Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór?

Edda Kon
IcelandicStartups
Published in
2 min readJan 18, 2017

Þessi grein birtist í Menningunni, fylgiriti Fréttablaðsins þann 18. janúar 2017.

Það hafa eflaust allir einhvern tíma fengið góða hugmynd. Hugmynd sem lætur þig hugsa í sekúndubrot „já veistu, þetta gæti gert mig að milljónamæring“. Svo hverfur hún á brott, þú gleymir henni í amstri dagsins, eða telur þér trú um að einhver hafi pottþétt gert þetta áður og gefur þig efanum á vald.

Það krefst hugrekkis og þrautseigju að taka næsta skref og kanna möguleikann. Margir eru jafn hræddir við velgengni og það að mistakast. Í sumum tilfellum þarf fólk að vera tilbúið til að taka áhættu. En er það ekki gamanið?

Hver eru þessi ofurmenni sem þora að taka skrefið? Þessi ofurmenni sem birtast okkur í fréttum og á samfélagsmiðlum, sem líta út fyrir að fá fleiri klukkutíma í sólarhringnum en við hin og koma þar af leiðandi óskiljanlega miklu í verk.

Við eigum það til að gleyma því að við erum öll sama venjulega fólkið með 24 klukkustundir í sólarhringnum. Galdurinn liggur í markmiðasetningu og tímastjórnun í réttu samblandi við ástríðu og trú á sjálfan sig. Trú á mann sjálfan getur nefnilega komið manni furðu langt.

Edda Konráðsdóttir, stýrir pallborðsumræðum á Nýsköpunarhádegi #EngarHindranir

Það byrjuðu allir einhvers staðar og þarna úti er hópur fólks sem er tilbúið að hjálpa, leiðbeina og taka þetta stökk með þér.

Góður byrjunarreitur fyrir hugmyndir er Gulleggið, frumkvöðlakeppni sem allir geta tekið þátt í sér að kostnaðarlausu. Yfir 2300 hugmyndir hafa farið í gegnum Gulleggið frá upphafi en keppnin hefur farið stigvaxandi síðastliðin ár og fagnar keppnin nú tíu ára afmæli.

Gulleggið er fyrst og fremst stökkpallur til að koma hugmyndum á framfæri ásamt því að vera spark í rassinn til að hrinda hugmynd í framkvæmd. Keppnin er skipulögð með tilliti til þess að hún henti samhliða skóla og/eða vinnu en þátttakendur fá aðgang að vinnusmiðjum þar sem þeir sitja fyrirlestra, fá ráðgjöf og leiðbeinslu sérfræðinga.

Gulleggið er lærdómsrík og skemmtileg reynsla en jafnframt lóð á vogarskálar þess að búa framúrskarandi einstaklinga undir þátttöku í íslensku atvinnulífi til framtíðar. Næst þegar sekúndubrotið þitt kemur, staldraðu þá við og hugsaðu hvort Gulleggið sé fyrsta skrefið þitt að einhverju stórfenglegu.

Umsóknarfrestur í Gulleggið er til miðnættis í dag, miðvikudaginn 18. janúar. Kynnið ykkur keppnina á www.gulleggid.is

Edda Konráðsdóttir, Verkefnastjóri Gulleggsins

--

--