Velmegunarkúnni slátrað?

Viðskiptaráð
10 min readMar 18, 2019

--

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands

- Launakostnaður er almennt mjög hár á Íslandi á alla mælikvarða

- Augljóslega þrengt að ferðaþjónustu

- Uppgangur efnahagslífsins hefur að mestu runnið í vasa starfsfólks — ekki síst í ferðaþjónustu

- Kauphallarfélög í innlendri starfsemi sýna svart á hvítu áhrif launahækkana

- Einfaldlega ekkert til skiptanna á hótelunum, án launahækkana

- Miklar launahækkanir leiða til tapreksturs á hótelunum sem verkföll beinast að

- Fleira en launahækkanir getur aukið lífskjör

Sjaldan hafa raunverulegar kjarabætur í kjölfar kjarasamninga á Íslandi verið jafn miklar og á síðustu árum. Þær kjarabætur má rekja, öðrum atvinnugreinum fremur, til ferðaþjónustu eftir fimmföldun á fjölda ferðamanna á einum áratug. Fyrir utan almennar kjarabætur eru undirstöður hagkerfisins sterkari en áður og erlend skuldastaða einstaklega hagstæð. Í þessu umhverfi hafa 16.000 ný störf í ferðaþjónustu orðið til síðustu 10 ár, sem hefur verið stærsti drifkraftur fordæmalausrar fjölgunar erlendra ríkisborgara. Frá 2010 hefur launþegum af erlendum uppruna fjölgað um 14.000.

Það er því óneitanlega öfugsnúið að kjarabaráttan á Íslandi snúi öðru fremur að einmitt þeirri atvinnugrein sem hefur skapað flest störf, laðað til landsins fólk í leit að betra lífi sem sendir að meðaltali 50.000 krónur heim í hverjum mánuði og greiðir ein hæstu laun í þessum iðnaði á heimsvísu sé skotspónninn í yfirstandandi kjaradeilum. Með því eru fetaðar hættulegar slóðir með lífskjör landsmanna enda er deginum ljósara að í ferðaþjónustu sem og víða annars staðar í atvinnulífinu er lítið svigrúm til launahækkana um þessar mundir. Síðast reyndist vissulega vera meira svigrúm en talið var, enda féll flest með efnahagslífinu árin 2015–2017, og átti það inni kjarabætur eftir batann í kjölfar hrunsins. Ekkert bendir til þess að það sé raunin í dag og hlutirnir eru frekar að snúast gegn okkur.

Launakostnaður er almennt mjög hár á Íslandi á alla mælikvarða

Á undanförnum misserum hefur Viðskiptaráð ítrekað bent á að laun á Íslandi séu afar há á alþjóðlega mælikvarða, t.d. í Hálaunalandinu Íslandi og Hvað er til skiptanna?. Þrátt fyrir að veiking krónunnar síðastliðið haust hafi að einhverju leyti breytt þeirri stöðu eru laun á Íslandi engu að síður enn há, hvort sem horft er til einfalds meðaltals launa, að teknu tilliti til verðlags og gengis, eða lágmarkslauna. Lágmarkslaun eru þannig hærri en á Íslandi í einungis þremur löndum: Danmörku, Noregi og Sviss.

Allir vilja að laun á Íslandi séu sem hæst og ekki síst að lægstu launin. Hvort það takmark náist ræðst öðru fremur af þeim verðmætum sem hagkerfið og störfin skapa og þannig hvað sé til skiptanna. Á síðustu árum hefur hlutur launafólks verðmætasköpuninni aukist hratt og er nú sá hæsti meðal OECD ríkja. Fari hlutfallið of hátt, ef það er ekki nú þegar of hátt, grefur það undan jafnvægi í efnahagsmálum og raunverulegum kjarabótum ef atvinnulífið stendur ekki undir því til lengdar. Ekki er hægt að ætlast til að íslensk fyrirtæki, sem búa við hærri vexti en flest þau lönd sem við berum okkur saman við, geti greitt viðvarandi hærri laun en erlendir keppinautar.

Önnur hlið á sama peningi er raungengi krónunnar á mælikvarða launakostnaðar eins og sjá má á mynd 2. Það mælir hversu hár launakostnaður er hér á landi í hlutfalli við viðskiptalönd þegar tekið hefur verið tillit til verðmætasköpunar. Þó að veiking krónunnar hafi að einhverju eða öllu leyti leiðrétt það ójafnvægi sem áður var er raungengi á mælikvarða launa enn 20% yfir langtímameðaltali. Það gefur vísbendingu um að svigrúm til launahækkana sé lítið sem ekkert og ef launin hækka mikið muni það leiðréttast í gegnum gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólgu, atvinnuleysi eða hvoru tveggja.

Augljóslega þrengt að ferðaþjónustu

Þær vísbendingar sem hafa hrannast upp á síðustu misserum um dvínandi svigrúm til launhækkana eru ekki síst vegna versnandi horfa í ferðaþjónustu. Þung staða flugrekstrar kemur þar fyrst upp í hugann og á fyrstu tveimur mánuðum ársins fækkaði erlendum ferðamönnum um 6,4%. Ef marka má spá ISAVIA er sú fækkun það sem koma skal með tilheyrandi áskorunum fyrir ferðaþjónustuna í heild.

Þessi fækkun og aukin samkeppni við Airbnb hefur leitt til þess að nýtingarhlutföll á hótelum á höfuðborgarsvæðinu, sem verkfallsaðgerðum er beint að, hafa farið lækkandi. Árið 2018 versnaði nýtingin á höfuðborgarsvæðinu til að mynda um sex prósentustig og í janúar síðastliðnum var nýtingin 7% lakari en á sama tíma 2018. Augljóst er að með þessu áframhaldi er lítið svigrúm til launahækkana eða hreinlega lítið svigrúm til að halda fólki í vinnu.

Uppgangur efnahagslífsins hefur að mestu runnið í vasa starfsfólks — ekki síst í ferðaþjónustu

Orðræðan í samfélaginu er mjög oft á þá leið að uppgangur síðustu ára hafi ekki skilað sér til launafólks og í staðinn runnið til fjármagnseigenda. Slíkur málflutningur á við veik og fá rök að styðjast. Gögn á tekjusagan.is, tölur um ójöfnuð sem er stöðugur í tekjum og fer minnkandi í eignum og kaupmáttaraukning launa, jafnvel þó tekið sé tillit til hækkunar leiguverðs, eru til marks um það að ávöxtur efnahagsuppgangsins hefur dreifst víða.

Á mynd 4 má sjá þróun rekstrar ferðaþjónustu og til samanburðar smásölu á Íslandi sem sýnir svart á hvítu hvernig aukin umsvif í hagkerfinu hafa skilað sér til launafólks. Í ferðaþjónustu hækkaði launakostnaður um meira en helming frá 2014 til 2017 á sama tíma og hagnaður dróst saman um nærri helming þrátt fyrir að skuldsetning hafi minnkað hlutfallslega á tímabilinu. Ef við skoðum smásölu, sem er ólík ferðaþjónustunni þar sem hún starfar fyrst og fremst á heimamarkaði, er þróunin í sömu átt; hækkun launakostnaðar á sama tíma og hagnaður hefur minnkað.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá 2017 og sumt hefur stutt við betri afkomu eins og lítillegar vaxtalækkanir og lækkun tryggingargjalds. Að öðru leyti hefur flest öll þróun verið til lækkunar á afkomu og þar vega launhækkanir og hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði þungt.

Kauphallarfélög í innlendri starfsemi sýna svart á hvítu áhrif launahækkana

Ofangreind þróun með minnkandi hagnaði en hækkandi kostnaði á sama tíma og samkeppni hefur aukist á mörgum mörkuðum er ein helsta ástæða þess að skráð félög í Kauphöll Íslands hafa samanlagt skilað lítilli sem engri ávöxtun síðustu þrjú ár og neikvæðri ávöxtun ef horft er framhjá þróun þess langstærsta, Marel hf., sem starfar að mestu leyti erlendis. Sé rýnt sérstaklega í rekstur skráðra fyrirtækja í hefðbundinni þjónustu- og vörusölu á heimamarkaði, sem flestir landsmenn versla beint við, kemur ávöxtunin ekki á óvart (mynd 5).

Frá 2014 til 2018 hefur launakostnaður þessara félaga hækkað um 34% á meðan rekstrarhagnaður hefur hækkað um aðeins 8%. Það þýðir að það sem orðið hefur til skiptanna hefur að langmestu leyti runnið til starfsfólks þessara fyrirtækja og neytenda sem notið hafa óvenju lítillar verðbólgu. Til marks um þetta hefur framlegð, eða tekjur að frádregnum aðföngum (eða kostnaðarverði seldra vara), aukist um rösklega 10 milljarða króna. Af því hafa 67% farið í launakostnað, 20% í annan rekstrarkostnað sem er oft nátengdur launakostnaði, en aðeins 13% hefur skilað sér í auknum rekstrarhagnaði. Þó að atvinnurekendur vilji að starfsfólk njóti velgengni fyrirtækja líkt og hluthafar er óraunhæft að þessi þróun haldi áfram án þess að það komi verulega niður á framþróun atvinnulífsins, leiði til uppsagna eða hækkunar verðlags.

Einfaldlega ekkert til skiptanna á hótelunum, án launahækkana

Ef rekstur fyrirtækja í innlendum rekstri hefur verið í járnum er ekki ofsögum sagt að rekstraraðstæður ferðaþjónustufyrirtækja hafi farið versnandi, sérstaklega ef horft er til þess hvernig ytri áhrifaþættir hafa þróast frá 2017 eins og sjá má á mynd 6. Með hliðsjón af þeirri þróun og forsendum um að hér verði nær engar launahækkanir, stöðugu gengi og verðbólgu við verðbólgumarkmið höfum við svo áætlað hvernig það sem er til skiptanna gæti þróast í ár.

Slík áætlun hangir á forsendum sem má deila um. Fyrir utan að gera ráð fyrir litlum verðlags og launahækkunum má til dæmis efast um að fjöldi starfsmanna haldist óbreyttur. Einnig má efast um að ekki verði lítilsháttar hagræðing með lækkun annars rekstrarkostnaðar en á hinn bóginn má efast um að velta haldist óbreytt í ár þar sem ferðamönnum fer fækkandi, nýting herbergja hratt versnandi og verð gistingar í krónum lækkandi nú í upphafi árs.

Hvað sem öllum vangaveltum um forsendur líður þá er einsýnt að afkoma í gisti- og veitingaþjónustu í heild og ekki síður á þeim hótelum sem nú er ráðist á með verkföllum fari versnandi. Í báðum tilfellum má sjá að hagnaður dregst saman um mun meira en helming frá 2017 sem gefur eindregið til kynna að lítið má út af bregða í rekstrinum og að svigrúm til launahækkana sé lítið eða ekkert. Gildir þá einu um skoðanir fólks á því hver laun eigi að vera. Raunveruleikinn sýnir einfaldlega að svigrúmið er lítið, eina vafaatriðið er hversu lítið og hvernig megi skipta því.

Jafnvel þó forsendum sé hnikað breytir það ekki heildarmyndinni um að afkoman fari versnandi og að minna sé til skiptanna eftir miklar launahækkanir síðustu ára. Til dæmis þyrfti annar rekstrarkostnaður að lækka um 15% frá 2017 til 2019 til að viðhalda sömu afkomu við 15% hækkun launakostnaðar hjá þeim hótelum sem verkföllin miða að. Slík kostnaðarlækkun á svo stuttum tíma getur einungis komið til vegna skertrar þjónustu og þá lægri kostnaðar eða með gríðarlega hröðum framleiðnivexti sem ekki hefur orðið sérstaklega vart í hótelrekstri.

Miklar launahækkanir leiða til tapreksturs á hótelunum

Vegna þess hve mikil óvissan er og sviðsmyndin á mynd 6 er hófsöm varðandi launahækkanir og bjartsýn varðandi veltu, þrátt fyrir að vísbendingar bendi til annars, má sjá fleiri sviðsmyndir af afkomu hótelanna sem verkföllin beinast að á mynd 7. Þar er þó ekki gert ráð fyrir að nein frekari verkföll verði. Launakostnaður á starfsmann, að gefnu því að starfshlutföll hafi haldist óbreytt frá 2017, er rúmlega 500.000 krónur á mánuði hjá hótelunum sem hér um ræðir og um 9% hærri en hjá geiranum í heild. Kröfur Eflingar myndu í því samhengi þýða um 8% hækkun launakostnaðar sem að óbreyttu þýðir taprekstur upp á um einn milljarð króna. Þá er ekki tekið inn í myndina að veltan gæti minnkað vegna fækkunar ferðamanna. Slík sviðsmynd og hófstemmdari launahækkanir þýða 2,8 milljarða króna taprekstur. Það er meira en sem nemur öllu handbæru fé þessara 20 fyrirtækja í lok árs 2017 (2,3 milljarðar króna).

Verði niðurstaðan eitthvað á þessa leið eru allar líkur á að mörg fyrirtæki geta lent í alvarlegum rekstrarvanda eða þurfi að grípa til aðgerða til að bæta reksturinn. Þá er hér ekki gert ráð fyrir að verkföll verði en hætt er á að þau valdi verulegu og jafnvel varanlegu tjóni á rekstri ferðaþjónustufyrirtækja sem ómögulegt er að setja verðmiðan á. Allt þetta sýnir að þær launahækkanir sem krafist er í bland við verkföll og þróunina í ferðaþjónustu getur ekki leitt af sér aðra niðurstöðu en minni umsvif í greininni. Með öðrum orðum þýðir það uppsagnir þegar fram í sækir og önnur neikvæð áhrif sem smitast um allt efnahagslífið. Hér er engin hræðsluáróður á ferð, heldur er staðan hjá þessum fyrirtækjum, í þessari atvinnugrein og í atvinnulífinu öllu einfaldlega þessi.

Það sem raunverulega eykur lífskjör

Þó að hér hafi verið rakið að mikil almenn hækkun launa á þessum tímapunkti sé ólíkleg til að skila árangri og geti raunar verið skaðleg þýðir það ekki að ekki eigi að ráðast í aðgerðir til að bæta lífskjör landsmanna. Raunar er það yfirlýst stefna Viðskiptaráðs að stuðla að framförum og bættum lífskjörum.

Á mynd 6 eru nokkur atriði sem sannarlega myndu skila kjarabótum fyrir landsmenn alla. Þar má auðveldlega setja efst á blað aukið íbúðaframboð, einkum á leigumarkaði, sem myndi nýtast hvað mest þeim tekjulægstu. Mikill og vaxandi skortur á leiguhúsnæði hefur leitt til hækkunar umfram almenna tekjuþróun. Sá skortur virðist enn vera til staðar og á meðan svo er munu miklar launahækkanir hjá þeim hópum sem eru á leigumarkaði leiða til hærra leiguverðs líkt og síðustu ár. Eina raunhæfa og varanlega lausnin er aukið framboð og þá má horfa til tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum.

Fleiri aðgerðir og áherslur er hægt að setja í framkvæmd. Ef sveitarfélög myndu vinda ofan af tugprósenta og íþyngjandi hækkunum fasteignagjalda síðustu ár myndi það bæta bæði kjör heimila og fyrirtækja og skapa grundvöll fyrir lægri húsaleigu. Lækkun tryggingagjalds myndi einnig auðvelda fyrirtækjum að mæta launahækkunum einkum hjá þeim minni og mannaflsfrekari, sem er oft raunin í hugvitsdrifnum greinum sem eru forsenda hagsældar til framtíðar. Til að efla þær frekar má horfa til tillagna Viðskiptaráðs um eflingu nýsköpunar í ritinu Nýsköpunarheit. Því til viðbótar skiptir stöðugt rekstrarumhverfi miklu máli þar sem það skapar grundvöll fyrir starfsöryggi og fjárfestingar í atvinnurekstri. Of íþyngjandi regluverk og löggjöf getur unnið gegn því.

Lækkun vaxta gæti ennfremur skapað bætta stöðu heimila og fyrirtækja. Forsendur til vaxtalækkana eru til staðar, hlaupi verðbólgan ekki af stað vegna t.d. of mikilla launhækkana sem leiða út í gengisfall og hærri verðbólgu. Fyrir heimili getur munað um minna þar sem 1 prósentustigalækkun vaxta myndi lækka afborganir 30 milljóna króna óverðtryggt 40 ára jafngreiðslulán um rúmar 20.000 krónur á mánuði. Það munar um minna. Loks er hægt að auka stuðning við efnaminni barnafjölskyldur, bæði með hækkun barnabóta og greiðslum úr fæðingarorlofssjóði.

Þessi upptalning er ekki tæmandi og margt annað má gera til að bæta lífskjör á Íslandi án þess að leiða velmegunarkúna til slátrunar í leiðinni. Aftur á móti er það svo að íbúðir verða ekki dregnar upp úr launaseðlum landsmanna og svigrúm fyrirtækja til launahækkana er lítið sem ekkert án þess að gengi, verðlag og atvinnustig láti undan.

--

--