20 vonarstjörnur í viðskiptalífinu 2020

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
9 min readJun 20, 2020

Góð samskipti hafa einnig sett saman lista yfir 20 vonarstjörnur í tengslum við valið á 40 stjórnendum, 40 ára og yngri. Allt fólk sem miklar væntingar eru bundnar við á næstu árum.

Vonarstjörnurnar er fólk sem hlaut tilnefningar en komst ekki á aðallistann hjá okkur að þessu sinni. Það gæti hins vegar í mörgum tilfellum átt eftir að skjóta upp kollinum á honum innan fárra ára.

Þessi skipa listann yfir vonarstjörnur viðskiptalífsins 2020

1) Listinn er í stafrófsröð.

2) Birt með fyrirvara um villur. Umsagnir eru byggðar á okkar eigin heimildum, ummælum tilnefningaraðila og opinberum upplýsingum og fréttum.

— -

20 vonarstjörnur í viðskiptalífinu

Ásdís Eir Símonardóttir (35), mannauðsráðgjafi Orku náttúrunnar (ON) og Carbfix hjá OR. Ásdís Eir Símonardóttir er með B.sc gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.sc gráðu í vinnusálfræði frá sama skóla. Hún kenndi tölfræði samhliða meistaranáminu og sinnti rannsóknum. Ásdís starfaði hjá Tollstjóra eftir útskrift í fjögur og hálft ár við innleiðingu jafnlaunastaðals en réði sig í byrjun árs 2016 til Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hún hefur unnið sig hratt upp og er hægri hönd Sólrúnar Kristjánsdóttur sem stýrir mannauðsmálum samstæðunnar, auk þess að vera mannauðsstjóri ON. Ásdís var fundarstjóri á Mannauðsdeginum 2019, hún er formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi og hefur vakið athygli fyrir örugga framkomu og jákvætt hugarfar. Ásdís Eir hefur um árabil iðkað að vera með opið hús ásamt manninum sínum á hverjum föstudegi og er þá öllum sem koma vilja boðið í lasagna á heimili hennar. Ásdís er góður fulltrúi fyrir mannauðsstéttina á þessum lista sem hefur orðið þýðingarmeiri í rekstri fyrirtækja á liðnum árum og hún gæti vel átt eftir að verða lykilstjórnandi í stóru fyrirtæki á næstu árum.

Bjarni Herrera Þórisson (34), framkvæmdastjóri Circular Solutions. Hann starfaði áður hjá Vör Ventures í Asíu, hjá Expeditors, Arion banka og Landsbankanum. Hjá Arion banka starfaði hann meðal annars sem ritari stjórnar og var þannig nálægt öllum stærri ákvörðunum sem teknar voru í bankanum. Hjá Circular Solutions ber Bjarni ábyrgð á að afla verkefna fyrir vísindamennina sem stofnuðu fyrirtækið en félagið veitir m.a. vottanir til útgefenda grænna skuldabréfa sem er ört vaxandi markaður. Bjarni er með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst og MBA frá Yonsei University í Seúl í S-Kóreu.

Erna Björg Sverrisdóttir (30), yfirhagfræðingur Arion banka. Erna Björg lærði hagfræði í grunnámi við Háskóla Íslands en eftir útskrift hóf hún meistaranám við Háskólann í Rotterdam í Hollandi þar sem hún lagði stund á nám í stefnumótandi hagfræði. Eftir að hlotið meistaragráðu sína hóf hún störf í greiningardeild Arion banka og þegar deildin var leyst upp í fyrra og starfsmenn hennar fluttust til innan bankans var Erna ráðin yfirhagfræðingur bankans. Erna hefur vakið athygli fyrir skarpar greiningar, góða innsýn og yfirvegaða framkomu bæði á fundum og í fjölmiðlum. Kunnugir segja að henni verði allir vegir færir á næstu árum enda alltaf skortur á hagfræðingum með slíka eiginleika, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum.

Helga Huld Bjarnadóttir (38), stjórnandi söluáætlanagerðar og greininga hjá Icelandair. Helga Huld er með B.sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun aðfangakeðja frá Háskólanum í Reykjavík og B.sc í rekstrarverkfræði frá sama skóla. Hún útskrifaðist síðan með M.sc gráðu í sömu grein frá DTU í Danmörku. Helga Huld hefur starfað í höfuðstöðvum Icelandair allan sinn starfsferil. Fyrst í flugáætlunardeildinni meðfram námi en síðan í tekjustýringu þar sem hún vann sig upp og var Helga Huld m.a. hægri hönd Þórdísar Önnu Oddsdóttur þegar hún var yfir tekjustýringu félagsins. Helga Huld er að sögn þeirra sem til þekkja afar öflug í sínu starfi og þekkir starfsemi Icelandair út og inn.

Helgi Már Hrafnkelsson (29), sölustjóri hjá Advania. Helgi Már lærði rekstrarverkfræði Í HR áður en hann hóf feril í upplýsingatæknigeiranum sem viðskiptastjóri hjá Þekkingu. Árið 2018, eftir tæp þrjú ár hjá Þekkingu, gekk Helgi til liðs við Advania. Helgi er talinn líklegur til frekari frama innan upplýsingatæknigeirans á næstu árum og gæti vel sómað sér í stjórnunarstörfum þar með menntun sína og reynslu af sölumálum sem eru lykilþáttur á fyrirtækjamarkaðnum sem Advania starfar á.

Hilmar Freyr Kristinsson (28), verkefnastjóri yfir fjártækni hjá Kviku banka. Hilmar Freyr er með B.sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og var einnig aðstoðarkennari á seinni árunum sínum í háskólanáminu. Hann starfaði um tíma sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu en frá árinu 2015 hefur hann starfað hjá Kviku banka í nokkrum ólíkum hlutverkum. Í nýjasta hlutverkinu sem verkefnastjóri fjártækni felst meðal annars umsjón með lánasjóðnum Framtíðin.

Jóhannes Stefánsson (31), framkvæmdastjóri Lindarvatns. Jóhannes er lögfræðingur en hann stundaði sitt laganám í Háskólanum í Reykjavík. Jóhannes hefur komið víða við á sínum ferli og meðal annars starfað í tvö ár sem sjónvarpsfréttamaður á Stöð 2 og blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Jóhannes varð því næst aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar í menntamálaráðuneytinu. Árið 2016 færði hann sig yfir til Icelandair þar sem hann starfaði sem yfirlögfræðingur áður en hann tók við framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf. sem er þróunarfélagið sem byggir hótel á Landsímareitnum við Austurvöll. Jóhannes hefur þurft að glíma við ýmsar áskoranir í því verkefni en nú styttist í opnun hótelsins og þeir sem til þekkja spá því að þetta verði ekki síðasta krefjanda verkefnið sem Jóhannesi verði falið.

Jón Haukur Jónsson (30), associate hjá Arctica Finance. Jón Haukur er með B.sc gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármál fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og M.sc í alþjóðlegum fjármálum frá EADA háskólanum í Barcelona. Jón Haukur var aðstoðarkennari á námsárunum og hefur mikla ástríðu fyrir fjármálum og rekstri fyrirtækja. Nokkuð sem leynir sér ekki og hefur Jón Haukur enda blómstrað í starfi sínu í fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance þar sem samkeppnin er mikil og kröfurnar miklar.

Karen Ósk Gylfadóttir (32), markaðsstjóri Nova. Áður starfaði Karen hjá Íslandsbanka sem markaðssérfræðingur. Karen er með B.sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún sat í fyrstu stjórn Ungra athafnakvenna (UAK).

Konráð Guðjónsson (31), hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands. Kon­ráð er með meist­ara­gráðu í hag­fræði frá Warwick há­skóla og með BS-próf í hag­fræði frá Há­skóla Íslands. Konráð starfaði áður sem sér­fræðing­ur í grein­ing­ar­deild Arion banka í þrjú ár. Þar áður starfaði Kon­ráð um hríð sem hag­fræðing­ur á skrif­stofu for­set­ans í Tans­an­íu, hjá Hag­fræðistofn­un og sem starfsnemi hjá Þró­un­ar­sam­vinnu­stofn­un í Úganda. Þá hef­ur Kon­ráð kennt hag­fræði fast­eigna­markaðar­ins við End­ur­mennt­un Há­skóla Íslands.

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir (35), forstöðumaður hjá Íslandsbanka. Áður starfaði Kristrún hjá ráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman sem yfirverkefnastjóri. Þá hefur hún einnig starfað sem verkefnastjóri hjá Beringer Finance í svíþjóð, sem og hjá Swedbank, Landsbankanum og Arion banka. Kristrún er með B.sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu frá Stockholm School of Economics. Þá er hún með meistaragráðu í alþjóðastjórnun (MiM) frá sama skóla og ESADE háskólanum í Barcelona. Kristrún er einnig löggiltur verðbréfamiðlari frá Háskólanum í Reykjavík.

Magnús Magnússon (31), ráðgjafi. Magnús var áður forstöðumaður greiningar, stefnu og þróunar hjá Marel, senior associate hjá McKinsey & Company og ráðgjafi hjá AGR aðgerðargreiningu. Magnús er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í iðnaðarverkfræði og aðgerðarfræðum frá University of California, Berkeley.

María Björg Ágústsdóttir (37), forstöðumaður hjá Íslandssjóðum. María sinnir einnig starfi fjármálastjóra 105 Miðborgar slhf. sem reisir nú íbúðir og skrifstofuhúsnæði á Kirkjustandi. Auk þess er María er framkvæmdarstjóri fasteignafélagsins FAST-1. Áður starfaði María í fjármálageiranum í 10 ár fyrst hjá fjárstýringu Glitnis banka og síðar hjá skilanefnd Glitnis. María er með meistaragráðu frá University of Oxford í stjórnunarfræðum og Ba gráðu í hagfræði frá Harvard. Hún hefur einnig lokið námi í verðbréfamiðlun og er með alþjóðlega gráðu í sérhæfðum fjárfestingum. Þess má geta að María var markvörður í landsliðinu í knattspyrnu á árum áður og fór meðal í atvinnumennsku og lék með Örebro í Svíþjóð.

Mímir Hafliðason (26), sérfræðingur í viðskiptaþróun hjá Marel. Áður starfaði Mímir á fyrirtækjasviði Íslandsbanka. Mímir er með Bs gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun og stefnumótun.

Nanna Kristín Tryggvadóttir (33), aðstoðarmaður bankastjóra Landsbankans. Nanna hefur starfað síðustu 9 árin hjá Landsbankanum en þar áður var hún verkefnastjóri hjá nemendafélagi verkfræðinga við Duke University. Nanna er með meistaragráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Duke University. Þá er hún með B.sc gráðu í rekstrarverkfræði, með fjármálaverkfræði sem auka grein frá Háskólanum í Reykjavík. Hún situr í stjórn Samtaka fjármála fyrirtækja (SSF).

Renata Blöndal (35), yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Krónunni. Renata er með B.sc í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í iðnaðarverkfræði og stjórnunarfræðum frá Columbia háskólanum í New York. Renata ber í núverandi starfi sínu ábyrgð á allri stafrænni stefnumótun, m.a. á snjallverslun Krónunnar og nýja krónuappinu. Þá fellur sjálfsafgreiðsluleið Krónunar undir starfsvið Renötu. Áður starfaði Renata bæði hjá CCP og Meniga.

Salóme Guðmundsdóttir (36), framkvæmdastjóri Icelandic Startups. Salóme hefur verið framkvæmdastjóri Icelandic Startups frá árinu 2014. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík. Salóme er með B.sc í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið stjórnunargráðu (AMP) frá IESE Business school í Barcelona. Salóme situr í stjórn Viðskiptaráðs og Verðbréfamiðstöðvar Íslands.

Sigurður Rúnar Pálsson (34), fjármálastjóri Ölmu leigufélags. Hann er löggiltur endurskoðandi og starfaði áður hjá KPMG. Sigurður er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og M.Acc. gráðu í reikningsskilum og endurskoðun.

Steinar Þór Ólafsson (31), ráðgjafi og fyrrv. markaðstjóri Skeljungs. Steinar fór óvenjulega leið inn í viðskiptalífið. Hann byrjaði á að læra að vera íþróttakennari og útskrifast frá Háskólanum í Reykjavík með gráðu í íþróttafræðum. Hann var þó ekki nema 26 ára þegar hann ákvað að viðskiptalífið væri rétti vettvangurinn fyrir sig og varð langyngsti nemandinn í MBA-námi HR það árið. Hann réði sig í kjölfarið til N1 og stýrði stafrænni markaðssetningu þar en færði sig svo til Skeljungs árið 2017 sem markaðsstjóri félagsins. Hjá Skeljungi hefur hann náð miklum árangri sem skilað hefur sér í fjölda verðlauna. Samhliða markaðsstjórastarfinu fór Steinar að vera með pistla og þáttagerð á RÚV og fjallaði þar um áhugamál sitt sem er vinnumenning og hvernig við skipuleggjum vinnustaði. Einnig hafa skrif hans um bæði markaðsmál og vinnumenningu vakið athygli á Linkedin og hefur Steinar orðið eftirsóttur fyrirlesari í kjölfarið. Ekki þarf það að koma á óvart en Steinar var snemma góður í að koma fram og var m.a. í ræðuliði Verslunarskólans í MORFÍS á sínum tíma. Steinar lét af störfum nýlega hjá Skeljungi og starfar nú sem ráðgjafi en þeir sem þekkja til hans eiga von á að hann muni fljótlega taka að sér nýtt starf þar sem hans óvenjulegu miðlunarhæfileikar og sköpunarkraftur nýtast til hins ítrasta.

Sunna Björg Helgadóttir (37), framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku. Sunna starfaði áður hjá ÍSAL, síðast sem framkvæmdastjóri rafgreiningar, en alls starfaði hún þar í 14 ár. Hún varð síðar framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Alvotech og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Codex á Íslandi. Sunna er með B.Sc. gráðu í efna- og vélaverkfræði og meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Sunna Björg er öflugur stjórnandi í iðnaði þar sem konum fer nú loks fjölgandi.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.