Samskipti á tímum COVID-19

Aton.
Aton.
Published in
5 min readApr 7, 2020

Undanfarnar vikur hefur samfélag okkar tekið kollhnís vegna COVID-19 veirunnar og viðbragða við henni. Enn ríkir mikil óvissa um hversu lengi þetta óvenjulega ástand mun vara og óljóst hvernig komandi dagar og vikur verða. Á tímum sem þessum eykst gildi skipulagðra samskipta mikið því það er mikilvægt að eyða óvissunni eins og kostur er. Góð og skýr samskipti minnka þessa óvissu og skapa velvild meðal hagaðila.

Undanfarið höfum við fylgst með breyttri hegðun almennings á tímum COVID-19, bæði hér heima og erlendis. Þar er margt áhugavert að gerast sem mun hafa áhrif á það hvernig við getum náð til hagaðila okkar og hversu áhrifarík samskiptin geta verið.

Fólk sækir meira í fréttir

Fréttanotkun hefur aukist verulega, eins og sést á nýlegum tölum frá Gallup.

Heimild: Gallup

Meðaláhorf á kvöldfréttir RÚV hefur aukist um 29% frá því í febrúar og hjá Stöð 2 nemur aukningin 23% á sama tíma. Dæmi eru um einstaka kvöldfréttatíma þar sem rétt tæplega helmingur allra 12 ára og eldri horfðu eitthvað. Aukninguna má greina í öllum aldurshópum.

Heimild: Gallup

Meðalhlustun á hádegisfréttir RÚV hefur aukist um 34% frá því í febrúar og hjá Bylgjunni er aukningin 17% á sama tímabili. Hlustunin er líka orðin jafnari yfir daginn, áður sáum við toppa, annarsvegar að morgni og svo aftur síðdegis. Nú sjáum við nokkuð stöðuga hlustun allan daginn.

Heimild: Gallup

Daglegum notendum fréttanetmiðla fjölgar mikið á milli mánaða. Leita þarf þrjú ár aftur í tímann til að finna jafn mikla notkun á íslenskum netmiðlum. Þannig hefur notendum mbl.is og visir.is fjölgað um tæp 20%, notendum dv.is og frettabladid.is um 10% en notendum ruv.is hefur fjölgað um heil 26%.

Jákvæðu fréttirnar eftirsóttar

Við hjá Aton.JL búum svo vel að geta nýtt okkur vöktun dótturfyrirtækisins dAton til að sjá hvaða fréttir fá mestan lestur á netinu og hvaða fréttir fara á flug á samfélagsmiðlum. Það er augljóst að þörf okkar fyrir góðar fréttir er mikil. Þær fréttir sem teljast jákvæðar fá umtalsvert meiri deilingar og lestur en aðrar fréttir. Athygli vekur að heitustu fréttirnar, sem vekja mest viðbrögð, eru annars vegar frétt Vísis um að óþekktir velgjörðarmenn hefðu gefið Landspítala fimmtán öndunarvélar og hins vegar frásögn ruv.is af því þegar Víðir tilkynnti þjóðinni að hún yrði bara að vera með ljóta hárgreiðslu næstu vikur.

Heimild: dAton

Fréttir tengdar COVID-19 faraldrinum eru nú stór hluti allra birtra frétta á íslensku. Myndin sýnir hlutfall COVID-19 tengdra frétta af öllum fréttum á vefmiðlum. Á sérstöku vefsvæði dAton um COVID-19 má sjá lifandi tölur um útbreiðslu veirunnar auk samantektar um fréttaflutning af henni og dreifingu frétta á samfélagsmiðlum.

Umferð á netinu eykst gríðarlega

Gagnaflutningur á internetinu hefur aukist um 40% samkvæmt fréttatilkynningu frá Gagnaveitu Reykjavíkur. Aukning netumferðarinnar er mest á vinnutíma, þar sem umferð hefur aukist um allt að 100%. Það er vegna þess hversu margir vinna nú heima og notkun fjarfundabúnaðar hefur aukist verulega. Aukningin er mest klukkan 14:00 þegar fólk horfir á daglega blaðamannafundi Almannavarna.

Heimild: Gagnaveita Reykjavíkur

Mjög hefur dregið úr auglýsingum

Þegar kreppir að er mjög algengt að fyrirtæki skeri fyrst niður í markaðsstarfi. Við erum að sjá það gerast nú, með einhverjum undantekningum þó. Ekki þarf annað en að fletta dagblöðunum til að sjá hversu mjög hefur dregið úr birtingu auglýsinga.

Breytt neysluhegðun

Hér höfum við ekki íslenskar tölur til að byggja á, en samkvæmt nýlegri rannsókn hefur bandarískur almenningur dregið úr heimsóknum sínum í stórverslanir um 35%, en verslar því meira á netinu, eða um sem nemur 31%.

Heimild: Agility

Þá er fólk að kaupa meira af vörum sem a) eru lífsnauðsynlegar (matur, ólyfseðilsskyld lyf, hreinsivörur) og b) auðvelda slökun (áfengi, afþreying, snyrtivörur og raftæki).

Hvað segir þetta okkur?

Í stuttu máli hefur neysla almennings á frétta- og afþreyingarnotkun aukist verulega á síðustu vikum og á það við um alla aldurshópa og alla miðla. Fréttir tengdar COVID-19 fá mikinn lestur, en mestan lestur fá jákvæðar fréttir. Auglýsingum hefur fækkað og neysluhegðun fólks er að breytast.

Í þessari stöðu eru fjölmörg tækifæri til að ná til fólks. Fólk er að verja meiri tíma í neyslu frétta og afþreyingar á miðlum sem birta auglýsingar, en á sama tíma er mikill samdráttur í birtingu auglýsinga. Þetta felur í sér augljós tækifæri fyrir þau fyrirtæki sem geta ráðstafað fé í markaðsstarf.

Þessi mikla fréttanotkun og fréttaáhugi almennings opnar einnig á möguleika í annars konar samskiptum. Fyrirtæki ættu að skoða vandlega hvaða fréttir þau geta sagt af sinni starfsemi, hvort sem það tengist baráttunni gegn COVID-19 eða ekki.

Fyrirtæki sem verja tíma og fjármunum í markaðsstarf á tímum sem þessum munu uppskera þegar til lengri tíma er litið — það sýna fjölmargar rannsóknir.

Að lokum

Þetta eru erfiðir tímar fyrir alla heimsbyggðina. Munum samt að á Íslandi höfum við það betra en flestar aðrar þjóðir. Mörg getum við unnið heima, heilbrigðiskerfi okkar virðist standast álagið og ráðamenn virðast hafa burði og vilja til að styðja við fyrirtæki og einstaklinga.

En þessi skelfilega reynsla er að þjappa okkur öllum meira saman. COVID-19 er að minna fólk alls staðar í heiminum á þá staðreynd að við erum öll eins. Að við eigum meira sameiginlegt en margur heldur.

Með það í huga vildum við deila þessu skemmtilega myndbandi frá BBC um það hvernig varðveita má geðheilsuna í sóttkví.

Með bestu kveðjum og óskum um góða (geð)heilsu.

Þessi grein birtist fyrst í fréttabréfi Aton.JL. Þú getur gerst áskrifandi hér.

--

--

Aton.
Aton.
Editor for

Við erum hópur sérfræðinga á sviði samskipta með fjölbreyttan bakgrunn og ólíka styrkleika.