Rafrænar þinglýsingar: Seinlegt kerfi í nútímalegt horf

Viðskiptaráð
2 min readNov 28, 2016

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til innanríkisráðuneytisins vegna breytinga á þinglýsingarlögum. Með drögunum er lagður grundvöllur að rafrænum þinglýsingum skjala en nái frumvarpið fram að ganga verður mögulegt að þinglýsa öllum skjölum rafrænt. Viðskiptaráð fagnar því að loks standi til að færa þinglýsingar í nútímalegt horf hér á landi og tekur ráðið undir með ráðuneytinu að brýnt sé að breyta formlegu og stundum seinvirku kerfi yfir í hraðvirka og notendavæna rafræna þjónustu.

Upphaflega voru drög að frumvarpi þessu til umsagnar hjá ráðuneytinu í nóvember 2015 og skilaði Viðskiptaráð umsögn um þau. Frumvarpsdrögin sem nú hafa verið birt hafa tekið nokkrum jákvæðum breytingum frá því að fyrri drögin voru birt og telur Viðskiptaráð því rétt að koma fram athugasemdum.

Ísland verður eitt þinglýsingarumdæmi

Í fyrri drögum ráðuneytisins var ráðherra heimilt að ákveða að þinglýsingar yrðu á hendi eins sýslumanns en í þeim drögum sem nú eru til umsagnar er skýrt kveðið á um að Ísland sé eitt þinglýsingarumdæmi. Viðskiptaráð fagnar þessari rekstrarhagræðingu en ráðið hefur fjallað um mikilvægi þess að auka framleiðni í opinberum rekstri til að nýta megi skattfé með sem bestum hætti. Í þessu samhengi er ástæða til að undirstrika mikilvægi þess að sú hagræðing sem næst með breytingum þessum skili sér aftur til ríkissjóðs en verði ekki ráðstafað í önnur minna aðkallandi verkefni innan sýslumannsembættanna.

Skýr tímalína þarf að liggja fyrir

Nú eru sex ár liðin frá því að greiningarskýrsla á tæknilegri útfærslu rafrænna þinglýsinga kom út og fimm ár frá því að ríkisstjórnin fól fjármálaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu og Þjóðskrá Íslands að stýra undirbúningi rafrænna þinglýsinga. Í umræddri greiningarskýrslu er áætlað að gera megi þinglýsingar að fullu sjálfvirkar á tveimur árum. Í greinargerð með drögum að frumvarpinu kemur fram að fyrst um sinn verði aðeins veðskjölum og fylgiskjölum þinglýst en eftir því sem verkefninu vindur fram megi fjölga tegundum skjala sem þinglýsa má rafrænt með breytingum á reglugerð. Viðskiptaráð ítrekar það sem fram kom í fyrri umsögn ráðsins um drög að frumvarpinu að mikilvægt sé að skýr tímalína liggi fyrir um innleiðingu rafrænna þinglýsinga. Það veitir aðgerðinni töluvert aðhald ef fyrirfram er ljóst hvenær heimila eigi rafrænar þinglýsingar á tilteknum tegundum skjala til viðbótar við veðskjöl. Viðskiptaráð vonast til að framvinda verkefnisins muni ganga hratt og örugglega svo að þinglýsa megi öllum tegundum skjala með rafrænum hætti eins fljótt og unnt er.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpsdrögin nái fram að ganga.

--

--