NOAA

Þegar neyðin er stærst

Fellibylurinn Haiyan

Gisli Olafsson
Humanitarian Work
Published in
3 min readNov 16, 2013

--

Fyrir okkur sem störfum við það að bregðast við náttúruhamförum, þá eru ákveðnar náttúruhamfarir sem við tölum um sem “stóru útköllin”. Flóðbylgjan mikla í SA-Asíu 2004 og jarðskjálftinn í Haiti eru gott dæmi um slíkar náttúruhamfarir. Fellibylurinn Haiyan verður eitt slíkra útkalla.

Tacloban á Leyte eyju

Fyrir þá sem fjarri sitja getur verið erfitt að gera sér grein fyrir hinum hræðilegu afleiðingum sem fellibylurinn hafði fyrir milljónir manna. Vindstyrkurinn var einn sá mesti sem mælst hefur í fellibyl. Hann var í raun svo sterkur að hann jafnaðist á við vindstyrk í hvirfilbyl (e: tornado). Munurinn er sá að venjulegur hvirfilbylur er 0.5-1.5 km á breidd, en það svæði sem vindstyrkurinn var mestur í Haiyan var um 60-80 km á breidd. Eins og flestir vita lætur slíkur vindur ekkert ósnert og er því slóð eyðileggingarinnar löng og breið.

Fellibylurinn Haiyan fór yfir sex stórar eyjur áður en að hann fór aftur á haf út. Þetta gerir allt hjálparstarf mun erfiðara en ella, þar sem svo margar borgir, bæjir og þorp á svo víðfemu svæði urðu fellibylnum að bráð. Borgin Tacloban hefur fengið mikla athygli í fréttum, en sannleikurinn er sá að það eru tugir borga og bæja sem urðu jafn illa úti, en eru fyrst núna að fá einhverja aðstoð.

Mynd frá Reuters

Þó svo að opinber tala látinna sé einungis rúmlega 3.500, þá er vert að hafa í huga að opinberar tölur telja einungis þá sem borið hefur verið kennsl á. Það má því búast við því að þessi tala muni hækka til muna þegar fram á líður. Það er hins vegar ekki tala látinna sem skiptir mestu máli þegar hjálparstarf er annars vegar, því það er því miður lítið sem hægt er að gera fyrir hina látnu. Það er tala þeirra sem þurfa á neyðaraðstoð að halda sem skiptir meira máli.

Sú tala sem hjálparstofnanir nota til áætlunargerðar núna er um 2.5 milljónir. Til samanburðar má geta þess að eftir flóðbylgjuna 2004, þá þörfnuðust 1.3 milljónir neyðaraðstoðar. Það er þessi staðreynd sem gerir það að verkum að þessar hamfarir eru ein stærsta neyðaraðstoð undanfarins áratugar.

Tacloban

Starf hjálparsamtaka næstu vikurnar og mánuðina verður mjög krefjandi. Við hjá NetHope vinnum hörðum höndum við að tryggja að fjarskipti og tölvusamskipti séu fyrir hendi, þar sem gott flæði upplýsinga er lykillinn að góðu viðbragði. Við njótum góðs stuðnings frá fyrirtækjum og einstaklingum sem leggja okkur lið. Dæmi um þetta er að yfir 100 gervihnattasímar og 400 fartölvur eru á leið til Filippseyja til þess að gera hjálparstarfsmönnum kleyft að vinna starf sitt betur.

Við hjá NetHope erum regnhlífarsamtök 41 stærstu hjálparsamtaka í heimi. Þrjú þessara samtaka eru með aðsetur á Íslandi og get ég vottað af fyrstu hendi að þau eru öll að vinna óeigingjarnt og mikilvægt starf á vettvangi. Ég hvet því landsmenn til þess að styðja við þetta hjálparstarf, því neyðin hefur sjaldan verið stærri. Sem vinaþjóð, sem þekkir vel hvað móðir náttúra getur gert, er það skylda okkar að sína hug okkar til Filippseyjinga.

  • Þú getur stutt starf NetHope hér.
  • Þú getur stutt starf Rauða Krossins hér eða með því að hringja í 904-1500, 904-2500 eða 904-5500
  • Þú getur stutt starf Barnaheilla hér eða með því að hringja í 904-1900 eða 904-2900
  • Þú getur stutt starf SOS Barnaþorpanna hér

--

--

Gisli Olafsson
Humanitarian Work

Disrupting humanitarian response! Emergency Response Director @ NetHope. Partner & CEO U.S.A. @ Beringer Finance