Markaðsbrestur í menntun: Hvað er til ráða?

Viðskiptaráð
7 min readMar 21, 2018

Menntun og þekking landsmanna hefur aukist gífurlega undanfarna áratugi og er það jákvæð þróun. Fjöldi háskólamenntaðra á Íslandi hefur þrefaldast frá aldamótum en á sama tíma hefur fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar dvínað hratt. Þá eru vísbendingar um að háskólamenntaðir eigi sífellt erfiðara með að fá störf við hæfi. Með áframhaldandi sókn í háskólanám er hætta á að þessi þróun haldi áfram og því veltir Viðskiptaráð upp tillögum til aðgerða sem skipta má í þrennt. Fyrst og fremst þurfa stjórnvöld að búa til umgjörð þar sem hægt er að skapa fleiri verðmætari störf. Ráðast þarf í færni- og mannaflaspá og beina námsmönnum í þær greinar sem eftirspurn er eftir. Að lokum þarf að huga að breyttum heimi þar sem færnikröfur eru að verða mikilvægari en háskólagráðan.

Þreföldun háskólamenntaðra á 16 árum

Undanfarin ár og áratugi hefur háskólamenntuðum fjölgað mjög hratt hér á landi en frá aldamótum hefur fjöldi háskólamenntaðra aukist um 184% eða nærri þrefaldast (sjá mynd 1). Nú er svo komið að hópurinn stefnir í að verða sá fjölmennasti á vinnumarkaði innan fárra ára og slá þannig við grunnmenntuðum og starfs- og framhaldsmenntuðum.

Þrátt fyrir gífurlega fjölgun háskólamenntaðra er menntunarstig hér á landi enn í meðallagi samanborið við aðrar OECD þjóðir. Með áframhaldandi ásókn í háskólamenntun eru líkur á að Ísland skríði upp listann.

Ábati háskólamenntunar minnkar

Mikil og hröð fjölgun háskólamenntaðra hér á landi er afar jákvæð þróun, enda vel menntaður mannauður ein helsta forsenda aukins hagvaxtar. Á hinn bóginn hefur fjölgun háskólamenntaðra einstaklinga ein og sér ýmsar áskoranir í för með sér.

Undanfarin ár hefur sérhæfðum störfum ekki fjölgað í takt við aukna fjölgun háskólamenntaðra hér á landi, hvort sem litið er til almenna eða opinbera vinnumarkaðarins. Sé starfaflokkum Hagstofunnar skipt niður í störf sem ættu að krefjast háskólamenntunar og önnur störf sést að störfum fyrir háskólamenntaða hefur einungis fjölgað um 51% á sama tíma og háskólamenntuðum hefur fjölgað um 184%. Þá hefur háskólamenntuðum fjölgað mikið í öllum starfsstéttum og sem dæmi var 10% ósérhæfðs starfsfólks með háskólamenntun árið 2016 en 20 árum áður var hlutfallið innan við 1%.

Afleiðing þess að framboð háskólamenntaðs starfsfólks sé meira en eftirspurnin er meðal annars sú að fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hér á landi hefur dvínað umtalsvert. Árið 2016 voru ráðstöfunartekjur háskólamenntaðra að jafnaði 22% hærri en hjá grunnmenntuðum (sjá mynd 4). Á einungis 10 árum hefur hlutfallið lækkað um nærri helming.

Fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hefur ekki eingöngu farið dvínandi heldur er hann með því allra minnsta sem gerist í Evrópu og er langt undir meðaltali ESB. Sá samanburður bendir sterklega til þess að hér sé á ferðinni óheillaþróun. Einhverjir kunna að benda á að Ísland sé á svipuðum stað og Norðurlöndin og að því þurfi ekki að hafa áhyggjur. Við það er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi er hraði breytinganna sem fyrr segir býsna mikill. Í öðru lagi hefur svipuð umræða átt átt sér stað í Danmörku og annars staðar á Norðurlöndunum.

Ætla má að ein birtingarmynd rýrnandi ávinnings háskólamenntunar hér á landi séu erfiðleikar við að laða að erlenda sérfræðinga. Ísland stendur mjög höllum fæti í þessum efni og ef horft er til mælikvarða á samkeppnishæfni þjóða sem snúa að erlendum háskólanemum, erlendu starfsfólki og alþjóðlegri reynslu starfsfólks er Ísland meðal lægstu þjóða. Er það þrátt fyrir góðar aðgerðir sem ráðist hefur í undanfarin ár sem meðal annars miðuðu að auknum skattalegum ívilnunum og forgangsafgreiðslu dvalarleyfa fyrir erlendra sérfræðinga.

Vandamálið er að hér er markaðsbrestur þar sem framboð háskólamenntaðra og eftirspurn atvinnulífisins mætast ekki. Lausnin við þessu vandamáli felst ekki í því að ábati háskólamenntunar verði aukinn með launahækkunum stjórnenda og sérfræðinga langt umfram aðra hópa. Stjórnvöld geta án efa bætt umhverfi háskólamenntaðra með því að lækka jaðarskatta í hagkerfinu og er það mikilvægt skref. Að mati Viðskiptaráðs þarf þó að huga að stærri og fjölbreyttari lausnum en eingöngu þeim sem snúa að því að bæta umhverfi launamanna. Horfir ráðið til þríþættrar lausnar í þeim efnum.

1) Skapa þarf verðmætari störf svo háskólamenntaðir fái störf við sitt hæfi

Hér á landi gengur háskólamenntað fólk æ oftar í störf sem krefjast ekki háskólamenntunar. Sú þróun rímar við vöxt ferðaþjónustu og byggingariðnaðar á Íslandi en í báðum geirum hefur skapast mikill fjöldi starfa sem krefjast annarrar hæfni en háskólamenntunar. Þróunin er líka í takt við það sem átt hefur sér stað í löndum í kringum okkur. Heilt yfir er æ erfiðara fyrir háskólamenntaða að finna starf við sitt hæfi, þó að það sé mjög misjafnt eftir því hvers kyns menntun um ræðir. Nýjar tölur Vinnumálastofnunar frá janúar 2018 mála upp svipaða mynd. Háskólamenntaðir eru í dag næst stærsti hópur atvinnulausra sé þeim flokkað eftir menntun. „Vöxtur í atvinnulífinu undanfarið hefur ekki skilað sér í eins miklum mæli til háskólamenntaðra og við hefðum helst viljað” sagði Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar við þetta tilefni.

Hér þarf samstillt átak stjórnvalda til þess að búa til umgjörð svo hægt sé að skapa verðmætari störf. Stjórnvöld skapa ekki störfin eða fyrirtækin sem munu skapa verðmæti í framtíðinni, en þau hafa mikil áhrif á getur einkaaðila til að skapa störf fyrir háskólamenntaða. Þurfa stjórnvöld að huga sérstaklega að hugvitsdrifnum atvinnugeirum og nýsköpunarstarfsemi í þessum efnum. Afnám þaks á endurgreiðslur rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja er hér augljóst fyrsta skref.

Ein stærsta ógn verðmætra starfa hér á landi er án efa miklar launahækkanir, eins mótsagnakennt og það hljómar. Fyrirtæki í hugvitsdrifnum greinum eiga það nær ávallt sameiginlegt að geta hagað starfsemi sinni hvaðanæva að úr heiminum. Staðreyndin er sú að laun á Íslandi mæld í erlendri mynt eru í litlu samræmi við framleiðni. Áframhaldandi hækkun launa mun því að öllu óbreyttu þvinga mikilvæg hugvitsdrifin fyrirtæki úr íslensku hagkerfi.

2) Beina þarf námsfólki í þær greinar sem eftirspurn er eftir

Ljóst ert að vandi háskólamenntaðra verður ekki leystur eingöngu með auknu framboði starfa sem krefjast háskólamenntunar. Á sama tíma og sýnilegur skortur er á nemendum í ákveðnum greinum, svo sem iðn- og raungreinum virðist vera umfram framboð útskrifaðra viðskipta- og lögfræðinga. Horfa verður til þess hvort aðgerða sé þörf til þess að stýra aðgengi að ákveðnum brautum háskólanáms. Ráðast þarf í færni- og mannaflaspá að fordæmi landa eins og Írlands og Noregs. Slíkar spár þjóna lykilhlutverki til þess að hægt sé að efla og kynna háskólanám í greinum þar sem eftirspurn framtíðarinnar liggur — og draga úr fjölda útskrifaðra í greinum sem minni eftirspurn er eftir. Það gæti til dæmis falist í fjöldatakmörkunum og strangari inntökuskilyrðum í ákveðnum greinum líkt og þekkist nú þegar. Huga mætti einnig að öðrum hvötum, til dæmis í gegnum námslánakerfið.

3) Færni mikilvægari en háskólagráðan

Mikið hefur verið ritað og rætt um svokallaða gráðu-verðbólgu (e. degree inflation) sem á sér stað úti um allan heim. Hún birtist í minni fjárhagslegum ávinningi menntunar en einnig í því að sífellt oftar krefjast vinnuveitendur háskólagráðu, jafnvel þó að ekki sé raunveruleg þörf á því. Svo virðist sem atvinnulífið sé því að nota háskólamenntun sem ákveðna síu og jafnvel gæðastimpil. Þannig er frekar verið að horfa til sjálfs skírteinisins heldur en um þeirrar hæfni og sérþekkingar sem býr að baki. Rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2015 sýndi að í 67% tilfella þar sem auglýst var eftir verkstjórum var beðið um háskólamenntun á sama tíma og einungis 16% verkstjóra á almennum vinnumarkaði höfðu slíka menntun. Þó að með háskólamenntun fáist tiltekin þjálfun sem nýta má víðast hvar í vinnu er það augljóslega dýr leið til þess eitt að fá staðfestingu á að viðkomandi geti verið duglegur og metnaðarfullur í vinnu. Atvinnulífið ætti ekki leggja ofuráherslu á háskólamenntun þar sem hennar er ekki þörf.

Einnig þarf að horfa á menntun í mun víðara samhengi en hingað til hefur verið gert. Í síbreytilegum heimi er best ef við erum stöðugt að læra. Að lokinni háskólagráðu ætti ekki að líta svo á að námi sé lokið. Með lengri lífaldri og hröðum tæknibreytingum munum við þurfa að bæta við okkur menntun og reynslu jafnóðum. Það getur þýtt aukna símenntun og þjálfun sem við fyrstu sýn virðist óhefðbundin. Fjöldi háskólagráða mun líklega skipta minna máli en raunveruleg færni og kunnátta. Í menntamálum er víða hröð framþróun líkt og með School 42 forritunarskólanum og edX, sem er ókeypis nám á netinu sem Harvard og MIT standa fyrir. Þarna gæti framtíðin legið, í öðruvísi og fjölbreyttara námi.

Stjórnvöld og atvinnulífið þurfa að nálgast menntun á nýjan hátt

Aukinn ábati og góð nýting menntunar er mikið hagsmunamál fyrir fámenna þjóð. Ábyrgðin hvílir hjá hinu opinbera jafnt sem atvinnulífinu. Viðskiptaráð hvetur alla hagaðila til þess að huga að breyttri nálgun til þess að jafna betur framboð háskólamenntaðra og eftirspurnar atvinnulífsins. Um leið þarf að auka ábata þess að afla sér háskólamenntunar á Íslandi sem bæði leiðir til og kallar á aukna verðmætasköpun og meiri framleiðni.

--

--