“Þú mátt gjarnan hafa mig í huga!”

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
2 min readJul 15, 2020

Margir eru að láta annað fólk vita af því að þeir séu í atvinnuleit um þessar mundir.

Það er hið besta mál. Það er hins vegar mikilvægt að fara rétt að þessu. Það er algengur misskilningur að fólk mæli með öðru fólki til að gera þeim greiða.

Mín reynsla er sú að það mælir yfirleitt bara með fólki sem greiði við þann sem er að leita í tiltekið starf og þá eingöngu ef það telur að viðkomandi smellpassi í hlutverkið og muni án efa standa sig vel.

Af þessu leiðir að tímanum er betur varið í að segja fólki, sem þú lætur vita af atvinnuleit þinni, hvað þú getir gert og hvar og hverjum þú teljir það nýtast best. Heldur en að biðja það almennt um að “hafa þig á bakvið eyrað ef það heyrir af einhverju — þú sért opin/n fyrir öllu”.

— -

Það sem skilar yfirleitt bestum árangri í atvinnuleit er að gera raunsanna greiningu á sjálfum sér og um leið greiningu á tækifærunum á markaðnum (makró og míkró) og algengum vandamálum sem margir stjórnendur eru að glíma við um þessar mundir.

Þannig getur maður verið skýrari þegar maður ræðir við fólk um hvers konar virði maður geti skilað fyrirtæki eða stofnun á tilteknum sviðum og í hvers konar hlutverkum.

— -

Það er að mínu viti ekki líklegt til árangur þegar atvinnuleitendur segjast vera “opnir fyrir öllu”. Það eru fáir að leita að slíkum starfsmanni. Flestir eru að leita að einhverjum sem yrði mjög góður/fær í tilteknu hlutverki.

Það fylgir því talsverð vinna að fara í ítarlega greiningu á eigin styrkleikum og reynslu og hvernig hún geti nýst best. Ég myndi þó alltaf ráðleggja fólki að fara í slíka vinnu og þannig þrengja valið, áður en það byrjar að láta fólk vita af sér.

Ef það skilar þér ekki starfi á því sviði eða þeirri stöðu sem þú hafðir ákveðið að setja stefnuna á, þá er alltaf hægt að snúa sér aftur að teikniborðinu og marka þér nýjan kúrs. Aðalatriðið er að hafa alltaf skýra stefnu um hvert þú sért að fara á þínum starfsferli. Það útilokar alls ekki að þér geti boðist tækifæri á öðrum sviðum.

— -

Mín reynsla er að fólk muni aðeins mæla með þér við einhvern sem það þekkir, eða sem það heyrir í, ef það er fyllilega sannfært um getu þína og áhuga á viðkomandi sviði. Þannig gætir fólk eigin orðspors sem holls ráðgjafa með góða dómgreind og þannig man líka það best eftir þér þegar það fær spurninguna:

“Veistu um einhverja góða/einhvern góðan í starf X?”

— -

Andrés Jónsson starfar sem ráðgjafi á sviði samskipta, stefnu og ráðninga.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.