Lög um orlof húsmæðra tímaskekkja

Efni: Frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra (178. mál)

Við höfum nú skilað inn umsögn um frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra. Frumvarpinu er ætlað að fella úr gildi lög um orlof húsmæðra og er það fagnaðarefni að mati ráðsins. Við bendum á að atvinnuþátttaka kvenna hafi aldrei verið meiri (80% á árinu 2016) og því tímaskekkja að sveitarfélög standi straum af kostnaði við að greiða orlofsferðir húsmæðra. Við teljum það jafnframt ekki samrýmast sjónarmiðum um jafnrétti að öðru kyninu standi til boða að fara í orlofsferðir vegna starfa sinna á heimili en hinu kyninu standi ekki slíkt til boða fyrir sama starf. Sér í lagi þegar litið er til þess að orlof húsmæðra stendur þeim konum til boða sem starfa á almennum vinnumarkaði og eiga því lögbundinn rétt til orlofs. Viðskiptaráð tekur því undir með frumvarpinu og telur tímabært að lögin verði felld úr gildi.

Lög um orlof húsmæðra tímaskekkja

Lög um orlof húsmæðra voru sett árið 1974 en forsögu húsmæðraorlofs má rekja til ársins 1958 þegar fyrsta ríkisstyrkta húsmæðraorlofið kom til framkvæmda. Tilgangur laganna var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum orlofsréttindi líkt og launþegum.

Samkvæmt núgildandi lögum á sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, rétt á að sækja um orlof. Orlof húsmæðra stendur því ekki einungis þeim konum til boða sem starfa heima við heldur einnig þeim konum sem starfa á almennum vinnumarkaði og eiga lögbundinn rétt til orlofs.

Til þess að standa straum af kostnaði við orlof húsmæðra leggur sveitarsjóður árlega fram fjárhæð, sem nemur minnst kr. 100 fyrir hvern íbúa sveitarfélagsins. Fjárhæð þessi tekur breytingum eftir vísitölu framfærslukostnaðar. Miðað við fólksfjölda hér á landi má því áætla að um 33 m.kr. sé ráðstafað árlega í orlof húsmæðra.

Árið 2016 var atvinnuþátttaka kvenna um 80% og hefur aldrei verið hærri, til samanburðar var atvinnuþátttaka karla rúm 87% á sama tímabili.[1] Vegna breytinga á vinnumarkaði má því ætla að stór hluti þeirra sem þegið hafa húsmæðraorlof undanfarin ár eigi jafnframt lögbundinn rétt til orlofs.

Á þeim 43 árum sem liðin eru frá setningu laganna hafa mikil framfaraskref verið stigin í jafnréttisbaráttu kynjanna sem hafa breytt þeim forsendum sem upphaflega voru fyrir setningu laganna. Að okkar mati er tímabært að fella lögin úr gildi þar sem þau samræmast ekki núgildandi viðhorfum um jafnrétti kynjanna.

Í stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar segir að jafnrétti í víðtækri merkingu sé órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.[2] Viðskiptaráð telur það ekki samrýmast sjónarmiðum um jafnrétti að öðru kyninu standi til boða að fara í orlofsferðir á kostnað sveitarfélaga vegna starfa sinna á heimili en hinu kyninu standi ekki slíkt til boða fyrir sama starf.

Breið samstaða um afnám laganna

Ef litið er til þeirra umsagna sem borist hafa um frumvarpið og fyrri frumvarpa um sama efni má sjá að breið samstaða er um afnám laganna. Þannig hafa Jafnréttisstofa,[3] Kvenréttindafélag Íslands,[4] formaður Jafnréttisráðs,[5] ýmiss sveitarfélög[6] og fleiri aðilar verið sammála um að afnema ætti lögin.

Viðskiptaráð telur ekkert vera því til fyrirstöðu að afnema lögin hið fyrsta og leiðrétta þá tímaskekkju sem þau eru.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.

________

[1] Úttekt Hagstofunnar um konur og karla á Íslandi árið 2017. Slóð: https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/felagsmal/lykiltolur-um-konur-og-karla/

[2] Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar má nálgast á eftirfarandi slóð: http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/

[3] Umsögn Jafnréttisstofu má nálgast á eftirfarandi slóð: http://www.althingi.is/altext/erindi/138/138-2634.pdf

[4] Umsögn Kvenréttindafélags Íslands má nálgast á eftirfarandi slóð: http://www.althingi.is/altext/erindi/144/144-1466.pdf

[5] Umsögn formanns Jafnréttisráðs má nálgast á eftirfarandi slóð: http://www.althingi.is/altext/erindi/144/144-1272.pdf

[6] Sjá t.a.m. umsögn Hveragerðisbæjar, Akraneskaupstaðar og Vestmannaeyja um frumvarpið. Slóð: http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=146&mnr=119

One clap, two clap, three clap, forty?

By clapping more or less, you can signal to us which stories really stand out.