Skattkerfið skiptir kjósendur máli

Þrír af hverjum fjórum kjósendum á Íslandi telja skattamál mikilvægt kosningamál. Þá telja tveir af hverjum þremur kjósendum skattbyrði sína of háa — en aðeins 1% kjósenda telur hana of lága. Skattheimta er því ofarlega í huga almennings, sem er einhuga um að draga eigi úr henni.

Viðskiptaráð
10 min readOct 27, 2016
Heimildir: Könnun um mikilvægi skattamála var framkvæmd af Maskínu fyrir RÚV í september 2016 og er aðgengileg í heild sinni hér. Könnun um skattbyrði var framkvæmd af Maskínu fyrir Viðskiptaráð í desember 2014.

Skattastefna stjórnmálaframboðanna ólík

Í ljósi þessa töldum við tilefni til að kortleggja stefnu stjórnmálaafla í framboði til Alþingis þegar kemur að skattkerfinu. Við gerðum það á tveimur mælikvörðum: annars vegar hvað varðar vænt umfang skattheimtu og hins vegar hvað varðar skýrleika þegar kemur að útfærslu stefnunnar. Hér má sjá niðurstöðu þessa mats fyrir þau framboð sem mælst hafa með yfir 5% fylgi í skoðanakönnunum:

Kortlagningin er áætlun okkar og byggir á þeim upplýsingum um skattamál sem fyrir liggja á vefsíðum stjórnmálaframboðanna. Einungis var gerð úttekt á stefnu þeirra framboða sem mælst hafa með yfir 5% fylgi í skoðanakönnunum. Nánari umfjöllun um aðferðafræðina má finna í viðauka neðst í þessari umfjöllun.

Aðferðafræðin við kortlagninguna

Til að kortleggja stefnu stjórnmálaframboðanna þegar kemur að umfangi skattheimtu tókum við saman þær upplýsingar um skattamál sem liggja fyrir á vefsíðum þeirra. Þær voru síðan notaðar til að kortleggja stefnu flokkanna þegar kemur að fjórum helstu tegundum skattheimtu: á vinnuframlag, neyslu, sparnað og rekstur. Jafnframt var horft til þess hvort kosningaloforð framboðanna væru fjármögnuð með skattatillögum — ef svo var ekki er gert ráð fyrir að frekari skattahækkanir þurfi til að unnt sé að uppfylla þau. Niðurstaðan var eftirfarandi:

Auk umfangs skattheimtu kortlögðum við einnig stefnur framboðanna þegar kemur að skýrleika þeirra. Þannig flokkuðum við útfærsluna í hverjum flokki ýmist sem skýra eða óskýra. Þannig má fá hugmynd um í hve miklum mæli kjósendur vita að hverju þeir ganga með því að kjósa viðkomandi framboð. Niðurstaðan er eftirfarandi:

Aftast í þessari umfjöllun má sjá samantekt á þeim upplýsingum um skattastefnu framboðanna sem liggja fyrir á vefsíðum þeirra. Það eru sömu upplýsingar og við notuðum til að framkvæma kortlagninguna. Áhugasamir geta farið yfir þær upplýsingar og borið saman við kortlagninguna.

Skattahækkanir þrjár af hverjum fjórum breytingum

Á síðustu tíu árum hafa verið gerðar 211 breytingar á skattkerfinu. 76% þessara breytinga voru skattahækkanir. Fáir skattstofnar hafa verið undanþegnir í þessum málum og bera því bæði heimili og fyrirtæki þyngri skattbyrði en áður.

Við erum meðvituð um að verulegar skattalækkanir á þenslutímum í efnahagslífinu væru óæskilegar með hliðsjón af stöðugleika. Af sömu ástæðu er hins vegar gagnrýnivert hversu litla ábyrgð margir stjórnmálaflokkar hafa sýnt í tengslum við kostnaðarsöm kosningaloforð. Þannig nemur áætlaður kostnaður vegna helstu kosningaloforða um 190 milljörðum króna á ári. Ef til stendur að uppfylla þau verða afleiðingarnar annað hvort verulegar skattahækkanir eða skuldasöfnun á kostnað framtíðarkynslóða.

Stjórnvöld ættu frekar að feta blandaða leið skynsamlegra skattalækkana og niðurgreiðslu opinberra skulda á næsta kjörtímabili. Um leið er unnt að efla grunnþjónustu með forgangsröðun verkefna og aukinni framleiðni í rekstri hins opinbera. Með þessu móti er búið í haginn fyrir framtíðina á sama tíma og farið er eftir vilja einstaklinga um að skattbyrði þeirra lækki. Þá eru umfangsmikil tækifæri til einföldunar og umbóta þegar kemur að skattheimtu. Slíkar breytingar fela ekki í sér ógn við efnahagslegan stöðugleika og ætti því að ráðast í við fyrsta tækifæri.

Veigamiklir ágallar á skattkerfinu í dag

Íslenskt skattkerfi hefur neikvæðari áhrif á hegðun og lífskjör hérlendis en raunin þyrfti að vera. Við bentum á nokkra ágalla núverandi skattkerfis í kynningu á fræðslufundi VÍB:

  • Háir jaðarskattar á millitekjufólk draga úr hvata einstaklinga til að auka við tekjur sínar
  • Fleygur á milli kostnaðar vinnuveitanda og útborgaðra launa leiðir til lægri grunnlauna en ella
  • Víðtækar undanþágur og þrepaskipting virðisaukaskatts skekkir neyslumynstur einstaklinga, dregur úr hagkvæmni skattsins og skapar hvata til undanskota
  • Fjármagnstekjuskattur á nafnávöxtun veldur því að einstaklingar taka of mikla áhættu með sparnað sinn
  • Misræmi í skattlagningu vaxta- og arðgreiðslna skapar hvata til of mikillar skuldsetningar fyrirtækja

Jafnframt bentum við á mögulegar umbætur á fasteignasköttum hérlendis í nýlegri umfjöllun.

Í þessu ljósi fögnum við því frumkvæði sem nýjar tillögur verkefnisstjórnar um breytingar og umbætur á skattkerfinu fela í sér. Endurskoðun á skattkerfinu sem miðar að aukinni skilvirkni og einfaldleika er löngu tímabært skref. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir muni ríkja á meðal hagsmunaaðila um einstakar tillögur, og þar erum við engin undantekning, er það von okkar að næstu stjórnvöld líti til þeirra þegar þau móta og framfylgja stefnu sinni.

Áframhaldandi skattahækkanir draga úr lífskjörum

Aukin opinber útgjöld og skattheimta eru að hluta til afleiðing þess stjórnskipulags sem vestræn samfélög búa við. Þeir sem útdeila opinberum fjármunum hafa hvata til að gera það í síauknum mæli. Tilraunir til að draga úr útgjöldum mæta hins vegar iðulega andstöðu frá þeim hópi sem nýtur framlaganna hverju sinni. Þetta er vel þekktur vandi fulltrúalýðræðis.

1 Árið 2008 er leiðrétt fyrir 170 ma. kr. framlagi ríkissjóðs til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands. Nýjasta árið er 2015. Heimildir: Hagstofa Íslands, Viðskiptaráð Íslands

Með þessar áskoranir í huga höfum við talað fyrir forgangsröðun og aukinni framleiðni í opinberum rekstri. Þannig má styrkja innviði, grunnþjónustu og velferðarhlutverk hins opinbera en á sama tíma draga úr skattbyrði. Áhersla stjórnmálanna ætti alltaf að snúast um að skila sem bestri þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Því miður er oft horfið frá þessum leiðarljósum eins og vaxandi umsvif hins opinbera gefa til kynna.

Óhófleg og óskilvirk skattheimta dregur úr verðmætasköpun og minnkar ráðstöfunartekjur. Áhrifin brjótast einkum fram gagnvart hvötum einstaklinga til að skapa ný verðmæti, hvort sem það er í formi vinnuframlags, viðskipta með vörur og þjónustu, eða fjárfestingar. Það virðist of oft gleymast að skatttekjur verða ekki til af sjálfu sér og að skattastefna hefur mikið um það að segja hversu mikið er til skiptanna.

Við hvetjum stjórnmálaöfl til að nýta síðustu daga kosningabaráttunnar sem og stjórnarmyndunartímabilið til að skýra betur sýn sína á skattamál. Það er jafnframt von okkar að litið verði til vilja almennings í meiri mæli þegar kemur að því að móta stefnu nýrra stjórnvalda í skattamálum.

Viðauki: skattastefna stjórnmálaframboðanna

Samantektin byggir á fyrirliggjandi upplýsingum á vefsíðum framboðanna.

Björt framtíð

  • Forgangsmál að stuðla að því að skatta- og tollakerfið sé einfalt, réttlátt og skiljanlegt, hvetji til innlendrar verslunar, nýsköpunar og vistvænnar atvinnustarfsemi og hindri sem minnst framtakssemi.
  • Rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði gert hærra undir höfði með einfaldara regluverki, skattaumgjörð og hvötum sem efla rekstur þeirra.
  • Auðlindir til lands og sjávar skili þjóðinni mun meira fé í sameiginlega sjóði, sem síðan nýtist til þess að bæta almenn skilyrði fyrir heimili og fyrirtæki af öllu tagi um allt land.

Framsókn

  • Megináherslan er að skattaumhverfi skuli vera einfalt og vel samkeppnishæft
  • Haldið verði áfram að einfalda skattkerfið og persónuafsláttur hækkaður til fyrra horfs að raungildi
  • Stíga varlega til jarðar með frekari breytingar á virðisaukaskattskerfinu.
  • Lág tekjuskattsprósenta rekstraraðila er mun líklegri til að bæta samkeppnishæfni, draga að erlenda fjárfesta, auka innlendar fjárfestingar og auka skatttekjur.
  • Framsókn vill lækka tekjuskattsprósentuna, með 25% neðra tekjuskattsþrepi í staðgreiðslu skatta. Þ.e. staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir einstaklinga með lágar tekjur og millitekjur samhliða því að tekjutengja persónufrádrátt þannig að hann falli niður þegar ákveðnum tekjum er náð. Barnabætur verði réttur barnsins og fylgi barninu.
  • Vaxtabætur falli niður í núverandi mynd en sparnaði verði beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónufrádrætti.
  • Jafnframt viljum við taka upp einstaklingsframtöl og hætta þannig samsköttun hjóna.
  • Með þessum aðgerðum er hægt að lækka skatta hjá meginþorra almennings og auka hvatann til vinnu.
  • Brýnt að lækka tryggingargjald enn frekar en að er stefnt enda átti hækkun þess að vera tímabundin ráðstöfun meðan atvinnuleysi var hátt.
  • Lækka erfðafjárskatt enda er um að ræða margsköttun með nokkurra áratuga millibili.

Píratar

  • Lögfesta reglur sem takmarka þunna fjármögnun fyrirtækja
  • Hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20% í 30%
  • Ákveðið hlutfall skatta af rekstri og störfum fyrirtækja skulu renna beint til þess sveitafélags þar sem starfsemi eða verslun fer fram. Byggðastyrkir myndu að mestu leyti falla niður í staðinn.
  • Greiða út ónýttan persónuafslátt til allra 16 ára eða eldri
  • Skattheimta standi undir grunnstoðum. Það er ekki sjálfstætt markmið Pírata að hækka eða lækka skatta, heldur er markmið skattheimtu ríkisins að hið opinera geti tryggt grunnstoðir samfélagsins; svo sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi, almannatryggingakerfi, löggæslu, vegakerfi o.s.frv. þar sem megináhersla er lögð á gæði og jafnt aðgengi.
  • Bindum enda á skattaundanskot og þunna eiginfjármögnun. Við viljum leita uppi fjársjóði Íslendinga í skattaskjólum og tryggja að alþjóðleg fyrirtæki sem starfa á Íslandi greiði skatta á Íslandi, með því að koma í veg fyrir að hangaði þeirra sé komið úr landi sem vaxtagreiðslur til móðurfyrirtækis.
  • Breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og bjóða upp aflaheimildir á opnum markaði.
  • Sjá til þess að stóriðjufyrirtækin greiði sinn skerf til samfélagsins fyrir nýtingu þeirra á orkuauðlind Íslendinga.

Samfylking

  • Öflun skatttekna og dreifing þeirra á að stuðla að jöfnuði og réttlæti, án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs.
  • Tekjuskattur skal gegna því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun.
  • Tekjuskattur skal vera þrepaskiptur og skoða þarf hvort ástæða sé til þess að auka á bilið milli skattþrepa og fjölga þeim.
  • Þannig verði hæsta þrepið örugglega hátekjuskattur en ekki millitekjuskattur.
  • Auka ber vægi tilfærslukerfa barna- og húsnæðisbóta sem auk persónuafsláttarins eru mikilvægustu tekjujöfnunartæki hins opinbera.
  • Tryggja þarf sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
  • Raforkufyrirtæki skulu greiða auðlindagjald hvort sem rafmagnsframleiðslan á sér stað í fallvötnum eða með gufuöflun.
  • Hitaveitur skulu borga auðlindagjald af því vatni sem þau fá úr jörðu og útgerðir greiði fyrir heimildir til að sækja fiskistofna á Íslandsmiðum.
  • Bein gjaldtaka fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun er eitt form skattheimtu. Slík gjaldtaka eykur ójöfnuð sem dregur til lengri tíma úr þrótti samfélagsins og almennri velsæld.
  • Afmarka ber tekjur og gjöld vegna takmarkaðra náttúrugæða og auðlinda í þjóðareigu, m.a. veiðigjalds og tekna af orkulindum, á sérstökum auðlindareikningi sem verði hluti ríkisreiknings. Með því verði auðlindarentan gerð sýnileg almenningi.
  • Gefa verði almenningi tækifæri á að fjárfesta í fyrirtækjum í nýjum og vaxandi atvinnugreinum og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum veiti slík fjárfesting skattafrádrátt.

Sjálfstæðisflokkur

  • Sjálfstæðisflokkurinn vill halda sköttum í lágmarki og að fólk haldi sem mestu eftir af því sem það aflar.
  • Skattkerfið er ætlað til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það á að vera einfalt, gagnsætt, sanngjarnt og skilvirkt til að auka réttaröryggi borgaranna og auðvelda skattyfirvöldum baráttuna gegn skattsvikum.
  • Draga þarf úr jaðaráhrifum skattkerfisins og bótakerfisins. Miða skal skattlagningu og bætur við kjör einstaklinga en ekki sambúðarform eða fjölskyldustöðu.
  • Við viljum enn frekari lækkun skatta, m.a. frekari lækkun tryggingagjalds og tekjuskatts.
  • Einfalda ber virðisaukaskattskerfið og fækka þar undanþágum.
  • Endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þar með talið skattlagningu leigutekna, sem leiðir fyrst og fremst til hærra leiguverðs og meiri skattaundanskota.
  • Við ætlum að lækka fjármagnstekjuskatt og skattleggja raunávöxtun fjármagnstekna í stað nafnávöxtunar.
  • Lækka erfðafjárskatt aftur í 5% með afnám hans að lokamarkmiði.
  • Lögbundið lágmarksútsvar sveitarfélaga verður afnumið og ýtt undir samkeppni sveitarfélaga.
  • Við ætlum að halda áfram að afnema tolla, til dæmis af ýmsum matvælum.
  • Gefnar verði meiri, greinarbetri og gegnsærri upplýsingar um opinberar álögur á launa- og álagningarseðlum.
  • Skattumhverfi fyrirtækja á að vera með þeim hætti að ekki þurfi ívilnanir eða afslátt af opinberum gjöldum til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni.
  • Skattar á fjármálafyrirtæki eigi að vera almennir og án undanþága. Stjórnvöld verða að árétta að bankar starfa á eigin ábyrgð en ekki skattgreiðenda.

Viðreisn

  • Tillögum verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld verði hrint í framkvæmd. Þessum tillögum er ætlað að einfalda skattkerfið og bæta skilvirkni þess.
  • Róttækar breytingar á tekjuskattskerfi:
    — Tvö þrep 25% á tekjur undir 650 þúsund á mánuði og 42% á tekjur yfir þeim mörkum.
    — Útgreiðanlegur persónuafsláttur sem hækkar með vaxandi tekjum upp að 1.250 þúsund króna árslaunum en skerðist síðan um 29% af tekjum þar umfram.
    — Skattleysismörk hækka úr 140 þúsund krónum á mánuði í liðlega 190 þúsund krónur á mánuði
    — Samsköttun verði hætt.
  • Einföldun virðisaukaskattskerfis:
    — Fækkun undanþágna
    — Eitt skattþrep — 19%
  • Aukin áhersla á auðlindagjöld og græna skatta:
    — Auðlindagjöld í sjávarútvegi, orkuiðnaði og öðrum atvinnugreinum sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
    — Grænir skattar — mengun skattlögð. Komi í stað annarra skatta svo sem eldsneytisgjalda.
  • Einföldun skattkerfis
    — Einföldun skattreglna fyrir einyrkja með tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi undir 4 milljónum króna á ári.
    — Einföldun skattskila
    — Skilvirkara skatteftirlit
  • Áherslur Viðreisnar í skattamálum liggja helst í því að endurskoða þurfi skattkerfið með það að markmiði að auka skilvirkni þess, fækka undanþágum og íþyngjandi reglum og auðvelda einstaklingum og smáum sem stórum fyrirtækjum að fara að reglum.
  • Huga þarf sérstaklega að einyrkjum og smáfyrirtækjum með einfaldari skattlagningu og skattskilum.
  • Að lokum telur Viðreisn nýsköpun vera forsendu framfara og leggur til að skoðað verði hvernig skattaívilnunum og fjárfestingarhvötum verði best fyrir komið. Hækka þarf og helst afnema núverandi þak á endurgreiðslu til fyrirtækja vegna útlagðs kostnaðar til rannsókna og þróunar.

Vinstri-græn

  • Áherslur Vinstri grænna í skattamálum taka mið af því að skattkerfið sé skilvirkt, réttlátt, grænt, jafni tekjur og eyði aðstöðumun.
  • Stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja frá velferðarkerfinu.
  • Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna eða takmarka sem kostur er og sæti þá ströngu eftirliti.
  • Þrepaskattur skal vera nýttur til jöfnunar í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum. Þannig er lögð áhersla á aukin framlög þeirra ríkustu inn í sameiginlega sjóði.
  • Vinstri grænir leggja jafnframt til að innheimta eigi gjald af nýtingu auðlinda og tryggja þannig að arðurinn af sameiginlegum auðlindum renni til þjóðarinnar ef þær eru ekki nýttar með samfélagslegum hætti í þágu almennings.
  • Gistináttagjald þarf að hækka í endurskoðaðri mynd og skipta tekjunum milli ríkisins og sveitarfélaganna.
  • Viðbótar kolefnisgjald verði sett á og unnið að heildstæðri áætlun um græna skattlagningu og græna skattahvata.
  • Reglur um þunna eiginfjármögnun verði leiddar í lög og þannig unnið gegn því að ofurskuldsett íslensk dótturfélög í eigu erlendra aðila komi ósköttuðum hagnaði úr landi.
  • Lög um lengingu fæðingarorlofs og hækkun hámarksgreiðslna (þaks) verði sett og fæðingarorlofssjóði tryggð fullnægjandi fjármögnun, samtímis því að áætlun um lækkun almenns tryggingagjalds vegna tekjuauka af hagsveiflunni verði lögfest.

--

--