Nýjar tillögur um þunna eiginfjármögnun of íþyngjandi

Viðskiptaráð
3 min readSep 9, 2016

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna breytingartillagna fjármála- og efnahagsráðuneytisins við frumvarp til laga um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Með breytingartillögum við frumvarpið eru m.a. sett fram ákvæði sem eiga að sporna við svokallaðri þunnri eiginfjármögnun. Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að vinna gegn þunnri eiginfjármögnun en ráðið telur breytingartillögur þessar ganga of langt.

Viðskiptaráð skilaði nýlega inn umsögn um frumvarp sem hefur það að markmiði að vinna gegn þunnri eiginfjármögnun og studdi ráðið frumvarpið í meginatriðum. Í þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar til er hins vegar gengið lengra við að takmarka þunna eiginfjármögnun heldur en fyrra frumvarpið gerði ráð fyrir og gerir Viðskiptaráð athugasemdir við ákveðna þætti tillagnanna.

Breytingartillögurnar ganga of langt

Verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu hefur nú skilað umbótatillögum á skattkerfinu til Samráðsvettvangs um aukna hagsæld. Ein af tillögum hópsins felst í því að þunn eiginfjármögnun verði takmörkuð og að settar verði reglur sem takmarka umfang frádráttar vaxtagjalda. Leggur verkefnisstjórnin til að heimild til frádráttar vaxtagjalda lögaðila vegna lánaviðskipta við tengda aðila takmarkist við 30% af hagnaði lögaðila fyrir fjármagnsliði, skatta, afskriftir fastafjármuna og niðurfærslur (EBITDA). Þá telur verkefnisstjórnin jafnframt að 160 m.kr. frádráttur skuli ávallt leyfður.

Í skýrslu starfshóps sem skipaður var af fjármála- og efnahagsráðuneytinu um reglur þunnrar eiginfjármögnunar er mælt fyrir sömu skilyrðum og verkefnisstjórnin, þ.e. um 30% hámark vegna frádráttar vaxtagjalda og að frádráttur allt að 160 m.kr. sé leyfður. Jafnframt er í nýlegri tilskipun Evrópusambandsins um skattasniðgöngur kveðið á um að heimilaður frádráttur vaxtagjalda miðist við 30% af EBITDA og að frádráttur allt að 3.000.000 EUR sé leyfður eða um 390 m.kr.[1]

Þær breytingartillögur sem nú eru lagðar til kveða á um 25% heimilaðan frádrátt vaxtagjalda af EBITDA en þó er frádráttur allt að 50 m.kr. heimilaður án skerðingar. Ljóst er að um töluverða þrengingu er að ræða frá því sem ofangreindir sérfræðingar og starfshópar hafa lagt til og tilskipun ESB kveður á um. Viðskiptaráð telur rök breytingartillagnanna um viðmiðunarpróstenu og fjárhæð ekki fullnægjandi rökstuddar. Að mati Viðskiptaráðs þurfa sterk rök að liggja að baki ef innleiða á reglur ESB með meira íþyngjandi hætti en þörf krefur.

Viðskiptaráð telur rétt að heimild til frádráttar vaxtagjalda lögaðila vegna lánaviðskipta við tengda aðila takmarkist við 30% af EBITDA með þeirri undantekningu að 160 m.kr. frádráttur verði leyfður.

Takmörkun vaxtafrádráttar einskorðist við lánaviðskipti milli landa

Þá er ekki að sjá að H.1 liður tillögunnar um takmörkun vegna vaxtafrádráttar eigi einungis við um lánaviðskipti milli tengdra aðila í mismunandi löndum heldur eigi takmörkunin einnig við um lánaviðskipti milli tengdra aðila sem báðir hafa starfsemi hér á landi. Þó má lesa af athugasemdum með breytingartillögunum að um sé að ræða takmörkun á vaxtafrádrætti þegar hann er notaður sem skattahagræði ef móður- og dótturfélag eru ekki með starfsemi sína í sama landi og land móðurfélagsins hefur lægri skattbyrði en dótturfélagsins. Að mati Viðskiptaráðs væri rétt að hafa orðalag ákvæðisins skýrt svo að ekki fari milli mála að einungis sé átt við lánaviðskipti milli móður- og dótturfélags sem ekki eru staðsett í sama ríki.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til framangreindra athugasemda.

[1] Sjá 4. gr. tilskipunar EB nr. 1164/2016 sem samþykkt var 12. júlí 2016. Slóð: http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32016L1164&qid=1473245924963&from=en

--

--