Ráðstöfun úr óstofnuðum sjóði

Viðskiptaráð
5 min readDec 6, 2017

Margt áhugavert er að finna í nýjum stjórnarsáttmála og verður spennandi að sjá hvernig ný ríkisstjórn útfærir hugmyndir sínar í komandi fjárlögum og fjármálaáætlun. Einni hugmynd sem varpað er fram í sáttmála er stofnun svokallaðs „þjóðarsjóðs“. Hugmyndin um þjóðarsjóð er þó ekki ný af nálinni. Á þeim tuttugu árum sem við höfum velt þessari hugmynd fyrir okkur án aðgerða hafa Norðmenn með góðri ávöxtun tvöfaldað sitt auðlindafé. Flestallir geta sammælst um stofnun sjóðsins og fagnar Viðskiptaráð því að vilji sé að líta til framtíðar og safna í sarpinn. Þó er ótímabært að ræða um ráðstöfun fjármagns í „átaksverkefni“ úr óstofnuðum sjóði líkt og gert er í sáttmálanum. Norðmenn tóku ekki úr sjóðinum fyrr en tuttugu árum eftir stofnun hans. Tilgangur þjóðarsjóðs er að ávaxta það fé sem ríkið innheimtir vegna nýtingu auðlinda og jafna efnahagssveiflur. Sjóðurinn er ekki nýfundið fé.

Tillaga um stofnun þjóðarsjóðs, sem birtist í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, er áhugaverð. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hún er viðruð, en hugmyndir um slíkan sjóð hafa birst í einni eða annarri mynd í fyrri stjórnarsáttmálum eða pólitískri umræðu í nærri tvo áratugi. Auðlindanefnd var t.a.m. skipuð af Alþingi árið 1998 og lagði nefndin til stofnun þjóðarsjóðs þar sem arður og gjöld af auðlindum þjóðarinnar yrðu ávaxtaðar.

Norðmenn hafa vafalaust verið okkar helsta fyrirmynd í þessum efnum enda eiga þeir stærsta þjóðarsjóð í heimi, með eignir upp á um 250% af landsframleiðslu. Sjóðurinn var stofnaður með tvö markmið í huga: 1) Tryggja góða ávöxtun af auðlindatekjum landsins (olíu) fyrir komandi kynslóðir og 2) Tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Fjárfesting sjóðsins fer að fullu fram erlendis svo að olíupeningarnir ýti ekki undir innlenda þenslu. Bæði markmið eiga við okkur Íslendinga, enda hefur hugmyndinni að jafnaði verið fagnað.

Heimild: Norges Bank Investment Management

Flestallir vilja leggja í sjóðinn…

Norðmenn sáu fyrir sér að olíulindir þeirra væru ekki ótæmandi, og að olíuverð gæti breyst með auknu framboði annars staðar í heiminum eða minni eftirspurn með aukinni meðvitund um umhverfisáhrif af jarðefnaeldsneyti. Ef við viljum taka okkur Norðmenn til fyrirmyndar þá er ekki seinna vænna að safna í slíkan sjóð með arði og innheimtum gjöldum af auðlindum, þar sem nú þegar er talsverð umræða um að auka vægi greina sem reiða sig ekki beint á náttúruauðlindir. Útflutningsverðmæti hafa aukist mikið á undanförnum árum, sem er undirstaðan undir hagvöxtinn sem okkur skorti fyrir hrun, en öll aukningin hefur komið frá auðlindadrifnum greinum. Vægi sjávarútvegs og álframleiðslu hefur vissulega minnkað, en á móti hefur ferðaþjónustan vaxið hratt.

Seinna markmið Norðmanna um efnahagslegan stöðugleika á hér líka vel við, enda fór 7% hagvöxtur síðasta árs ekki framhjá neinum. Hægja fer á vextinum á árinu sem er að líða, en háum vexti er engu að síður spáð, eða nær 4%. Við ættum því flestöll að geta sammælst um að leggja ætti inn í slíkan sjóð. Hvenær fjármagn er síðan tekið út og í hvað það fer þarf þó einnig að ræða á raunsæjan hátt. Sér í lagi þegar nú þegar má finna áætlanir um ráðstöfun slíks fjármagns á komandi árum í stjórnarsáttmála:

„Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því verður fræjum sáð til eflingar nýrra vel launaðra starfa í framtíðinni. Einnig verður hluti nýttur til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina.“

… en ótímabært er að ráðastafa úr óstofnuðum sjóð

Athyglisvert er að ræða um þjóðarsjóð sem hægt verði að grípa til á komandi árum til að fjármagna átaksverkefni. Þjóðarsjóður Noregs var stofnaður upp úr 1990 og sex árum síðar hófst innflæði í sjóðinn. Við Íslendingar höfum talað um slíkan sjóð síðan þá, en ekkert aðhafst. Samkvæmt fjármálareglu norska þingsins má ríkisstjórnin eyða ávöxtun sjóðsins (leiðrétt fyrir verðbólgu), sem nemur um 4% á ári. Ekki má ganga á höfuðstólinn, heldur aðeins nota ávöxtun sjóðsins. Ekki reyndi hins vegar á þetta ávöxtunarákvæði þar til í fyrra, 20 árum eftir stofnun, þar sem innflæði í sjóðinn á hverju ári hefur ætíð verið meira en sem nemur úttekt.

Heimild: Norges Bank Investment Management

Með því að búa í haginn fyrir breytt landslag tókst Norðmönnum að samræma bæði markmiðin sín. Viðvarandi lágt olíuverð hefur reynt á hagkerfið að undanförnu og hafa þeir nú sjóð sem má nýta til að örva hagkerfið á annan máta, t.a.m. með fjárfestingu í innviðum og nýsköpun og rannsóknum. En þetta hefur verið áratuga verkefni.

…sér í lagi til verkefna sem aðkallandi eru

Sjóður í ætt við þann sem frændur okkar Norðmenn hafa byggt upp fjármagnar ekki verkefni á yfirstandandi kjörtímabili, eða á því sem eftir kemur. Að því sögðu ætti að taka því fagnandi ef breyting verður nú loks á, að við stofnum slíkan sjóð eftir 20 ára umtal, á sama tíma og Norðmenn hafa rúmlega tvöfaldað innlagt fjármagn í sinn sjóð með góðri ávöxtun.

Fram hefur komið að arðgreiðslur frá Landsvirkjun gætu hafist í kringum árið 2020 og þá numið um 15 ma. kr. á ári. Ef svipuð upphæð yrði lögð í sjóðinn á ári hverju, og gert ráð fyrir 4% ávöxtun, stæði sjóðurinn í 480 ma. kr. árið 2040. Ávöxtun sem hægt væri að ráðstafa úr sjóðinum eftir tíu ár frá stofnun (2030) næmi 7–8 ma. kr. ef svipuð fjármálaregla yrði sett hér og í Noregi. Árið 2040 fengjust 18 ma. kr. Til samanburðar stefna útgjöld til hjúkrunar- og dvalarrýma í 40 ma. kr. á þessu ári.

Heimild: Landsvirkjun, áætlun Viðskiptaráðs

Nýsköpunarverkefnin og hjúkrunarrýmin verða sem sagt ekki fjármögnuð á næstkomandi árum af slíkum sjóði ef við förum að fyrirmynd Norðmanna. Ef sáttmálinn snýr í raun að fjármögnun slíkra verkefna eftir fimmtán til tuttugu ár (sem án efa mun ennþá þurfa að fjármagna þá) er þetta til marks um nýja framsýni í íslenskum stjórnmálum og því fagnar Viðskiptaráð. Hvort heldur sem er, mega slíkar hugmyndir ekki verða til þess að aðkallandi verkefni í tengslum við nýsköpun og losun flöskuhálsa í heilbrigðiskerfinu fái ekki rými annars staðar í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar til skemmri tíma. Þjóðarsjóður kemur ekki í stað forgangsröðunar í opinberum fjármálum í dag.

--

--