Mynd: Flickr (shehan peruma)

Vilji er ekki allt sem þarf

Stjórnvöld náðu ekki markmiði sínu um einföldun regluverks á liðnu kjörtímabili

Viðskiptaráð
4 min readNov 10, 2016

--

Árið 2013 lagði nýkjörin ríkisstjórn í vegferð um að einfalda regluverk. Verkefnið var metnaðarfullt en lengi hafði gengið erfiðlega að innleiða breytingar á þessu sviði. Viðskiptaráð fagnaði fyrirheitum nýrrar ríkisstjórnar og aðgerðaáætluninni sem var vandlega unnin.

Forsætisráðuneytið hefur nú birt úttekt á áhrifum lagabreytinga síðasta kjörtímabils á regluverk atvinnulífsins. Kannað var hvernig stjórnvöldum tókst til við að ná markmiði sínu um að einfalda og auka skilvirkni regluverks. Niðurstaðan er sú að regluverk var ekki einfaldað á kjörtímabilinu, EES-reglur voru innleiddar með meira íþyngjandi hætti en þörf var á og ráðuneytin framfylgdu ekki því hlutverki sínu að meta áhrif íþyngjandi ákvæða á atvinnulífið. Viðskiptaráð hvetur ný stjórnvöld til að koma í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram.

Byrði af regluverki leggst þyngst á smærri fyrirtæki

Beinn kostnaður af íþyngjandi regluverki er áætlaður um 22 ma. kr. á ári. Auk þess nemur óbeinn kostnaður regluverks allt að 143 ma. kr. á ári vegna neikvæðra áhrifa á framleiðni. Þessi kostnaður kemur fyrst og fremst niður á rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem búa yfir minni fjárhagslegum styrk og sérfræðiþekkingu til að ráða fram úr flóknu regluverki.

1 Kostnaður fyrirtækja vegna regluverks sem hlutfall af heildarkostnaði. Hlutfallsleg vísitala (fyrirtæki með 0–9 starfmenn = 100). Heimild: Samráðsvettvangur um aukna hagsæld

Það ætti að vera forgangsmál stjórnvalda að draga úr þessum kostnaði. Hagfellt rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja er grundvallarþáttur í uppbyggingu nýsköpunar, aukinni samkeppni og auknum framleiðnivexti. Hægur framleiðnivöxtur undanfarin ár á Íslandi bendir til þess að viðfansefnið sé enn brýnna en áður.

Með ofangreint að leiðarljósi lagði síðasta ríkisstjórn áherslu á einföldun regluverks en í stefnuyfirlýsingu hennar sagði eftirfarandi:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Markmið hennar verður að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri. Sérstakt markmið er að engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafn veigamiklar kvaðir. Þannig munu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt.“

Þrjár íþyngjandi breytingar á móti hverri einföldun

Forsætisráðuneytið hefur nú tekið saman árangurinn af þessu starfi ríkisstjórnarinnar og greint þau 35 frumvörp sem urðu að lögum á tímabilinu og hafa áhrif á reglubyrði atvinnulífsins. Rúmur helmingur þeirra var íþyngjandi, 31% fól í sér bæði íþyngjandi og einfaldara regluverk og 17% breytinganna leiddu til einföldunar regluverks. Þrjár íþyngjandi breytingar voru því innleiddar á móti hverri einföldun, sé einungis litið til þeirra frumvarpa sem hafa breytingar í aðra hvora áttina.

Séríslensk íþyngjandi ákvæði til viðbótar við EES-regluverk

Stór hluti af nýju regluverki á kjörtímabilinu var lögfestur til að uppfylla skuldbindingar Íslands vegna EES-samningsins. Þegar slík innleiðing á sér stað geta ríki valið á milli þess að innleiða reglurnar með sama hætti og tilskipanir Evrópusambandsins segja fyrir um, eða þá að útfæra reglurnar með meira íþyngjandi hætti. Sérstaka athygli vekur að íslensk stjórnvöld ákváðu í þriðjungi tilfella að innleiða tilskipanir ESB með meira íþyngjandi hætti en þörf var á til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Ráðuneyti mátu ekki áhrif íþyngjandi ákvæða

Það sem vekur mesta athygli við lestur skýrslunnar er að framkvæmd mats á áhrifum frumvarpa á atvinnulíf var ábótavant í 93% tilfella. Forsætisráðuneytið lagði á kjörtímabilinu sérstaka áherslu á að ráðuneytin mætu áhrif íþyngjandi áhrifa á atvinnulífið við samningu lagafrumvarpa. Ráðuneytin sinntu hins vegar því hlutverki sínu að nær engu leyti: aðeins í 7% tilfella var vísir að slíku mati til staðar.

Af niðurstöðum skýrslunnar er ljóst að ekki náðist merkjanlegur árangur í að einfalda regluverk á síðasta kjörtímabili. Þá sinntu ráðuneytin ekki því hlutverki sínu að meta áhrif íþyngjandi ákvæða á atvinnulífið við samningu frumvarpa.

Vilji ný stjórnvöld koma í veg fyrir áframhaldandi þyngingu regluverksbyrði þarf að grípa til afdráttarlausari aðgerða. Nú þegar er gerð krafa um það í lögum að stjórnarfrumvörp sem fela í sér ákvæði um eftirlit með starfsemi fyrirtækja eða einstaklinga skuli fylgja mat á þörf fyrir eftirlit og kostnað þjóðfélagsins af því. Forsætisráðuneytið hefur enn fremur lagt áherslu á að ráðuneytin leggi mat á áhrif íþyngjandi ákvæða á atvinnulífið við samningu lagafrumvarpa. Þessu hefur ekki verið fylgt eftir með neinum hætti. Af niðurstöðum skýrslunnar má því meðal annars ráða að nauðsynlegt sé að taka til endurskoðunar verkferla ráðuneyta við gerð frumvarpa.

Við hvetjum ný stjórnvöld til að setja aukinn kraft í einföldun regluverks svo íslensk fyrirtæki upplifi síður lamandi og kostnaðarsama hnökra sem á endanum skerða hag og lífskjör almennings.

--

--