Kvöldstund með Ungum Athafnakonum

Haraldur Hugosson
IcelandicStartups
Published in
3 min readOct 21, 2016

Á miðvikudagskvöldið tókum við á móti öflugum hópi kvenna í Ungum Athafnakonum og ræddum málefni frumkvöðla á Íslandi.

Þrátt fyrir aftakaveður mættu um 50 ungar konur og hlustuðu á framkvæmdarstjóra Icelandic Startups Salome Gudmundsdottir kynna starfsemi okkar, hvað við getum boðið frumkvöðlum og fara yfir umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Ótrúleg orka var í salnum og ljóst að fjöldi þeirra sem hlustuðu ganga með hugmynd í maganum.

Aðalviðburður kvöldsins voru panelumræður sem Diljá Valsdóttir stýrði og frumkvöðlarnir Kolbrún Hrafnkelsdóttir frá Florealis (@frodathing), Ragnhildur Ágústsdóttir frá Icelandic Lava Show (@raggaagusts) og Dana Rún Hákonardóttir (@danarunh) tóku þátt í.

Umræðurnar voru líflegar og margt áhugavert sem kom fram. Við stiklum hér á stóru:

Q: Hvernig fara frumkvöðlar af stað? Hvert er fyrsta skrefið?

Kolbrún: Ég var búin að fylgjast með markaðinum og þegar ég sá tækifæri opnast lagðist ég í rosalega mikla rannsóknarvinnu. Síðan fór ég að tala við fólk.

Dana: Já, rannsóknarvinna — ég er orðin ótrúlega góð að gúgla þetta bara áfram. Ef það er svo eitthvað sem ég kann ekki þá fer ég á námskeið og læri það eða fæ einhvern til að kenna mér það.

Ragga: Við settum upp mjög gróft excel skjal til að sjá hvort hugmyndin gengi upp og fórum síðan líka bara að leita upplýsinga. það geta allir fengið góða hugmynd en þetta er spurning um framkvæmdagetu. Hverjir geta virkilega framkvæmt hugmyndina sína!

Q: Hvenær vissuð þið að þið væruð með eitthvað í höndunum?

Kolbrún: Þegar einhver var tilbúin að setja pening í þetta!

Ragga: Þegar aðrir fóru að sýna þessu áhuga. Fyrst þegar við komumst inn í Gulleggið og næst þegar við komumst inn í Startup Reykjavik og svo þegar fjárfestar fóru að tala alvarlega við okkur.

Q: Hvert er besta ráðið sem þið getið gefið frumkvöðlum?

Kolbrún: Mer finnst gott að hugsa strax til enda, strax til neytenda. Hvernig ætlar hann að kaupa þetta? Hugsið um markaðsmálin frá upphafi.

Ragga: Ekki hika við að biðja um hjálp! Það versta sem að gerist er að einhver segir: “Nei, því miður. Ég hef ekki tíma”

@raggaagusts: Ekki hika við að biðja um hjálp!

Allar: Ekki bíða eftir því að þið séuð komnar með allt! Það er aldrei allt fullkomið. Byrjið bara og ef þið viljið gera eitthvað betur þá getið þið bara breytt því seinna.

Q: Hvernig fóruð þið að því að gera þetta? Var það meðfram vinnu eða hvernig tókust þið á við tekjumissinn?

Kolbrún: Ég hefði aldrei getað gert þetta meðfram vinnu. Ég tók bara ákvörðun um að gefa þessu fyrst 3 mánuði og auðvitað þýddi það fórnir. Þrátt fyrir tekjumissinn að þá græðir maður líka ýmislegt annað.

Ragga: Þetta er erfitt en vel þess virði. Ef þið eruð í þægilegri aðstöðu núna til að stofna fyrirtæki og missa tekjur, búið t.d. í foreldrahúsi, gerið það! Og ef ekki, gerið það bara samt!

Q: Finnst ykkur það að vera frumkvöðull og stofna eigið fyrirtæki vera orðið að alvöru valmöguleika sem starfsframi?

Ragga: Ég held að til þess að það verði að veruleika að þá verði að taka umræðuna á hærra plan og færa hana inn í skólana. Ekki bara háskólana heldur að gera nemendum grein fyrir því að þetta sé raunhæfur valkostur.

Kolbrún: Já, mér finnst samt almenna vinnureynslan mín mjög mikilvæg […] Ef þú ætlar að stofna stórfyrirtæki þá verður þú að vita hvað það þýðir!

Q: Lokaorð?

Kolbrún: Aftur, ekki hika við að biðja fólk um aðstoð. Öll þau ár sem ég hef verið í frumkvöðlastarfsemi hefur aldrei neinn lokað á nefið á mér. Fólk og stærri fyrirtæki gera sér grein fyrir mikilvægi nýrra fyrirtækja og eru ótrúlega tilbúin að gefa vinnu sína og tíma.

Eftir að panelumræðum lauk tóku við áhugaverðar umræður meðal gesta og enduðum við kvöldið á stuttri æfingu þar sem hugmyndir að 6 nýjum fyrirtækjum litu dagsins ljós.

Við viljum þakka Ungum Athafnakonum fyrir frábæran viðburð og vonumst eftir því að sjá margar af þeim sem komu í gær í framtíðinni í frumkvöðlaheiminum.

--

--