Pabbi minn, Hugo Þórisson

Haraldur Hugosson
hugosson
Published in
3 min readMay 22, 2016

Hugosson? Ekki ertu sonur hans Hugos Þórissonar?

Pabbi minn sagði einu sinni við mig að þegar hann eignaðist börn áttaði hann sig á því að þar sem hann héti Hugo að þá myndi fólk oft átta sig á því að hver pabbi minn væri. Hann tók því þá ákvörðun að í hvert einasta skipti sem einhver myndi segja: “Hugosson? Ekki ertu sonur hans Hugos Þórissonar?” að þá yrðu hugrenningartengsl allra sem myndu segja þetta jákvæð. Það átti aldrei að koma niður á mér að vera sonur pabba míns.

Miðvikudaginn 25.maí 2016 hefði pabbi orðið 67 ára gamall. 2016 verður þriðja árið sem ég held upp á fæðingardag pabba við leiði hans í kirkjugarðinum.

Ég hugsa daglega til pabba og ég sakna hans mikið. Eftir að hann dó átti ég samt mjög erfitt með að hugsa til hans. Ég gat ekki munað mikið þar sem sorgin og reiðin virtust kaffæra allar gamlar og góðar minningar og troða þeim síðustu og erfiðustu sífellt framfyrir. Ég leitaði að lokum til vinar og kollega pabba sem hjálpaði mér að koma reiðu á hugsanir mínar. Hann hjálpaði mér að snúa spilunum á hvolf og nýta sorgina og reiðina til að átta mig á því hversu heppinn ég hafði verið. Fyrst sársaukinn var svona mikill að þá hlaut pabbi að hafa skipað stóran sess í hjarta mínu.

Það var ótrúlegt hvað þessi litla hugsunarbreyting gerði mikið fyrir mig. Hægt og hægt fór ég að geta hugsað á jákvæðari hátt til pabba og minningarnar urðu sífellt fleiri. Ég fór að muna hvernig pabbi hafði sýnt mér þessa lausn, að ákveða það hvernig maður hugsar um hluti; hvernig maður nálgast lífið getur breytt því hvernig lífi þú í raun og veru lifar. Pabbi sagði komdu en ekki farðu, hann fékk að verja tíma með fjölskyldunni sinni en eyddi honum ekki og hann áttaði sig á því að umhverfið í kringum þig er aldrei betra né verra en þú leyfir því að vera. Pabbi minn ákvað það að ég myndi aldrei líða fyrir að vera sonur hans þrátt fyrir að margir vissu hver hann væri.

Ég heyrði þessa setningu; Hugosson? Ekki ertu sonur hans Hugos Þórissonar? síðast núna fyrir viku þegar ég fór niður á pósthús að sækja sendingu. Ég svaraði konunni á pósthúsinu, eins og ég hef alltaf gert, með bros á vör og sagði “Já, Hann var Pabbi Minn”. Hún sagðist muna eftir honum, “hann hefði sko búið á mínu svæði, hérna í vesturbænum sjáðu til, svo lengi” og hún bætti við, eins og svo margir “Hann var ótrúlegur maður, hann pabbi þinn”. Ég er alveg sammála konunni á pósthúsinu, pabbi var ótrúlegur maður.

Ég veit það núna að hluti af því af hverju pabbi var svona ótrúlegur maður var vegna þess að hann tók meðvitaðir ákvarðanir um hvernig hann vildi haga lífi sínu. Hann hlustaði, lét sig fólk varða og ákvað fyrirfram hvernig persóna hann vildi vera.

Í febrúar fyrir tveimur árum skrifaði ég bréf til pabba þar sem ég sagði honum hversu reiður ég væri út í hann fyrir að hafa verið svona frábær og vera því að láta mig sakna hans svona mikið. Í lok bréfsins sagðist ég vera hræddur því

“Ég get ekki verið þú, hvað ef ég klúðra einhverju. Hvað ef ég get ekki verið þú?”.

Síðustu tvö ár hef ég lært ótal margt og reynt að sjá fyrir mér hvernig persóna ég vil vera. Ég hef áttað mig á því að ég mun klúðra fullt af hlutum og að ég mun aldrei verða eins og pabbi minn. Það getur enginn. Ég hef hins vegar líka áttað mig á því að ég mun alltaf sakna pabba og að það er allt í lagi. Það er allt í lagi svo lengi sem ég geri eins og hann, ákveð hvernig persóna ég vil vera sjálfur. Ég trúi því að pabbi hafi haft rétt fyrir sér, heimurinn getur einungis verið eins góður eða slæmur og þú leyfir honum að vera og ég held við hefðum öll gott af því að leyfa heiminum í kringum okkur að vera aðeins betri.

Á miðvikudaginn 25.maí mun ég halda upp á fæðingardag pabba eins og ég hef gert alla mína ævi og ég hlakka til næsta skiptis sem ég mun svara spurningunni: “Hugosson? Ekki ertu sonur hans Hugos Þórissonar?” brosandi út að eyrum því pabba tókst að ná markmiði sínu. Ég hef aldrei heyrt þessa setningu og séð annað en ánægju á andliti þess sem talar.

--

--