40/40 vonarstjörnur erlendis

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
18 min readOct 5, 2020

5. október/2020

Góð samskipti hafa tekið saman meðfylgjandi lista yfir 40 íslenskar vonarstjörnur í viðskiptalífinu víða um heim.

(Tilnefningar á listann komu í tengslum við valið á 40/40 listanum erlendis í sumar*)

Um er að ræða fjörtíu öfluga einstaklinga á þrítugs- og fertugsaldri sem eiga bjarta framtíð á sínu sviði. Margir þeirra hafa nýverið hafið starfsferil eftir nám í sumum af bestu háskólum heims og aðrir eru þegar komnir á góðan stað hjá þekktum alþjóðlegum fyrirtækjum.

Hugmyndin með vonarstjörnulistanum er, líkt og með 40/40 listann, að vekja athygli á Íslendingum sem eru að standa sig vel erlendis. Líklegt er að einhver hluti þessa hóps muni flytja heim á næstu árum og taka þá með sér dýrmæta þekkingu og reynslu.

Við fundum raunar vel við vinnslu listans hvað Covid-19 hefur haft mikil áhrif á mörg samfélög og að margir Íslendingar sem starfa erlendis eru af þessum sökum farnir að horfa heim fyrr en þeir bjuggust við áður en faraldurinn skall á.

Vonarstjörnurnar sem við kynnum hér er meðal annars fólk sem var tilnefnt á 40/40 listann í sumar en endaði ekki á aðallistanum hjá okkur. Hinsvegar er líklegt að það muni skjóta upp kollinum á honum á næstu árum. Tilnefningarnar komu úr öllum áttum, frá stjórnendum heima og erlendis, frá fyrrum samstarfsfólki og námsfélögum og einnig sendiherrum og starfsfólki sendiráða Íslands um allan heim.

Við skoðun listans má sjá að mjög margar ungar konur eru að láta að sér kveða í Danmörku og víðar á Norðurlöndunum. Fjármálageirinn sogar áfram til sín hæfileikafólk en einnig er áberandi hvað margir Íslendingar hafa fengið spennandi tækifæri hjá mörgum af stærstu tæknifyrirtækjum heims eins og Google, Microsoft, Apple og Amazon. Hjá þessum fyrirtækjum eru kröfurnar miklar og umsóknarferlin löng (stundum fer fólk í alls sjö viðtöl) en reynslan að sama skapi dýrmæt. Einnig er fólk á listanum sem starfar hjá minni sérhæfðum fyrirtækjum sem eru framarlega á sínu sérsviði eða ráðgjafarfyrirtækjum þar sem það fær að kynnast mörgum ólíkum geirum. Erlend ráðgjafarfyrirtæki hafa reyndar verið að sækja meira inn á íslenskan markað að undanförnu og þá eru fleiri erlend fyrirtæki sem eru með þróunarstöðvar hér heima eða leyfa fólki að starfa í fjarvinnu héðan. Þetta er til merkis um að heimurinn er orðinn minni en hann var, sem eykur samkeppni en fjölgar um leið tækifærum fyrir Íslendinga og íslensk fyrirtæki.

Við þökkum kærlega öllum sem komu að vali vonarstjörnulistans með okkur.

Þessi eru á listanum yfir 40 vonarstjörnur erlendis 2020

*Árið í ár er fyrsta árið sem við gefum út lista yfir Íslendinga í erlendu viðskiptalífi en við höfum tvívegis áður gefið út lista yfir 40 öfluga stjórnendur undir 40 ára og vonarstjörnur í viðskiptalífinu á Íslandi.

— — —

40 vonarstjörnur erlendis/ 40 ára og yngri

Alma Guðný Árnadóttir (28) greinandi hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Accenture í Danmörku. Áður starfaði Alma sem greinandi hjá Innovisor í Danmörku og IC Group A/S. Alma er með B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í viðskiptafræði frá Copenhagen Business School með áherslu á stafræna þróun og netverslun. Þá hefur Alma náð sér í vottanir í Scrum og Agile-fræðunum. Alma er einn af stofnendum Tefélagsins, sem býður Íslendingum upp á mánaðarlega áskrift af tei.

Aníta Hlynsdóttir (31) hugbúnaðarverkfræðingur hjá Thought Machine. Áður starfaði Aníta sem hugbúnaðarverkfræðingur hjá FICO í London og síðar hjá Playtech og Antidote. Aníta er með B.sc gráðu í hátækniverkfræði og meistaragráðu í vélmennafræðum frá Kings College í London.

Arnþór Axelsson (29) ráðgjafi hjá endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækinu Ernst&Young (EY). Arnþór hefur starfað í fimm ár hjá EY í New York. Þar áður starfaði hann sem aðstoðarkennari hjá New York University (NYU). Áður starfaði hann við gerð fjárhagslegra líkana hjá Arion banka. Hjá EY vinnur Arnþór með stórum fyrirtækjum sem sum hver eru á Global Fortune 100 listanum en hann sérhæfir sig í gagnagreiningu. Arnþór er með meistaragráðu í fjármálaverkfræði frá NYU og B.Sc í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, þar sem hann fór í skiptinám til The George Washington University í Bandaríkjunum.

Berglind Halldórsdóttir (30) greinandi (desk quant) hjá Nordea bankanum. Berglind hefur starfað hjá Nordea í Danmörku í 4 ár og unnið sig markvisst upp. Áður starfaði hún í fjármálum hjá Actavis. Berglind er með meistaragráðu í fjármálum frá Háskólanum í Gautaborg og B.Sc. gráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands, þar sem hún útskrifaðist með meðaleinkunnina 8,57.

Birgitta Sigurðardóttir (27) vörumerkjastjóri hjá Innocent drykkjarvöruframleiðandanum. Birgitta hóf störf þar í byrjun árs 2020 og er ábyrg fyrir Danmörku og Íslandi. Í því felst að hún ber ábyrgð á vörumerkinu og öllum markaðsherferðum, ásamt því að vinna að markaðsáætlun og innleiðingu á nýjum vörum á markað. Áður starfaði hún sem rekstrarstjóri hjá Gló í Danmörku, þar sem hún sá einnig um markaðsmál. Birgitta er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands en þar var hún formaður Mágusar, félags viðskiptafræðinema. Á meðan náminu stóð fór hún tvisvar í skiptinám, í Stanford University í Kaliforníu og Columbia University í New York. Birgitta er einnig með meistaragráðu í alþjóða markaðssetningu og stjórnun frá Copenhagen Business School, þar sem hún var formaður félags Íslendinga. Birgitta er meðstofnandi félagsins KATLA, félags fyrir ungar athafnakonur í Kaupmannahöfn, ásamt því að sitja í stjórn félagsins.

Birna Helga Jóhannesdóttir (25) ráðgjafi (associate) hjá Boston Consulting Group í Danmörku. Birna vinnur með teymi ráðgjafa að verkefnum um öll Norðurlönd og víðar fyrir mörg stærstu fyrirtæki í Skandinavíu. Hún starfaði áður í rannsóknum og greiningu hjá Íslandsbanka. Birna er með B.Sc. í stærðfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í viðskiptagreiningu (business analytics) frá ESADE.

Björn Atli Axelsson (32) framkvæmdastjóri hjá Prospect Capital Management í New York. Björn Atli var áður sérfræðingur á skrifstofu Gamma Capital Management í New York. Einnig starfaði hann hjá fjárfestingabankanum Pareto Securities við miðlun hlutabréfa og skuldabréfa. Björn er með B.Sc. í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið meistaranámi í fjármálum við Massachusetts Institute of Technology (MIT). Björn Atli hefur réttindi sem verðbréfamiðlari í New York ríki og hefur lokið öllum þremur prófum CFA stofnunarinnar í Bandaríkjunum.

Davíð Örn Kjartansson (29) ráðgjafi hjá Efficio Consulting í New York. Þar vinnur Davíðað verkefnum á sviði innkaupa- og vörustjórnunar sem miða að því að lækka útgjöld fyrirtækja og bæta innkaupaferla, en fyrirtækið er eitt stærsta ráðgjafafyrirtæki heims á sviði innkaupastjórnunar. Áður starfaði Davíð hjá prentfyrirtækinu Duggal Visual Solutions, þar sem hann sinnti umbótaverkefnum. Davíð er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í sama fagi frá New York University. Eftir útskrift úr HÍ starfaði Davíð sem sérfræðingur í vörustjórnun og greiningu hjá Brammer og var sumarstarfsmaður hjá Landsvirkjun.

Diljá Helgadóttir (25) fulltrúi hjá lögmannsstofunni Van Bael & Bellis í Brussel. Diljá er hluti af Evrópu- og samkeppnisréttarteymi stofunnar í Brussel og London. Diljá er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og LLM frá Duke University. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir námsárangur og birt sex ritrýndar greinar í fræðirit á sviði lögfræði, bæði hér heima og erlendis. Diljá hefur áður starfað á lögfræðisviði fjármálafyrirtækis sem og á bandarísku lögmannsstofunni White & Case LLP. Síðast sinnti hún tímabundinni stöðu lögfræðings hjá utanríkisráðuneytinu og kom að framtíðarviðræðum EES EFTA ríkjanna um fríverslun við Bretland.

Eva Sigurbjörg Þorkelsdóttir (31) ráðgjafi hjá Deloitte í Danmörku. Eva er með B.S. í viðskiptafræði og fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík og tvær meistaragráður frá sama skóla, annars vegar í stjórnunarreikningsskilum og viðskiptafærni og hinsvegar í fjármálum fyrirtækja. Eva hóf starfsferil sinn í ráðgjöf á sviði fjármála en færði sig svo yfir í stafræna umbreytingu þar sem það bauð upp á fleiri tækifæri. Hún tók þátt í að stofna KATLA Nordic, samtök ungra kvenna sem starfa í Danmörku, og situr að auki í stjórn samtakanna. Hjá Deloitte er Eva einn af tveimur fulltrúum Norðurlandanna í “Women in Tech” fyrir Deloitte NSE. Þar vinnur hún með stjórnendum og sérfræðingum í að greina, þróa og innleiða nýjar lausnir.

Guðrún Hauksdóttir (28) hugbúnaðarsérfræðingur hjá Goldman Sachs bankanum í London. Þar sinnir hún ýmsum verkefnum sem snúa að rafrænum viðskiptakerfum bankans fyrir marga mismunandi markaði, til að mynda gjaldeyrismarkaðinn. Guðrún starfaði áður hjá Advania. Hún er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík en í lokaverkefninu vann hún að rannsóknarverkefni sem fólst m.a í forritun á kerfi fyrir NASA sem hélt utan um frávik sem orðið hafa í geimskutlum. Hún er einnig með meistarargáðu í rekstrartæknistjórnun (technology management) frá University College London.

Guðrún Ólöf Olsen (28) lögmaður hjá NJORD lögmannsstofu í Kaupmannahöfn. Guðrún flutti til Danmerkur haustið 2015 til að stunda framhaldsnám og hóf samhliða störf á lögmannsstofunni NJORD. Þar hefur hún m.a. sérhæft sig í málum tengdum samkeppnisrétti og félagarétti. Um þessar mundir rekur Guðrún tvö af stærstu dómsmálum í sögu Danmerkur hvað varðar fjárhæð kröfu, vegna meints markaðsmisnotkunarbrots. Guðrún er ein af fyrstu íslensku lögmönnunum til að vera með málflutningsréttindi í Danmörku og á Íslandi. Áður starfaði hún á lögmannsstofunni LOGOS. Guðrún er með B.A. í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu (LLM) frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún er ein af stofnendum og stjórnarmaður KÖTLU, sem er félag íslenskra kvenna á vinnumarkaðinum í Danmörku.

Guðrún Reynisdóttir (29) gagnasérfræðingur hjá stórfyrirtækinu A.P Moller Maersk í Kaupmannahöfn. Áður starfaði Guðrún hjá L´oréal Nordics þar sem hún starfaði m.a. við verkefnastjórnun í gagnaumsjón. Samhliða náminu í DTU starfaði Guðrún hjá Affenium og skartgripaframleiðandanum Pandora en lokaritgerðina vann hún með fyrirtækinu og þróaði með þeim tól til að greina eftirspurn sem er enn notað að hluta í dag. Hjá A. P Moller sér Guðrún um verkefnastjórnun og vinnur náið með stjórnunarteymum deilda. Guðrún er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í sama fagi frá DTU.

Guðbergur Geir Erlendsson (34) stýrir hugbúnaðarþróun hjá Tinder. Áður starfaði Guðbergur m.a. hjá Goldman Sachs og í kjölfarið hjá vogunarsjóði sem sérhæfði sig í hátíðniviðskiptum. Guðbergur er með meistaragráðu í tölvunarfræði frá Columbia University í New York og B.Sc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann byrjaði ungur að forrita og þykir afar afkastamikill og snjall forritari.

Hafsteinn Þór Guðjónsson (30) stjórnunarráðgjafi hjá Implement Consulting Group. Árið 2013 fluttist Hafsteinn til Danmerkur til að hefja framhaldsnám en samhliða því hóf hann störf hjá Implement sem fæst aðallega við umbreytingastjórnun. Fyrst um sinn starfaði hann við stefnumótun og áætlanagerð en í núverandi starfi leiðir hann verkefni með stjórnendateymum fyrirtækja. Sérgrein Hafsteins er stefnumótun fyrir framleiðslu og dreifingarnet fyrirtækja á heimsvísu, framtíðarsýn og greining iðntæknifjárfestinga. Undanfarin ár hefur hann leitt teymi sem er að vinna að allsherjargreiningu og stefnumótun fyrir dreifingar- og vöruhúsanet eins stærsta iðnfyrirtækis Norðurlandanna. Hafsteinn er með B.Eng gráðu í framleiðsluverkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU) og meistaragráðu í iðnaðarverkfræði frá sama skóla og fékk hæstu einkunn fyrir lokaritgerðir sínar. Hann tók hluta af námi sínu við eldflauga- og vélaverkfræðideild Nanyang Technological University (NTU) í Singapore. Þá hefur hann lokið diplómunámi frá Háskólanum í Malmö í stjórnmálum, hagfræði og alþjóðavæðingu.

Hanna Sigríður Tryggvadóttir (29) assistant manager hjá The Estée Lauder Companies Inc. í New York. Hanna hefur verið hjá Estée Lauder í tvö ár en áður starfaði hún í samrunum og vexti hjá ADAY í New York. Þá var Hanna ráðgjafi áður hjá S&P Global matsfyrirtækinu auk þess sem hún starfaði hjá Landsvirkjun. Hanna er með B.S. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, en hluta af náminu tók hún við University of Miami, og er einnig með meistaragráðu í sama fagi frá Columbia University í New York.

Helga Bjarnadóttir (32) ráðgjafi hjá Accenture ráðgjafarfyrirtækinu í Kaupmannahöfn. Helga hefur starfað þar frá útskrift en hún hóf ferilinn í hugbúnaðarþróun fyrir viðskiptavini á fjármálamörkuðum. Í dag leiðir hún teymi í Danmörku, Noregi og Indlandi sem starfa við stafræna umbreytingu hjá stórum skandinavískum tryggingafyrirtækjum. Helga er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í Mathematical Modelling and Computation frá DTU.

Hrafnhildur Sigurðardóttir (33) Manager of commercial systems hjá Falcon.io vefþjónustufyrirtækinu í Kaupmannahöfn. Falcon er eitt fremsta fyrirtækið á sínu sviði í Evrópu og vex hratt. Hrafnhildur hefur starfað í 6 ár hjá Falcon.io og unnið sig upp. Áður starfaði hún við samhæfingarstjórn (event coordination) hjá CBP Denmark og sem markaðssérfræðingur hjá íslenska fyrirtækinu Tulipop. Hrafnhildur er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í félagsvísindum frá Copenhagen Business School.

Jón Áskell Þorbjarnarson (27) sérfræðingur hjá McKinsey í Kaupmannahöfn. Jón hefur starfað hjá McKinsey í tvö ár en hann byrjaði þar sem ráðgjafi og hefur nú unnið sig upp í stöðu fulltrúa (associate). Jón er með B.Sc gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands auk meistaragráðu í hagfræði. Þá lauk hann meistaranámi í eðlisfræði frá Oxford háskóla árið 2018.

Jón Egilsson (33) hugbúnaðarverkfræðingur hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu BCG í Kaupmannahöfn. Jóm var áður hjá Accenture ráðgjafarfyrirætkinu og starfaði við hugbúnaðarþróun hjá IHPostal A/S. Samhliða mastersnáminu rannsakaði Jón hvernig megi nota dróna og véltækni til að aðstoða í landbúnaði. Þá starfaði hann sem hugbúnaðarverkfræðingur hjá Coori. Síðustu 2 ár hefur Jón starfað hjá BCG Platinion, meðal annars í verkefnum í Miðausturlöndunum, á norðurlöndunum og í Mið-Evrópu. Verkefnin hafa snúist um stefnumótun, greiningar og tækni-arkitektúr hjá stórfyrirtækjum, t.d. orkufyrirtækjum, símafyrirtækjum og bönkum. Síðustu 3 mánuði hefur Jón unnið í verkefni sem snýr að því að endurhanna húsnæðislánaferlið hjá stórum banka, notenda- og starfsmannaupplifun þess og sjálfvirkni.Jón er með meistaragráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn og B.sc. í stærðfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Katrín Kristjánsdóttir (32) ráðgjafi hjá Center for Product Customization í Kaupmannahöfn. Áður starfaði hún sem ráðgjafi hjá Haldor Topsoe A/S. Katrín er með doktorsgráðu í iðnaðarverkfræði frá DTU og meistaragráðu í faginu frá sama skóla en B.Sc. gráðuna fékk hún frá Háskólanum í Reykjavík.

Matthías Jónsson (24) sérfræðingur (associate) hjá Morgan Stanley í New York. Áður starfaði Matthías m.a. í hugbúnaðaþróun hjá Byko og sem upplýsingatæknisérfræðingur hjá Norvik. Matthías er með B.Sc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og útskrifaðist með láði árið 2017. Síðustu tvö árin í náminu var hann aðstoðarkennari í tölvunarfræði og tölulegri greiningu. Þá er hann með meistaragráðu í fjármálaverkfræði frá Columbia University. Þegar Matthías var í grunnnáminu var hann valinn úr hópi umsækjenda, m.a. á grundvelli námsárangurs, meðmæla og framtíðaráforma, til að sækja sérstakt sumarnám (International Honors Program) við Stanford háskóla í Bandaríkjunum.

Ólafur Guðmundsson (36) hugbúnaðarverkfræðingur hjá Pinterest í San Francisco. Áður starfaði Ólafur við greiningar hjá Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið og hjá nýsköpunarfyrirtækinu Controlant. Hjá Pinterest starfar hann með 12 manna teymi sérfræðinga í hugbúnaðarþróun og gervigreind, sem spilar stórt hlutverk í Pinterest þar sem miðillinn er mikið aðlagaður að hverjum og einum en yfir þriðjungur allra pinna sem sjást á Pinterest eru sendir í gegnum þjónustur sem þetta teymi þróar. Ólafur er með B.Sc. í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Ísland auk meistaragráðu í sama fagi frá Stanford University, með sérstaka áherslu á gervigreind.

Páll Aðalsteinsson (31) framkvæmdastjóri hjá Hudson Advisors L.P., eignastýringafyrirtæki í New York. Þar hefur Páll starfað seinustu fimm árin og felst starf hans í að leiða strúktúra og lánsfjármagnanir fyrir fyrirtæki og aðrar fjárfestingar í eignasafni stórs alþjóðlegs framtakssjóðs. Þar að auki felst starfið í að greina og meta nýja fjárfestingakosti. Áður starfaði Páll hjá breska bankanum Barclays, nánar tiltekið í fjárfestingabankahlutanum, auk þess að hafa unnið hjá Landsbankanum áður en hann flutti erlendis. Páll er með B.Sc gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í sama fagi frá Columbia University.

Rebekka Rut Gunnarsdóttir (29) ráðgjafi hjá Ernst&Young (EY) í Danmörku. Áður starfaði Rebekka sem ráðgjafi hjá Danske bank. Þá starfaði hún einnig í fjármáladeild íslenska leikjaframleiðandans Plain Vanilla. Rebekka er með B.Sc gráðu í viðskiptafræði og fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í viðskiptafræði frá Copenhagen Business School.

Rúnar Guðbjartsson (30), vöruhönnuður hjá WeWork í New York. Rúnar flutti til San Francisco árið 2012 til að stunda háskólanám á fótboltastyrk. Eftir útskrift árið 2015 var honum boðin staða sem vöruhönnuður hjá PayPal í San Jose í Kaliforníu. Eftir rúm tvö ár þar fékk Rúnar starf sem vöruhönnuður hjá WeWork í New York. Þar vinnur hann með teymi sem sér um stafræna notendaupplifun á samvinnusvæðum (coworking spaces). Rúnar er með BFA gráðu í vefhönnun og nýmiðlun frá Academy of Art University.

Sara Kristjánsdóttir (27) hugbúnaðarverkfræðingur hjá Microsoft í Chicago. Hún starfar í skýjaþjónustuhluta fyrirtækisins og þróar hugbúnað sem sér um auðlindastjórnun fyrir gagnaverin á bakvið skýið (Azure). Sara starfaði áður hjá JP Morgan Chase en þar þróaði hún hugbúnað fyrir rafræn verðbréfa-, hlutabréfa-, afleiðu- og gjaldmiðla viðskipti (electronic trading). Hún hefur einnig starfað hjá Tryggingarmiðstöðinni í áhættuverðlagningu og við kennslu í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Sara er með B.Sc gráðu í fjármálaverkfræði og tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Sigurður Tómasson (28), ráðgjafi hjá McKinsey í Kaupmannahöfn. Sigurður hefur starfað hjá fyrirtækinu í tvö ár en fékk nýlega stöðuhækkun og er nú fulltrúi (associate), en var áður ráðgjafi (consultant). Í starfinu þarf Sigurður að takast á við fjölbreytt verkefni og þarf að læra hratt. Hann hefur unnið við ýmis stefnumótunarverkefni, m.a í fjarskipta-, fjármála-, framleiðslu- og opinbera geiranum. Verkefni McKinsey eru um allan heim og hefur Sigurður því unnið í ýmsum löndum í Evrópu og Asíu. Áður starfaði Sigurður sem sérfræðingur á hagfræðisviði hjá Viðskiptaráði Íslands. Hann hefur einnig starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu með námi. Sigurður er með B.Sc í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í sama fagi frá Háskólanum í Kaupmannahöfn.

Stefán Geir Sigfússon (29) framkvæmdarstjóri hjá Saxo Bank í Danmörku. Stefán hefur starfað hjá bankanum í 4 ár og unnið sig hratt upp. Áður starfaði hann við iOS appþróun hjá Takumi og sem verðbréfamiðlari hjá Straumi fjárfestingabanka. Stefán er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í iðnaðarverkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU).

Steinunn Eyja Gauksdóttir (29) mannauðsstjóri hjá Spiir og Nordic API Gateway í Kaupmannahöfn. Áður starfaði Steinunn við ráðningar hjá 3Shape og ráðgjafi hjá Charlton Morris. Steinunn er með B.S. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og MHRM gráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Stefanía Ellingsen (29), lögfræðingur hjá L’Oréal í Noregi, starfandi í höfuðstöðvunum í Kaupmannahöfn. Stefanía hóf störf árið 2016 hjá lögmannsstofunni NJORD í Kaupmannahöfn, þar sem hún sérhæfði sig í hugverkarétti og veitti ráðgjöf til skjólstæðinga sem samanstóðu mestmegnis af stórum alþjóðlegum fyrirtækjum. Árið eftir starfaði Stefanía sem útsendur lögfræðingur (secondment) frá NJORD til L’Oréal (sem var skjólstæðingur NJORD) en í lok ársins 2017 bauðst henni að verða yfirlögfræðingur fyrir Noregsmarkað hjá L’Oréal. Þar ber hún ábyrgð á alhliða lögfræðiráðgjöf sem veitt er til skjólstæðinga innanhúss, sem getur verið á öllum sviðum lögfræðinnar, sem og yfirferð samninga sem fyrirtækið gerir. Þá er Stefanía í ráðgefandi stöðu gagnvart stjórnendum fyrirtækisins, sem og stjórn hins alþjóðlega móðurfyrirtækis.

Sunneva Sverrisdóttir (28) viðskiptastjóri hjá CO/PLUS í Kaupmannahöfn. CO/PLUS er danskt ráðgjafafyrirtæki á sviði stefnumótunar í markaðsmálum og hefur m.a unnið fyrir mörg stór íslensk fyrirtæki á síðustu árum. Áður starfaði Sunneva sem ráðgjafi hjá auglýsingastofunni Kunde & Co. Hún hefur einnig starfað hjá 365 á Íslandi, þar sem hún stjórnaði sjónvarpsþáttunum Tveir plús sex og Prófíl. Sunneva er ein af meðstofnendum og situr í stjórn KATLA Nordic, félags ungra athafnakvenna í Danmörku. Nýlega stofnaði hún fyrirtækið HUGG design, sem framleiðir stjörnumerkjaplaköt en það gerði Sunneva í samstarfi við unnusta sinn sem er margmiðlunarhönnuður. Sunneva er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í Strategic Market Creation frá Copenhagen Business School en hún var valin heiðursnemandi útskriftarárgangsins, fyrst Íslendinga, og flutti ræðu við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn að viðstöddum Jóakim Danaprins.

Sveinn Friðrik Gunnlaugsson (35) framkvæmdastjóri hjá Barclays bankanumí London. Þar starfar hann í fjárstýringu fyrirtækisins í teymi sem sér um eftirlit og greiningu á eiginfjárþörf bankans ásamt því að halda stjórnendum bankans vel upplýstum um stöðu mála. Áður starfaði Sveinn í teymi innan Barclays sem sérhæfir sig í líkanagerð sem notast er við í álagsprófum sem lögð eru fyrir bankann. Sveinn er með B.S. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og tók hluta námsins í skiptinámi frá Háskólanum í Uppsala. Hann er einnig með M.S. gráðu í tölfræði frá University of Oxford og að auki með PRM gráðu í áhættustýringu. Sveinn situr einnig í stjórn Oxbridge á Íslandi, félagi sem er opið öllum þeim sem hafa stundað nám eða rannsóknir í Cambridge og Oxford háskóla.

Trausti Sæmundsson (31) hugbúnaðarverkfræðingur hjá Google í San Francisco. Trausti hefur unnið hjá fyrirtækinu í þrjú ár en áður starfaði hann í hugbúnaðarþróun hjá CloudPhysics, Takumi og Memento Payments. Trausti er með B.Sc. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík, en á síðustu önninni þar var hann aðstoðarkennari í námskeiði um stýrikerfi.

Tryggvi Guðmundsson (37) hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í Washington DC. Tryggvi hefur starfað hjá sjóðnum í 6 ár og felst starf hans fyrst og fremst í að móta stefnu sjóðsins og leggja mat á aðgerðir stjórnvalda og seðlabanka víða um heim. Það felst m.a í greinaskrifum, rannsóknum, fyrirlestrum og umsjón með ýmsum verkefnum. Þar áður var Tryggvi einn af þremur fulltrúum AGS í London þar sem hlutverk þeirra var að fylgjast með þróun fjármálamarkaða, efnahagsmála og stjórnmála í Evrópu ásamt því að kynna starf sjóðsins og vera í samskiptum við hagsmunaaðila. Þar fékkst hann m.a við Brexit. Samhliða því var Tryggvi meðlimur í Bretlandsteymi sjóðsins og var ábyrgur fyrir umfjöllun og greiningu sjóðsins á fjármálageira Bretlands. Hann hefur einnig unnið í fjármálamarkaðadeild sjóðsins og í Evrópudeild hans. Áður en Tryggvi hóf störf hjá AGS starfaði hann hjá Macro vogunarsjóði í London og í greiningardeild Landsbankans, bæði fyrir og í hruninu. Tryggvi er með B.S. og M.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands og doktorsgráðu frá London School of Economics.

Víðir Þór Rúnarsson (28) ráðgjafi hjá McKinsey í Stokkhólmi. Áður vann Víðir við greiningar hjá Staples í Boston og sem ráðgjafi hjá Louis Vuitton í New York. Hann hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá S&P Global Market Intelligence og Rent the runway. Þá var hann markaðsstjóri hjá Miði.is árið 2015. Víðir er með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Columbia háskóla.

Þórarinn Már Kristjánsson (28) senior ráðgjafi hjá Roland Berger ráðgjafarfyrirtækinu í Bandaríkjunum. Þar hefur hann veitt stjórnendaráðgjöf við stefnumótunar- og fjárfestingarverkefni á sviði endurnýjanlegrar orku fyrir sum af stærstu orkufyrirtækjum og framtakssjóðum heims. Hann hefur meðal annars unnið að fjárfestingaverkefnum tengdum sólarorku, vindorku og rafhlöðum fyrir orkunet Bandaríkjanna. Áður starfaði Þórarinn við þróun nýrra orkutæknilausna hjá alþjóðlega olíuþjónustufyrirtækinu Schlumberger, og starfaði þar áður á fjármálasviði Arion banka og þróunarsviði Landsvirkjunar. Hann er jafnframt einn af stofnendum sprotafyrirtækisins Loka Geothermal. Þórarinn er með og B.Sc. gráður í vélaverkfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu í fjármálum frá MIT.

Þorbjörg Pétursdóttir (27) hugbúnaðarverkfræðingur hjá Team Consulting í Cambridge í Bretlandi. Áður starfaði Þorbjörg sem iðnaðarverkfræðingur hjá Össuri auk þess sem hún var um sex mánaða skeið nemi í tölfræðideild hjá DeCODE þar sem hún starfaði við forritun. Þorbjörg er með B.Sc. gráðu í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í líftækni og lífeindaverkfræði frá Imperial College London. Þorbjörg talar 4 tungumál; dönsku, ensku, íslensku og spænsku.

Þorkell Eyjólfsson (29) verkefnastjóri (manager) hjá Ernst & Young (EY) í San Jose í Kaliforníu. Eftir útskrift byrjaði Þorkell að vinna hjá EY á Íslandi, fyrst á endurskoðunarsviði en síðar í fyrirtækjaráðgjöf. Þar vann hann að virðismötum og fjárhagslegum áreiðanleikakönnunum. Árið 2018 fluttist hann til Kaliforníu og vinnur nú sem verkefnastjóri sem sérhæfir sig í virðismötum á tæknifyrirtækjum, þá helst fyrirtækjum sem selja hugbúnaðarþjónustu á netinu og eða fást við tölvuöryggi. Þorkell er með B.Sc. gráðu í hagfræði, þar sem hann útskrifaðist með ágætiseinkunn, og meistaragráðu í reikningsskilum frá Háskóla Íslands. Þorkell er sagður hafa mikinn drifkraft og einstakt lag á mannlegum samskiptum.

Þorsteinn Jökull G. Nielsen (29) senior ráðgjafi hjá endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækinu Ernst & Young (EY) í New York. Þorsteinn hefur starfað hjá fyrirtækinu í tvö ár. Áður starfaði hann sem ráðgjafi hjá WuXi NextCODE í Boston og þar áður sem greinandi hjá Arion banka. Hann er einn af stofnendum sprotafyrirtækisins Silverberg Technologies og var yfirmaður hugbúnaðarþróunar fyrirtækisins. Fyrirtækið náði góðum árangri í nýsköpunarkeppninni Gullegginu. Þorsteinn er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í sama fagi frá NYU Tandon School of Engineering. Þorsteinn talar fjögur tungumál: íslensku, dönsku, ensku og frönsku.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.