Uppgjafasköpun

Haraldur Hugosson
hugosson
Published in
4 min readOct 2, 2014

Gefstu upp!

Ég hef gaman að þeim félögum Stephen Dubner, rithöfundi, og Steven Levitt, hagfræðingi, í Freakonomics og hlusta reglulega á podcast sem þeir gefa út. Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á þátt hjá þeim sem að hét The Upside of Quitting og er það sá þáttur sem ég hef velt hvað mest fyrir mér og hugsa oftast til. Í honum rengja þeir það algenga viðhorf að maður eigi aldrei að gefast upp og ganga svo langt að mæla með því að stunda uppgjafir. Steven Levitt, maður sem hefur náð langt og skarar fram úr á sínu sviði, segist akkúrat hafa náð svo langt með því að gefast upp. Hann vill meina að ef hann hefði verið að eltast við allar þær hugmyndir sem hann hefði fengið of lengi hefði hann aldrei náð svo langt með þær 2–3 sem voru í raun einhvers virði. Hans mantra í lífinu er að eigin sögn fail fast.

Það eru tvö hugtök í hagfræði sem liggja að miklu leyti að baki röksemdarfærslu þeirra Steven og Stephen fyrir því hvers vegna við eigum að gefast fljótt upp, það er fórnarkostnaður og sokkinn kostnaður. Fórnarkostnaður er allt það sem ég greiði og gef upp á bátinn fyrir eitthvað. Fórnarkostnaður minn við að kaupa einhverja vöru er því ekki einungis peningurinn sem fór í vöruna heldur tíminn sem það tók að kaupa hana og val mitt að hafna öllu öðru sem ég hefði getað keypt fyrir peninginn sem og ávöxtunarmöguleikar þessara peninga í framtíðiinni hefði ég ekki eytt þeim. Fórnarkostnaður þess að eltast við 100 hugmyndir en ekki bara 2 er því annað hvort tíminn eða peningurinn sem fer í þessar auka 98 og/eða gæði allra 100 hugmyndanna. Sokkinn kostnaður er allur sá (fórnar)kostnaður sem hefur nú þegar verið varið í eitthvað og fæst ekki til baka. Einstaklingum getur reynst mjög erfitt með að líta framhjá fórnarkostnaði við ákvörðunartöku.

Ör frumgerðamyndun (e. prototyping) og sífelldar umbætur

Ég hlustaði um daginn á fyrirlestur hjá Tom Kelley, stofnanda IDEO tala um það sem hann kallar creative confidence, eða sköpunarkjark. Hann ræddi meðal annars um nauðsyn þess að vinna með nokkrar hugmyndir í stað einnar þegar kemur að því að auka virði og skapa eitthvað nýtt. Þetta kemur heim og saman við það sem Eric Ries um hvernig skulu vinna við aðstæður sprotafyrirtækja en þau skilgreinir hann sem “a human institution designed to create a new product or service under conditions of extreme uncertainty”. Ries leggur áherslu á að frá hugmynd líði ekki langur tími þar til hugmynd er komin í vinnslu og prófanir á henni sem hafa það að markmiði að bæta hugmyndina sífellt. Hann lagði, eins og Kelley, áherslu á að reyna að sannreyna sem flestar hugmyndir með prófunum. Tom Kelley vildi einnig að við sköpunarferlið myndum við stunda öra frumgerðamyndun en með því að sjá hlutina og geta handleikið þá gætum við strax komist lengra í að meta hvort þeir væru það sem við værum að leita að. Bæði Ries og Kelley telja svo að af öllum prófunum okkar, sérstaklega þeim sem misheppnast, getum við lært heilmikið. Ég lít svo á að ég sé sjálfur stöðugt í stöðu fullkominnar óvissu þegar kemur að lífi mínu þar sem ég geri mér ekki grein fyrir öllum þeim möguleikum sem mér standa til boða og þekki ekki eiginleika þeirra fyrr en ég prófa þá. Mér finnst því þessi sýn Kelly og Ries samrýmast speki Levitt og Dubner ágætlega og þegar ég horfi á þær í sameiningu myndast eitthvað sem ég get lifað fullkomlega sáttur með: Ég ætla að reyna að prófa sem flesta hluti til að verða hamingjusamari en varast þó að halda of fast í neinn þeirra standist þeir ekki væntingar mínar eða bjóðist eitthvað betra.

Viljinn til að trúa

Bandaríski heimspekingurinn William James fjallaði um viljann til að trúa í ritgerð sinni The Will to Believe frá 1896. Þar stillir hann upp leitinni að sannleikanum og viljanum til að trúa honum á móti hræðslunni við að láta blekkjast. Ég lít svo á að á sama hátt megi stilla upp leitinni að umbótum og viljanum til þess að prófa nýja hluti á móti hræðslunni við það að þurfa að gefast upp. Ég er því fullkomlega sammála James þegar hann segir

I live, to be sure, by the practical faith that we must go on experiencing and thinking over our experience, for only thus can our opinions grow more true; but to hold any one of them — I absolutely do not care which — as if it never could be reinterpretable or corrigible, I believe to be a tremendously mistaken attitude, and I think that the whole history of philosophy will bear me out.

Ég á því, samkvæmt James, að eltast við sannleikann og gera mér grein fyrir því að einhvern tíman muni ég láta blekkjast. Sú fórn að láta einstaka sinnum blekkjast telur hann hins vegar blikna í samanburði við það að geta sífellt litið fram á veginn og að vera á stöðugri leið að sannleikanum. Ég verð einungis að átta mig á því að á hverri stundu verð ég að vera tilbúinn að endurmeta þann sannleika sem ég tel gildan hverju sinni til þess að komast skrefinu nær takmarki mínu. Ef við yfirfærum þetta á líf mitt og leit að hamingju eða árangri að þá má ég ekki vera hræddur við að gera mistök eða gefast upp á einhverri braut. Nákvæmlega þessi mistök, ef ég horfist í augu við þau og læri af þeim hjálpa mér að komast skrefinu nær takmarki mínu. Ég verð því að gefast upp fyrir óttanum á mistökum til þess að komast áfram og skapa eitthvað nýtt og meira.

--

--