Fólk er ekki opið fyrir hverju sem er

Gunnar Þorvaldsson
Aton.
Published in
4 min readApr 16, 2020

Þetta eru skrýtnir tímar fyrir fólk og fyrirtæki og óvissan er mikil. Það eina sem er ljóst að það er ekki „business as usual“. Fyrirtæki þurfa að finna út hvernig þau geta brugðist við þessu breytta landslagi og þá verður að taka með í reikninginn starfsemi og ímynd viðkomandi fyrirtækis og viðhorf viðskiptavina þess.

Tölurnar í þessari umfjöllun eru fengnar úr alþjóðlegri rannsókn Global Web Index sem gerð var í 17 löndum um allan heim (Ísland var því miður ekki þar á meðal), dagana 31. mars til 2. apríl. Niðurstöðurnar eru auðvitað misjafnar á milli landa en megin línurnar eru þær sömu þannig að það ætti að vera nokkuð óhætt að yfirfæra þær á Íslendinga — með öllum venjulegum fyrirvörum.

Um helmingur fólks er hlynntur því að fyrirtæki auglýsi vörur eða þjónustu sem tengist ekki því ástandi sem við búum við — þ.e. “venjulegar auglýsingar” — og hátt í fimmtungur er því andvígur. Munurinn er þó talsverður eftir aldri þar sem yngra fólk (Z-kynslóðin) er töluvert jákvæðara gagnvart slíkum auglýsingum en það eldra (Eftirstríðskynslóðin).

Þetta gefur til kynna að auglýsendur þurfi að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Meirihluti fólks sýnir því a.m.k. skilning að fyrirtæki þurfi að auglýsa vörur sínar og þjónustu, en líklega má lesa það úr þessum niðurstöðum að slá verði rétta tóninn. Endilega auglýsa, en forðast allt sem hugsanlega gæti stuðað fólk. Meiri varúð en minni er rétta nálgunin.

Viðhorf fólks er töluvert jákvæðara gagnvart auglýsingum á vörum eða þjónustu sem tengist COVID-19 á einhvern hátt, frá 74% hjá Eftirstríðskynslóðinni til 85% hjá Z-kynslóðinni. Það eru fáir sem engir neikvæðir gagnvart þessum auglýsingum.

Hér erum við að tala um auglýsingar til að kynna breytta þjónustu eða vöruúrval, til að vekja athygli á viðbrögðum fyrirtækis við COVID-19 að öðru leyti, eða góðgerðastörf í þágu heilbrigðisstarfsfólks (svo dæmi sé tekið). Mikilvægt er að halda viðskiptavinum upplýstum um það hvaða áhrif faraldurinn er að hafa á starfsemi fyrirtækisins og á aðgengi viðskiptavinarins að vörum og þjónustu. Hér er gullið tækifæri til að auglýsa hvernig fyrirtæki eru að hjálpa sínum viðskiptavinum.

Eftirspurn eftir afþreyingu og skemmtilegu efni er mikil þessa dagana. Þessi eftirspurn virðist einnig ná til auglýsinga fyrirtækja og sókn í skemmtilegar eða fyndnar auglýsingar hefur aukist. Það er helst að eldra fólkið sé aðeins minna spennt fyrir efni af þessu tagi.

Húmor er samt vandmeðfarinn og það er auðvelt að fara yfir línur sem maður hafði ekki hugmynd að væru til staðar. Þá er húmor alls ekki viðeigandi í öllum tilfellum. Það fer allt eftir starfsemi og ímynd viðkomandi fyrirtækis og markhópum sem og eðli þeirra skilaboða sem þarf að koma áleiðis. Niðurstöðurnar gefa til kynna að fyrirtæki sem eru að koma skilaboðum til yngri hópa mættu frekar skoða þessa leið en þau sem höfða til eldra fólks.

Það fer ekkert á milli mála fyrir hverju almenningur er móttækilegastur þessa stundina. Efni sem gagnast fólki eða hjálpar þeim á þessum skrítnu tímum skorar langhæst og þá nokkuð jafnt eftir aldri. Tæplega 90% aðspurðra eru hlynnt því og þar af rúmlega helmingur mjög hlyntur. Fyrirtæki ættu að skoða vel hvernig þau geta komið að liði við þessar aðstæður.

Nálgunin hér fer alfarið eftir því hvaða vörur eða þjónustu er verið að tala um. Sem dæmi um efni sem almenningur hefði aldrei haft áhuga á fyrir tíma COVID-19 eru kennslumyndbönd í handþvotti, sótthreinsun og réttri notkun á grímum og hönskum. Myndbönd af þessu tagi hafa fengið ótrúlega mikið áhorf og dreifingu.

Tækifæri

Allar efnahagslegar niðursveiflur fela í sér tækifæri fyrir þau fyrirtæki sem eru tilbúin að grípa þau.

Flest fyrirtæki skera niður útgjöld til markaðsmála á tímum sem þessum. Þar af leiðandi er auðveldara fyrir þau fyrirtæki, sem skera ekki niður, að koma skilaboðum sínum á framfæri — samkeppnin um athygli fólks er minni. Þegar uppsveiflan hefst að nýju munu þessi fyrirtæki hafa mikið samkeppnisforskot á þau sem héldu að sér höndum.

Ljóst er af því sem fjallað er um hér framar að fyrirtæki eiga að koma fram sem hluti af lausninni, sem bandamaður fólks í baráttunni gegn veirunni. .

En grundvallarlögmálin breytast ekki. Ekki gera bara eitthvað. Vertu hluti af lausninni en vertu líka trúr vörumerkinu þínu og ímynd fyrirtækisins og hugsaðu til lengri tíma.

Höfundar
Bjarni Ólafsson,
texti og greining
Gunnar Þorvaldsson,
ráðgjafi

--

--