrkingu krónunnar að afnema höft á útflæði fjármagns. Vandi þrotabúanna hefur verið leystur og girt hefur verið fyrir hættu á fjármagnsflótta af hálfu aflandskrónueigenda. Að okkar mati eru efnahagslegar forsendur fyrir fullu afnámi hafta á útflæði fjármagns jafnframt uppfylltar. Því ætti að lyfta útflæðishöftum alfarið.
 • Endurskoðun peningastefnunnar.
  Háir vextir hérlendis samanborið við önnur vestræn ríki ýta undir vaxtamunarviðskipti. Slík viðskipti geta leitt til styrkingar krónunnar umfram þær efnahagslegu forsendur sem til staðar eru. Seðlabankinn hefur brugðist við með því að setja fjármagnshöft á innflæði, en slík höft eru til þess fallin að draga úr öllum fjárfestingum — ekki einungis vaxtamunarviðskiptum. Að okkar mati er tímabært að endurskoða peningastefnu Íslands með það í huga að finna fyrirkomulag sem samræmist betur sjónarmiðum um hagfellt rekstrarumhverfi fyrirtækja, bæði hvað varðar vaxtastigið en einnig hvað varðar hömlur á alþjóðleg viðskipti.

2. Sjálfbærar nafnlaunahækkanir

Grundvöllur fyrir sjálfbærri þróun nafnlauna hérlendis hefur verið myndaður með SALEK-samkomulaginu. Meginverkefni stjórnvalda þegar kemur að hraða nafnlaunahækkana er því að gera það sem í þeirra valdi stendur til að samkomulagið haldi. Mikilvægt skref í þá átt var samþykkt frumvarps í lok síðasta árs þar sem lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumörkuðum voru jöfnuð, en það var ein af forsendum samkomulagsins. Hins vegar geta stjórnvöld gert betur. Þar ber eftirfarandi hæst:

 • Viðnám gagnvart umframlaunahækkunum opinberra starfsmanna. Launaskrið undanfarinna ára hefur einkennst af höfrungahlaupi ólíkra starfstétta líkt og oft áður í íslenskri hagsögu. Laun ríkisstarfsmanna hafa hækkað mest á síðustu tveimur árum og munar þar mest um stóra hópa innan heilbrigðis- og fræðslukerfisins. Til að stöðugleiki náist á vinnumarkaði er nauðsynlegt að opinberir aðilar fylgi launaþróun á markaði, fremur en að leiða hana. Hóflegar launahækkanir í samningum við opinbera starfsmenn eru því grunnforsenda stöðugleika.
 • Mótvægisaðgerðir vegna ákvarðana kjararáðs.
  Vinna þarf gegn skaðlegum áhrifum nýlegra ákvarðana kjararáðs á stöðugleika á vinnumarkaði. Forsætisnefnd Alþingis hefur nú þegar brugðist við hvað þingmenn varðar með lækkun á starfstengdum greiðslum til þeirra. Engin áform hafa hins vegar verið kynnt til að bregðast við ákvörðunum ráðsins fyrir æðstu embættismenn.
 • Lækkun tryggingagjalds.
  Með lækkun tryggingagjalds geta stjórnvöld dregið úr kostnaðaráhrifum þeirra nafnlaunahækkana sem átt hafa sér stað síðustu misseri og gert raunlaunakostnað fyrirtækja minni en ella.

Til lengri tíma litið teljum við jafnframt æskilegt að stjórnvöld greini fyrirkomulag vinnumarkaðsmála hérlendis með ítarlegri hætti og ástæður þess að nafnlaunahækkanir hafa í hagsögu Íslands verið talsvert meiri en annars staðar. Grunnforsenda þess að samkeppnishæfni Íslands sé tryggð til framtíðar litið er að agaleysi á vinnumarkaði á Íslandi heyri sögunni til.

3. Bætt samkeppnisstaða útflutningsfyrirtækja

Auk framangreindra aðgerða geta stjórnvöld bætt rekstrarumhverfi útflutningsfyrirtækja til að gera þau samkeppnishæfari í alþjóðlegum samanburði. Með slíkum aðgerðum er innlendum fyrirtækjum gert kleift að starfa við hærra raunlaunastig en ella. Þar eru þrjú mál efst á baugi:

 • Afnám þaks á R&Þ-endurgreiðslur.
  Ísland meðal neðstu ríkja á lista þeirra OECD þjóða sem beita endurgreiðsluaðferð til að styðja við rannsóknar- og þróunarverkefni. Afleiðing þessarar löku samkeppnisstöðu er brottflutningur alþjóðlegra samkeppnishæfra fyrirtækja frá Íslandi. Í stað þess að afnema þak vegna endurgreiðslna mætti bæta við ákvæði í lög þess efnis að rannsóknar- og þróunarkostnaður yfir 300 m.kr. veiti rétt til frádráttar frá tekjuskatti lögaðila en ekki endurgreiðslu kostnaðar. Með þeim hætti er stuðlað að því að stærri fyrirtæki í alþjóðageiranum sjái sér ekki einungis hag í að stunda rannsóknir og þróun á Íslandi heldur verður einnig hagkvæmt fyrir þau að halda höfuðstöðvum sínum hérlendis.
1) Önnur OECD ríki beita flest kostnaðarmargfeldis-aðferð, en þá má gjaldfæra R&Þ-kostnað margfalt til að draga úr tekjuskattsgreiðslum. 2) Til samanburðar var R&Þ-kostnaður Össuarar 18m USD árið 2015 og Marels 50m EUR árið 2014. 3) Greiða þarf skatt af frádrættinum. 4) Hlutfallið lækkar í 15% eftir 2,11m USD 5) Einungis R&Þ í tengslum við hallarekstur. Heimildir: OECD; Deloitte; greining Viðskiptaráðs Íslands
 • Lækkun fjármagnstekjuskatts.
  Fjármagnstekjuskattur leggst á nafnávöxtun á Íslandi líkt og í öðrum ríkjum. Einn grundvallarmunur er þó þar á: verðbólga er að jafnaði mun hærri hérlendis en annars staðar. Raunveruleg skattbyrði fjármagnstekjuskatts — skattgreiðslur sem hlutfall af raunávöxtun fjárfestingar — er því hæst hérlendis af öllum Norðurlöndum. Fara ætti eftir tillögu vinnuhóps um breytingar og umbætur á skattkerfinu þess efnis að fjármagnstekjuskattur leggist einungis á raunávöxtun, eða lækka gjaldhlutfallið umtalsvert ef slík útfærsla þykir of flókin og kostnaðarsöm í framkvæmd.
 • Einföldun regluverks.
  Einn af grundvallarþáttum í starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja er einfalt og alþjóðlega samanburðarhæft regluverk. Í nýlegri úttekt forsætisráðuneytisins má sjá að víða er þar pottur brotinn hérlendis. Þannig var regluverk flækt á síðasta kjörtímabili, EES-reglur voru innleiddar með meira íþyngjandi hætti en þörf var á og ráðuneytin framfylgdu ekki því hlutverki sínu að meta áhrif íþyngjandi ákvæða á atvinnulífið. Við hvetjum ný stjórnvöld til að koma í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram og gera skör í einföldun regluverks atvinnulífsins á komandi kjörtímabili.

Tryggjum varanleika lífskjarabatans

Sterk króna bætir lífskjör og getur verið heilbrigðismerki fyrir íslenskt hagkerfi með því að endurspegla bættar efnahagsaðstæður. Gengisstyrkingu undanfarinna missera má vafalítið rekja til þess að hluta til. Á sama tíma ættu stjórnvöld að vinna að því að lífskjarabati sé bæði sjálfbær og varanlegur en ekki tekinn að láni. Að okkar mati eru framangreindar aðgerðir best til þess fallnar að tryggja að svo sé.