Æðstu stjórnendur eldri en fyrir áratug

Andres Jonsson
Gott að frétta
Published in
5 min readJan 3, 2018
Forstjórar skráðra fyrirtækja á Íslandi eru allir eldri en 40 og allir karlkyns

Góð samskipti hafa tekið saman lista yfir 40 stjórnendur, 40 ára og yngri, sem fyrirtækið álítur rísandi stjörnur í íslensku viðskiptalífi. Listinn er valinn samkvæmt tilnefningum álitsgjafa úr viðskiptalífinu en Góð samskipti hafa stjórnendaráðningar sem hliðarstarfsemi sína.

Eitt af því sem kom í ljós þegar við fórum að leita eftir tilnefningum á listann er að leið fólks í æðstu stjórnendastöður á Íslandi virðist hafa verið að lengjast á síðustu árum. Allir sem við ræddum við voru sammála um að áberandi færri 40 ára og yngri séu æðstu stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins í dag en fyrir tíu árum síðan.

Ýmsar ástæður gætu legið að baki þessari þróun. Fólk er lengur í háskólanámi í dag og lýkur fleiri gráðum en áður tíðkaðist, sem þýðir að það kemur seinna inn á vinnumarkaðinn.

Þá hefur þeim fjölgað á síðustu árum sem eru eldri en 40 ára og sem búa yfir reynslu og menntun til að verða stjórnendur. Það er ólíku saman að jafna mannvalinu nú og því sem var til staðar þegar viðskiptalífið á Íslandi tók sinn stóra vaxtarkipp í kringum aldamótin síðustu. En líkt og margir muna eftir þá fóru fjölmargirá árunum 1997–2007 nánast beint úr námi í ábyrgðarmikil hlutverk í viðskiptalífinu, ekki síst á fjármálamarkaði.

Í dag er enginn forstjóri fyrirtækis sem skráð er í íslensku kauphöllina 40 ára eða yngri og tiltölulega lágt hlutfall þeirra sem sitja í framkvæmdastjórnum skráðra fyrirtækja hér á landi tilheyrir þeim aldurshópi.

Ýmsar ástæður nefndar fyrir hækkandi meðalaldri stjórnenda á Íslandi
Þeir sem rætt var við í tengslum við valið á 40/40 listanum skiptust í tvö horn um hvort hækkandi meðalaldur íslenskra stjórnenda teljist jákvæð þróun.

Þeir sem sögðu þróunina neikvæða töldu hækkandi meðalaldur vera einkenni á ákveðinni stöðnun sem hafi ríkt hafi við stjórnun íslenskra fyrirtækja síðustu ár. Óvissa sem ríki enn um framtíðareignarhald margra stórra fyrirtækja sem farið hafa í gegnum skuldaþvottavélina eftir hrun hafi leitt til þess að lítill hvati hafi verið til breytinga í röðum æðstu stjórnenda. Stjórnarmenn þessara fyrirtækja hafi oft ekki verið fulltrúar eigin peninga sem hafi aftur litað val æðstu stjórnenda.

Þá er nefnt að stjórnarmenn á vegum lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta sem hafa verið allsráðandi á hlutabréfamarkaði eftir hrun séu oft í eldri kantinum og þeir þekki minna til yngri stjórnenda. Að vísu með mjög ákveðnum undantekningum þar sem ungar konur hafi komið inn sem stjórnarmenn. Áhrif þeirra á val æðstu stjórnenda hafi þó ekki komið fram ennþá.

Þá segja sömu raddir að stjórnendalaun hafi setið eftir í launaþróun samhliða því sem eigendur fyrirtækja hafi tekið meira af arði fyrirtækjanna til sín en áður. Það sé því ekki lengur jafn hvetjandi fyrir ungt fólk að sækjast eftir þessum störfum. Þetta hafi leitt af sér að fleiri af yngri kynslóðinni stefni frekar á stofnun eigin fyrirtækja heldur en að stýra fyrirtækjum annarra.

Þeir sem jákvæðir eru gagnvart hækkandi meðalaldri stjórnenda segja ástæðuna meðal annars vera þá að hæfileikaríkir yngri stjórnendur liggi ekki á lausu. Þeir séu ekki jafn áberandi og þeir voru og geti ekki sýnt fram á nægjanlega reynslu. Þá hafi dregið mjög úr svokallaðari æskudýrkun í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Reynsluleysi ungra stjórnenda í aðdraganda hrunsin shafi reynst íslenskum hlutafjáreigendum dýrkeypt og því hafi skapast eftirspurn eftir eiginleikum eins og varkárni og sterku siðferði í stað áhættusækni og fífldirfsku unga fólksins sem sigldi allt í kaf. Þá hafi alls um 400 manns í viðskiptalífinu verið með réttarstöðu grunaðs manns á einhverjum tímapunkti eftir hrun og hafi vegna þess ekki komið til greina í ábyrgðarstöður.

Einnig viðurkenna þessar sömu raddir að það spili inn í þessa þróun hverjir stýri ákvörðunum um ráðningar æðstu stjórnenda. Yngra fólk í viðskiptalífinu sem hafði nægan aðgang að fé til athafna og fjárfestinga upp úr síðustu aldamótum hafi gjarnan ráðið jafnaldra sína til að stýra fyrirtækjunum sem það keypti. Eldri stjórnendur en eigendurnir sjálfir hafi ekki átt upp pallborðið. Þeir hafi ekki notið sannmælis í augum hinna ungu fjárfesta. Þeir æðstu stjórnendur sem voru ráðnir í þeirra stað réðu svo í aðrar stjórnunarstöður fólk sem var oft enn yngra en þeir sjálfir.

Þá séu nokkrir sem lifðu af hrunið og voru ungir komnir í æðstu stjórnendastöður orðnir eldri í dag og samtímamenn þeirra einnig.

Týnda kynslóðin eltist við tækifæri sem hurfu í einni svipan
Ein áhugaverðasta skýringin sem fram kom í samtölum okkar við fólk um hækkandi meðalaldur stjórnenda var um týndu kynslóðina í íslensku viðskiptalífi. Þetta er fólk er 35–40 ára í dag og var að koma úr námi milli 2003–2007 eða um það leyti sem íslenska efnahagsundrið var komið á fleygiferð. Bestu nemendunum í hagfræði, verkfræði, eðlisfræði, stærðfræði, lögfræði og viðskiptafræði bauðst þá að fara beint að vinna hjá bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum. Það þótti upphefð að fá störf hjá þessum fyrirtækjum. Þar voru líka hæstu launin greidd og því eðilega freistandi fyrir ungt fólk með metnað að feta þessa braut.

En svo leið ekki á löngu áður en hrunið skall á og á einni nóttu hurfu tækifærin. Þessi kynslóð hæfileikafólks, sem hefði átt að verða næsta kynslóð stjórnenda á Íslandi, hafði fyrst og fremst reynslu af að stýra peningum frekar en reynslu af stjórnun fyrirtækja í hefðbundnum framleiðslu- og þjónustugreinum. Störf á verðbréfamarkaði eru með flatara skipulag en í öðrum fyrirtækjum. Hvatar eru í formi peninga og stjórnun í lágmarki. Þó að fólk höndli með milljarða þá eru fáir sem fara með beina stjórnun annarra.

Týnda kynslóðin inniheldur vissulega mikið af vel menntuðu hæfileikafólki en bein stjórnunarreynsla í röðum þeirra er því miður afskaplega rýr. Sumir fóru erlendis eftir hrun og störfuðu hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Nú þegar þau flytjast til landsins aftur, eins og Íslendinga er siður, eru tækifærin í fjármálaþjónustu hér á landi mun minni en áður. Þó að enginn efist um miklar og góðar gáfur þessa fólks þá skortir þeim oft á tíðum lágmarksviðmiðið við ráðningu í flest stjórnunarstörf, beina reynslu af stjórnun annarra.

Í sögu týndu kynslóðarinnar kristallast hversu afdrifaríkt það getur verið þegar ein atvinnugrein sogar til sín meirihluta þess hæfileikafólks sem kemur inn á vinnumarkaðinn. Þegar sú atvinnugrein kollvarpast svo skyndilega þá situr fólk í hrönnum eftir með sárt ennið og reynsla þeirra nýtist ekki endilega við að fá störf í öðrum atvinnugreinum.

--

--

Andres Jonsson
Gott að frétta

Almannatengsl og stjórnendaleit hjá Góðum samskiptum.