Óskilgreind fjárútlát gagnast ekki sjúklingum

Viðskiptaráð
5 min readSep 19, 2016

--

Undanfarnar vikur hafa flest stjórnmálaöfl lofað auknum fjárútlátum til heilbrigðiskerfisins á næsta kjörtímabili. Ekkert þeirra hefur hins vegar tilgreint nánar með hvaða hætti þeim viðbótarfjármunum skuli varið. Ný úttekt ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company varpar ljósi á vandann við slík loforð.

Velferðarráðuneytið stóð að gerð úttektar McKinsey, sem fjallaði um rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítalans. Niðurstöðurnar voru gerðar opinberar á vefsíðu ráðuneytisins þann 7. september síðastliðinn. Á bls. 21 í íslenskri útgáfu þeirra segir eftirfarandi:

„Frá árinu 2012 hefur launakostnaður verið helsta ástæða aukins rekstrarkostnaðar Landspítalans. Aukningin hefur einkum verið vegna aukins kostnaðar á hvert stöðugildi en fjölgun stöðugilda hefur verið takmörkuð. Vegna nýlegra kjarasamninga hins opinbera hafa laun á Landspítalanum hækkað hraðar en meðallaun á Íslandi. Sérstaklega hafa laun lækna hækkað en það var talið nauðsynlegt til þess að gera störf þeirra meira aðlaðandi. Á sama tíma og kostnaður hefur aukist hafa afköst á sjúkrahúsinu minnkað […]“

Viðskiptaráð gerir ekki lítið úr mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólki bjóðist samkeppnishæf laun á Íslandi. Meginmarkmið heilbrigðiskerfisins á hins vegar ávallt að vera að skila sem mestri og bestri þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Heilbrigðismál eru stærsti útgjaldaliður hins opinbera og skipta sköpum fyrir lífskjör á tvennan hátt. Annars vegar vegna heilbrigðis þjóðarinnar og hins vegar vegna sjálfbærni rekstrar hins opinbera. Með það í huga er brýnt að stjórnmálin fjalli ekki eingöngu um útgjöld til málaflokksins heldur jafnframt þá þjónustu sem þeim er ætlað að skila.

Afköst minnka og gæði staðna

Á sama tímabili og fjárframlög til Landspítalans hafa verið aukin hafa heildarafköst á spítalanum dregist lítillega saman. Þannig hefur umfang árlegrar veittrar þjónustu minnkað um tæplega 1% á síðastliðnum þremur árum (sjá mynd). Afleiðing þessa er að framleiðni, eða kostnaðarhagkvæmni, á spítalanum hefur minnkað. Þar sem umfang þjónustunnar hefur minnkað en kostnaðurinn aukist kostar meira að veita hverja einingu af þjónustu samanborið við áður.

Í úttekt McKinsey kemur fram að kostnaðarhagkvæmni á Landspítalanum er ennþá mikil í alþjóðlegum samanburði. Hún jókst umtalsvert í aðhaldsaðgerðum spítalans í kjölfar bankahruns. Þannig er kostnaður á hvern legudag lægri en á þeim spítölum sem valdir eru til samanburðar og afköst starfsfólks meiri. Hagkvæmni þjónustunnar er því enn mikil þrátt fyrir þróun síðustu ára.

Umfang veittrar þjónustu á Landspítalanum hefur dregist saman síðustu ár þrátt fyrir aukin fjárframlög. Mynd úr úttekt McKinsey & Company.

Æskilegt væri að aukin gæði myndu fylgja hækkun kostnaðar við hverja einingu af veittri þjónustu. Í úttektinni kemur hins vegar fram að ekki séu vísbendingar um að gæði þjónustunnar hafi aukist. Birt er yfirlit yfir nokkra mælikvarða á gæði þjónustunnar sem benda til þess að gæði séu svipuð og áður (sjá mynd). Því er ekki að sjá að þeir viðbótarfjármunir sem veitt hefur verið til spítalans á síðustu árum hafi skilað aukinni þjónustu eða meiri gæðum til skemmri tíma.

Þrátt fyrir lægri framleiðni á Landspítalanum eru ekki vísbendingar um að gæði þjónustunnar hafi aukist. Mynd úr úttekt McKinsey & Company.

Biðlistar lengjast

Ein afleiðing þessarar þróunar er að biðlistar eftir skurðaðgerðum hafa lengst. Árið 2015 biðu 4.600 manns eftir skurðaðgerð samanborið við 2.600 árið 2012, sem er um 80% aukning (sjá mynd). Þá hefur sífellt hærra hlutfall þeirra sem eru á biðlistum beðið lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Minni afköst Landspítalans hafa leitt til lengingar biðlista eftir skurðaðgerðum. Mynd úr úttekt McKinsey & Company.

Í úttekt McKinsey kemur fram að stjórnvöld ákváðu í mars á þessu ári að veita 1,6 ma. kr. til viðbótar við núverandi framlög til Landspítalans til að stytta biðlistana á þessu og næstu tveimur árum. Þar hafa stjórnvöld stigið skref í rétta átt með því að skilgreina hvert markmiðið er með auknum framlögum. Með slíkri stefnumörkun eru mun meiri líkur á því að þessum fjármunum verði varið með hagkvæmum og skynsömum hætti.

Launakostnaður aukist um 31% á þremur árum

Laun á Landspítalanum hafa hækkað um 31% á þremur árum.

Þegar ársreikningar Landspítalans eru skoðaðir má sjá að meðaltal launakostnaðar á hvert stöðugildi hefur aukist um 31% á síðustu þremur árum (sjá mynd). Til samanburðar hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um tæplega 20% á sama tímabili samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

Hér skal þó tekið fram að verkföll heilbrigðisstarfsfólks árið 2014 og sérstaklega árið 2015 hafa áhrif á þennan samanburð. Landspítalinn hefur bent á að þau hafi valdið því að reiknuðum ársverkum fækkaði hlutfallslega meira en sem nam samdrætti í launakostnaði. Orsakaðist það af bráða- og vaktþjónustu sem unnin var þrátt fyrir verkföllin og kom fram í auknum launakostnaði á hvert stöðugildi. Með það í huga má vænta þess að launaþróun ársins 2016 beri þess merki að engin verkföll hafi átt sér stað.

Áhugavert er að líta til þeirrar fullyrðingar í úttekt McKinsey að launahækkanir lækna hafi verið taldar nauðsynlegar til að gera störf þeirra meira aðlaðandi. Árið 2012 þreyttu 307 einstaklingar inntökupróf í læknisfræði við Háskóla Íslands. Af þeim var 48 leyft að innritast. Fimm af hverjum sex einstaklingum sem vildu verða læknar var því vísað frá.

Með þessu er ekki gert lítið úr mikilvægi þess að eðlilegum gæðakröfum sé viðhaldið. Að mati Viðskiptaráðs hlýtur þó að vera eðlilegt að horfa til þess að fjölga í þessum hópi og draga þannig úr aðgangshindrunum stéttarinnar. Þrátt fyrir fullyrðingar um hlutfallslega bág kjör lækna benda þessar aðsóknartölur til þess að lítill skortur sé á einstaklingum hérlendis sem vilja starfa sem slíkir.

Aukin fjárframlög leiða ekki sjálfkrafa til betri heilbrigðisþjónustu

Góð heilsa stendur fólki nærri og heilbrigðisstarfsfólk vinnur afar mikilvæg störf. Þær staðreyndir mega þó ekki koma í veg fyrir að stjórnmálamenn og aðrir hagsmunaaðilar fjalli um málaflokkinn með hagkvæma nýtingu opinberra fjármuna að leiðarljósi.

Stjórnvöldum hvers tíma ber að tryggja að aukin fjárframlög til heilbrigðismála nýtist í aukna þjónustu við sjúklinga, meiri gæði veittrar þjónustu eða lækkun kostnaðarþátttöku þeirra. Til að svo megi verða ættu aukin fjárútlát til heilbrigðismála að vera eyrnamerkt slíkum umbótum.

Það er því eðlileg krafa að stjórnmálaöfl geri betur grein fyrir með hvaða hætti þau hyggjast ráðstafa þeim auknu útgjöldum sem lofað hefur verið til heilbrigðismála. Að öðrum kosti er hætt við að þeir fjármunirnir sem ráðstafað er til málaflokksins nýtist ekki skjólstæðingum heilbrigðiskerfisins með fullnægjandi hætti.

Pistillinn var uppfærður þann 22. september að teknu tilliti til athugasemda Landspítalans við upphaflega útgáfu hans.

Ítarlegri umfjöllun Viðskiptaráðs um heilbrigðiskerfið má nálgast í skoðun ráðsins frá september 2015.

--

--