Vonarstjörnur í viðskiptalífinu — 2024

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
18 min readJun 26, 2024

Góð samskipti hafa valið 30 vonarstjörnur í viðskiptalífinu í tengslum við birtingu 40/40 listans í ár.

Þau sem eru á vonarstjörnulista Góðra samskipta í ár.

Vonarstjörnunar eru allt fólk sem miklar væntingar eru bundnar við á næstu árum og hafa nýverið vakið athygli fyrir hæfileika og metnað. Sum stýra nú þegar stórum einingum með fjölda millistjórnenda og starfsmanna en önnur eru komin með ábyrgð umfram formlegan starfstitil eða mannaforráð.

Valið byggir á ábendingum fólks sem þekkir vel til í viðskiptalífinu en við völdum 15 konur og 15 karla á listann að þessu sinni.

Hér má finna nánari umræður um fólkið á vonarstjörnulistanum:

Andri Örn Gunnarsson (35), sjóðsstjóri Kvika

Andri er sjóðsstjóri hjá Kviku banka og fjárfestingarstjóri fyrir nýjan framtakssjóð sem Kvika er að setja upp í Lundúnum. Verkefni Andra felst í að finna fjárfestingartækifæri í Bretlandi, greina og halda utan um fjárfestingarnar yfir líftíma þeirra. Andri vinnur einnig að því að styrkja tengsl milli íslenskra og erlendra fyrirtækja og fjárfesta. Til að mynda með því að vekja áhuga íslenskra fyrirtækja á fjárfestingum erlendis sem og erlendra fjárfesta á íslenskum fyrirtækjum.

Andri hefur starfað hjá Kviku í 7 ár, lengst af í fyrirtækjaráðgjöf bankans og veitt ráðgjöf við kaup og sölu fyrirtækja, sameiningar, skráningar og fleira. Andri er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Reykjavíkur ásamt meistaragráðu í fjármálum og fjárfestingum frá University of Edinburgh í Skotlandi.

Björn Anton Guðmundsson (30), corporate development manager Embla Medical

Starf Björns Antons felst í að byggja upp pípu af mögulegum yfirtökutækifærum og strategísk viðskiptasamböndum fyrir Emblu Medical í samráði við stjórnendur félagsins í samræmi við markmið um ytri vöxt fyrirtækisins. Björn Anton ber ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd á yfirtökum, en í því felst m.a. að eiga samskipti við seljendur fyrirtækja, uppsetning á viðskiptamódelinu og strategískum rökum fyrir kaupum, framkvæmd verðmats, gerð óskuldbindandi tilboðs (LOI), áreiðanleikakönnun, samningaviðræður og gerð kaupsamnings og eftirfylgni á yfirtökum í samræmi við innleiðingarstefnu Emblu og mælingum á árangri. Öll þess verkefni krefjast samstarfs við starfsfólk þvert á allar deildir og starfsstöðvar fyrirtækisins ásamt vinnu með ytri ráðgjöfum. Sömuleiðis krefjast allar yfirtökur gerðar kynningarefnis og kynninga fyrir forstjóra, fjármálastjóra og aðra framkvæmdastjóra fyrirtækisins ásamt því að vera háðar samþykki þeirra fyrir framgangi verkefnanna.

Björn Anton er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Reykjavíkur ásamt meistarapróf í fjármálum og reikningsskilum frá Imperial College London.

Björn Eyþór Benediktsson (38), forstöðumaður upplýsinga og greininga Heimar

Björn Eyþór, sem er yfirleitt kallaður Eyþór, hefur unnið sig upp hjá Heimum (áður Reginn) frá því að hann hóf störf þar fyrir um 10 árum. Eyþór situr í dag í stjórnendateymi félagsins og nýtur mikils trausts og virðingar í störfum sínum. Hann er að sögn kunnugra yfirburðagreinandi og lykilmaður í öllum stærri verkefnum innan fasteignageirans. Eyþór nýtur þess að hafa breiðan bakgrunn með menntun í byggingaverkfræði, fjármálahagfræði og endurskoðun, en hann er með meistarapróf á tveimur síðastnefndu sviðunum. Eins er hann með sveinspróf í húsasmíða. Áður starfaði Eyþór á framkvæmdasviði Vegagerðarinnar sem verkfræðingur. Þessi breiða þekking er ein helsta ástæða þess hversu gott orðspor Eyþór hefur meðal fjármálastofnana og ráðgjafa hér á landi. Hjá Heimum hefur Eyþór leitt greiningar og mat á öllum innri og ytri fjárfestingarverkefnum félagsins síðustu ár ásamt því að sjá um miðlun upplýsinga og gerð kynningargagna fyrir markaðsaðila, stjórn og fleiri. Hluti af þeim upplýsingum má finna rafrænt þar sem þau eru uppfærð í rauntíma á fjárfestavef félagsins. Þá hefur Eyþór hefur einnig komið með virkum hætti að stefnumótun félagsins síðustu ár og þar með átt þátt í aukinni aðgreiningu þess á markaði. Eyþór er meðstjórnandi í Rekstrarfélagi Egilshallar ehf.

Dagbjört Vestmann (37), forstöðumaður verslunarsviðs ELKO

Dagbjört ber ábyrgð á 6 verslunum ELKO sem hafa alls um 200 starfsmenn, fyrirtækjasviði og sér einnig um öryggismál verslana í samvinnu við Festi sem er móðurfélag ELKO. Dagbjört heyrir beint undir framkvæmdarstjóra ELKO en forstöðumannteymið samanstendur af sex stjórnendum. Stjórnendahópurinn þekkist vel og þykir mjög samhentur og standa þéttur að baki þeim ákvörðunum sem teknar eru. ELKO er leiðandi á raftækjamarkaði og er veltuhæsta sérvöruverslun Íslands utan byggingarvöruverslana en árið 2023 var veltan 18 milljarðar. Fyrirtækið hefur náð miklum árangri í vefverslun, þjónustumælingum og almennt verið leiðandi í verslunartækni á Íslandi.

Dagbjört er uppalinn hjá ELKO og byrjaði í afgreiðslu í verslun fyrirtækisins í Skeifunni en vann sig upp og hefur unnið flest störf sem til eru hjá fyrirtækinu. Hún færði sig frá ELKO fyrir nokkrum árum til að leiða opnun nýrrar vefverslunar Nettó hjá Samkaupum og stýrði því verkefni með góðum árangri og með samstarfi við fjölmarga aðila utan og innan Samkaupa. Hún sneri svo aftur til ELKO og stýrir nú daglegum rekstri verslana. Dagbjört er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og stjórnun frá Háskóla Íslands.

Daníel Freyr Hjartarson (32), yfirmaður nýsköpunar og þróunar Héðins

Daníel leiðir starf nýsköpunar- og þróunar hjá Héðni þar sem hann vinnur m.a. að því verkefni að þróa þjónustugátt fyrir aðila í sjávarútvegi og þjónustufyrirtækja. Þá vinnur hann og samstarfsfólk hans að því að straumlínulaga verkferla innanhúss með hugbúnaði. Til dæmis með því að bókfæra efnisnotkun í stálsmiðjunni með rafrænum hætti í stað þess að skrá allt á blöð eins og áður var gert. Héðinn hefur skilað góðri afkomu síðustu ár og er eitt af þeim fyrirtækjum sem gætu endað í Kauphöllinni áður en mörg ár líða. Samhliða vaxtaráformunum hefur fyrirtækið verið að styrkja sig með nýráðningum í ýmsar stöður. Daníel Freyr er með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði ásamt B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Davíð Hreiðarsson (35 ), forstöðumaður fjármálaþjónustu og fjárfestatengsla Embla Medical

Davíð er forstöðumaður fjármálaþjónustu og fjárfestatengsla Embla Medical. Davíð stýrir teymi á fjármálasviði Emblu sem ber ábyrgð á fjármálagreiningum, fjárhagsspám, áætlanagerð og skýrslugerð, auk þess að veita stjórnendum og framkvæmdastjórum stuðning og aðstoð í fjárhagslegri ákvörðunartöku fyrir Emblu samstæðuna. Þá sinnir hann fjárfestatengslum sem sér um að miðla fjárhagslegri frammistöðu og stefnu Emblu til hluthafa, fjárfesta og greiningaraðila. Davíð starfaði hjá Emblu (þá Össuri) í nokkur ár, meðal annars við fjárfestatengsl en færði sig til hugbúnaðarfyrirtækisins Men and Mice þar sem hann sinnti starfi fjármálastjóra um nokkra hríð áður en hann sneri aftur til Emblu Medical fyrir tveimur árum. Davíð er með B.Sc. gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík ásamt meistaragráðu í fjármálum og fjárfestingum frá CBS í Kaupmannahöfn.

Diljá Rudolfsdóttir (36), forstöðumaður alþjóðasviðs upplýsingatækni Embla Medical

Diljá rekur alþjóðasviðið hjá tæknideild Emblu Medical. Í því felst að samræma tækni og ferla þvert á félögin í samstæðu Emblu Medical. Þrír deildarstjórar heyra undir Diljá og um 50 fastráðnir starfsmenn, en þar af eru nokkrir teymisstjórar. Alþjóðasviðið ber ábyrgð á öllu frá hugbúnaðarþróun, gögnum, öryggismálum og skýjalausnum til ferlaþróunar, tækni arkitektúrs, kerfisstjórnar og utanumhalds fjármála hjá sviðinu. Diljá leggur mikla áherslu á jafnrétti og að fólk fái krefjandi tækifæri í störfum sínum og hún nýtur þess að sjá fólkið sitt blómstra. Diljá telur ekkert eins gefandi eins og hafa sterka einstaklinga í kringum sig og um leið sé þá miklu skemmtilegra í vinnunni.

Elísabet Ýr Sveinsdóttir (34), fjármálastjóri Rarik

Sem framkvæmdastjóri fjármála hjá RARIK ohf. ber Elísabet Ýr ábyrgð á að fylgja eftir stórum skipulagsbreytingum sem félagið fór í haustið 2023, en helsta verkefnið er að gera fjármálasviðið skilvirkara og sjálfvirkara. Undir sviðið heyrir fjárstýring, reikningshald og uppgjör, birgðir og innkaup og fasteignir. Á fjármálasviðinu starfa um 30 manns en velta RARIK samstæðunnar í fyrra var um 20,7 milljarðar og eigið fé félagsins er 58 milljarðar. Áætlaðar fjárfestingar næstu árin eru 8 milljarðar á ári svo það eru mjög stór verkefni fyrir fjármálasviðið að sinna. Verulegar breytingar hafa orðið á skipulagi innan sviðsins frá því að Elísabet tók við og hafa starfsmenn þess fengið tækifæri á að takast á við ábyrgðarmeiri hlutverk og ný verkefni. Áherslan hefur verið á að byggja upp þverfagleg teymi sem vinna vel saman og finna lausnir á helstu verkefnum. Elísabet leggur áherslu á vera nálægt starfsfólki sínu og fólkinu í fyrirtækinu, hlusta og leyfa öllum að koma að borðinu. Elísabet tekur virkan þátt í daglegum rekstri og framtíðaráætlunum félagsins með öðrum í framkvæmdastjórn RARIK, og situr einnig stjórnarfundi félagsins. Elísabet starfaði áður sem fjármálastjóri Orkusölunnar. Elísabet er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst ásamt meistarprófi á sviði stjórnendagagna og viðskiptagreindar frá Háskólanum í Reykjavík.

Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson (27), framkvæmdastjóri öryggis- umhverfis og umbótasviðs Norðurál

Guðlaugur Bjarki er framkvæmdastjóri öryggis- umhverfis og umbótasviðs hjá Norðuráli. Verkefni sviðsins snúast um að ná fram stöðugum umbótum í öryggismálum, umhverfismálum og gæðamálum í framleiðslu fyrirtækisins. Sviðið hefur umsjón með rekstri stjórnkerfa fyrirtækisins í þessum málaflokkum. Undir sviðið tilheyra 11 fastráðnir starfsmenn og um 15 með sumarstarfsfólki. Á sviðinu starfa sérfræðingar og fulltrúar á sviði öryggis, umhverfis- og gæðamála auk þess sem rekstur rannsóknarstofu tilheyrir sviðinu sem fer með gæðaeftirlit. Guðlaug­ur hef­ur unnið hjá Norðuráli frá ár­inu 2019, bæði á rann­sókn­ar­stofu fyr­ir­tæk­is­ins og sem sér­fræðing­ur í um­hverf­is­mál­um. Þá hef­ur hann einnig sinnt rann­sókn­ar­starfi hjá fyrirtækinu í kjöl­far loka­verk­efn­is í námi sínu en þar fjallaði hann um kol­efn­is­föng­un við álfram­leiðslu. Guðlaugur er yngsti framkvæmdastjóri í stóriðju hér á landi og er með B.Sc. gráðu í efnaverkfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistarapróf í efnaverkfræði frá ETH Zürich.

Guðrún Gígja Sigurðardóttir (26), lögfræðingur Fossar

Guðrún Gígja starfar sem lögfræðingur hjá Fossum fjárfestingarbanka og hefur starfað þar síðastliðin 6 ár, fyrst meðfram námi. Verkefnasvið hennar innan félagsins er fjölbreytt en hún fæst meðal annars við innleiðingu sjálfbærnisregluverks og utanumhald ófjárhagslegra upplýsinga. Guðrún Gígja starfar undir Þórunni Ólafsdóttur, yfirlögfræðingi og framkvæmdastjóra hjá bankanum. Þá hefur hún verið ritari endurskoðunarnefnar og starfskjaranefndar Fossa og komið að regluvörsluverkefnum á borð við úttektir, eftirlit og samskipti við ytri aðila og eftirlitsstjórnvöld og haft með höndum verkefnastjórn í athugunum eftirlitsaðila. Guðrún hefur lokið BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaraprófi í lögfræði frá sama skóla. Þess má geta að hún hefur fengið inngöngu í árslangt meistaranám við Columbia Law School sem Fulbright styrkþegi en þar hyggst Guðrún leggja áherslu á banka- og verðbréfamarkaðsrétt, sjálfbær fjármál og fyrirtækjaráðgjöf. Hún hyggst snúa aftur í starf sitt hjá Fossum eftir meistaranámið.

Guðrún Valdís Jónsdóttir (31), öryggstjóri og öryggisráðgjafi Syndis

Guðrún Valdís starfar sem öryggisstjóri Syndis ásamt því að veita fyrirtækjum og stofnunum stjórnendamiðaða netöryggisráðgjöf. Sem öryggisstjóri ber hún ábyrgð á öryggismálum Syndis í heild sinni — allt frá upplýsingaöryggi, að verja stafræna innviði og gögn, yfir í raunlægt öryggi, svo sem að sporna gegn innbrotum og aðgengi að vélbúnaði. Í ráðgjafastarfinu Guðrúnaar hjá Syndis felst m.a. að starfa sem úthýstur öryggisstjóri viðskiptavina og hefur Guðrún starfað sem öryggisstjóri fyrir skráð fyrirtæki á markaði í fjarskiptageiranum og fyrir ríkisstofnanir. Önnur ráðgjafavinna Guðrúnar snýr að margskonar verkefnum sem við koma stjórnunarlegu öryggi: öryggisfræðsla fyrir stjórnendur, viðbrögð við netárásum, hlítni við staðla, lög og reglugerðir og fleira. Guðrún leggur mikið upp úr því að stuðla að svokallaðri jákvæðri öryggismenningu sem felur í sér að fá starfsfólk til að vera jákvætt gagnvart öryggismálum, þar sem öryggismál geta verið flókin og (að margra mati) óþarfa hindranir í daglegum störfum. Guðrún er með bachelor gráðu í tölvunarfræði frá Princeton University.

Gunnar Skúlason (38), fjármálastjóri Styrkás

Gunnar er nýráðinn fjármálastjóri Styrkáss, sem er í dag móðurfélag Skeljungs, Kletts og Stólpa Gáma og er með stefnuna að stækka með bæði innri og ytri vexti næstu árin og verða skráð í kauphöll 2027.

Síðastliðið ár hefur Gunnar verið fjármálastjóri Kletts þar sem hann stýrir 6 manna fjármálasviðs teymi og sit í framkvæmdastjórn. Auk bókhalds og fjárstýringar ber Gunnar ábyrgð á áætlanagerð og UT málum og er ég fjárhagslegur tengiliður gagnvart stærstu erlendu birgjum Kletts (Scania og Caterpillar). Þá hefur hann leitt vinnu sem snýr að fjármögnun félagsins og upplýsingagjöf til stjórnar og eigenda og borið ábyrgð á endurskoðun og áreiðanleikakönnunum sem hafa farið fram í kringum breytingar á eigendahópnum. Næst á dagskrá er að skilgreina hvaða þjónusta á að vera veitt frá móðurfélaginu Styrkás og hvaða verkefni verða áfram vistuð hjá félögunum sjálfum. Gunnar hefur komið víða við á starfsferlinum og er ekki með hefðbundinn fjármalastjóra bakgrunn. Hann hefur mikla reynslu á tæknisviðinu en síður á endurskoðun en tæknilegur bakgrunnur nýtist vel í störfum nútíma fjármálasviða.

Gunnar Skúlason er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í stærðfræðilíkönum og tölfræði frá DTU í Danmörku.

Halla Berglind Jónsdóttir (31), rekstrarstjóri Avo

Halla er rekstrarstjóri Avo þar sem hún leiðir rekstur og samstarf við strategíska samstarfsaðila. Hún leiðir nokkur stefnumótandi verkefni þvert á fyrirtækið sem sérhæfir sig í umsýslu og skipulagi flókinna gagna sem notuð eru í gervigreind, sjálfvirkni og fleiri þáttum. Halla hefur verkefnastýrt mikið af helstu stragetísku verkefnum sem ganga þvert á fyrirtækið og krefst mikillar samhæfingar innanhúss. Hún kemur einnig að rekstri fyrirtækisins, vinnur með fjárfestum, sér um mannauðsmál og fjármál. Halla er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík ásamt meistaraprófi í viðskiptagreiningu frá Imperial College business school í Lundúnum.

Heiða Halldórsdóttir (36), framkvæmdastjóri sölu og þjónustu Orkusalan

Heiða gegnir stöðu framkvæmdastjóra sölu og þjónustu hjá Orkusölunni en auk þess falla undir hana markaðsmál fyrirtækisins ásamt orkuskiptum. 12 af 32 starfsmönnum Orkusölunnar heyra undir Heiðu en þar á meðal eru sölustjóri, þjónustustjóri, sérfræðingur í hleðslulausnum, sölu og þjónusturáðgjafar, viðskiptastjórar, markaðsfulltrúar og grafískur hönnuður. Þá er stefnt að ráðningu markaðsstjóra með haustinu en Heiða sinnti áður því starfi hjá fyrirtækinu. Orkusalan hefur vakið athygli og unnið fjölmörg verðlaun fyrir markaðsstarf sitt á undanförnum árum. Heiða er með B.Sc. gráðu í sálfræði ásamt meistaraprófi í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

Hörður Guðmundsson (28), verkefnastjóri Alfa Framtaki

Hörður tók nýverið við sem verkefnastjóri hjá Alfa framtaki þar sem helsta viðfangsefni hans er utanumhald með fjárfestingar- eða söluferlum í heild eða hluta og sinna fjárfestingum. Þetta felst meðal annars í að leiða og sinna greiningarvinnu, áreiðanleikakönnunum og hluta af skjalagerð en mikið af lögfræðilegum atriðum fylgir þessu starfi. Þá tekur Hörður þátt í innleiðingu breytinga hjá þeim fyrirtækjum sem fjárfest er í og situr m.a. fyrir hönd Alfa Framtaks sem eini stjórnarmaður félagsins í Málmsteypu Þorgríms Jónssonar, Syndis og Helix og ber þar ábyrgð á því að framfylgja eigendastefnunni í þessum fyrirtækjum. Hörður er einn yngsti verkefnastjórinn í framtaksfjárfestingum hér á landi en hann var áður sérfræðingur og þar áður greinandi hjá Alfa Framtaki. Hörður er með B.Sc. gráðu í hagfræði og fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík.

Inga Lára Jónsdóttir (38), útibústjóri Securitas

Inga starfar sem útibústjóri Securitas á Suðurnesjum þar sem hún ber ábyrgð á öllum rekstri félagsins á Reykjanesinu. Innan hans eru annars vegar gæslusvið og hins vegar tæknisvið. Gæslusviðið bæði sinnir farandgæslu (útköll, verðmætaflutningar og ýmis önnur verkefni ) og staðbundinni gæslu. Einnig hefur Securitas umsjón með óskilamunum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tæknisviðið rekur svo innbrotakerfi, brunaviðvörunarkerfi, myndavélakerfi, aðgangsstýrikerfi, slökkvikerfi og öryggishnappar fyrir einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu. Meðal viðskiptavina eru t.d. gagnaverin og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Alls stýrir Inga Lára rúmlega 40 starfsmönnum og heyrir beint undir forstjóra Securitas. Hún þykir afar efnilegur stjórnandi sem geti farið langt á næstu árum. Inga Lára er með B.sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í leiðtogafræðum og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst.

Jóhanna Hlín Auðunsdóttir (31), forstöðumaður loftlags og umhverfis Landsvirkjun

Jóhanna starfar sem forstöðumaður loftslags og grænna lausna hjá Landsvirkjun. Hún tók við því starfi í mars 2021, þá 27 ára gömul og yngsti stjórnandi í sögu fyrirtækisins. Deildin sem hún stýrir samanstendur af níu umhverfissérfræðingum og býr teymið yfir mikilli breidd í faglegri þekkingu á umhverfismálum. Deildin leiðir vegferð fyrirtækisins í loftslagsmálum, grænum lausnum og nýtingu landupplýsinga, heldur utan um umhverfisstjórnun fyrirtækisins og veitir faglegan stuðning varðandi umhverfis-, skipulags og leyfismál þvert á starfsemina. Meðal ábyrgðarsviða er að hafa umsjón með umhverfis- og loftslagsstefnu, að þekkja og stýra áhrifum fyrirtækisins á umhverfi og halda utan um frammistöðu gagnvart umhverfiskröfum og markmiðum. Jóhanna og hennar teymi hafa átt þátt í því að Landsvirkjun hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu í umhverfis- og loftslagsmálum undanfarið og innleiðingu nýjunga í umhverfisstjórnun.

Jóhanna er sjálfbærniverkfræðingur með MSc frá Heriot Watt í Skotlandi og með BSc í Umhverfis- og byggingarverkfræði frá HÍ.

Kristín Sverrisdóttir (32), framleiðslustjóri hjá Össuri

Kristín er framleiðslustjóri yfir stærstu framleiðsludeild Össurar hér á landi sem framleiðir hinar víðfrægu sílikonhulsur fyrirtækisins. Deildin vinnur á dag- og kvöldvöktum til að tryggja nægar birgðir af hulsum til að mæta sífellt aukinni sölu. Deildin inniheldur rúmlega 100 manna hóp framleiðslustarfsfólks en Kristín stýrir tíu manna teymi sérfræðinga, þar á meðal tveggja verkstjóra sem skipta sín á milli stjórn framleiðslunnar. Starf Kristínar krefst góðra og tíðra samskipta við ýmis ólík starfssvið innan Össurar og Emblu Medical svo sem birgja, innkaupadeildar, viðhaldsteymi, vöruhús, gæðadeild, þróunardeild, vörustjóra og söludeild.

Kristín gekk til liðs við Össur árið 2016 en er búin að vinna sig hratt upp innan félagsins. Kristín þykir ótrúlega kraftmikil og flottur stjórnandi sem miklar væntingar eru bundnar við í framtíðinni. Kristín er með B.s.c. gráðu í vélaverkfræði frá Embry-Riddle Aeronautical University í Florida á meistaragráðu í heilbrigðisverkfræði frá KTH Royal Institute of Technology í Stokkhólmi.

Kristín Unnur Mathiesen (28), markaðsviðskipti Fossar

Kristín Unnur starfar í markaðsviðskiptum hjá Fossum þar sem hún sér um erlenda viðskiptavini félagsins hvort sem það sé í hlutabréfa- eða skuldabréfaviðskiptum. Áður starfaði hún í tæp fimm ár hjá JP Morgan bankanum í London við sölu vogunarsjóða bankans. Kristín sér um daglega upplýsingagjöf fyrir erlenda fjárfesta hvort sem um er að ræða markaði, pólítík, hagkerfið eða annað sem gæti skipt þá máli. Kristín telur mikilvægt að stjórnendur leggi áherslu á skipulagt upplýsingaflæði, náið samstarf og skýra verkaskiptingu. Kristín er með bachelor gráðu í viðskiptafræði með áherslu á hagfræði og fjármál frá Kings College í Lundunúm.

Margrét Sveinsdóttir (34), forstöðumaður rekstrar og þróunar á fyrirtækja og fjárfestingarbankasvið Arion banki

Margrét starfar sem forstöðumaður rekstrar og þróunar á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði Arion banka. Deildin annast stoðþjónustu við önnur teymi sviðsins og megin tilgangurinn er að auka skilvirkni og ánægju í þjónustu við viðskiptavini. Verkefni deildarinnar eru fjölbreytt og snúa m.a. að vöruþróun, greina þarfir viðskiptavina og stefnumótun á fyrirtækjavörum, gæðamál og eftirlit. Margrét hefur starfað hjá bankanum með hléum síðan árið 2013, m.a. í 4 ár innan áhættustýringar. Meðal ábyrgðasviða hennar er að hafa umsjón með stefnumótun og áætlunargerð, ýmis greiningar- og uppgjörsvinna og nefndar störf innan bankans. Hún leggur mikla áherslu á góð samskipti og þjónustu, bæði við aðrar deildir og við viðskiptavini.

Margrét er verkfræðingur, með Bachelor gráðu í hátækniverkfræði frá HR og meistaragráðu í stærðfræðilíkanagerð frá DTU í Danmörku.

Mariam Laperashvili (32), framkvæmdastjóri markaðsmála Standby

Mariam hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum en hún hóf ferillinn sem markaðsstjóri hjá Sagafilm og fór þaðan í að sinna sölu og markaðssetningu hjá Tulipop. Árið 2022 var hún ráðin í markaðsdeild Sýnar og skömmu síðar tók hún við sem markaðsstjóri fjölmiðla fyrirtækisins. Í febrúar á þessu ári var hún ráðin markaðsstjóri hjá Standby sem er að selja leigutryggingarvörur á Bandaríkjamarkaði og víðar. Hún er einnig hluti af vöruþróunarteyminu og vinnur náið með söluteyminu í að ná árangri í sölu. Standby hefur gert samninga við 2 af 50 stærstu leiguþjónustufyrirtækjum (property managers) Bandaríkjanna og þar af einn af tíu stærstu. Mariam er gagnadrifin markaðsstjóri og notast mikið við raungögn til að taka ákvarðanir. Mariam er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á markaðsfræði en hún lauk einnig svo Bsc gráðu í markaðsfræðum frá George Washington University.

Ómar Brynjólfsson (37), framkvæmdastjóri mannaðra lausna Öryggismiðstöðin

Ómar er framkvæmdastjóri mannaðra lausna hjá Öryggismiðstöðinni þar sem ábyrgð hans felst í daglegum rekstri og afkomu mannaðra lausna sem er eitt af kjarnasviðum fyrirtækisins. Samhliða ber hann ábyrgð á að þróa áfram þjónustuframboðið í samræmi við stefnu félagsins. Undir Ómar heyra 5 deildir innan sviðsins en samanlagður starfsmannafjöldi í þessum deildum er í kringum 450 starfsmenn. Mjög góður árangur hefur náðst í rekstri þessara eininga síðustu ár og mikill vöxtur sem stuðlað hefur að sterkri stöðu Öryggismiðstöðvarinnar á sínum markaði. Ómar er með grunnmenntun í hagfræði og meistaragráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands.

Pálína María Gunnlaugsdóttir (37), framkvæmdastjóri IREF

Pálína starfar sem framkvæmdastjóri fjarfestingarfélagsins IREF sem er með mörg verkefni í gangi í fasteignaþróun. Meðal annars vinnur hún að opnun á hóteli í Flatey ásamt sölu á 84 nýjum íbúðum við Grandatorg. Starf hennar hjá IREF snýr aðallega að fjármálastjórnun og stuðning við rekstur fyrirtækja í samstæðunni. Þá hefur hún nýverið tekið sæti í stjórn skráða fasteignafélagsins Kaldalóns. Pálína er fyrrum landsliðskona í körfubolta. Hún er með B.s.c gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Snorri Björnsson (30), verkefnastjóri Info Capital

Snorri starfar sem sérfræðingur og við verkefnastjórn hjá InfoCapital þar sem hann kemur að fjölbreyttum verkefnum. Hann á meðal annars samskipti við stjórnendur hjá innlendum og erlendum fyrirtækjum í eignasafni InfoCapital og hefur umsjón með langtímaverkefnum sem fyrirtækið er með í gangi, auk ýmis konar greiningarvinnu. Margir þekkja Snorra í gegnum hlaðvarpið hans The Snorri Björns Podcast Show.

Snorri Páll Sigurðsson (34), yfirmaður flutninga, innkaupa og vöruhúsar Alvotech

Snorri er yfirmaður flutninga, innkaupa og vöruhúsarhjá Alvotech og leiðir þar þrjú teymi í stýringu á aðfangakeðju fyrirtækisins með 24 starfsmönnum. Snorri ber ábyrgð á því að verkefnin séu leyst á réttum tíma ásamt því að setja og framfylgja stefnum, markmiðum og mælikvörðum teymanna. Teymin sjá um að plana, vörustýra og kaupa inn allar þær vörur og hráefni sem þarf fyrir framleiðslu á líftæknilyfjum Alvotech ásamt öllum þeim flutningi sem þarf fyrir vörur, hráefni og lyfið sjálft ásamt því að stýra allrir hýsingu, tínslu, pökkun og móttöku á vörum og hráefnum bæði á Íslandi og erlendis. Snorri er með bakgrunn í liðsíþróttum og leitar í þá aðferðafræði sem stjórnandi. Hann nýtir ólíka styrkleika teymismeðlimana og leyfir þeim að skína ásamt því aðstoða þá við að vinna í sínum veikleikum til að byggja upp besta mögulega liðsheild. Hann leggur áherslu á hrósa alltaf þegar eitthvað er vel gert. Snorri er með B.s.c í viðskiptafræði og meistaragráðu í stjórn aðfangakeðju frá Copenhagen Business School í Danmörku.

Steindór Hjartarsson (35), forstöðumaður markaðs- og verðbréfalausna hjá Íslandsbanka

Steindór sinnir starfi forstöðumanns markaðs- og verðbréfalausna hjá Íslandsbanka þar sem hann stýrir starfi 13 hugbúnaðarsérfræðinga og leiðir þverfaglegt teymi í stafrænni vöruþróun. Steindór sér um daglegan rekstur einingarinnar sem felur í sér eftirlit með kostnaði, eftirfylgni og frávikagreiningar í samráði við framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar og gagna bankans Riaan Dreyer. Menntun Steindórs er á sviði vélaverkfræði og orkuverkfræði. Hann hóf samt starfsferilinn sem forritari og hefur þróast í stjórnanda í hugbúnaðarþróun og lykilmann á sviði fyrirtækja og fjárfesta hjá bankanum.

Sveinbjörn Finnsson (35), forstöðumaður verkefnaþróunar hjá Landsvirkjun

Sveinbjörn starfar sem forstöðumaður hjá Landsvirkjun og leiðir þar teymi á sviði viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun. Verkefni Sveinbjörns er þróun verkefna sem skapa tækifæri fyrir Landsvirkjun til fjárfestinga á nýjum sviðum og sem geta haft þýðingu í baráttunni við loftslagsbreytingar. Sérstaklega alþjóðleg verkefni, þar sem íslensk þekking og reynsla getur nýst við uppbyggingu endurnýjanlegrar raforkuvinnslu erlendis. Einnig verkefni sem tengjast framleiðslu vetnis eða rafeldsneytis. Svein­björn hóf störf hjá Lands­virkj­un árið 2015 sem sér­fræðing­ur í viðskipta­grein­ingu og hef­ur síðustu tvö ár starfað s em viðskiptaþró­un­ar­stjóri. Hann hef­ur unnið að þróun viðskipta­tæki­færa, leitt samn­ingaviðræður við nýja viðskipta­vini og stýrt verk­efnaþróun auk þess að leiða stórt stefnumótunarverkefni þvert á fyrirtækið. Sem stjórnandi leggur hann áherslu á persónuleg tengsl og uppbyggileg samskipti innan teymisins. Sveinbjörn aðhyllist þjónandi forystu sem stjórnunarstíl og felst það meðal annars í að hlusta, hvetja til þátttöku og skapa umhverfi þar sem öll fá tækifæri til að blómstra. Svein­björn er með M.Sc. gráðu í orku­verk­fræði frá ETH í Zürich og alþjóðlega IPMA vott­un í verk­efna­stjórn­un.

Sveinn Óskar Hafliðason (36), sölustjóri viðskiptabankasvið Arion banki

Sveinn Óskar er sölustjóri viðskiptabankasviðs hjá Arion en verkefni hans er meðal annars að búa til sölumenningu innan Arion samstæðunnar sem samanstendur af Arion, Verði og Stefni. Sveinn ber ábyrgð á sölu allra helstu bankavara Arion ásamt því að vinna náið með stjórnendum á öllum sviðum bankans. Það má segja að Sveinn sé eins konar söluþjálfari fyrir alla sem eiga samskipti við viðskiptavini fyrir hönd bankans. Dagsdaglega vinnur hann mest með þeim þeim sem stýra framlínu Arion og í auknum mæli með vörustjórum innan bankans að stöðugri þróun á vöruframboði hans.

Theodór Sölvi Blöndal (32), sjóðsstjóri sérhæfðra fjárfestinga Stefnir

Theodór Sölvi er sjóðsstjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni og situr einnig í stjórnum Heimstaden, Good Good og heildverslunarinnar Dan-Inn. Theodór annast m.a. greiningu fjárfestingakosta, uppstillingu , samningagerð, eftirfylgni fjárfestinga og fjárfestatengsl hjá Stefni. Theodór Sölvi hefur komið mjög sterkt inn í fjárfestingaumhverfið hér á landi og er í miklum metum hjá viðskiptavinum Stefnis sem telja hann vera stjórnendaefni í framtíðinni. Theodór er með B.Sc. í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í áhættustýringu og fjármálaverkfræði frá Imperial College business school í London.

Vordís Eiríksdóttir (35), forstöðumaður rekstrar jarðvarma Landsvirkjun

Vordís starfar sem forstöðumaður rekstrar jarðvarma og auðlindastýringar hjá Landsvirkjun þá ber hún ábyrgð á um 40 manna teymi sem sér um rekstur og viðhald jarðvarmastöðvarnar (Kröfluvirkjunar, Þeistareykjastöðvar og Gufustöðvarinnar í Bjarnarflagi, alls 155 MW), auðlindastýringu jarðhitaforðans og eftirlit og rannsóknir með auðlindinni. Í teyminu er fjölbreyttur hópur öflugra stjórnenda, rafvirkja og vélstjóra sem sinna rekstri jarðvarmastöðvanna og jarðvísindafólks sem vaktar og stýrir nýtingu auðlindarinnar.

Vordís er jarðeðlisfræðingur og þekkir vel til á Norðausturlandi þar sem virkjanirnar eru staðsettar en hún er uppalin í Neskaupstað. Einnig hefur Vordís setið í fagráði fyrir Rannís við rýni umsókna til tækniþróunarsjóðs undanfarin ár og var formaður Jarðhitafélags Íslands í 4 ár.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.