Samkeppnishæfni á samningaborðið

Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn eru sammála um veigamikil mál er varða viðskiptalífið

Viðskiptaráð
6 min readNov 15, 2017

--

Nú standa yfir stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Áherslur þessara þriggja flokka eru um margt ólíkar en þeir eru hins vegar sammála um að ráðast þurfi í margvíslegar aðgerðir til þess að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Í aðdraganda kosninganna lét Viðskiptaráð framkvæma tvær skoðanakannanir. Annars vegar skoðanakönnun meðal stjórnenda allra aðildarfélaga Viðskiptaráðs um hvar helst væri þörf á úrbótum á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja og hins vegar meðal formanna stjórnmálaflokkanna um áherslur í þeim málaflokkum sem helst brenna á íslensku atvinnulífi.[1] Niðurstöðurnar leiða í ljós að margt af því sem atvinnulífið kallar eftir eru aðgerðir sem stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að ráðast þurfi í. Þeir þrír flokkar sem nú stefna að myndun ríkisstjórnar ættu því að ná saman um ýmsar aðgerðir sem bæta rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Skilaboð atvinnulífsins eru skýr

Í niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir stjórnendur í atvinnulífinu kemur fram skýr krafa um aukinn stöðugleika í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja, sérstaklega í gengis- og kjaramálum. Þrír af hverjum fjórum stjórnendum sögðu peningamálastefnuna vera eitt þeirra málefna sem mestu skipti fyrir íslensk fyrirtæki og meirihluti svarenda taldi kjaramál og aðgerðir í skattamálum vega þungt (mynd 2). Þá voru menntamál, innviðauppbygging og nýsköpunarumhverfi einnig ofarlega á baugi ásamt lækkun tryggingagjalds, einföldun regluverks og aðhalds í ríkisfjármálum.

Mikill samhljómur meðal flokkanna

Þegar svör frambjóðenda eru skoðuð kemur nokkuð á óvart hversu mikill samhljómur er á milli þeirra í málefnum atvinnulífsins. Til að mynda svöruðu allir flokkarnir því játandi að þeir hygðust beita sér fyrir einföldun regluverks á komandi kjörtímabili (mynd 3).

Að sama skapi töldu allir stjórnmálaflokkar æskilegt að vinnumarkaðurinn (opinberi og almenni) kæmi sér saman um aðferðafræði sem tryggði sjálfbæra þróun launakjara. Þróun beggja málaflokka hefur verið ámælisverð undanfarin misseri og skort hefur pólitíska forystu um aðgerðir. Af niðurstöðum könnunarinnar má þó ætla að einfalt verði að ná þverpólitískri sátt um úrbætur í málaflokkunum.

Einhugur um lækkun tryggingagjalds

Athygli vakti að allir flokkar, að Pírötum undanskildum, vildu lækka tryggingagjaldið, kæmust þeir til valda (mynd 4). Það ætti því að vera hægðarleikur að lækka gjaldið á næsta kjörtímabili. Tryggingagjaldið er afar óheppilegt til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það leggst á laun án þess að sjást á launaseðli, veldur tregðu hjá fyrirtækjum til að ráða nýtt starfsfólk og kemur sérstaklega illa við lítil fyrirtæki. Lægra tryggingagjald gerir fyrirtækjum einnig auðveldara að mæta miklum kjarahækkunum síðustu missera.

*Píratar taka ekki afstöðu til þess hvort gjaldið eigi að hækka eða lækka. Gjaldið ætti þó að taka breytingum í takt við þá málaflokka og útgjöld sem því er ætlað að standa undir

Afnema ætti þak á endurgreiðslur vegna R&Þ

Af niðurstöðum könnunarinnar má einnig ráða að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn eru öll hlynnt því að þak á endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verði afnumið (mynd 5). Afnám þess kæmi fyrirtækjum í alþjóðageiranum sérstaklega vel en alþjóðageirinn, þ.e. sá hluti hagkerfisins sem samanstendur af útflutningsfyrirtækjum sem ekki treysta á náttúruauðlindir, er hlutfallslega smár á Íslandi miðað við í grannríkjunum.[2] Þá er Ísland meðal neðstu þjóða á lista þeirra OECD þjóða sem beita endurgreiðsluaðferð til að styðja við rannsóknar- og þróunarverkefni. Með því að ráðist í aðgerðir sem bæta samkeppnisstöðu alþjóðageirans má stuðla að sjálfbærum og kröftugum hagvexti hér á landi.

Flokkarnir almennt sammála um aðhald í ríkisfjármálum

Flestir stjórnmálaflokkanna telja þann 44 ma.kr. afgang sem boðaður var í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 hæfilegan (mynd 6). Upphæðin jafngildir 1,6% af vergri landsframleiðslu, líkt og lagt var upp með í fjármálaáætlun sem samþykkt var á þinginu fyrr í vor. Í ljósi þess kraftmikla hagvaxtar sem mælst hefur að undanförnu og stefnir í á þessu ári er skynsamlegt að ríkissjóður skili góðum afgangi. Gjöld ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu verða í kringum 30% markið ef þessi áætlun gengur eftir, sem er ekki ósvipað hlutfalli síðustu ára. Munar hér þó mestu um að vöxtur landsframleiðslu hefur verið kröftugur svo stöðugt hlutfall gefur til kynna aukningu í útgjöldum. Það verður að teljast jákvætt ef þessi skoðun stjórnmálaflokkanna er til marks um að sátt sé að nást um langtímaáætlunargerð í fjármálum hins opinbera, þar sem tekið er mið af æskilegum afgangi í fjárlögum hvers árs.

Skiptar skoðanir um gjaldmiðlamál

Meðal stjórnenda íslenskra fyrirtækja er einhugur um að það sé meðal mikilvægustu verkefna nýrrar ríkisstjórnar að tryggja stöðugleika í gengismálum. Sögulega hefur gengi krónunnar verið mjög óstöðugt og eftir að höftum var lyft fyrr á árinu snarjukust hreyfingar gengisins. Slíkt flökt gerir alla áætlanagerð fyrirtækja ómögulega og gerir þeim erfitt að auka framleiðni sína. Ákall eftir breytingum er því orðið hávært. Af svörum forsvarsmanna stjórnmálaflokkanna er ljóst að ekki er samstaða um það hvort þessi stöðugleiki verði tryggður með eða án krónu (mynd 7). Þeir þrír flokkar sem sitja við samningaborðið eru hins vegar sammála um ágæti krónunnar og því ólíklegt að miklar breytingar verði á gjaldmiðlamálum á kjörtímabilinu myndi þeir ríkisstjórn. Hins vegar er mikilvægt að niðurstaða liggi fyrir bráðlega um leiðir til að tryggja stöðugleika í gengismálum hér á landi, og að nefnd um endurskoðun peningastefnunnar fái að ljúka störfum.

Stjórnarsáttmálinn þarf að ná til atvinnulífsins

Við gerð nýs stjórnarsáttmála ættu stjórnmálaflokkarnir að horfa til samkeppnishæfni Íslands. Þegar dægurþrasið er skilið frá efnislegum áherslum stjórnmálaflokkanna kemur í ljós að þeir eru sammála í mörgum málum er varða atvinnulífið. Ljóst er að þeir stjórnmálaflokkar sem nú eru í viðræðum um ríkisstjórnarsamstarf eru sammála í veigamiklum málum er varða atvinnulífið og því ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að ráðast í þær aðgerðir sem hafa verið til umfjöllunar hér að framan. Að mati Viðskiptaráðs ætti væntanlegur stjórnarsáttmáli því að lágmarki að fjalla um eftirfarandi aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar:

  • Tryggja stöðugleika í peningamálum og halda áfram þeirri faglegu vinnu sem hefur verið hrundið af stað í tengslum við endurskoðum peningastefnunnar
  • Lækka tryggingagjald
  • Gæta aðhalds í ríkisrekstri og standa við langtímaáætlanir í ríkisfjármálum
  • Létta reglubyrði með það að leiðarljósi að þungt regluverk og eftirlit standi ekki að óþörfu í vegi fyrir framleiðniaukningu hér á landi
  • Halda aftur af ósjálfbærum kjarahækkunum með hámörkun kaupmáttar að leiðarljósi í gegnum samstarf hins opinbera við atvinnulífið
  • Styðja frekar við alþjóðageirann, t.a.m. með afnámi þaks á endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunarkostnaðar

Ávinningur samfélagsins af aðgerðum í þessum málaflokkum væri gríðarlegur. Nú þegar efnahagsaðstæður eru með besta móti er rétti tíminn til að styðja vel við íslenskt atvinnulíf og byggja þannig undir bætt lífskjör til lengri tíma.

[1] Könnunin var send til allra flokka sem mældust með yfir 4% fylgi á þeim tíma sem könnunin var send út og/eða áttu sæti á þingi. Ekki reyndist unnt að fá svör frá Miðflokki.

[2] McKinsey & Company (2012) „Charting a Growth Path for Iceland“

--

--