Gulleggið 10 ára

Salóme Guðmundsd
IcelandicStartups
Published in
4 min readMar 13, 2017

Um 300 manns voru saman komin á 10 ára afmælishátíð Gulleggsins í Hörpu, laugardagskvöldið 11. mars, þegar úrslit Gulleggsins 2017 voru kunngjörð.

Árið 2007 stofnuðu þrír nemendur við Háskóla Íslands frumkvöðlasetrið Innovit. Hugmyndin var sú að þangað gætu nemendur skólans leitað og fengið stuðning við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Innovit sameinast nýsköpunarsetri Nýherja, Klak, árið 2013 og mynda þessi tvö félög í dag núverandi starfsemi Icelandic Startups.

Frumkvöðlakeppnin Gulleggið var upphaflega eitt helsta verkefni Innovit og er nú eitt rótgrónasta verkefni Icelandic Startups. Gulleggið hóf göngu sína vorið 2008 og var á þeim tíma fyrsti formlegi vettvangurinn til að styðja við hugmyndir sem spruttu upp innan háskólanna. Keppnin átti þar með stóran þátt í að skapa það samfélag sem er í dag til staðar fyrir sprota á Íslandi.

Frá upphafi hafa borist um 2.300 hugmyndir í Gulleggið. Samkvæmt könnun sem Icelandic Startups framkvæmdi síðasta haust á meðal þeirra sem hafa lent í topp tíu sætunum ár hvert, höfðu 71% þeirra stofnað fyrirtæki í kjölfar keppninnar. Ennfremur kom í ljós að 76% af þeim eru enn starfandi í dag sem jafngildir ríflega 40% þeirra hugmynda sem lent hafa í topp tíu sætunum frá upphafi.

Rétt tæplega 70% hafa verið hugmyndir sem byggja á einhvers konar tækni.
Hátt í 60% eru teymi með 2–3 teymismeðlimi við þátttöku.

Sé rýnt í umsóknir í keppnina í heild sinni má sjá að 70% þátttakenda eru karlar og 30% konur.

Til að jafna hlutfallið gerðum við átak í aðdraganda Gulleggsins 2016 þar sem við hvöttum konur sérstaklega til þátttöku, m.a. með því að draga fram öflugar kvenfyrirmyndir. Það ár jókst þátttaka kvenna úr 30% frá árinu áður, í 43% og hélst aftur óbreytt í ár.

Aldursdreifing þeirra sem lent hafa í topp tíu sætum Gulleggsins frá upphafi.

Yfir helmingur teymismeðlima stunduðu nám á bakkalárstigi samhliða þátttöku í Gullegginu og um 36% meistaranám.

Við spurðum þátttakendur einnig í hvaða háskóla teymið hefði sótt menntun síðast eða meðan á þátttöku í Gullegginu stóð.

Áhrif og umfang Gulleggsins á samfélagið

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar má áætla að sameiginleg velta þeirra fyrirtækja sem lent hafa í topp tíu sætunum frá upphafi keppninnar 2008 fram til ársins 2016 hafi á síðasta ári verið um 3,7 milljarðar króna. Þessi fyrirtæki hafa skapað alls um 300 stöðugildi, en því til viðbótar hafa um 38% þeirra einstaklinga sem stóðu að baki þeim viðskiptahugmyndum sem völdust í topp tíu sætin síðustu tíu árin stofnað enn annað fyrirtæki.

Samstarf við háskóla og atvinnulíf

Við undirbúning keppninnar ár hvert auglýsum við eftir nemendum úr samstarfsháskólum Gulleggsins í verkefnastjórn. Samstarfsháskólar Gulleggsins eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Bifröst og Listaháskóli Íslands. Sá hópur sér um allt skipulag og framkvæmd keppninnar undir leiðsögn verkefnastjóra Icelandic Startups. Þessi hópur telur hátt í 100 öfluga einstaklinga frá upphafi. Við erum í senn stolt og afar þakklát þessum ört stækkandi hópi fyrir þeirra mikilvæga framlag, en þau hafa gjarnan þótt eftirsóknarverður starfskraftur auk þess sem sumir þessara einstaklinga hafa síðar stofnað eigin fyrirtæki eða ráðið sig til starfa hjá sprotafyrirtækjum.

En Gulleggið hefði ekki það vægi og gildi sem það hefur öðlast án stuðnings þeirra fjölmörgu sérfræðinga og stjórnenda sem leggja okkur lið ár hvert við yfirlestur viðskiptaáætlana, ráðgjöf og þáttöku í dómnefndarstörfum. Við kunnum þeim kærar þakkir fyrir þeirra framlag. Við þökkum jafnframt bakhjörlum og samstarfsaðilum Gulleggsins fyrir traustið, dyggan stuðning og ánægjulegt samstarf í gegnum tíðina. Án þeirra aðkomu væri þetta ekki hægt.

Allir áhugasamir hugmyndasmiðir og frumkvöðlar geta tekið þátt í Gullegginu. Jafnframt er hægt að sækja um þátttöku án hugmyndar og eiga þess kost að vinna með öðru teymi í keppninni, en það er leið sem hefur notið aukinna vinsælda að undanförnu.

Fjöldi frumkvöðla hefur nýtt vettvang Gulleggsins til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og fjölbreyttar lausnir ratað í keppnina. Í tilefni 10 ára afmælisisins fengum við nokkra fyrrum þátttakendur og velunnara til að segja nokkur orð. Myndbandið veitir innsýn inn í tilgang og markmið Gulleggsins.

--

--

Salóme Guðmundsd
IcelandicStartups

CEO @IcelandStartups // Community Building // Accelerating new businesses for high growth // #NordicMade