Ódýr umræða um verðlagsþróun

Afnám almennra vörugjalda um áramótin 2014–2015 var tímamótaskref fyrir bæði neytendur og fyrirtæki hérlendis. Lækkunin veitir smásölum ávinning í formi bættrar samkeppnisstöðu samanborið við erlendar verslanir. Stærsti ávinningurinn er þó lægra verðlag fyrir bæði neytendur og fyrirtæki sem kaupa vörur innanlands.

Svokallað verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur gengið hart fram í kjölfar skattalækkunarinnar og sent í þrígang út fréttatilkynningar um að hún hafi ekki skilað sér til neytenda. Í öllum tilfellum birti Viðskiptaráð leiðréttingar sem ýmist voru hundsaðar eða mætt með útúrsnúningum. Þar sem fullyrðingar eftirlitsins hafa ratað víðar í umræðunni teljum við rétt að fara yfir staðreyndir málsins.

Neytendur njóta góðs af afnámi vörugjalda

Hagstofa Íslands birtir opinberlega tölur um verðlagsþróun ólíkra vöru- og þjónustuflokka. Sumir flokkar innihalda að stórum eða öllum hluta vörur sem áður innihéldu vörugjöld og henta því vel við mat á áhrifunum. Á mynd 1 má sjá verðlagsþróun nokkurra slíkra vöruflokka. Hvort sem flokkarnir eru bornir saman við launaþróun, vísitölu neysluverðs eða verð á innfluttum vörum er niðurstaðan sú sama: neytendur hafa ótvírætt notið góðs af afnámi vörugjalda.

Hálfkveðnar vísur um gengisáhrif

Fleiri þættir en neysluskattar hafa áhrif á verðlag. Þar má helst nefna gengisáhrif annars vegar og launakostnað hins vegar. Frá árinu 2014 fram á mitt ár 2016 styrktist krónan um 15% gagnvart körfu helstu gjaldmiðla. Slík gengisstyrking ætti að leiða til lægra verðlags en áður. Erfitt er þó að meta nákvæmlega hve mikil áhrif þessarar styrkingar ættu að vera þar sem vægi innflutningskostnaðar í rekstri er misjafnt hjá söluaðilum.

Verðlagseftirlit ASÍ hefur sagt að gengisstyrking síðustu missera hafi ekki skilað sér í lægra vöruverði. Sú fullyrðing flokkast hins vegar undir hálfsannleik því launaþróun vegur móti þessari gengisstyrkingu. Frá ársbyrjun 2014 fram á mitt ár 2016 hafa laun hækkað um 24% að meðaltali. Laun og launatengd gjöld eru kostnaðarliður ekki síður en innflutningsverð hjá söluaðilum innfluttra vara. Verðlag ætti því að hækka í kjölfar þessara launahækkana. Líkt og með gengisáhrifin er hins vegar erfitt að meta hve mikil áhrifin ættu að vera.

Á sama tímabili og krónan hefur styrkst um 15% og laun hækkað um 24% hefur verðlag einungis hækkað um 5%, eða 1% ef húsnæðisverð er undanskilið (mynd 2). Þetta er fagnaðarefni fyrir neytendur enda eykst kaupmáttur þegar laun hækka umfram verðlag.

Ætla má að styrking krónunnar hafi gert það að verkum að verðlag hefur haldist stöðugt þrátt fyrir miklar launahækkanir síðustu misseri. Þegar áhrif gengisbreytinga á verðlag eru skoðuð er mikilvægt að hafa þessa heildarmynd í huga. Einungis hluti af kostnaði fyrirtækja eru innfluttar vörur — launakostnaður er ekki síður veigamikill þáttur. Þetta þarf að hafa í huga ef ætlunin er að greina áhrif ólíkra þátta á verðlag.

Bjarnargreiði gagnvart neytendum

Umræða um verðlagsþróun er mikilvægur hluti af neytendaaðhaldi. Hún getur ekki síður verið drifkraftur breytinga á rekstrarumhverfi fyrirtækja, neytendum til hagsbóta. Það er engu að síður ljóst að yfirborðskenndar upphrópanir og rangfærslur ættu ekki að tilheyra þessari umræðu. Með því að sá óverðskulduðum fræjum efasemda um árangur umbóta grafa þeir sem slíkt gera undan frekari aðgerðum til að auka kaupmátt neytenda.

Íslenskir neytendur eiga að veita aðhald og fyrirtæki eiga að leggja sig fram um að veita neytendum upplýsingar. Með upplýstri umræðu skapast aukið traust og grundvöllur viðskipta styrkist. Alhæfingar og hálfkveðnar vísur ganga þvert á þessi markmið. Framlög af því tagi eru bjarnargreiði gagnvart neytendum.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store