40/40 — Íslendingar erlendis

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
24 min readAug 16, 2020
Í fyrsta sinn birtum við lista yfir unga Íslendinga í ábyrgðarmiklum störfum á erlendri grundu.

Meðfylgjandi er listi Góðra samskipta yfir 40 Íslendinga á uppleið, sem eru fjörutíu ára og yngri, og gegna stjórnunarstöðum víða um heim.

Þetta er í fyrsta sinn sem við gefum út lista sem þennan en við höfum tvívegis áður gefið út lista yfir 40 öfluga stjórnendur undir 40 ára og vonarstjörnur í viðskiptalífinu á Íslandi.

Hugmyndin með listanum er að vekja athygli á ungu fólki sem gegnir mikilvægum stjórnunarhlutverkum utan Íslands.

Við fengum ábendingar um fólk sem gæti átt erindi á listann úr ýmsum áttum, m.a. frá sendiherrum og starfsfólki sendiráða Íslands víða um heim, auk fjölda annars fólks bæði heima og erlendis. Alls skoðuðum við í kringum 500 manns í tengslum við valið á listanum. Niðurstaðan er sú að mjög margir íslendingar eru að sinna afar áhugaverðum og krefjandi verkefnum úti í hinum stóra heimi. Margir þeirra eru líka orðnir eldri en 40 ára. Einhver hluti þessa fólks mun flytja heim til Íslands á næstu árum og verður það klárlega mikill fengur fyrir íslenskt atvinnulíf.

Fólkið starfar m.a. í ferðaþjónustu, menningu, fjármálum, ráðgjöf, tækni, tísku, menntun, fjárfestingum, lyfjaiðnaði, lögfræði, netmarkaðssetningu, lækningum, smásölu, endurskoðun, leikjaþróun, stoðtækjaiðnaði, þróunarhjálp, húsgagnahönnun, hreinlætisiðnaði, skýjaþjónustu, uppboðsstarfsemi, áhættustýringu og gervigreind.

Við valið á listann var horft til þess að fólk uppfyllti eftirfarandi kríteríu:

  1. Starfi í umhverfi þar sem miklar kröfur eru gerðar og mikil samkeppni ríkir um störf.
  2. Hafi fengið framgang og aukna ábyrgð innan núverandi vinnustaðar eða verið ráðið til stærra og öflugra fyrirtækis.
  3. Sé nú þegar búið að öðlast fjölbreytta reynslu og sé líklegt til að taka að sér enn stærri hlutverk í framtíðinni.

ATH: Tekið skal fram að frumkvöðlar, fjárfestar og stjórnendur eigin fyrirtækja voru alfarið undanskildir við val listans (annars vegar þar sem við teljum þá fá næga athygli nú þegar og hins vegar þar sem þeir koma sjaldan til greina í stjórnunarstöður í öðrum fyrirtækjum).

Þá hyggjumst við, sem fyrr, síðar í vikunni gefa út sérstakan lista yfir vonarstjörnur erlendis en á honum eru efnilegir einstaklingar sem hafa að undanförnu fengið stór tækifæri í atvinnulífinu í þeim löndum sem þau búa.

Vinnan við listana hefur staðið yfir síðan í byrjun júlí en það reyndist erfiðara en við bjuggumst við í upphafi að átta okkur nægilega vel á ólíkri ábyrgð og umfangi starfssviðs fólks sem starfar á fjarlægum markaðssvæðum, til að velja hverjir ættu heima á listanum og hverjir ekki. Fyrirfram má gefa sér að okkur hafi sést yfir marga verðuga og svo eru aðrir sem náðu ekki inn á listann að þessu sinni en munu vonandi dúkka upp á honum þegar við gefum hann út næst.

Við viljum að lokum þakka Hafdísi Rós Jóhannesdóttur sérstaklega fyrir hennar aðstoð við vinnslu 40/40 erlendis listans.

— — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — —

ATH — hér kemur smá auglýsing : Ef þú vilt fylgjast með lausum stjórnunarstöðum á Íslandi eða bara lesa um nýjustu strauma í mannauðsmálum og ráðningum auk ýmissa gagnlegra ráða fyrir stjórnendur þá vorum við að setja á fót fréttapóst Góðra samskipta.

Skráning hér >>> https://lnkd.in/e7A8Hfu

— — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — —

40 íslendingar á uppleið erlendis/ 40 ára og yngri

Alexander Freyr Einarsson (30) er að skipta um starf um þessar mundir en starfaði þar til nýlega hjá fjárfestingabankanum J.P. Morgan í New York. Þar starfaði hann við fyrirtækjaráðgjöf á fjárfestingabankasviði þar sem hann sérhæfði sig í fjarskipta-, fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtækjum. Alexander starfaði við samruna og yfirtökur, skuldabréfa- og hlutafjárútgáfur og fleira. Hann kom nýlega að samruna Sprint og T-mobile, sem er einn stærsti samruni síðari ára auk þess að koma að hlutafjárútboði T-Mobile þegar SoftBank seldi stóran hlut í félaginu. Áður starfaði hann sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við endurreisn” í félagi við Dr. Ásgeir Jónsson (sem nú er seðlabankastjóri). Alexander er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í fjármálum frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín. Ekki er hægt að greina frá næsta starfsvettvangi Alexanders að svo stöddu en um er að ræða starf sem felur í sér búferlaflutning Alexanders og fjölskyldu hans til Asíu.

Anna Margrét Gunnarsdóttir (32), verkefnastjóri hjá H&M Group í Stokkhólmi. Hún starfaði áður sem markaðs- og samskiptafulltrúi H&M á Íslandi með aðstöðu í Osló, þar sem hún tók m.a þótt í að opnun verslunarinnar hér á landi. Í því ferli hafði hún ábyrgð á samskipti við fjölmiðla, auglýsingaherferðum og innanhússamskiptum við aðrar verslanir. Anna Margrét er með B.A. í markaðsfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í markaðsfræði frá BI Norwegian Business School. Á milli gráðana starfaði Anna sem blaðamaður á tímaritinu Nýju lífi, þar sem hún skrifaði um tísku en sú reynsla nýttist vel þegar hún sá um innanhússamskipti H&M þar sem fyrirtækið er með innri vef sem líkist eins konar tískubloggi. Hjá H&M Group ber Anna ábyrgð á afþreyingarefni fyrir sjálfbærnisdeild fyrirtækisins en hún var ráðin í þá stöðu í vor. Hlutverk hennar er að finna áhugaverðar leiðir til að skapa efni úr verkefnum tengdum sjálfbærni hjá félaginu og birtist það efni svo á ýmsum miðlum H&M group, en undir félaginu eru mörg þekkt vörumerki á borð við H&M home, COS, Monki, Weekday og & Other stories.

Ari Helgason (34) framkvæmdastjóri (principal) hjá Index Ventures framtaksfjárfestingasjóðnum. Index hefur fjárfest meðal annars í fyrirtækjum eins og Facebook, Etsy, Patreon, Sonos og Rovio. Áður starfaði Ari hjá Dawn Capital í London þar sem hann fjárfesti í og vann með ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Ameríku. Hann var á meðal stofnenda fyrirtækjanna WOAH Sales og Fabricly, en það fyrra stofnaði hann stuttu eftir útskrift úr háskóla. Ari er með B.sc. gráðu í stjórnmálafræði og innri samskiptum frá London School of Economics. Ari er sonur Sigrúnar Davíðsdóttur fréttamanns og pistlahöfundar á RÚV og eru bræður hans ekki síður þekktir en bróðir Ara, Davíð er stofnandi Unity tæknifyrirtækisins og Ingvar Helgason bróðir þeirra er stofnandi og framkvæmdastjóri VitroLabs. Að síðustu má nefna að bræðurnir eru allir hálfbræður Egils Helgasonar, sjónvarpsmanns í Silfri Egils, Kiljunni og fleiri þáttum og Höllu Helgadóttur, forstöðumanns Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Árni Birgisson (38) hjá Amazon Web Services (AWS). Árni flutti til Stokkhólms í byrjun árs 2017 og hóf störf hjá AWS. Þar hefur hann lagt áherslu á sprotafyrirtæki og fyrirtæki í tölvuleikjaiðnaðinum, fyrst sem lausnaarkítekt (Sr. Solutions Architect) en í ár tók Árni við stöðu Senior Developer Advocate með fókus á “Game Tech” — eða lausnir fyrir tölvuleikjafyrirtæki. Sem slíkur vinnur hann með teymum sem standa á bak við nokkra af stærstu og vinsælustu tölvuleikjum heimsins á síðustu árum. Game Tech er hluti af Amazon en hlutverk Árna er að vera einskonar tengiliður milli notendanna — þeirra sem búa til tölvuleiki — og fyrirtækisins, og inniheldur þannig allt milli þess að halda erindi á ráðstefnum og skapa sýnidæmi um hvernig hægt er að nota þjónusturnar, en ekki síður að leggja við hlustir til þess að þekkja þarfir viðskiptavinanna. Árni hefur komið að miklum vexti Amazon á Norðurlöndunum upp á síðkastið með því að taka þátt í ráðningum og þjálfun nýrra starfsmanna. Teymi hans hefur margfaldast á síðustu árum og fór Amazon úr því að vera með tvær litlar skrifstofur yfir í að vera með stórar starfsstöðvar á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. Áður starfaði Árni hjá Plain Vanilla Games, þar sem hann leiddi Infrastructure teymi íslenska leikjafyrirtækisins, sem var ábyrgt fyrir að byggja upp skýjaþjónustur QuizUp. QuizUp var að öllu leyti keyrður á skýjaþjónustum AWS, svo það má segja að þetta hafi lagt grunn að því sem koma skyldi. Árni á að baki langan feril í IT heiminum en hann vann áður með viðskiptavinum um allan heim á vegum fyrirtækisins Manna og músa, rak háhraða netkerfi hjá FATTOC sem stundaði high-frequency trading (HFT), og starfaði einnig í nokkur ár í netkerfateymi EJS við hönnun og rekstur netkerfa ásamt því að kenna á námskeiðum á því sviði. Árni er með B.sc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Baldur Páll Magnússon (39) forstöðumaður hjá lyfjafyrirtækinu Novartis í Sviss. Baldur hefur starfað hjá Novartis síðan árið 2011, fyrst sem tölfræðingur í klínískum rannsóknum og síðar sem tölfræðiráðgjafi. Í dag stýrir hann alþjóðlegum hópi tölfræðinga og gagnafræðinga (e. data scientists) sem vinna að margvíslegum verkefnum í rannsóknarferlum fyrir þróun nýrra lyfja. Árið 2019 vann hann til nýsköpunarverðlauna innan Novartis fyrir þróun á nýjum tölfræðiaðferðum til að greina áhrif lyfja á langt komna MS sjúklinga. Baldur er með B.sc gráðu í stærðfræði og tölvunarfræði frá Stetson University og doktorsgráðu í tölfræði frá Cornell University.

Barbara Albertsdóttir (38), Senior Regulatory Specialist Advisor hjá Deutsche Bank í London. Hún hóf starfsferill sinn hjá íslenska Fjármálaeftirlitinu en eftir að hún flutti til London hóf hún störf hjá breska eftirlitinu, Financial Conduct Authority (FCA). Að því loknu færði hún sig yfir til ameríska bankans Wells Fargo áður en hún fór í núverandi stöðu hjá Deutsche Bank þar sem hún stýrir því mati sem fer fram vegna allra laga- og reglubreytinga á heimsvísu sem hafa möguleg áhrif á starfsemi Deutsche Bank samsteypunnar. Barbara er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og sérhæfða meistaragráðu LL.M. í löggjöf á alþjóðlegum fjármálamörkuðum frá King’s College í London.

Björg Áskelsdóttir (35) framkvæmdarstjóri hjá Ambu A/S í Kaupmannahöfn sem er brautryðjandi á sviði lækningatækja. Þar ber hún ábyrgð á stefnumótun á nýsköpunarsviði þar sem vöxtur og nýsköpunarhraði eru lykil atriði fyrir velgengni fyrirtækisins. Hún starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Boston Consulting Group, og hefur hún einnig starfað sem ráðgjafi hjá Booz&Company í Amsterdam. Björg er með B.Sc. og M.Sc. í vélaverkfræði frá DTU auk MBA gráðu frá Columbia Business school í New York.

Björn Björnsson (40), forstöðumaður hjá BCG. Björn byrjaði hjá Boston Consulting Group í Melbourne Ástralíu en flutti sig nýlega til Kaupmannahafnar þar sem hann leiðir ráðgjöf tengda fjármálaþjónustu. Hjá BCG hefur Björn m.a. hann unnið að mótun og útfærslu á stærstu umbreytingaverkefnum banka í Ástralíu og í Danmörku á síðustu árum. Áður en Björn hóf störf hjá BCG lék hann lykilhlutverk í fjárhagslegri endurskipulagningu Byrs sparisjóðs og samruna hans við Íslandsbanka. Björn er með meistara- og B.Sc gráðu í tölvunarfræði auk MBA gráðu frá Melbourne Business school. Hans sérsvið eru: stefnumótun, forysta, viðskiptaþróun, markþjálfun, áhættustýring, gerð fjárhagslíkana, greining, forritun og hagræðing ferla. Björn hefur einnig náð góðum árangri í þjálfun og leiddi m.a. lið Íslands til tveggja Evrópumeistaratitla í hópfimleikum árin 2010 og 2012.

Bryndís Símonardóttir (37) partner hjá Deloitte í Danmörku. Bryndís hefur starfað í 5 ár hjá Deloitte og unnið sig upp, frá því að vera framkvæmdarstjóri yfir í meðeiganda en hún var fyrst íslenskra löggiltra endurskoðenda til að verða með­eig­andi stórs endur­skoðunar­fyrir­tækis er­lendis. Áður starfaði Bryndís hjá KPMG í Danmörku, þar sem hún var framkvæmdarstjóri. Bryndís er með B.sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í endurskoðun frá sama skóla. Hún er einnig löggiltur endurskoðandi, bæði á Íslandi og í Danmörku.

Dagný Engilbertsdóttir (30), ráðgjafi hjá McKinsey en hún hefur starfað þar síðan í september 2019. Hjá McKinsey leiðir hún hluta greiningarvinnunnar í verkefnum ásamt að sinna samskiptum við hagsmunaðila verkefnanna. Hún starfaði áður hjá Íslandsbanka í fjárstýringu þar sem hún sá meðal annars um útgáfu sértryggða skuldabréfa.. Dagný er með B.S í hagfræði frá Háskóla Íslands og MBA frá IESE Busines School auk þess sem hún er með próf í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík. Dagný var varaformaður stjórnar IESE Women in Business á árunum 2018–2019 auk þess sem hún sat í stjórn Ungra athafnakvenna (UAK) árið áður.

Einar Björgvin Eiðsson (39) forstöðumaður stafrænnar umbreytingar hjá Nordea Bank, sem er stærsti norrænni bankinn. Einar vinnur með verkefni tengd stefnumótun í ljósi tækniþróunar, samstarfi og fjárfestingu í sprotafyrirtækjum og umbreytingu rekstrar. Þar á undan vann Einar í sérverkefnum fyrir fjármálastjóra Nordea. Hann starfaði áður við fjárfestingarbankasvið Royal Bank of Scotland, mestmegnis í Svíþjóð en einnig í Hong Kong og London. Einar er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc. gráðu í hagverkfræði frá Konunglega Tækniháskólanum í Stokkhólmi og MBA gráðu útgefna frá TRIUM sem er samstarf London School of Economics, NYU Stern og HEC Paris. Einar hefur mikinn áhuga á stafrænni þróun fjármálamarkaði og mun án efa halda áfram að láta að sér kveða á því sviði í framtíðinni.

Elísabet Grétarsdóttir (40) er Director of Social Systems hjá tölvuleikjarisanum DICE/EA Games í Stokkhólmi. Elísabet hefur starfað í ýmsum hlutverkum hjá Eloctronic Arts (EA) frá árinu 2015. Elísabet er með BS gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniháskólanum, og MS gráðu í markaðsfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi. Elísabet fór til CCP að loknu námi og var markaðsstjóri EVE Online á mesta vaxtarskeiði leiksins. Því næst tók hún við sem markaðsstjóri Arion banka þar sem hún átti þátt í að innleiða nýjar hugmyndir í markaðsmálum.. Elísabet fór svo yfir til DICE, dótturfyrirtækis EA Games, í ársbyrjun 2015. Það eru líklega fáir Íslendingar í dag sem eru hærra settir í markaðsmálum innan erlends stórfyrirtækis en Elísabet. Búin var til ný staða fyrir Elísabetu árið 2018, í kjölfar fæðingarorlofs, sem er starfið sem hún sinnir í dag hjá Dice og er það fyrsta sinnar tegundar hjá EA. Var það að frumkvæði tveggja helstu stjórnenda innan EA. Þess má til gamans geta að Elísabet var valinn “starfsmaður ársins” hjá EA árið 2017 (en hjá fyrirtækinu starfa yfir 8 þúsund manns).

Freyr Guðlaugsson (36) yfirmaður á vörustjórnunarsviði stafrænna miðla hjá TravelClick. Fyrirtækið er hluti af Amadeus IT fjölskyldunni, einu stærsta tæknifyrirtæki í ferðabransanum, og starfar með hótelum um allan heim. Starf Freys felst m.a í að þróa og kynna á markað vörur sem hjálpa hótelum að markaðssetja sig á internetinu. Hann vinnur náið með samstarfsaðilum á borð við Google og Facebook, við vöruþróun og að kynna nýjar vörur á markaði. Þá hefur hann haldið viðburði í höfuðstöðvum Google í Kaliforníu, Singapore og Dublin. Áður starfaði Freyr á rekstrarsviði fyrirtækisins þar sem hann leiddi teymi sem sá um markaðsherferðir lykilviðskiptavina um allan heim, þ.á.m alþjóðlegar hótelkeðjur. Hann hefur starfað í London, Madrid, Barcelona og New York og talar því 3 tungumál; ensku, spænsku og íslensku. Freyr er með B.sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MA gráðu í markaðsfræði frá Kingston University í London.

Guðmundur Kristjánsson (40) fjárfestingarstjóri MFA Financial. Guðmundur hefur starfað í 15 ár á bandarískum fjármálamarkaði. Hann starfar í dag hjá MFA Financial sem er fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig í fjárfestingum á húsnæðislánamarkaði, en hann er einn stærsti skuldabréfamarkaður í heimi. Þar starfar hann sem annar af tveimur fjárfestingarstjórum félagsins (Co-Chief Investment Officer) en þeir bera ábyrgð á öllu sem viðkemur fjárfestingum félagsins og eru lykilstjórnendur í félaginu. Í starfi hans felst m.a að finna nýjar fjárfestingar, nýsköpun í fjárfestingarstefnum, áhættustýring og stýring fjárfestinga og fjármögnunarteymi félagsins. Hann kemur einnig fram fyrir hönd MFA og situr fyrir svörum á fjárfestafundum, situr stjórnarfundi fyrirtækisins og kynnir stefnu, afkomu og áhættu félagsins fyrir stjórnarmönnum. Guðmundur hefur víðtæka starfsreynslu af greiningu, áhættustýringu, sjóðstýringu, stefnumótun og fyrirtækjarekstri. Guðmundur er með B.sc gráðu í véla og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í Engineering in operations research frá Cornell University.

Gunnur Von Matérn (32) notendaupplifunarhönnuður (e. UX designer) hjá Antrop, í Stokkhólmi þar sem hún kemur að viðmótshönnun tölvukerfa, vefsíðna og stafrænna þjónusta fyrir opinberar stofnanir og fyrirtæki. Meðal viðskiptavina sem Gunnur starfar fyrir eru Electrolux, PwC, Securitas, Swebank, sænski herinn og sænska þingið. Gunnur aðhyllist hugmyndafræði hönnunarhugsunar (Design Thinking) og leggur mikið upp úr þátttöku notandans í hönnunarferlinu. Áður starfaði Gunnur hjá PwC í Svíþjóð, einnig sem UX designer og þar áður starfaði hún sem hönnuður hjá Creuna. Áður hafði hún unnið við gerð handrita hjá RÚV um tíma. Gunnur er með B.sc. gráðu í Media Technology frá Sögertorns Högskola auk þess sem hún hefur stundað nám við háskólann í Stokkhólmi í leikhúsbókmenntum.

Halla Hrund Logadóttir (39) forstöðumaður hjá Harvard. Áður var hún yfir Íslenska orkuháskólanum í Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur að auki starfað á vegum utanríkisráðuneytisins í Brussel, tekið þátt í nýsköpunar- og kennsluverkefni í Tógó og unnið hjá OECD í París. Halla er stofnandi Arctic Initiative sem er miðstöð norðurslóða innan Harvard og beinir sjónum sínum sérstaklega að loftslagsbreytingum á norðurslóðum og áhrifum þeirra á stefnumótun. Halla er með BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í hagfræði og alþjóðasamvinnu frá London School of Economics og Tufts háskóla í Boston, og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard.

Halla Vilhjálmsdóttir Koppel (38), associate hjá Goldman Sachs í London. Halla átti áður farsælan feril sem leikkona, söngkona og fyrirsæta en hún er með BA gráðu í leiklist úr Guildford School of Acting auk MBA gráðu frá Oxfordháskóla. Frá útskrift sinni úr Oxford hefur Halla starfað í ýmsum hlutverkum hjá Goldman Sachs fjárfestingabankanum. Nú starfar hún með teymi á viðskiptagólfi bankans sem sér um viðskiptavini Goldman Sachs á Norðurlöndunum, sem hentar henni vel þar sem hún talar mörg tungumál. Halla er með mótorhjólapróf og hefur klifið fjóra af sjö hæstu tindum hverrar heimsálfu .

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (27) ráðgjafi hjá Deloitte í Zurich. Áður starfaði Hallgerður hjá svissneska endurtryggingarfélaginu Sviss Re, sem er eitt það stærsta sinnar tegundar. Þar starfaði hún við nýsköpun tengda fjártækni í eignastýringadeild þess. Hallgerður er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálaverkfræði frá EPFL í Sviss. Hjá Deloitte starfar Hallgerður í áhættustýringarteymi sem starfar með stórum bönkum í Sviss við greiningu eignasafna og byggingu spálíkana, auk álagsprófana.

Hjalti Jakobsson (37), hugbúnaðarverkfræðingur hjá Apple. Hann byrjaði ungur að smíða vefsíður og forrita. Eftir nám í Tölvunarfræði fór Hjalti að starfa sjálfstætt með tveggja ára stoppi í leikjagerð hjá Gogogic. Hans helsta áhugasvið voru snjallsímar og vann hann verkefni m.a fyrir CCP, Decode, Icelandair, OZ, Özzur, Meniga og Plex. Árið 2015 flutti hann til Kaliforníu og hóf störf hjá Apple í hugbúnaðarþróun, þar sem hann vann í MacOS hugbúnaðinum. Í dag starfar hann enn hjá Apple og leiðir þar teymi sem sér um flest hlaðvarps forritin sem Apple gefur út (iOS, IpadOS,tvOS, MacOS, Homepod, Carplay ofl.) Hjalti er með BS í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hjördís Hugrún Sigurðardóttir (33), ráðgjafi hjá Accenture í Zürich. Hjá Accenture sinnir Hjördís stefnumótun og innleiðingu skýjalausna fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Hún starfaði áður sem verkefnastjóri hjá ABB í Sviss og við rannsóknir hjá tækniháskólanum ETH Zürich. Hún skrifaði, ásamt móður sinni, bókina Tækifærin sem kom út árið 2014, þar sem er að finna viðtöl við 50 öflugar, íslenskar konur í fjölbreyttum störfum víða um heim á sviði tækni og raunvísinda. Þá var hún formaður Stuðverks — skemmtifélags verkfræðikvenna. Hjördís er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og stundaði meistaranám í stjórnun, tækni og hagfræði við ETH Zürich.

Hörður Logi Hafsteinsson (37), fjármálastjóri hjá LOLA. Hörður hefur starfað erlendis síðan hann útskrifaðist úr háskóla á Íslandi en hann var áður fjármálstjóri Moda Operandi auk þess sem hann starfaði hjá Citi, House of Fraser og Baugi Group. Eftir hrunið færði Hörður sig frá Baugi yfir til House of Fraser þar sem hann starfaði í 2 ár. Þar vann Hörður að fjárhagslegri endurskipurlagningu á félaginu sem var ekki vel statt eftir hrunið. Því næst tók hann við starfi sem Vice President í Consumer, retail & luxury í fjárfestingarbankahluta Citi bankans í Lundúnum. Þar kom hann að ýmsum verkefnum, t.d. sölu á framleiðslu VERTU símanna frá Nokia, skuldabréfaútgáfu fyrir gríska jógúrtframleiðandann Fage og hlutabréfaútboði fyrir Hugo boss. Árið 2013 bauð fyrrverandi samstarfskona Harðar hjá Baugi honum tækifærið að koma til starfa hjá Moda Operandi í New York. Þar starfaði hann í 2 ár og varð fjármálastjóri fyrirtækisins. Í dag starfar Hörður sem fjármálastjóri hjá LOLA í New York, sem framleiðir hreinlætisvörur ætlaðar konum, en fyrirtækið hefur vaxið hratt á síðustu árum og hóf t.d. nýlega að selja vörur sínar í öllum verslunum Walmart í Bandaríkjunum. Hörður er með BS í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Jóhann Ari Lárusson (39 ára), framkvæmdastjóri gagnagreiningar og gervigreindarlausna hjá Pearson. Pearson er kennslu og þjálfunarfyrirtæki með um 23.000 starfsmenn í 70 löndum. Jóhann starfar í höfuðstöðvum Pearson í Phoenix, Arizona og stýrir stóru teymi sem ber ábyrgð á að breyta Pearson í stafrænan leiðtoga en hann hefur búið í Bandaríkjunum í 17 ár. Ein af vörunum sem teymi Jóhanns þróaði var nýlega kynnt með sérstöku innskotsblaði í New York Times en það er kennslu appið Aida sem nýtir gervigreind til að kenna fólki stærðfræði greiningu. Jóhann hefur tekið þátt í að setja saman bók um “Learning analytics” og hefur skrifað tugi ritrýnda rannsóknargreina auk þess sem hann er meðhöfundur á amk 7 einkaleyfum. Jóhann er með Bsc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu og doktorsgráðu í tölvunarfræði frá Brandeis University.

Kjartan Ársælsson (39) þróunarstjóri hjá Riot Games. Kjartan hóf feril sinn sem forritari hjá Greiðslumiðlun þar sem hann sá um innkaupakortakerfið þeirra. Eftir að hafa lokið námi í verkefnastjórnun gekk hann til liðs við Íslandsbanka, þar sem hann tók þátt í uppbyggingu hugbúnaðardeildar bankans og innleiðingu á Agile verkefnastjórnun fyrir deildina. Eftir það fór hann úr fjármálageiranum yfir í tölvuleikjaiðnaðinn en hann hóf þá störf hjá CCP, þar sem hann starfaði í 5 ár. Á meðan hann starfaði hjá CCP bjó Kjartan m.a. í Kína og í Englandi og tók þátt í að þróa sýndarveruleikaleikinn EVE Valkyrie. Árið 2015 var leikurinn nánast tilbúinn og fékk Kjartan þá tilboð um að ganga til liðs við Riot Games í Los Angeles. Þar fékk hann starf við þróun tölvuleiksins Leauge of legends. Í mars 2018 bauðst honum að taka við stöðu “operations Director” hjá Riot og ber hann ábyrgð á allri þróun leiksins ásamt rekstri hans en teymið hans telur 400 starfsmenn, ásamt töluverðum fjölda verktaka til viðbótar. Kjartan er með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskóla Íslands og B.sc. gráðu í tölvunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskólanum í Reykjavík.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson (30) VP Platform strategy hjá Sotheby’s uppboðsfyrirtækinu í New York. Kristinn var áður framkvæmdastjóri rekstrar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Gangverki, ráðgjafi hjá Kolibri og forstöðumaður rekstrar hjá QuizUp. Kristinn Árni er stofnandi og ritstjóri nýsköpunarvefsins Northstack. Þá skrifaði hann bókina Litla herramennskukverið árið 2011. Kristinn Árni er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og var skiptinemi í Texas Tech University.

Linda Björk Bryndísardóttir (32) yfirmaður sölu hjá Travix international í Amsterdam í Hollandi. Linda hefur starfað í 7 ár hjá Travix International en hún hóf fyrst störf þar í markaðsgreiningum. Síðan þá hefur hún unnið sig upp og gegnt ýmsum stjórnunarstöðum en í dag er hún yfirmaður allra sölu hjá fyrirtækinu og situr í framkvæmdastjórn þess, staðsett í Hollandi með um 50 manns sem heyra beint undir hana. Travix er í eigu Trip.com sem er ein stærsta ferðaskrifstofa heims og rekur meðal annars flugleitarvefinn Skyscanner auk fjölda annarra fyrirtækja. Linda er með B.sc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í megindlegri hagfræði frá Universiteit van Amsterdam.

Magnús Berg Magnússon (34) framkvæmdarstjóri NORR11. Magnús ásamt konunni sinni, Júlíönnu Sól, setti á laggirnar NORR11 verslun við Hverfisgötu sem þau eiga og reka. Árið 2017 var þeim boðin störf hjá NORR11 í Berlín og fluttust þau þangað til að sjá um markaðsmál hönnunarfyrirtækisins. Síðar sama ár var Magnús gerður að forstjóra fyrirtækisins og Sól varð markaðsstjóri. Í dag reka þau fyrirtækið frá Kaupmannahöfn þar sem þau eru með höfuðstöðvar og sýningarrými. Helsta verkefni þeirra undanfarin ár hefur verið að endurskipuleggja fyrirtækið frá grunni en þau hafa endurskipulagt alla framleiðslu, vörulínur, sölu- og markaðsmál, staðsett merkið á annan hátt en áður og gert fyrirtækið tilbúið undir framtíðarvöxt. Fyrirtækið er með starfsfólk í Kaupmannahöfn, Berlín og London auk þess sem þau eru með sölufólk um víða heim. Vörur þess eru seldar í verslunum í yfir 40 löndum en þeirra stærsti markaður er fyrirtækjamarkaður þar sem þau hafa selt húsgögn o.fl. í verkefni til fyrirtækja á borð við Google, Microsoft, Porsche, Hilton, Bank of America, Netflix, Facebook og fleiri. Áður starfaði Magnús hjá Jónsson&Lemacks sem strategic planner þar sem hann kom að því að setja upp digital deild J&L. Hann starfaði einnig sjálfstætt við ráðgjöf í New York. Þá er hann einn af stofnendum Meistaramánaðar. Magnús er með meistaragráðu í Finance & strategic management frá CBS háskólanum í Kaupmannahöfn.

Magnús Helgason (35), vice president hjá Goldman Sachs. Áður starfaði Magnús í fjárstýringu hjá Landsbankanum og vann meðal annars að endurskipulagningu bankans eftir hrun. Magnús hefur starfað síðastliðinn 7 ár hjá Goldman Sachs og starfar hann þar við framtaksfjárfestingar (e. Private equity investing). Magnús einbeitir sér að fjárfestingum í fjármálafyrirtækjum og situr m.a. í stjórn bandarísks tryggingafélags, sem Goldman Sachs er hluthafi í. Magnús er með B.Sc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Columbia Business School.

Magnús Sigurðsson (36) er framkvæmdarstjóri hjá Multivariate. Magnús notar gögn og algóritma til að hjálpa vogunarsjóðum og fjárfestum að taka betri fjárfestingarákvarðanir. Hjá Multivariate eru fjárfestum og vaxandi fyrirtækjum veittur aðgangur að gagnasöfnum og ráðgjöf. Magnús er einnig meðstofnandi og framkvæmdarstjóri Systematic ventures, en það er framtakssjóður sem sameinar gögn og gervigreind til að greina og spá fyrir um vöxt atvinnugreina og vel fjármagnaðra þekkingarfyrirtækja. Áður var hann meðal stofnenda 55ip þar sem hann sem hann byggði upp fjárfestingagreiningar og eignastýringaraðferðir sem nú eru í notkun hjá fjárfestingarrisanum BlackRock. Hann var einnig yfirmaður hjá Ada Investments, sérhæfðs vogunarsjóðs sem var keyptur af 55ip og starfaði þar áður við eignastýringu hjá The investment Fund for Foundations (TIFF), en það er eignarstýringarfyrirtæki sem býður góðgerðarstofnunum og félagasamtökum útvistun á starfi fjárfestingarstjóra. Magnús kom snemma inn sem fjárfestir í rafmynt og bitakeðjum og fjárfesti m.a í Ethereum rafmyntinni strax í upphafi þess að hún kom á markað. Magnús þróar megindleg fjárfestingarkerfi sem virka innan fjölmargra eignaflokka, allt frá sprotafyrirtækjum og rafmyntum til fasteigna og kvikmyndaframleiðslu. Magnús er með B.sc í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum frá MIT — Sloan school of management. Magnús talar þrjú tungumál; íslensku, ensku og kínversku (mandarín).

Mardís Heimisdóttir (31) forstöðumaður hjá SS&C Advent, sem þjónustar um 5000 fjármálafyrirtæki í 50 löndum. Mardís hefur starfað hjá SS&C Advent í rúm 6 ár og unnið sig þar upp. Hún hóf upphaflega störf sem skrifstofustjóri í Stokkhólmi en er nú forstöðumaður yfir skipulagsþróun, staðsett í New York. Þar starfar hún við stefnumótun og vinnur beint undir æðstu stjórnendum fyrirtækisins. Mardís er með B.sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í viðskiptastjórnun frá CUNY school of professional studies. Mardís talar 6 tungumál: dönsku, ensku, íslensku, norsku, sænsku og spænsku.

Marta Björnsdóttir (32) yfirverkfræðingur hjá stoðtækjaframleiðandanum Integrum AB. Marta hóf feril sinn hjá Össur en þar starfaði hún alls í rúm 5 ár, fyrst í bókhaldi en síðar sem verkfræðingur við þróun gervifóta. Því næst starfaði hún við líftæknirannsóknir við KTH royal institute. Í dag er Marta yfirverkfræðingur hjá Integrum en hún hóf störf þar sem verkfræðingur árið 2015. Hún vinnur þar að þróun OPRA sem býr til beina tengingu milli gervilima og beinagrindarinnar. Hún talar 5 tungumál; íslensku, dönsku, ensku, þýsku og sænsku. Marta er með B.sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í faginu frá KTH royal instute of Technology.

Ólafur Sölvi Pálsson (36) rekstrarstjóri (COO) hjá Templafy sem er danskt tæknifyrirtæki. Áður var Ólafur framkvæmdastjóri sölustarfsemi Adform og þar áður gegndi hana sama hlutverki hjá Falcon.io. Ólafur var einnig stofnandi fyrirtækisins Streamplicity. Ólafur er með B.sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og diplómu í Kvikmyndagerð frá Kvikmyndaskóla Íslands. Hann hefur einnig verið mentor í MBA náminu við Copenhagen Business School.

Ólöf Halla Guðrúnardóttir (35) verkefnastjóri í fjárhagsáætlanagerð hjá Baker Hughes í London. Baker Hughes er orku- og olíufyrirtæki með um 50.000 starfsmenn í 120 löndum. Ólöf flutti til Ástralíu eftir menntaskóla og hóf þar hagfræðinám við Queensland University of Technology. Hún fór þaðan yfir til Nýja Sjálands til að taka BCA gráðu í faginu. Þegar hún flutti aftur heim starfaði hún sem innkaupastjóri hjá Mata og samhliða því lauk hún meistaranámi hér heima. Þá flutti Ólöf til Noregs þar sem hún hóf störf hjá Baker Hughes og fluttist hún þaðan yfir til Skotlands, eftir að henni bauðst önnur staða innan fyrirtækisins. Eftir breytingar innan fyrirtækisins flutti Ólöf til London. Hún starfar nú þar en í sumar bauðst henni stöðuhækkun innan fyrirtækisins og að taka við sem Senior FP&A Manager sem stýrir fjárhagsáætlanagerð. Ólöf er með B.sc gráðu í hagfræði frá Queensland University of Technology, BCA gráðu í hagfræði og fjármálum frá Victoria University of Wellington og meistaragráðu í fjárfestingarstjórnun (MSIM) frá Háskólanum í Reykjavík.

Rebekka Bryndís Björnsdóttir (34), yfirframleiðandi hjá New York City Ballet. Rebekka hóf feril sinn í tónlistageiranum, sem fagottleikari og spilaði með ýmsum hljómsveitum, þ.á.m. Hjaltalín. Meðfram því vann hún í sjónvarps- og kvikmyndageiranum við framleiðslu sjónvarpsþátta, auglýsinga, tónlistamyndbanda og kvikmynda. Árið 2012 vann hún við gerð myndarinnar The secret life of Walter Mitty hér á Íslandi sem leiddi til þess að hún fékk tækifæri til að fara til New York og vinna að gerð stærri kvikmynda. Með tímanum vann hún sig upp og árið 2014 framleiddi hún stuttmynd fyrir balletdansara og var í kjölfarið boðið fullt starf hjá balletnum. Árið 2017 var henni boðin staða sem yfirframleiðandi hjá New York City Ballet. Þar er Bryndís yfirframleiðandi á allri kvikmyndagerð sem felur s.s. í sér auglýsingaherferðir, heimildamyndir, upptökur og hlaðvarp. Hún leiðir þar teymi en ræður einnig til vinnu ýmsa freelance leikstjóra, hljóðmenn og fleiri.

Rósant Ísak Rósantsson (34) fjárfestingastjóri hjá IFC Asset management company. Rósant hefur starfað hjá Alþjóðabankanum síðastliðin 9 ár en áður hann tók við núverandi starfi starfaði hann um tíma við mótáhættugreiningu í áhættustýringu bankans, sem og við hlutabréfarannsóknir í greiningardeild hans. Rósant starfar við að fjármagna, fjárfesta og stýra svokölluðum sjóðasjóðum. Hans sérsvið er að fjárfesta í og vinna með framtakssjóðum (venture capital funds) og óskráðum hlutabréfasjóðum (private equity funds) í nýmarkaðsríkjum og situr hann í stjórn slíkra sjóða bæði í Asíu og Afríku. Rósant er BS gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og MS í aðgerðagreiningu frá Columbia háskóla í New York auk CFA gráðu.

Rut Reykjalín (38) framkvæmdarstjóri í áhættustýringu í höfuðstöðvum Santander bankans í Bandaríkjunum í Boston. Þar sér Rut um innleiðingu nýrra reglna og samskipti við lánshæfismatsfyrirtæki. Áður gegndi hún stöðu þar sem hafði hún umsjón og eftirlit með fasteignalánasafni bankans. Þar áður starfaði Rut meðal annars við gerð áhættuvilja Santander bankans í Bandaríkjunum og hjá State Street bankanum á árunum 2008–2013 þar sem hún hafði eftirlit með mótaðilaáhættu bankans í Evrópu, þar á meðal Íslandi og vann við innleiðingu á útlánaáhættukerfi í samræmi við Basel II regluverkið. Rut er með meistaragráðu í hagfræði og fjármálum frá Brandeis University International Business school og B.sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Sigrún Jónsdóttir (35) VP of Merchandising hjá TJX Europe. Sigrún hóf störf hjá TJX Companies í Boston árið 2010 en flutti sig yfir til Bretlands árið 2012 og hefur starfað þar í evrópskum höfuðstöðvum fyrirtækisins síðan þá. Hún er með yfirsýn yfir öll innkaup og rekstur TJX Maxx og Homesense búðanna auk allrar netverslunar. Sigrún sér um sölu- og innkaupaáætlanir fyrir alls yfir 650 búðir í Evrópu ásamt birgðastjórnun. Veltan sem hún stýrir samsvarar hundruðum milljörðum íslenskra króna. Sigrún hefur tekið þátt í Senior Leadership Academy þjálfuninni hjá Retail Week fyrir konur í leiðtogahlutverkum. Sigrún er með BA gráðu í fjármálum frá London South Bank University.

Sigurður Örn Aðalgeirsson (36) hugbúnaðarþróun hjá Google Research, í Boston. Sigurður hefur starfað hjá Google í 2 ár en hann hóf störf þar upphaflega við hugbúnaðarþróun Google Voice Assistant. Í dag starfar hann við þróun gervigreindar aðferða sem styðja nýjar gagnvirkar leiðir fyrir samspil manneskja og tækni. Áður starfaði hann hjá tæknifyrirtækinu Jibo í Boston þar sem hann leiddi teymi sem vann við þróun á vélmennum og þróaði teymið fyrsta félagslega vélmennið fyrir heimilið. Þetta vélmenni komst a forsíðu Time Magazine sem ein af 25 bestu uppfinningum ársins 2017. Hann starfaði einnig sem senior research engineer hjá stórfyrirtækinu Samsung í San Fransisco og hjá MIT Media Lab. Sigurður er með B.sc. gráðu í rafmagns og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands, meistara- og doktorsgráðu í vélmennafræðum frá Massachusetts Instite of Technology (MIT) en Sigurður stundaði þar rannsóknir á félagslegri gervigreind og samspili manneskja og vélmenna.

Steinunn Guðmundsdóttir (30), fulltrúi hjá lögmannsstofunni Morrison & Foerster LLP í San Francisco í Bandaríkjunum. Þar áður starfaði Steinunn hjá Juris lögmannsstofu hér á Íslandi. Hjá Morrison & Foerster starfar Steinunn við ráðgjöf og samningagerð á sviði hugverka- og tækniréttar, s.s. fyrir tækniþróun, nytjaleyfi og ráðgjöf við fjárfestingar og samruna. Hún starfar aðallega fyrir stór alþjóðleg fyrirtæki en einnig fyrir minni sprotafyritæki. Steinunn er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og LL.M. gráðu frá Stanford. Þá hefur hún réttindi til málflutnings á Íslandi og í Kaliforníu.

Svanlaug Ingólfsdóttir (30) vörustjóri hjá Twitter. Svanlaug er með mikla reynslu úr alþjóðlegum tæknifyrirtækjum þrátt fyrir ungan aldur en áður starfaði Svanlaug hjá Ticketmaster sem yfirvörustjóri. Þá starfaði hún hjá Soundcloud í þrjú ár og var nemi hjá Spotify í Svíþjóð. Svanlaug hóf feril sinn sem hugbúnaðarverkfræðingur hjá LS retail. Svanlaug er með meistaragráðu í Human Computer interaction frá tækniháskólanum í Berlín og B.sc gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Árið 2010 fór Svanlaug sem sjáflboðaliði til Indónesíu í 3 mánuði og hjálpaði við gerð námsskrár í enskukennslu í grunnskólum þar.

Sveinn Ólafsson (35) associate hjá Goldman Sachs, New York. Áður starfaði Sveinn sem greinandi hjá QuantCell Research, sem aðstoðarmaður prófessors í UC Santa Barbara og við greiningar í Straumi fjárfestingabanka. Sveinn er með B.sc. gráðu í stærðfræði og meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur einnig lokið mastersnámi í fjárhagslegri stærðfræði frá Stanford University og er með doktorsgráðu í tölfræði frá Purdue University. Sveinn hefur birt 3 fræðigreinar og fengið 4 verðlaun fyrir fræðastörf sín.

— — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — — -

*Ath. gerð var smávægileg breyting á listanum eftir tæpan sólarhring í birtingu vegna þess að upplýsingar voru ekki nægjanlega nákvæmar og einn aðili hafði þegar flutt heim til Íslands og hafið störf á íslenskum markaði.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.