Ný ásýnd FRÍ

Anton Jónas Illugason
Anton og Simon
Published in
6 min readOct 5, 2020

Frjálsíþróttasamband Íslands

Frjálsíþróttasamband Íslands var stofnað árið 1947 og hefur starfað allar götur síðan. Sambandið fer með yfirstjórn frjálsíþróttamála á Íslandi auk þess að vinna að eflingu frjálsíþrótta í landinu. Til þess að gera sambandið sýnilegra var ráðist í endurmörkun þess snemma á þessu ári. Markmið nýrrar ásýndar er að setja skýra stefnu varðandi grafískt útlit sambandsins og nútímavæða það.

Merki

Nýja merki FRÍ fangar það sem allar greinar frjálsíþrótta eiga sameiginlegt, þ.e. tilfinninguna og stoltið eftir sigur. Að lyfta upp höndunum til að fagna er okkur mannfólkinu eðlislægt og má finna ótal margar myndir af frjálsíþróttafólki fagna á þann hátt.

Áður en hafist var handa við að teikna nýtt merki lögðum við áherslu á að greina ítarlega núverandi og fyrri merki FRÍ til þess að meta hvort ákjósanlegra væri að taka nýja stefnu eða endurteikna og lagfæra þáverandi merki. Niðurstaða þeirrar vinnu var sú að ákjósanlegra væri að taka nýja stefnu varðandi merki sambandsins. Upprunalega merki FRÍ var teiknað af Jóhanni Bernhard á fimmta áratug síðustu aldar en hann var einn af fyrstu stjórnarmeðlimum sambandsins. Merkið var seinna endurteiknað og hefur verið merki sambandsins síðan þá.

Eldra merki sambandsins sýnir grindahlaupara stökkva yfir skammstöfun sambandsins og er myndin umvafinn hringlóttum lárviðarkransi. Merkið þoldi illa skölun og erfitt var að samræma notkun þess á mismunandi snertiflötum, þar sem smáatriði þurftu að víkja fyrir læsileika. Helsti galli merkisins var að það táknaði aðeins hluta þeirra greina sem falla undir frjálsíþróttahreyfinguna og vísaði t.d. mun sterkar til karla en kvenna og greina innan vallar en utan, en utan vallar greinar eru hvað mest vaxandi í dag innan hreyfingarinnar. Í samtali við stjórn sambandsins var niðurstaðan sú merkið væri ekki nægilega opið með tilliti til þróunar og aðlögunar til framtíðar.

Litir

Einkennislitir FRÍ eru fánablár, tartanrauður og hvítur. Dökkblár og svartur koma þar á eftir til að styðja við litapallettuna. Fánablár og tartanrauður eru byggðir á íslensku fánalitunum en aðlagaðir til þess að vera eigulegri fyrir sambandið.

Litapalletta FRÍ er ekki ný af nálinni þegar litið er til íslenskra íþróttasambanda. Fánalitirinir verða oftast fyrir valinu og er það ekki af ástæðulausu, þar sem íþróttafólk keppir oft á tíðum á erlendri grundu á vegum sambandsins. Áður hafði sambandið eingöngu stuðst við bláan og hvítan sem einkennisliti sína en þá voru oft mikil líkindi við búninga finnskra keppenda. Ákvörðun var tekin um að bæta rauðum við í litapallettuna sem er notaður í smærri atriðum eins og endurspeglast í merkinu.

Letur

Ásýndaletur FRÍ eru Beausite Classic frá Fatype og Diatype Mono frá Dinamo Typefaces. Beaustie býður upp á stílbrigði þar sem skurðir eru skornir úr leggjum stafanna sem mynda skemmtilega hreyfingu. Letrið er þó aðeins notað í upphafsstafi fyrirsagna og setninga til þess að gera rödd FRÍ áberandi. Diatype Mono er svo nýtt sem stuðningsletur.

Hugmyndin var að finna letur sem yrði auðþekkjanlegt en á sama tíma ekki of stílhlaðið, m.a. til að forðast að það eldist hratt og illa. Til þess að tengja letrið við merkið þá notfærum við okkur stílbrigði sem Beusite býður upp á þar sem punktar og kommur eru hringlóttar í stað þess að vera ferkantaðar, sem vísar í rauða hringinn í merki sambandsins. Með vali stuðningsleturs langaði okkur að vísa í töflur sem notaðar eru á frjálsíþróttamótum til þess að sýna tölulegar upplýsingar um árangur keppenda. Letrið Diatype Mono þótti nýtast vel í þeim tilgangi. Diatype Mono deilir nokkrum einkennum með Beaustie sem gerir það að verkum að þau passa vel saman, þar má m.a. nefna lágstafa a. Diatype Mono er notað í minni fyrirsagnir, stuttar lýsingar og stuðningstexta.

Búningar sambandsins eru merktir Iceland framan á en til þess að gefa þessari merkingu enn meira sérkenni er miðjurönd í Beausite lituð rauð og myndar þannig íslensku fánaröndina. Við rannsóknina fundum við myndir af Vilhjálmi Einarssyni frjálsíþróttamanni að keppa fyrir hönd sambandsins og þar skartar hann búningi sem er með fánaröndina á hlið stuttbuxnanna. Okkur langaði að vísa í þessa gömlu búninga í nýju útfærslunni af merkingunni.

Mynstur

Hreyfing íþróttafólks var undirstaðan í teikningu mynstranna í ásýndinni. Samhliða því að virka sem stök eining á hvítum fleti nýtast þau einnig í bakgrunna þar sem mynstrin eru endurtekin í blátónum.

Hástökk, þrístökk og hlaup voru innblástur fyrstu mynstra ásýndarinnar. Stíllinn býður upp á túlkanir á fleiri greinum eftir því sem þörf er á. Þar sem merkið var byggt á þeim þætti sem sameinar greinarnar þá gafst okkur tækifæri í mynstrunum að skoða hverja grein fyrir sig. Mynstrin eru þó ekki svo bókstafleg að þau takmarkist eingöngu við þá grein sem um ræðir hverju sinni.

Grind

Til þess að binda saman öll grafísku tól FRÍ bjuggum við til grind sem er sveigjanleg á alla snertifleti sambandsins. Hægri spássían er 3% af heildarbreidd flatarins og vinstri spássían 5× sú lengd eða 15% af heildarbreidd flatarins. Efsti hluti flatarins fær sömu spássíu og hægri hliðin og neðsti hluti flatarins sömu og vinstri hliðin.

Kerfið býður upp á mikinn sveigjanleika yfir marga ólíka snertifleti án þess að verða of formfast. Til þess að tryggja að grindin gangi upp í stærri hlutföllum þá er einnig mögulegt að skipta fletinum í tvennt og mynda þannig grindina 2× yfir sama flötin. Er það t.d. mjög sterkt tól í sjónvarps/glærukynningar og öðrum útgáfum sem eru láréttar.

Við vonum að þessi nýja ásýnd FRÍ uppfylli þann tilgang sem henni var ætlað — að gera sambandið sýnilegra í sínu starfi við að efla frjálsíþróttir í landinu. Okkar langar að enda þessa grein á orðum Gunnlaugs Júlíussonar, þingforseta 62. frjálsíþróttaþings FRÍ, sem hann lét falla eftir að merkið var opinberað.

Við vorum að spjalla um nýja merkið við Freyr (Formaður FRÍ) og hvað menn læsu út úr því. Hann sagði að menn sæju þarna ólympíueldinn, einhverjir sáu tvær uppréttar hendur að fagna, en þegar ég sá merkið þá datt mér í hug tvær hendur sem eru að hlúa að blómanum — blómanum í egginu — og við vitum það að úr blómanum sprettur alltaf nýr einstaklingur.

Ljósmyndir: Snorri Björnsson — @snorribjorns / www.snorribjorns.is
Hreyfigrafík: Steinar Júlíusson — @sjullistudio / www.steinarjul.com

--

--