Skattstefnuþokan: Mikill munur á gagnsæi flokkanna

Viðskiptaráð
10 min readOct 24, 2017

Það er auðvelt að eyða peningum. Alla jafnan auðveldara en að afla þeirra. Þetta þekkja flestir, einstaklingar jafnt sem fjölskyldur og fyrirtæki en þó sérstaklega stjórnmálaflokkar. Með opið tékkhefti væri líklega ekki erfitt að vera í ríkisstjórn. En þrátt fyrir hið augljósa virðast kosningarnar snúast fyrst og fremst, nú sem áður, um það hvernig peningunum skuli eytt. Minni greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu, aukinn fjárstuðningur í velferðar- og húsnæðismálum, uppbygging innviða í landinu, stórefling menntakerfisins. Allt eru þetta títtnefnd dæmi um aukningu á útgjaldahlið ríkissjóðs á komandi kjörtímabili. Flestir ef ekki allir flokkarnir hafa birt skýra mynd af því hvernig peningunum skuli eytt. En hversu skýrir eru flokkarnir þegar kemur að tekjuhliðinni?

Skattar langstærsti tekjuliður ríkisins

Tekjur ríkissjóðs eru að stærstum hluta tilkomnar með skattlagningu, annars vegar beinni skattlagningu, svo sem á tekjur eða arðgreiðslur, og hins vegar með óbeinni skattlagningu, til dæmis með virðisaukaskatti á vörur og þjónustu. Alls stóðu skattar undir tæplega 78% af tekjum ríkissjóðs árið 2016 [1]. Til samanburðar stóðu arðgreiðslur úr bönkum og öðrum fyrirtækjum í ríkiseigu undir tæplega 4,5% heildartekna ríkissjóðs. Í kosningabaráttunni hafa flestir flokkar litið til aðgerða sem snúa að bönkunum í ríkiseigu, hvort sem það er lækkun eigin fjár eða bein sala eignanna. Yfir fjögurra ára tímabil duga slíkar einskiptistekjur þó tæplega fyrir þeim loforðum sem litið hafa dagsins ljós undanfarnar vikur.

Umfang skatttekna af heildartekjum ríkissjóðs er slíkt að leiða má líkur að því að stórfelld aukning ríkisútgjalda geti einungis orðið að veruleika með auknum tekjum af skattheimtu. Í ljósi þessa má halda því fram að skattastefna eigi að vera fyrst á blað þegar flokkar ákveða sínar áherslur.

Skattstefna skiptir kjósendur máli

Heimild: RÚV, Maskína (2016)

Kjósendur eru meðvitaðir um mikilvægi skýrrar stefnu í skattamálum og umfang skattheimtu er þeim hugleikið. Skoðanakönnun sem RÚV lét gera fyrir alþingiskosningarnar fyrir ári síðan leiddi í ljós að 74% kjósenda telja það skipta miklu máli að fjallað sé um skattalækkanir og -hækkanir í aðdraganda kosninga.

Viðskiptaráð hefur því, annað árið í röð, tekið saman stefnu stjórnmálaflokkanna í skattamálum og lagt mat á það hversu skýrar áherslur þeirra í málaflokknum eru. Jafnframt horfði ráðið til þess hvort flokkarnir tali fyrir skattahækkunum eða skattalækkunum. Í greiningunni var horft til fjögurra helstu tegunda skattheimtu: á vinnuframlag, sparnað, neyslu og rekstur. Jafnframt var horft til þess hvort kosningaloforð framboðanna væru fjármögnuð með skattatillögum — ef svo var ekki er gert ráð fyrir að frekari skattahækkanir þurfi til að unnt sé að uppfylla þau.

Niðurstöðurnar eru eftirfarandi

Heimild: Greining Viðskiptaráðs Íslands (2017)

Tveir stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Píratar, hafa lagt fram nokkuð skýra skattastefnu fyrir komandi kosningar. Leggja þeir báðir fram tillögur í þeim fjórum þáttum sem skoðaðir voru. Á óskýra stefnu-endanum er Miðflokkurinn en erfitt er að lesa í áætlanir flokksins til tekjuöflunar á komandi kjörtímabili. Á milli fyrrgreindra flokka koma hinir flokkarnir sem innbyrðis gefa misskýra mynd af áætlunum sínum á komandi kjörtímabili.

Engin stefna ≠ engar breytingar

Þrátt fyrir að stjórnmálamenn leggi almennt litla áherslu á skattabreytingar í aðdraganda kosninga þýðir það ekki að fyrirkomulagið muni að mestu haldast óbreytt. Þannig hafa alls verið gerðar 240 breytingar á fyrirkomulagi skattheimtu hér á landi á síðustu 10 árum, þar af 179 til hækkunar — eða þrjár skattahækkanir fyrir hverja lækkun. Miðað við þá hulu sem virðist oft umlykja skattastefnu flokkanna má gera fastlega ráð fyrir því að stór hluti þeirra breytinga sem verða mun á skattheimtu á næsta kjörtímabili hafi ekki verið kynntur nægilega fyrir kjósendum.

Skylda að upplýsa kjósendur

Eðli málsins samkvæmt er fólk ósammála um hvaða leið sé best að fara í skattheimtu. Hins vegar eru líklega flestir sammála um að gagnsæi flokka um skattastefnu er ekki aðeins af hinu góða heldur beinlínis nauðsynlegt fyrir kjósendur. Hjá flestum flokkanna er þessu ábótavant og er það óábyrgt. Meira ber á betur skilgreindri útgjaldastefnu en áður hefur verið og því ber auðvitað að hrósa. Það er því ósk Viðskiptaráðs að vinnubrögð er varða tekjuöflunarstefnu, og þá sér í lagi skattastefnu, fylgi þessari þróun.

Það er ábyrgð þeirra flokka sem bjóða fram í alþingiskosningum að móta sér og kynna stefnu í skattamálum, óháð því hvort sú stefna kallar á miklar, litlar eða engar breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Viðskiptaráð hvetur stjórnmálaflokkana til þess að nýta síðustu daga kosningabaráttunnar til þess að kynna skattastefnu sína betur fyrir kjósendum og stuðla þannig að upplýstari kosningum.

— — — — —
[1] Að teknu tilliti til stöðugleikaframlaga

Viðauki

Aðferðafræði

Stuðst er við þær upplýsingar sem eru aðgengilegar á vefsíðum flokkanna. Í greiningunni er miðað við þá flokka sem fengið hafa yfir 5% atkvæða í könnunum síðustu vikna. Í greiningunni var horft til fjögurra helstu tegunda skattheimtu: á vinnuframlag, sparnað, neyslu og rekstur. Athugið að hér er ekki horft á umfang skattheimtu heldur einungis hvort stefna flokksins varðandi skattheimtu á málaflokknum sé skýr og hvort sú stefna sé til hækkunar eða lækkunar. Þá eru ekki gerðar miklar kröfur til flokkanna um að stefnan sé ítarleg eða hvort hún sé raunhæf, einungis horft til hvort fjallað sé um þess að minnst sé á einhvers konar stefnu í málaflokkum.

Umfjöllun um sanngjarnt, heiðarlegt, skilvirkt skattkerfi er ekki tekið gilt sem stefna. Tillögur um sértækar aðgerðir er varða einstakar greinar atvinnulífsins eru ekki teknar gildar sem stefna í rekstrarsköttum. Tillögur að sértækum breytingum á virðisaukaskatti einstakra vöruflokka ekki teknar gildar sem stefna í neyslusköttum. Hins vegar er tekið tillit til sértækra tillagna til hækkunar eða lækkunar.

Stefnumál flokkanna sem snúa með einhverjum hætti að skattheimtu

Sjálfstæðisflokkur

  • Sjálfstæðisflokkurinn vill halda sköttum í lágmarki og að fólk haldi sem mestu eftir af því sem það aflar. Skattkerfið er ætlað til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það á að vera einfalt, gagnsætt, sanngjarnt og skilvirkt til að auka réttaröryggi borgaranna og auðvelda skattyfirvöldum baráttuna gegn skattsvikum.
  • Draga þarf úr jaðaráhrifum skattkerfisins og bótakerfisins. Miða skal skattlagningu og bætur við kjör einstaklinga en ekki sambúðarform eða fjölskyldustöðu. Við ætlum að lækka tekjuskatt almennings enn frekar. Um síðustu áramót afnámum við milliþrep tekjuskattsins, sem var yfir 40% miðað við meðalútsvar árið 2013 og lækkuðum neðra þrepið í tæp 37%. Nú ætlum við að lækka neðra þrepið enn frekar í 35%.
  • Við ætlum að lækka tryggingargjaldið enn meira. Það skiptir atvinnulífið miklu.Við ætlum að lækka fjármagnstekjuskatt og skattleggja raunávöxtun
    fjármagnstekna í stað nafnávöxtunar. Við ætlum að lækka erfðafjárskatt aftur í 5% með afnám hans að lokamarkmiði. Jafnframt viljum við einfalda virðisaukaskattskerfið og fækka þar undanþágum.
  • Lögbundið lágmarksútsvar sveitarfélaga verður afnumið og ýtt undir samkeppni sveitarfélaga.
  • Við afnámum almenn vörugjöld og fjölmarga tolla. Við ætlum að halda áfram á þeirri braut, til dæmis með því að afnema tolla af ýmsum matvælum. Gefnar verði meiri, greinarbetri og gegnsærri upplýsingar um opinberar álögur á launa- og álagningarseðlum.
  • Skattumhverfi fyrirtækja á að vera með þeim hætti að ekki þurfi ívilnanir eða afslátt af opinberum gjöldum til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni. Skattar á fjármálafyrirtæki eigi að vera almennir og án undanþága. Stjórnvöld verða að árétta að bankar starfa á eigin ábyrgð en ekki skattgreiðenda.

Píratar

Skuggafjárlög Pírata 2017

Framsókn

  • Framsókn vill einfalt og réttlátt skattaumhverfi
  • Skattbyrði einstaklinga, sem eru undir meðaltekjum, er þyngri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Framsókn vill endurskoða skattkerfið til að létta skattbyrði á lágtekjuhópa í samfélaginu, m.a. með breytingum á persónuafslætti.
  • Efla þarf skattaeftirlit til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og Ísland á að vera í fararbroddi þjóða í baráttunni gegn lágskattasvæðum sem nýtt eru af auðmönnum og stórfyrirtækjum til skattasniðgöngu.
  • Vegatollar eru viðbótarskattur sem leggst þyngst á þá sem sækja vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins.
  • Framsókn telur ótímabært að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu
  • Framsókn vill verja samkeppnishæfni greinarinnar með því að hverfa frá áformum um hækkun virðisaukaskatts.
  • Skattaumhverfi einfalt, réttlátt og samkeppnishæft við önnur lönd
  • Flokksþingið vill að haldið verði áfram á þeirri braut að einfalda skattkerfið og auka skilvirkni þess, landsmönnum og fyrirtækjum til hagsbóta
  • Framsóknarflokkurinn telur að lág tekjuskattsprósenta rekstraraðila sé mun líklegri til að bæta samkeppnishæfni
  • Flokksþingið telur ástæðu til þess að endurskoða erfðafjárskattinn enda er um að ræða margsköttun með nokkurra áratuga millibili.
  • Flokksþing leggur því til að hátekjuskattur verði lagður á ofurlaun og ofurbónusa
  • Flokksþingið ályktar að fella eigi niður virðisaukaskatt á fötum og skófatnaði fyrir börn.

Viðreisn

  • Skattkerfið verði endurskoðað með það að markmiði að auka skilvirkni þess, fækka undanþágum og íþyngjandi reglum og auðvelda einstaklingum og smáum sem stórum fyrirtækjum að fara að reglum.
  • Tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi, greitt markaðsverð fyrir nýtingu orkuauðlinda og tekið upp afgjald í ferðaþjónustu til að stuðla að ábyrgri aðgangsstýringu og dreifingu ferðamanna, uppbyggingu og skipulagi innviða og vernd náttúru landsins. Afgjaldi verði varið til uppbyggingar innviða.
  • Taka þarf sérstaklega á erfiðri aðstöðu kaupenda fyrstu íbúðar. Þeim verði m.a. gert heimilt að stofna skattfrjálsa sparnaðarreikninga í aðdraganda íbúðarkaupa.
  • Hófleg skattlagning og einfalt skattkerfi ýta undir atvinnurekstur og nýsköpun.
  • Huga þarf sérstaklega að einyrkjum og smáfyrirtækjum með einfaldari skattlagningu og skattskilum.
  • Rétt er að hækka lágmark fyrir virðisaukaskattskil í þrjár milljónir í stað einnar.

Vinstri græn

  • Skattleysismörk miðist við lágmarksframfærslu.
  • Skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði
  • Auðlegðarskattur er nauðsynlegur hluti af tekjuskattkerfinu enda getur eignafólk nýtt sér eignir sínar til að hafa af þeim tekjur án þess að þær myndi skattstofn. Þá er auðlegðarskattur nauðsynlegt tæki til að draga úr ójafnri skiptingu auðs í landinu. Eðlilegt væri að miða við lágt hlutfall (1%-1,5%) og hátt almennt fríeignamark (þannig að flestir séu undanþegnir en stóreignafólk borgi sanngjarnan hlut sinn til samfélagsins).
  • Fjármagnstekjuskattur leggst á skuldabréfaeign, tekjur af vöxtum, leigu á húsnæði og hagnað af sölu fasteigna og verðbréfa. Eðlilegt er að hafa fjármagnstekjuskatt annaðhvort þrepaskiptan eða hækka frítekjumarkið/skattleysismörk á háar fjármagnstekjur og skattleggja þær í takt við almennar launatekjur. Slík aðgerð er bæði réttlætismál og getur skilað verulegum tekjum í ríkissjóð.
  • Til að taka á svokölluðum ofurtekjum, til dæmis í kaupaukum, er skilvirkasta leiðin að setja á sérstakt hátekjuþrep í tekjuskattskerfinu sem tekur á mjög háum tekjum en kemur við tiltölulega fáa aðila.
  • Persónuafsláttur verði þannig að hann nýtist lág og millitekjuhópum sem best og fylgi þróun verðlags. Tryggja þarf að tekjulægstu hóparnir, sem eru undir markmiðum um grunnframfærslu, séu undir skattleysismörkum.
  • Rannsóknir sýna að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru eru áhrifarík leiðin til að bæta heilsu fólks. Því munu Vinstri græn beita sér fyrir að vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki og sykraða matvöru verði færðir í hærra virðisaukaskattsþrep.
  • Bent hefur verið á að kolefnisgjald sé áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa. Kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar eru almennt lægri hér á landi en hjá öðrum Norðurlöndum. OECD hefur bent á að gjald, sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings, sé um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar. Með því að hækka gjöldin og afnema undanþágur frá kolefnisgjaldi væri hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarvalda um leið og tekjur myndu renna í ríkissjóð. Sama má segja um aðra græna skatta sem er eðlilegt að hækka til að ná fram markmiðum í umhverfismálum.
  • Rétt eins og grænir skattar skipta máli til að ná fram markmiðum í umhverfismálum geta grænar skattaívilnanir nýst í sama markmiði. Eðlilegt er að nýfjárfestingar uppfylli loftslagsmarkmið og ekki séu gerðir frekari ívilnandi fjárfestingasamningar í þágu mengandi starfsemi. Umhverfisvænni samgöngumátar njóti ákveðinna skattaívilnana til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum svo dæmi sé tekið, sem og matvælaframleiðsla sem uppfyllir loftslags- og sjálfbærnimarkmið.
  • Innheimta á gjald af nýtingu auðlinda og tryggja þannig að arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem eru takmörkuð gæði, renni til þjóðarinnar ef þær eru ekki nýttar með samfélagslegum hætti í þágu almennings. Lykilatriði er að auðlindagjöld séu arðgreiðslur en ekki skattar. Þannig væri tekjuskattsstofninn slakur mælikvarði á auðlindaarðinn og ræðst af ýmsum öðrum þáttum (vaxtakjörum, frádráttarbærum fjármagnskostnaði o.fl.) en auðlindagjaldið á að vera greiðsla fyrir réttinn til að nýta auðlindina og sú greiðsla getur til dæmis ekki ráðist af því hvort fyrirtækið fjármagnar sig með eigin fé eða lánum. Því munu Vinstri græn beita sér fyrir sanngjörnum auðlindagjöldum sem myndu renna í sameiginlega sjóði íslensks samfélags og endurspegla á þann hátt að auðlindirnar eru sameign þjóðarinnar og þeir sem nýta þessi takmörkuðu gæði njóta forréttinda.

Samfylking

  • Öflun skatttekna og dreifing þeirra á að stuðla að jöfnuði og réttlæti, án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs.
  • Tekjuskattur skal vera þrepaskiptur og þannig gegna því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Skoða þarf hvort ástæða sé til að auka á bilið milli skattþrepa og fjölga þeim. Þannig verði hæsta þrepið örugglega hátekjuskattur en ekki millitekjuskattur.
  • Tryggja þarf sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
  • Afmarka ber tekjur og gjöld vegna takmarkaðra náttúrugæða og auðlinda í þjóðareigu, m.a. veiðigjalds og tekna af orkulindum, á sérstökum auðlindareikningi sem verði hluti ríkis­reiknings. Með því verði auðlinda­rentan gerð sýnileg almenningi.
  • Raforkufyrirtæki greiði auðlindagjald hvort sem rafmagnsframleiðslan á sér stað í fallvötnum eða með gufuöflun. Hitaveitur borgi auðlindagjald af því vatni sem þau fá úr jörðu og útgerðir greiði fyrir heimildir til að sækja fiskistofna á Íslandsmiðum.

Miðflokkurinn

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts af byggingu húsnæðis á kaldari svæðum
  • Skattalegir hvatar
  • Virðisaukaskattur felldur niður af lyfseðilsskyldum lyfjum
  • Skattlagning sparnaðar við inngreiðslu í lífeyrissjóði

--

--